Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Er framsóknarmaddaman að skjóta sig í fótinn ... einu sinni enn?

Í dag hef ég ekki haft mikinn tíma til að fylgjast með fréttum. Það kom mér því verulega á óvart þegar ég heyrði fréttir síðdegis að Framsóknarflokkurinn hefði sett verðandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs stólinn fyrir dyrnar um að taka til starfa um helgina. Framsóknarflokkurinn vill hugsa málið og segja svo af eða á eftir helgi. Til hvers?

Framsóknarflokkurinn á ekki aðild að þessari ríkisstjórn, þeir gerðu sig gildandi þegar nýr formaður þeirra sagðist vera tilbúinn til að styðja minnihlutastjórn Samfylkingar og vinstri grænna falli. Var hann í raun og veru að segja, ok, þessir flokkar mega skipa ríkisstjórn en við ætlum að ráða því hvað þau segja og gera ... já, og ... nei, við ætlum ekki að bera neina ábyrgð? Eða voru þeir að segja, við viljum ekki stjórnarkreppu á Íslandi ofaná allt annað og við viljum að hér sé við völd starfhæf ríkisstjórn?

Miðað við útspil þeirra í dag, þá held ég að þeir hafi frekar verið að hugsa um fyrri spurninguna. Það gengur einfaldlega ekki upp. Ef Framsóknarflokkurinn hefur í raun og veru áhuga á því að rísa uppúr öskustónni þá ættu þeir að stíga varlega til jarðar. Þeir voru búnir að segjast ætla að styðja við minnihlutastjórnina og því fylgdu engin önnur skilyrði heldur en þau að kosið yrði eins fljótt og auðið er. Framsóknarflokkurinn ætti, að mínu viti, að hemja sig aðeins. Við skulum átta okkur á því að þeir þingmenn sem munu verja ríkisstjórnina falli eru í fyrsta lagi ekki þeir sömu og örfáir kjósendur flokksins kusu á þing. Framsóknarmenn sjálfir hafa ekki of mikla trú á þingmönnum sínum í dag, það sást best á því að þeir treystu sér ekki til að kjósa sér formann úr röðum þingmanna. Formaður þeirra, til skamms tíma, hljópst undan merkjum eftir að hafa fengið á sig gagnrýni á flokksstjórnarfundi, formaðurinn sem tók við treysti sér ekki til þess að taka við stjórn flokksins til frambúðar og erfðakandídat flokksins fékk vægast sagt háðuglega útreið á landsfundi þeirra. Og til að bæta gráu ofaná svart þá tókst formanni kjörstjórnar að klúðra talningu til formanns þannig að sá sem var kjörinn var annar formaðurinn sem fagnað var á fundi þeirra.

Framsóknarmenn ættu því að mínu viti að hafa sig hæga. Þeir færi best að treysta Jóhönnu Sigurðardóttur til allra góðra verka. Gott og vel, kosningar síðla í apríl og allir sáttir. Framsóknarflokkurinn og þjóðin!


Bloggheimar munu sjálfsagt loga

Rétt eins og bróðurpartur þjóðarinnar hef ég beðið undanfarna daga, spennt yfir því hvernig ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna muni líta út. Mér heyrist á fréttum og samferðarfólki að almenn ánægja sé með að Jóhanna Sigurðardóttir taki við embætti forsætisráðherra. Hún er einn staðfastasti stjórnmálamaður Íslands, fylgin sér, ákveðin, dugleg, kraftmikil og það sem mestu skiptir, hún hefur næma sýn á velferð þeirra sem minnst mega sín.

Það væri spennandi að spá í spilin um hvaða persóna fari í hvaða ráðuneyti fyrir sig en það eina sem telja má ljóst er að Jóhanna verður forsætisráðherra. Annað virðist óljóst, flestir virðast þó á þeirri skoðun að Ingibjörg Sólrún verði utanríkisráðherra áfram og að Steingrímur J. fari í fjármálaráðuneytið. Ætli það sé ekki í lagi að spá því að þetta þrennt gangi eftir en algjörlega óvíst er með önnur ráðherraembætti. Reyndar held ég að það muni ekki skipta neinu hver verður hvar þegar upp er staðið, bloggheimar munu sjálfsagt loga með eða móti þeirri ákvörðun sem tekin verður.

Mig langar til að tjá mig um ákvörðun sjávarútvegsráðherra um það að leyfa hvalveiðar, en ég held ég sleppi því, nema að mér finnst ákvörðunin í meira lagi undarleg.


Frábær fundur

Í kvöld var ég á frábærum fundi Samfylkingarinnar í Kópavogi þar sem farið var yfir atburði síðustu klukkustunda og ástæður þess að uppúr slitnaði í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum. Rétt um 50 manns voru á fundinum og eins og gefur að skilja voru skiptar skoðanir meðal fundarmanna um það hvort niðurstaða dagsins hafi verið rétt eða ekki. Þingmenn kjördæmisins mættu allir á fundinn og útskýrðu þeir sína sýn á málið og sögðu í stuttu máli frá samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Sannast sagna var það á köflum eins og að hlusta á góða skáldsögu að heyra hvernig hlutirnir gengu fyrir sig og hvernig Sjálfstæðisflokkurinn virkar í ríkisstjórn sem síðastliðið haust þurfti að takast á við erfiðustu aðstæður sem skapast hafa í íslensku samfélagi á lýðveldistíma.

Fundurinn samþykkti ályktun þar sem fullum stuðningi er lýst við störf þingflokksins og formann flokksins á erfiðum tímum. Ég greiddi þeirri ályktun atkvæði mitt þrátt fyrir að hafa á undanförnum vikum verið í verulegum vafa um hvort ég ætti samleið með flokknum eða ekki. Mér hefur sannarlega stundum fundist eins og forysta flokksins væri í engu jarðsambandi með grasrótinni og kjósendum. Í kvöld mættu sjálfsagt margir sem var eins innanbrjósts en þegar menn yfirgáfu fundinn um 3 klukkustundum síðar var það samhentur, samstæður hópur sem horfði bjartsýnn til framtíðar.

Útskýringar og frásagnir þingmanna og fleiri sem staðið hafa nærri atburðarrásinni undanfarna daga færðu mig aftur heim og ég get ekki annað en fagnað því. Ég mun sofa vært í nótt, viss um að ef ný ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar tekur við á morgun mun íslensku samfélagi verða betur borgið en undir leiðsögn Sjálfstæðisflokksins.


Eitt skref eða tvö í rétta átt - áskorun á Geir Haarde

Í morgun steig Björgvin G. Sigurðsson eitt eða tvö skref í rétta átt, átt að nýju upphafi og betra siðferði í íslenskum stjórnmálum.

Fyrsta skrefið og kannski það stærra hjá Björgvini var að fá stjórn Fjármálaeftirlitsins til að segja af sér um leið og fráfarandi stjórn komst að samkomulagi við forstjóra eftirlitsins um að víkja úr starfi sínu.

Annað skrefið var síðan brotthvarf Björgvins sjálfs úr stóli viðskiptaráðherra. Það er alveg ljóst, og hefur verið lengi, að Björgvini var haldið fyrir utan hringiðu bankamálanna bæði af hálfu forstjóra Fjármálaeftirlitins og ekki síður af formanni stjórnar Seðlabankans, Davíð Oddssyni. Þegar þetta varð ljóst, um miðjan október að mig minnir, þá hefði Björgvin gert rétt í því að taka þau skref sem hann tók loksins í morgun.

Skref Björgvins í morgun komu klárlega of seint, kannski ekki 110 dögum of seint en örugglega 70-90 dögum of seint. Það breytir þó ekki því að skref Björgvins í morgun eru FYRSTU skrefin í rétta átt og nú sit ég, rétt eins og þorri þjóðarinnar, og bíð eftir næstu skrefum sem að mínu mati eiga að koma úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins.

Rökrétt skref eru að fjármálaráðherra, Árni Mathiessen, segi af sér auk þess sem Geir Haarde, forsætisráðherra, víkur stjórn Seðlabankans frá störfum og sýni þar með þjóðinni og umheiminum öllum að það er raunverulegur vilji íslenskrar þjóðar og stjórnvalda að taka á þeim vanda sem upp er kominn. Hann er vissulega að hluta til vegna alþjóðlegrar fjármálakreppu en hann er ekki síður heimatilbúinn að stórum hluta. Með því að taka þessi skref held ég að Geir tryggi það að í huga þjóðarinnar verði hann maður að meiri við brotthvarf sitt úr stjórnmálum en ekki einungis strengjabrúða Davíðs Oddssonar.


Nóttin

Mótmælin héldu áfram í gær. Þau færðust þó á annað stig en hingað til þegar lögreglan beitti táragasi á mótmælendur og ekki síður þegar mótmælendur brutu rúðu í Dómkirkjunni. Hvoru tveggja harma ég að hafi gerst og vona sannarlega að þetta sé ekki það sem koma skal.

Nú hefur það svo sem ekki farið framhjá þeim sem hafa lesið þær línur sem ég skrifa hér á vefinn að ég er á móti ofbeldi og skemmdarverkum af öllu tagi. Ég er líka hálf smeyk við það hvernig mótmælin hafa þróast og játaði í einhverri athugasemd að ég hefði lítið hjarta þegar kemur að svona múgæsingi, ef það má orða það svo. Í dag sá ég síðan myndir frá mbl.is held ég frekar en visir.is af mótmælunum í nótt og mér féllust algjörlega hendur.

Hvað eru unglingar að þvælast ofaní bæ að berja á löggunni um miðja nótt? Hvar eru foreldrar þessara ungmenna, sem að stærstum hluta til virðast vera drengir? Er þjóðfélagið okkar orðið þannig að foreldrar gæta þess ekki að unglingarnir sínir séu heima þegar liðið er fram yfir miðnætti? Hverskonar hegðun er það að sparka með „karatesparki“ í skildi lögreglunnar, sem er þó aðeins að vinna vinnuna sína? Ef það er aðeins lítill hluti mótmælenda sem hagar sér svona - sem ég er svo sem full viss um - hvar er þá meirihlutinn? Af hverju eru þessir unglingar ekki stöðvaðir áður en lögreglan þarf að grípa til þess úrræðis að varpa táragasi á mannfjöldann?

Margir þeirra, sem hafa verið á Austurvelli síðustu sólarhringa hafa lýst því svo að lögreglan hafi gengið alltof hart fram. Það má vera og ég hef tekið undir það þegar ég hef séð myndir sem sýna það, s.s. í tengslum við mótmælin við Hótel Borg á gamlársdag. En atburðirnir eins og þeir koma mér fyrir sjónir á vefmiðlum eru forkastanlegir og ég er algjörleg agndofa yfir þessari hegðun. Ekki láta forsætisráðherra hafa rétt fyrir sér ... við, íslenskir mótmælendur, erum enginn skríll!


Of lítið - of seint

Samfylkingarfélagið í Reykjavík samþykkti í kvöld kröfu um tafarlaus stjórnarslit. Þessi krafa er rökrétt framhald af þeirri ólgu sem verið hefur í samfélaginu síðustu 100 daga eða lengur og er nú að ná hámarki sínu. Eina spurningin sem eftir stendur er hvort þetta sé ekki of lítið og of seint?


Atburðir dagsins

Nú er úr vöndu að ráða. Síðasti sólarhringur hefur verið viðburðarríkur í meira lagi. Mótmæli fyrir framan Alþingishúsið náðu nýjum hæðum í gær og í dag var þeim fram haldið, fyrst fyrir framan Stjórnarráðið og nú þegar þetta er ritað standa yfir mótmæli fyrir framan Alþingishúsið.Í gær var ég bæði stolt og hrædd. Ég er stolt af því að íslenskur almenningur hafi staðið upp úr sófanum og skundað á Austurvöll til þess að vekja þinghemi af Þyrnirósarsvefni. Ríflega 100 dagar eru liðnir frá því að sett voru neyðarlög á Íslandi en á þeim tíma hefur enginn þurft að axla ábyrgð á þeirri stöðu sem íslensku þjóðinni var komið í. Ég legg áherslu á að þjóðinni var komið í þessa stöðu, hún hvorki lenti í þessari stöðu né óskaði eftir því. Það var hópur manna sem kom íslensku þjóðinni í þessa aðstöðu. Þessir menn voru blindaðir af græðgi og þegar í óefni var komið reyndu þeir að hylja yfir glæpinn með því að höndla með peninga sem þeir höfðu ekkert leyfi til að höndla með. Íslenskur almenningur þarf að greiða fjárglæfra þessara manna dýru verði, þjóðin er rúin trausti og fyrirlitin af mörgum þeirra sem við höfum talið til bandamanna okkar til þessa dags.

En ég er líka hrædd. Hrædd vegna þess að mér finnst mótmælin vera komin á það stig að ég get ekki samsamað mig við þau lengur. Skemmdarverk og ofbeldi, af hvers höndum sem það kemur, eru aldrei réttlætanleg. Ofbeldi, þar sem heilsa og líf fólks getur verið í hættu, ber almenningi og lögreglu að forðast sem frekast er unnt. Skemmdarverk á dauðum hlutum eiga heldur ekki rétt á sér. Þarna er verið að skemma eigur þjóðarinnar. Alþingishúsið er okkar eign, það er ekki eign þingmanna þó þeir starfi þar inni. Þjóðin hefur kostað byggingu hússins og viðhald þess. Það sama má segja um Stjórnarráðið og Austurvöll, það er ekkert sem réttlætir skemmdir á þessum hlutum, ekkert!


Nýr formaður

Þá hafa framsóknarmenn kosið sér nýjan formann. Sigmundi Davíð sendi ég hamingjuóskir og óska honum velfarnaðar í sínu starfi. Það er hins vegar ljóst að það eru engir sérstakir hveitibrauðsdagar framundan hjá nýjum formanni. Þó framsóknarmenn hafi látið í það skína að þeir séu flokkur breytinga og þar með valkostur fyrir hundóánægða íslenska þjóð þá er það hverjum manni ljóst að flokkur sem afneitar fortíð sinni getur ekki átt sér bjarta framtíð. Sagði ekki fyrrverandi formaður flokksins á flokksþinginu að flokkurinn ætti nokkra aðkomu að hruni bankakerfisins. Merkilegt að það skuli koma frá þeim ráðherra sem seldi bankana og bjó til regluverkið í kringum þá.

Það er hins vegar vonarglæta í myrkrinu. Flokksmenn harðneituðu og beinlínis afneituðu þeim sem hafa talið sig meðal flokkseigenda til þessa tíma þegar þeir settu Pál Magnússon í þriðja sæti í fyrstu kosningunum. Það kemur hins vegar á óvart að Sigmundur hafi unnið Höskuld, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að framsóknarmenn hafa áður kosið sér formann sem ekki er þingmaður og ekki fór það nú vel! Ég spái því að það verði eftirmálar af þessu flokksþingi, bæði vegna samþykktar þeirra um að ganga til aðildarviðræða við Evrópusambandið og vegna þess að "rangur" formaður var kosinn. Minni ég í þessu sambandi á uppákomuna í Reykjavík þegar ásakanir gengu um að smölun hefði átt sér stað en það jafnframt tekið fram að þar voru ekki stuðningsmenn Páls Magnússonar á ferð. Það skyldu þó aldrei hafa verið stuðningsmenn Sigmundar Davíðs Kristjánssonar?


Austurvöllur

Í gær lagði ég leið mína á Austurvöll ásamt þúsundum annarra Íslendinga. Þar sem ég stóð, ekki langt frá styttunni af Jóni Sigurðssyni svipaðist ég um og velti fyrir mér fólkinu sem var mætt á völlinn. Ef eitthvað er að marka fjölmiðla þá hefðu átt að vera þarna talsverður fjöldi af fólki með dulur fyrir andlitinu. Þarna ættu að vera stuðningsmenn VG (sem eru náttúrulega auðþekkjanlegir á mussunum og sauðsskinnsskónum ... eða eru það framsóknarmenn? ... Breytir engu) og svo var Ástþór Magnússon þarna í miklum mæli (a.m.k. hlutfallslega miðað við þá athygli sem maðurinn fær í fjölmiðlum).

Nei, þetta var ekki svona. Þarna voru greinlega mættar virðulegar húsfrúr úr Vesturbænum, þarna voru læknar, flugmenn og lögfræðingar, háskólastúdentar, bæjarstarfsmenn og atvinnuleysingjar. Það sem sameinaði þetta fólk, fyrir utan mótmælin, var það að flestir virtust vera komnir á miðjan aldur. Langstærstur hluti mótmælenda er á aldrinum 40+. Anarkistar voru jú sjáanlegir, líka stuðningsmenn Ástþórs (sem ég áttaði mig reyndar ekki á fyrr en í dag þegar ég heyrði fréttirnar um fólkið með límbandið fyrir munninn) og svo var þarna einn drengur sem hafði farið í margfalda brúnkumeðferð og gekk um með skilti sem á stóð "Davíð sem forseta". Flestir eða allir gerðu sér fljótlega grein fyrir því að þarna var á ferðinni ungur drengur sem mun ganga í hnapphelduna fljótlega, enda gengu félagar hans hlægjandi á eftir honum og skemmtu sér vel, eins og langsamlega stærstur hluti þeirra sem urðu á vegi hans á Austurvelli.

Segja má að þeir tveir, brúðguminn verðandi og Ástþór hafi skorið sig úr á vellinum. Að öðrum þeirra brostu menn góðlátlega og óskuðu góðs gengis. Hinn var hreinlega boðflenna í partýinu, eins og fullur frændi sem mætir óboðinn í fermingarveislu og menn vilja helst losna við sem fyrst. Í fyrstu þá brostu menn góðlátlega að frændanum en þegar hann vill fara að stjórna veislunni þá grípa menn í taumana og vísa honum vinsamlega á dyr. Ástþór er eins og hann er, það vita allir, og flest höfum við lúmskt gaman að honum. En hér er alvara á ferð, það er þungt í því fólki sem mætir á Austurvöll og það hefur ekki lengur húmor fyrir fulla frændanum, sem hefur svo sem verið í lagi í öðrum partýum. Í dag hafa menn fengið sig fullsadda á kappanum og óska þess heitast að hann láti sig hverfa.


Hagsmunir hvers?

Föstudaginn 9. janúar sl. birtist heilsíðu auglýsing í Fréttablaðinu þar sem stjórnvöld eru hött er til þess að hefja hvalveiðar á ný. Þessi auglýsing væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að undir áskorunina rita sjö sveitarfélög nafn sitt auk fjölmargra hagsmunaaðila, s.s. samtök sjómanna og útvegsmannafélög víða um land. Sveitarfélögin sjö eiga öll nema eitt það sameiginlegt að eiga mikið undir sjómennsku og útgerð. Þau sveitarfélög eru Akraneskaupstaður, Grímseyjarhreppur, Hvalfjarðarsveit, Snæfellsbær, Súðavíkurhreppur og Vestmannaeyjabær. Sjöunda sveitarfélagið er Kópavogsbær.

Hvalveiðar geta svo sem átt rétt á sér fyrir mér en ég set stórt spurningamerki við það að Kópavogsbær, sem á litla sem enga hagsmuni í sjávarútvegi, setji nafn sitt við auglýsingu sem þessa. Fastlega má gera ráð fyrir því að einhver kostnaður hafi hlotist af við það að fá nafn bæjarins á auglýsinguna og ég verð að spyrja að því hvort þeim peningum hefði ekki verið betur varið í eitthvað annað sem snertir Kópavogsbúa meira en það hvort hvalveiðar verði hafnar á ný.

Ekki rekur mig minni til að hvalveiðar hafi verið á dagskrá bæjarráðs eða bæjarstjórnar frá því að ég fór að fylgjast gaumgæfilega með fundum þeirra. En vegna þess að ég er einstaklega óminnug þá ákvað ég að fletta í gegnum fundi bæjarráðs og bæjarstjórnar nokkrar vikur aftur í tímann og fann þar ekkert sem hægt var að túlka sem svo að það væri pólitískur vilji bæjarstjórnar Kópavogs að hefja hvalveiðar á ný. Einhver hefur heimilað það að nafn Kópavogsbæjar væri sett á auglýsinguna og þar liggja tveir embættismenn undir grun, bæjarstjórinn og bæjarritarinn, þó þeir geti sjálfsagt verið einhverjir fleiri.

Hvalveiðar, og hvort þær eru stundaðar eða ekki, er hápólitískt mál. Ég dreg því í efa að bæjarritarinn hafi fundið þetta upp hjá sjálfum sér en það er þó nokkur dæmigert að bæjarstjórinn hafi kvittað uppá þetta. Hann er framkvæmdamaður, eins og þeir voru bestir í villta vestrinu og skýtur fyrst en spyr svo (hann spyr þó alls ekki alltaf!). Ef grunsemdir mínar um aðkomu bæjarstjórans að auglýsingunni reynast réttar þá verð ég að spyrja hverra hagsmuna hann er að gæta með því að setja nafn bæjarins á auglýsinguna. Kópavogsbúar, sem heild, hafa þar engra hagsmuna að gæta.


Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband