Leita í fréttum mbl.is

Alda og Ásta deildu verðlaunum

Í fyrsta sinn í manna minnum varð jafntefli í Óskastundinni. Það voru lögin Hallelujah og Tölum saman sem slógu í gegn og hlutu hvort um sig einkuninna 8,9.

  1. Haleluja, Alda
  2. Tölum saman, Ásta B.
  3. Someday, Gunnur Stella
  4. Með þér, Ásta B.
  5. Mad Word, Alda
  6. Hold on strong, Siffa
  7. Vetrarsól, Siffa
  8. Þú komst við hjartað í mér, Alda
  9. Tonight, Ingó
  10. Súkkulaði, Ásta B.
  11. My love, my life, Gunnur Stella
  12. Þér við hlið, Ingó
  13. Jesú Kristur og ég, Ingó
  14. I got u babe, Þjobba
  15. Xanadu, Siffa
  16. Bella, Þjobba
  17. Laugardagskvöld, Þjobba
  18. I will be, Gunnur Stella

Óskastundin var haldin í Vestmannaeyjum að þessu sinni og voru móttökur þeirra heiðurshjóna Þjóðhildar Þórðardóttur og Stefáns Friðrikssonar með slíkum sóma að við hinar höfum vart séð annað eins. Færi ég þeim bestu þakkir fyrir sem og öllum öðrum sem gerðu dvöl okkar í Eyjum ógleymanlega, þ.m.t. lögreglustjóranum, nágrannakonunni, kettinum, Snorra í Betel, Bróa frænda, Eyfa, fulla karlinum, Ingó Idol og Árna Johnsen sem var í huga sumra okkar dag sem nótt.


Já, svo þú ert þessi Jónatan!

Um daginn var mér boðið í leikhús, eða öllu heldur um daginn leysti ég út jólagjöf sem ég fékk um síðustu jól og fór í leikhús. Það var ekki amaleg samfylgdin sem ég fékk, nöfnurnar Sigrún systir og Sigrún Birta, dóttur dóttir hennar fóru sem sagt með mér í Þjóðleikhúsið að sjá Kardimommubæinn. Við systur, ég og Sigrún, höfum oft rætt það hvað við vorum hræddar hér forðum þegar við fórum ásamt foreldrum okkar að sjá Kardimommubæinn, sennilega í uppfærslunni árið 1974. Þegar ræningjarnir ruddust inn í salinn inn um hliðardyr í stóra sal Þjóðleikhússins þá brá okkur ógurlega.

Við vorum því ósköp fegnar allar þrjár að fá sæti fyrir miðjum sal þar sem tryggt er að engir ræningjar myndu bregða okkur. Sú stutta, Sigrún Birta sem er 5 ára, var þó vör um sig framan af sýningunni. Hún átti alltaf von á þessum ræningjum í hús og þótti vissara að lauma sér í fangið á frænku sinni þar sem hún sat bísperrt en spennt fyrstu mínútur leikritsins. Þegar þeir Kasper, Jesper og Jónatan mættu loks á svæðið áttaði hún sig á því að það var engin átstæða til að vera hrædd við þessa gaura, þeir voru aðallega bara svangir greyin.

Um ljónið gilti hins vegar öðru máli. Það hljómaði ekki vel að sitja í salnum, tiltölulega framarlega og eiga von á ljóni upp á svið. Ljón sem allir íbúar í Kardimommubænum voru hræddir við og Bastían bæjarfógeti var ekkert sérlega ólmur að ná í. Það var því mikill léttir að sjá að ljónið var undir sömu sök selt og ræningjarnir, það var bara svangt og þegar það fékk uppáhaldsmatinn sinn, rjómasúkkulaði, þá var það ljúft eins og lamb.

Það voru sælar og glaðar stelpur sem töltu út í kvöldkulið eftir tveggja tíma skemmtun í Þjóðleikhúsinu. Allar vorum við kátar í hjartanu því það er gott að upplifa jafn fallega sögu og söguna af ræningjunum í Kardimommubænum, sem geta verið hið heiðarlegasta fólk. Takk fyrir okkur góða Þjóðleikhús.


Seinagangur í stjórnarmyndun

Þetta fer að verða ágætt. Voru Samfylking og VG ekki búin að gera það upp við sig FYRIR kosningar að ganga bundin til kosninga, sannfærð um eigið ágæti og að samvinnan ætti að halda áfram eftir kosningar?

Nú er liðin vika frá kosningum, er það ekki nægur tími fyrir flokka sem þegar hafa ákveðið að þeir ætli að starfa saman til þess að ganga frá stjórnarsáttmála? Hvað tefur?

Er það virkilega þannig að gamlir refir úr pólitíkinni séu að standa í vegi fyrir stjórnarmyndun eins og maður hefur heyrt utan af sér síðustu daga? Ætlar einhver að segja mér að menn eins og Hjörleifur Guttormsson og Ragnar Arnalds (sem voru uppá sitt besta á mínum æskuárum) séu að skipta sér af stjórnarmynduninni? Gallharðir andstæðingar aðildar að ESB og sjá fjólublátt, rautt, grænt og brúnt við það eitt að heyra á Evrópusambandið minnst!

Er það satt að hinu megin sitji menn sem vilja fara inní ESB, „hvað sem það kostar“, og krefjist þess að ekkert verið gefið eftir? Ef svo er þá er varla nema von að ekkert þokist. Þetta er eins og að kasta vatni á gæs, hella olíu á eld, reyna að leiða saman svart og hvítt og ætlast til þess að báðir litir haldi sér.

Margoft hef ég lýst því yfir hér á spjallinu að mér finnst að okkur beri skylda til þess að fara í aðildarviðræður um aðild að ESB, þar með er ég ekki að segja að við eigum að fara inn. En við verðum að sækja um, öðruvísi fáum við það ekki á hreint hvað slík aðild mun kosta okkur, hvað slík aðild felur í sér, hvort slík aðild muni í raun vera okkur sú aðstoð sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda.

Ef gamlir draugar, mér liggur við að segja aftan úr forneskju, ætla sér að stoppa það þá held ég að við þurfum að fara að draga hausinn uppúr sandinum og fara að horfa fordómalaust til framtíðar. Varkár, með hagsmuni íslenskrar þjóðar í hverjum vasa, í hverri hugsun, aðeins þannig getum við verið viss um að okkar framtíð sé borgið, að við verðum aftur þjóð meðal þjóða.

 


Að loknum 1. maí

Þá er 1. maí frá þetta árið. Ég hef aldrei gert mikið úr þessum degi, hef nokkrum sinnum þrammað í kröfugöngu en í dag hélt mig að mestu leyti heima. Hlýddi þó á fréttir af fundahöldum hér og þar um landið.

En nú undir kvöld leit ég við á YouTube, rétt eins og ég geri alloft og rakst þar að nýju á myndband sem Fésbókarvinur minn benti mér á fyrir nokkru síðan. Er þetta lagið Amsterdam, sem ég heyrði fyrst í flutningi David Bowie uppá enska tungu. Strax við fyrstu hlustun gjörsamlega féll ég fyrir laginu. En myndbandið sem ég rakst á á YouTube var að ég held með upprunalega flytjandanum, Jacques Brel. Það er alveg ljóst að lagið hlaut dýpri og meiri merkingu við að heyra þann flutning, jafnvel þó ég skilji varla orð í frönsku.

Og fyrst ég er farin að dreifa tónlistarmyndböndum á framandi tungu hér, er þá ekki rétt að benda á þetta hérna líka. Flytjandinn, sem jafnframt er höfundur lags og texta, er Anne Linnet og lagið er Tusind stykker. Eintóm snilld.


Lífið er yndislegt

Oftast nær er það þannig með mig að ég er nokkuð viss um hvernig ég á að haga mér á hverjum tíma. Hjá flestum lærist þetta með tímanum og eftir að maður er kominn á sæmilega virðulegan aldur þá eru fáar aðstæður sem koma manni beinlínis á óvart.

Í gær varð ég þó fyrir slíkri reynslu.

Ég var stödd á knattspyrnuvelli í bænum Jaworzno í Póllandi þar sem fram fór leikur Íslands og Póllands í milliriðli U19 ára Evrópumóts stúlkna í knattspyrnu. Liði þessu hef ég fylgt í mörg undanfarin ár, oftast hefur árangur stelpnanna verið vel viðunandi og stundum hefur liðið verið ansi nærri því að komast alla leið í úrslitakeppnina.

Í gær var ljóst að sigur myndi tryggja Íslandi sæti í úrslitakeppninni sem fram fer í Hvíta Rússlandi í júlí. Jafntefli gæti einnig gert það, en þá þurfti niðurstaðan í leik Svía og Dana, sem fram fór á sama tíma, einnig að vera okkur hagstæð. Jafntefli þar myndi duga okkur til að komast áfram og Svíþjóð mátti vinna Danmörk með einu marki.

Um miðjan fyrri hálfleik fékk ég hringingu frá danskri starfssystur minni, sem var stödd á leik Svía og Dana, og sagði hún mér að Svíar höfðu skorað, 1-0. Þá þurftu mínar stúlkur að bíta í skjaldarrendur, hysja upp buxur og sokka og standa sig. Baráttan á vellinum í Jaworzno var gríðarleg og ljóst að markvörður Pólverja myndi verða mínum stúlkum erfið. Leikmaðurinn sá er ekki styttri en 185 cm, stælt og kattliðug, einfaldlega einn besti markvörður sem íslenska fararstjórnin hafði séð á öllum sínum ferli.

Jafnt var í leikhléi, en slæmur 5 mínútna kafli í upphafi síðari hálfleiks færði Pólverjum tveggja marka forystu og Ísland var á leið út úr keppninni. Síðara mark þeirra pólsku var ekki ósvipað markinu fræga sem Maradonna gerði með hönd guðs hér um árið en þrátt fyrir áköf mótmæli minna leikmanna og þjálfara íslenska liðsins, stóð markið og tveggja marka forskot þeirra varð staðreynd.

En Íslendingar standa sig best þegar kreppir að. Mínar dömur hertu róðurinn og uppskáru mark þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum en þá skoraði Thelma Björk Einarsdóttir glæsilegt mark og minnkaði muninn. Hún sagði eftir leikinn að afi hennar, sem lést daginn fyrir leikinn, hafi setið í stúkunni og hvatt hana til dáða og hún tileinkaði markið minningu hans. Leið nú og beið, mínar stelpur sóttu og sóttu að pólska markinu, leikmenn pólska liðsins voru orðnar lúnar enda einum leikmanni færri þar sem einn leikmaður þeirra meiddist í fagnaðarlátum þeirra í tilefni af öðru markinu og allar skiptingar þeirra búnar. Þremur mínútum síðar fengum við hornspyrnu og uppúr henni kom skot sem hafnaði í bakhlutanum á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur, þaðan sem boltinn sigldi í netið.

Skyndilega var orðið jafnt 2-2, stutt til leiksloka og ég fékk fréttir að leik Svía og Dana hafi lyktað með 1-0 sigri Svía. Loksins flautaði dómarinn til leiksloka í okkar leik og upphófst þá bið sem var ærið taugatrekkjandi. Okkar skilningur, mín og þjálfaranna, var að þessi úrslit myndu duga okkur til þess að vinna riðilinn.

En okkur vantaði staðfestingu, fyrst var hringt í konuna sem allt veit, Klöru Ósk Bjartmarz, á skrifstofu KSÍ. Hún lagði sama skilning í reglugerðina og við en taldi öruggara að fá endanlega staðfestingu frá UEFA. Því brá ég á það ráð að leita til eftirlitsmanna UEFA á staðnum og fá þá til að staðfesta niðurstöðuna. Það voru því spennuþrungnar mínútur á leikvellinum í Jaworzno á meðan liðið beið eftir staðfestingu, allir einhvernvegin vissir um að markmiðið væri í höfn, en samt ekki 100% vissir.

Svo sáum við skælbrosandi hollenska konu koma gangandi út á völlinn til okkar. Við vörum öll klár á því hvaða tíðindi hún ætlaði að færa okkur, og spennan var gríðarleg. Svo kom orðið: Congratulations ... og það hreinlega trylltist allt úti á vellinum - 25 Íslendingar hoppuðu og skoppuðu út um allan völl, föðmuðust og kysstust! Ísland var komið í lokakeppnina, sjálf gekk ég út að hliðarlínu (þóttist ætla að sækja þar myndavél) og vatnaði músum í gleðivímu yfir þessari niðurstöðu, ég vissi ekkert hvað ég átti af mér að gera!

Lífið er ekki saltfiskur, en á þessari stundu var það hreinlega og óendanlega yndislegt!

Til hamingju Ísland, til hamingju stelpur, til hamingju við öll, með frábæran árangur og úrslitakeppni EM U19 kvenna í Hvíta Rússlandi sumarið 2009.

U19_Oli 212

Smelltu til að fá stærri útgáfu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband