Leita í fréttum mbl.is

Lífið er yndislegt

Oftast nær er það þannig með mig að ég er nokkuð viss um hvernig ég á að haga mér á hverjum tíma. Hjá flestum lærist þetta með tímanum og eftir að maður er kominn á sæmilega virðulegan aldur þá eru fáar aðstæður sem koma manni beinlínis á óvart.

Í gær varð ég þó fyrir slíkri reynslu.

Ég var stödd á knattspyrnuvelli í bænum Jaworzno í Póllandi þar sem fram fór leikur Íslands og Póllands í milliriðli U19 ára Evrópumóts stúlkna í knattspyrnu. Liði þessu hef ég fylgt í mörg undanfarin ár, oftast hefur árangur stelpnanna verið vel viðunandi og stundum hefur liðið verið ansi nærri því að komast alla leið í úrslitakeppnina.

Í gær var ljóst að sigur myndi tryggja Íslandi sæti í úrslitakeppninni sem fram fer í Hvíta Rússlandi í júlí. Jafntefli gæti einnig gert það, en þá þurfti niðurstaðan í leik Svía og Dana, sem fram fór á sama tíma, einnig að vera okkur hagstæð. Jafntefli þar myndi duga okkur til að komast áfram og Svíþjóð mátti vinna Danmörk með einu marki.

Um miðjan fyrri hálfleik fékk ég hringingu frá danskri starfssystur minni, sem var stödd á leik Svía og Dana, og sagði hún mér að Svíar höfðu skorað, 1-0. Þá þurftu mínar stúlkur að bíta í skjaldarrendur, hysja upp buxur og sokka og standa sig. Baráttan á vellinum í Jaworzno var gríðarleg og ljóst að markvörður Pólverja myndi verða mínum stúlkum erfið. Leikmaðurinn sá er ekki styttri en 185 cm, stælt og kattliðug, einfaldlega einn besti markvörður sem íslenska fararstjórnin hafði séð á öllum sínum ferli.

Jafnt var í leikhléi, en slæmur 5 mínútna kafli í upphafi síðari hálfleiks færði Pólverjum tveggja marka forystu og Ísland var á leið út úr keppninni. Síðara mark þeirra pólsku var ekki ósvipað markinu fræga sem Maradonna gerði með hönd guðs hér um árið en þrátt fyrir áköf mótmæli minna leikmanna og þjálfara íslenska liðsins, stóð markið og tveggja marka forskot þeirra varð staðreynd.

En Íslendingar standa sig best þegar kreppir að. Mínar dömur hertu róðurinn og uppskáru mark þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum en þá skoraði Thelma Björk Einarsdóttir glæsilegt mark og minnkaði muninn. Hún sagði eftir leikinn að afi hennar, sem lést daginn fyrir leikinn, hafi setið í stúkunni og hvatt hana til dáða og hún tileinkaði markið minningu hans. Leið nú og beið, mínar stelpur sóttu og sóttu að pólska markinu, leikmenn pólska liðsins voru orðnar lúnar enda einum leikmanni færri þar sem einn leikmaður þeirra meiddist í fagnaðarlátum þeirra í tilefni af öðru markinu og allar skiptingar þeirra búnar. Þremur mínútum síðar fengum við hornspyrnu og uppúr henni kom skot sem hafnaði í bakhlutanum á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur, þaðan sem boltinn sigldi í netið.

Skyndilega var orðið jafnt 2-2, stutt til leiksloka og ég fékk fréttir að leik Svía og Dana hafi lyktað með 1-0 sigri Svía. Loksins flautaði dómarinn til leiksloka í okkar leik og upphófst þá bið sem var ærið taugatrekkjandi. Okkar skilningur, mín og þjálfaranna, var að þessi úrslit myndu duga okkur til þess að vinna riðilinn.

En okkur vantaði staðfestingu, fyrst var hringt í konuna sem allt veit, Klöru Ósk Bjartmarz, á skrifstofu KSÍ. Hún lagði sama skilning í reglugerðina og við en taldi öruggara að fá endanlega staðfestingu frá UEFA. Því brá ég á það ráð að leita til eftirlitsmanna UEFA á staðnum og fá þá til að staðfesta niðurstöðuna. Það voru því spennuþrungnar mínútur á leikvellinum í Jaworzno á meðan liðið beið eftir staðfestingu, allir einhvernvegin vissir um að markmiðið væri í höfn, en samt ekki 100% vissir.

Svo sáum við skælbrosandi hollenska konu koma gangandi út á völlinn til okkar. Við vörum öll klár á því hvaða tíðindi hún ætlaði að færa okkur, og spennan var gríðarleg. Svo kom orðið: Congratulations ... og það hreinlega trylltist allt úti á vellinum - 25 Íslendingar hoppuðu og skoppuðu út um allan völl, föðmuðust og kysstust! Ísland var komið í lokakeppnina, sjálf gekk ég út að hliðarlínu (þóttist ætla að sækja þar myndavél) og vatnaði músum í gleðivímu yfir þessari niðurstöðu, ég vissi ekkert hvað ég átti af mér að gera!

Lífið er ekki saltfiskur, en á þessari stundu var það hreinlega og óendanlega yndislegt!

Til hamingju Ísland, til hamingju stelpur, til hamingju við öll, með frábæran árangur og úrslitakeppni EM U19 kvenna í Hvíta Rússlandi sumarið 2009.

U19_Oli 212

Smelltu til að fá stærri útgáfu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Já sömuleiðis, það er vel hægt að rifna úr stolti yfir svona frábærum árangri. 

Skemmtileg frásögn af spennandi leik, og ég sem veit ekkert hvað fótbolti snýst um!

Jenný Stefanía Jensdóttir, 30.4.2009 kl. 00:41

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Þakka þér fyrir þetta Jenný. Stoltið er að tæta mig í sig enda ekki annað hægt eftir svona frammistöðu hjá stelpunum. Reyndar þarf maður heldur ekki að hafa vit á fótbolta til þess að upplifa leikinn sem slíkan. Það er einmitt það sem gerir þetta svona skemmtilegt.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 30.4.2009 kl. 17:59

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þessu verð ég nú að fagna með þér og óska til hamingju öllum Íslendingum og auðvitað þjálfara og öllum í K.S.Í. 

Helga Kristjánsdóttir, 1.5.2009 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband