Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Ekkert gerir mig eins stolta og þið!

Óley, óley, óley óley!

Ísland á EM, Ísland á EM, Ísland á EM og allir koma með!

Ísland á EM

 Svona leit heimasíða Evrópukeppninnar í Finnlandi 2009 út í kvöld. Liðin sem komust áfram úr umspilinu voru: Ítalía, Holland, Úkraína, Rússland og .... ÍSLAND!!!

Þúsund þakkir mín yndislega þjóð fyrir stuðninginn. Milljarða þakkir til stelpnanna fyrir ómetanlegar stundir á vellinum. Ekkert gerir mig eins stolta og þið!

Þann 18. nóvember nk. munu þær 12 þjóðir sem hafa tryggt sér farseðilinn vera skipt upp í 3 riðla. Í potti 1 verða gestgjafar Finna ásamt ríkjandi Evrópumeisturum Þjóðverja og liðinu sem lék til úrslita á síðasta móti, Svíum. Í potti 2 verða Danmörk, England, Frakkland og Noregur og í potti 3 verða Ítalir, Rússar, Ísland, Úkraína og Holland. Ef þetta er ekki nógu skýrt þá lítur þetta svona út.

Úrslitakeppni EM í Finnlandi 2009
Gestgjafar: Finnland (verða í riðli A)
Pottur 1: Þýskaland (holders), Svíþjóð
Pottur 2: Denmörk, England, Frakkland, Noregur
Pottur 3: Ísland, Ítalía, Rússland, Úkraína, Holland

Úrslitakeppnin hefst í Finnlandi 23. ágúst 2009 og riðlakeppninni lýkur viku síðar, þann 31. ágúst.


Leiðrétting - hálmstráið heldur!

Í færslu sem ég skrifaði 27. október sl. og kallaði „Þar hvarf síðasta hálmstráið“ sagði ég frá viðtali sem ég heyrði á Bylgjunni og endað að ég hélt með orðunum „Af því að við þorum - og erum ekki sósíalistar!“

Í gærkvöldi hitti ég varaformann Sjálfstæðisflokksins, sem ég hafði þessi orð eftir. Hún var aldeilis ekki á eitt sátt við mig, því eitthvað hafði mér misheyrst það sem hún sagði. Hið rétta er að Þorgerður Katrín sagði: „Af því að við þorum - og erum ekki populistar!“ Vissulega breytir þetta miklu og ég játa auðmjúk misheyrn mína!


Áfram Ísland!

Kæru Bloggvinir mætum öll á landsleik Ísland og Írlands á fimmtudag kl. 18.10. Gleymum ástandinu um stund, stöndum saman og gleðjumst yfir frábærum fótboltastelpum sem leggja hug sinn, hjarta, blóð, svita og tár í leikinn. Allt fyrir Ísland. Koma svo ... ALLIR MEÐ:

Áfram Ísland, Áfram Ísland, Áfram Ísland, Áfram Ísland, Áfram Ísland!

Áfram Ísland, Áfram Ísland, Áfram Ísland, Áfram Ísland, Áfram Ísland!

Áfram Ísland, Áfram Ísland, Áfram Ísland, Áfram Ísland, Áfram Ísland!


Á maður að gefast upp?

Eftir tíðindi dagsins þá hef ég velt þeirri spurningu fyrir mér hvort maður eigi ekki bara að gefast upp. 18% stýrivextir frá Seðlabanka Íslands á tímum þar sem allt er við það að stöðvast. Seðlabankastjóri, sem hefur haldið stýrivöxtum í 14-15% um langa hríð var kankvís þegar hann benti á að 50% hækkunin í dag væri ekki honum að kenna heldur Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Ætli bankastjórinn hafi hugsað með sér ... „Ég sagði ykkur það!“ Ég vona ekki.

Það vill svo til að ég vinn með mönnum sem almennt eru taldir hafa nokkuð vit á fjármálum, eru þeir til þess menntaðir og hafa margvíslega reynslu úr fjármálageiranum og rekstri að baki. Í dag voru þeir heldur fámálir um framhaldið. Jú einn benti á að hækkunin hefði sennilega verið nauðsynleg til þess að halda fjármagni, jöklabréfum, samjúræabréfum og hvað þau nú heita, inní landinu. Ekki dettur mér í hug að rökræða það við hann og sjálfsagt er eitthvað til í þessu hjá honum. Það breytir ekki því að í dag hef ég ítrekað spurt mig þeirrar spurningar hvort við ættum ekki bara að lyfta upp báðum höndum og segja: „Ég gefst upp!


Þar hvarf síðasta hálmstráið

Þeir sem hafa kíkt á bloggfærslur mínar undanfarin ár hafa sjálfsagt ekki farið varhluta af því að ég hef ekki sérstakt álit á þeim flokki manna sem kennir sig við sjálfstæði. Einn gildur limur í þeim flokki hefur þó jafnan notið virðingar minnar enda tel ég að þar sé gegnheil manneskja á ferðinni, með heilbrigða skynsemi og ákveðna auðmýkt gagnvart náunganum. Vissulega hafa ekki allir séð þessa kosti í fari sjálfstæðismannsins en þetta hefur verið mín tilfinning.

Í dag var viðtal við þennan sjálfstæðismann í útvarpinu. Ástæða viðtalsins var augljós, efnahagskreppan og ábyrgð stjórnmálamanna á henni. Viðkomandi komst vel frá viðtalinu, svaraði af skynsemi og með góðum og gildum rökum. Allt var barasta fínt ... alveg þangað til í lokin. Þá spurði útvarpsmaðurinn: "Af hverju ættum við að treysta Sjálfstæðisflokknum til að koma okkur út úr þeirri kreppu sem Ísland er komið í?" Það stóð ekki á svari hjá varaformanni Sjálfstæðisflokksins: "Af því að við þorum ... og við erum ekki sósíalistar!"

Arrrrggghhh ... þar fór síðasta hálmstráið!


Horfum til himins

Veidifelagid 2008 039Í því ástandi sem nú er uppi á Íslandi getur verið gott að horfa til himins. Það gerði ég nú um helgina þegar ég fór ásamt meðlimum Veiðifélagsins í árshátíðarferð austur í sveitir. Aðfararnótt sunnudags gistum við á Hellishólum, einum af þeim fjölmörgu glæsilegu ferðaþjónustustöðum sem hafa orðið til á undanförnum árum. Á Hellishólum hafa verið byggðir nokkrir litlir og notalegir sumarbústaðir þar sem unnt er að láta líða úr sér borgarstressið og það er alls ekki nauðsynlegt að opna fyrir útvarp eða sjónvarp. Þetta þýðir að efnahagsástandið var fjarri okkur um helgina og við nutum þess einfaldlega að vera í góðum og skemmtilegum félagsskap.

Undir miðnætti á sunnudag fór ég út í nóttina og þvílík dýrð sem blasti við. Hellishólar eru fjarri ljósmengun borgarinnar og himinskrautið var hreint magnað. Milljónir stjarna blöstu við og allt í einu var ekkert mál að sjá öll stjörnumerkin sem maður þykist kunna. Stjörnuþokur voru nokkrar og gott ef ekki var hægt að sjá heilu vetrarbrautina blasa við. Þetta var algjörlega mögnuð sjón.

Ég er klár á að ég mun fara aftur út úr borgarmörkin í vetur þegar vel viðrar og horfa til himins, það er hreinsandi bæði fyrir hug og hjarta og ekki veitir af.


Svona er bókað í bæjarráði Kópavogs

Í miðju krepputalinu rakst ég á þessa bókun úr bæjarráði Kópavogs í byrjun mánaðarins, 9. október. Þetta skýrir sig sjálft. 

2.    Erindi og umsagnir frá starfsmönnum
 
a)     - Frá bæjarstjóra niðurstöður útboðs á hverfagæslu í Kópavogi.
Hlé var gert á fundi kl. 16:10.  Fundi var fram haldið kl. 16:15.
Bæjarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
"Fulltrúar Samfylkingarinnar eru nú sem fyrr andvígir því að bjóða út hverfagæslu í Kópavogi. Við teljum það þarflaust og óþarfa fjárútlát fyrir sveitarfélagið. Bendum jafnframt á að engin gögn liggja fyrir sem sýna fjölgun innbrota í bænum á síðustu misserum.
Guðríður Arnardóttir, Hafsteinn Karlsson."
Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri, lagði fram eftirfarandi bókun:
"Afstaða Samfylkingarinnar er óskiljanleg þegar verið er að auka öryggi íbúa Kópavogs.  Ætli afstaða Guðríðar Arnardóttur skýrist af því að hún er gift lögreglumanni.
Gunnar Ingi Birgisson"
Hafsteinn Karlsson lagði fram eftirfarandi bókun:
"Mér finnast aðdróttanir bæjarstjóra ósmekklegar af þessu tilefni.
Hafsteinn Karlsson"
Guðbjörg Sveinsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
"Alger óþarfi er að fara út í persónuleg málefni af þessu tilefni.  Það er óskiljanlegt.
Guðbjörg Sveinsdóttir."
Bæjarráð óskar eftir umsögn skrifstofustjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs um niðurstöðu útboðsins.


Afgreiðslan má ekki dragast lengur

Í gær lýsti ég þeirri skoðun minni að þolinmæði mín væri ekki endalaus. Endir þolinmæðinnar nálgaðist óþægilega mikið í morgun þegar forsíður dagblaðanna í eigu Árvakurs blöstu við. Seðlabankinn á leið í gjaldþrot ef ekki tekst að fá meiri og betri tryggingar fyrir 350 milljarða króna útistandandi skuldum. Ég hef í morgun spurt mig að því af hverju bankinn fór ekki fram á þessar tryggingar miklu, miklu fyrr. Hafa herrarnir í svarta kassanum við Kalkofnsveg ekki gert neitt annað en að naga blýanta, eins og lýst var fyrir margt löngu?

Hin vaxandi bræði mín leitar ótt og títt til forsætisráðherra Íslands mörg undanfarin ár og núverandi seðlabankastjóra. Um það ætti enginn að velkjast í vafa um. Bræði mín beinist líka að stjórnmálaflokki sem nú fer undan í flæmingi og ber við minnisleysi líku því sem fyrrverandi formaður flokksins nýtti sér svo vel fyrir nokkrum árum. Miðað við baksíðufrétt á öðru Árvakurs-blaðinu í dag þá virðast þingmenn flokksins líka vera farnir að huga að landflótta því a.m.k. einn þeirra æfir nú sjósund af miklu kappi. Reyndar fer sá þingmaður og fyrrum ráðherra ekki sérlega leynt með þessar æfingar sínar því maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvernig Árvakurs-blaðinu tókst að vera í Nauthólsvík akkúrat þegar þingmaðurinn kom að landi. Eina skýringin er sú að þingmaðurinn hafi sjálfur hringt í Árvakur til að tilkynna um sundæfinguna. Það er gott að vita að þingmaðurinn hafi stöðugan og óþreytandi áhuga á að koma sjálfum sér á framfæri á þeim tímum sem nú eru uppi. Ég minnist þess a.m.k. ekki að þingmaðurinn hafi tjáð sig með einu einasta orði um efnahagsástandið og sína ábyrgð á því.

Umleitanir um lán frá IMF hafa tekið óralangan tíma, alltof langan að mínu viti, það hlýtur a.m.k. að liggja fyrir hvort sjóðurinn ætli að lána okkur pening eða ekki. Ef ekki þá væri bara fínt að fá að vita það strax svo við Íslendingar getum búið okkur undir harðan og langan vetur. Góðu fréttir dagsins voru af síldveiði í Breiðafirði og sigri Arsenal í meistaradeildinni. Sem viðbrögð við kreppunni hef ég tekið ákvörðun um að ljúka áskriftartíma mínum hjá Stöð2Sport og ég reyni að nýta hverja mínútu sem gefst til að ofskammta mér íþróttir áður en áskriftin rennur út.


Fæst orð bera minnsta ábyrgð

Orðatiltækið um að fæst orð beri minnsta ábyrgð hefur verið mér ofarlega í huga undanfarna daga. Vissulega hef ég, rétt eins og aðrir, hugsað og sagt ýmislegt um það ástand sem nú er uppi í þjóðfélaginu en þar sem ég er enginn sérfræðingur í málefnum dagsins þá hef ég talið rétt að blanda mér ekki í þá umræðu hér í bloggheimum. Kannski var það skynsamlegt af mér, kannski ekki.

Undanfarna daga og vikur reyndar hef ég reynt að svara spurningum vina minna um ástandið. Margir þeirra hafa velt því fyrir sér hvað ráðherrar Samfylkingarinnar eru að gera í stöðunni og því hvort þeir séu að gera nokkuð, svona yfirleitt. Það vefst ekki fyrir mér eitt andartak að ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn Íslands hafa dag og nótt undanfarna daga unnið að úrlausn eins viðamesta og vandasamasta verkefnis sem íslensk ríkisstjórn hefur staðið fyrir í a.m.k. 20 ef ekki 30 ár. Ég virði þann kost sem þau hafa tekið í stöðunni, að halda þjóðinni upplýstri með reglulegum blaðamannafundum þar sem staðan er gefin. Mál eins og þau sem nú eru uppi á borðum er ekki hægt að vinna fyrir opnum dyrum, jafnvel ekki fyrir framan upphróparana í Vinstri grænum.

Hitt er svo annað að þolinmæði mín er ekki endalaus. Ég vil gjarnan sjá og heyra af því hvað ráðherrar úr mínum flokki hafa verið að vinna að á undangengnum vikum. Í dag er tilefni til fumlausra ákvarðana sem þó þarf að vinna í nokkrum flýti. Menn verða að standa og falla með þeim.

Eftir frægan Kastljósþátt með seðlabankastjóra hefðu ráðherrar Samfylkingarinnar, að mínu mati, átt að standa upp og krefjast afsagnar bankastjórans. Það var ekki gert. Ég hélt í fyrstu að þeir hefðu góða ástæðu fyrir því s.s. að von væri á rússaláni eins og bankastjórinn lofaði í umræddu viðtali. Það var hins vegar bull eins og svo margt annað sem frá skáldinu kemur og eftir því sem tíminn hefur liðið fæ ég ekki séð hvaða ástæða er að baki áframhaldandi setu hans í stóli formanns bankastjórnar Seðlabankans. Ríkisstjórnin hefur sett formenn bankastjórna þriggja banka af á undangengnum vikum, ríkisstjórnina munar ekkert um að setja a.m.k. einn þeirra af til viðbótar.

Hér í bloggheimum hafa skjaldsveinar Sjálfstæðisflokksins gengið fram með offorsi gegn hverjum þeim sem vogað hefur sér að hallmæla þeirra óskoraða leiðtoga. Gott og vel og verði þeim að góðu. En athöfn eins og sú sem seðlabankastjóri hafi frammi í Kastljósi, þrátt fyrir að hafa verið pent beðinn um það af varaformanni Sjálfstæðisflokksins um að loka nú á sér þverrifunni, eru ófyrirgefanleg og verðskulda ekkert annað en brottrekstur og það í snarhasti. Mér sýnist að mínir menn í ríkisstjórn hafi ekki bein í nefinu til að losa sig við manninn og það veit sá sem allt veit að stuttbuxnaliðið úr Sjálfstæðisflokknum hefur það ekki heldur.

 


Endalok frjálshyggjunnar

Frelsið er gott, svo langt sem það nær. Bankakreppan á Íslandi er hinsvegar skólabókardæmi um það hvað frelsið getur haft í för með sér kunni menn ekki með það að fara. Afsakanir bankastjóra Landsbankans um að Seðlabankinn hafi ekki fylgt eftir þenslu bankanna má líkja við mann sem hefur keyrt á vegg á 190 km. hraða og afsakar glannaskapinn með því að segja að vegurinn hafi ekki verið nógu breiður. Menn verða að haga akstri eftir aðstæðum, fylgja leikreglum og tryggja öryggi annarra í umferðinni. Það gerðu bankastjórarnir ekki og því fór sem fór!


Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband