Leita í fréttum mbl.is

Seinagangur í stjórnarmyndun

Þetta fer að verða ágætt. Voru Samfylking og VG ekki búin að gera það upp við sig FYRIR kosningar að ganga bundin til kosninga, sannfærð um eigið ágæti og að samvinnan ætti að halda áfram eftir kosningar?

Nú er liðin vika frá kosningum, er það ekki nægur tími fyrir flokka sem þegar hafa ákveðið að þeir ætli að starfa saman til þess að ganga frá stjórnarsáttmála? Hvað tefur?

Er það virkilega þannig að gamlir refir úr pólitíkinni séu að standa í vegi fyrir stjórnarmyndun eins og maður hefur heyrt utan af sér síðustu daga? Ætlar einhver að segja mér að menn eins og Hjörleifur Guttormsson og Ragnar Arnalds (sem voru uppá sitt besta á mínum æskuárum) séu að skipta sér af stjórnarmynduninni? Gallharðir andstæðingar aðildar að ESB og sjá fjólublátt, rautt, grænt og brúnt við það eitt að heyra á Evrópusambandið minnst!

Er það satt að hinu megin sitji menn sem vilja fara inní ESB, „hvað sem það kostar“, og krefjist þess að ekkert verið gefið eftir? Ef svo er þá er varla nema von að ekkert þokist. Þetta er eins og að kasta vatni á gæs, hella olíu á eld, reyna að leiða saman svart og hvítt og ætlast til þess að báðir litir haldi sér.

Margoft hef ég lýst því yfir hér á spjallinu að mér finnst að okkur beri skylda til þess að fara í aðildarviðræður um aðild að ESB, þar með er ég ekki að segja að við eigum að fara inn. En við verðum að sækja um, öðruvísi fáum við það ekki á hreint hvað slík aðild mun kosta okkur, hvað slík aðild felur í sér, hvort slík aðild muni í raun vera okkur sú aðstoð sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda.

Ef gamlir draugar, mér liggur við að segja aftan úr forneskju, ætla sér að stoppa það þá held ég að við þurfum að fara að draga hausinn uppúr sandinum og fara að horfa fordómalaust til framtíðar. Varkár, með hagsmuni íslenskrar þjóðar í hverjum vasa, í hverri hugsun, aðeins þannig getum við verið viss um að okkar framtíð sé borgið, að við verðum aftur þjóð meðal þjóða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Það sem Evrópusambandssinnar hafa nær eingöngu gert út á í áróðri sínum fyrir inngöngu í Evrópusambandið eru fullyrðingar um að hér muni verðlag og vextir lækka ef af henni yrði. Ekkert um það myndi hins vegar koma fram í viðræðum um inngöngu í sambandið eða í samningi þar um. Það kæmi aðeins í ljós eftir að inn í Evrópusambandið væri komið hvernig það yrði.

Við vitum m.ö.o. jafn mikið um þau mál núna og eftir að búið væri að setja saman samning um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Hver verður þá næsti áróður Evrópusambandssinna? Að við vitum ekkert hvað innganga í sambandið hafi í för með sér fyrr en við förum þangað inn??

Þetta er svo endalaus vitleysa að það hálfa væri mikið meira en nóg.

Hjörtur J. Guðmundsson, 3.5.2009 kl. 21:44

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Hjörtur þakka þér fyrir innlitið.

Það má vera að þú hafir rétt fyrir þér. Ég hef stundum sagt að þetta sé eins og að vera fyrir utan búðarglugga og skoða ... segjum kjól, og þeir sem eru að skoða í gluggann með þér segja ýmist að kjóllinn muni fara þér vel eða illa. Persónulega finnst mér að ég þurfi að fara inní búðina, athuga hvort kjóllinn sé til í minni stærð og hvað hann kostar, ég gæti jafnvel hugsað mér að máta hann.

Það er ekki það sama og að kaupa kjólinn.

Hugleiðingar þínar eru komnar örlítið lengra, þær ganga út á það að ég kaupi kjólinn, hvort ég finni mér tilefni til að klæðast honum og hvort það muni gera sig eða ekki. Ég er ekki alveg komin þangað, en mig langar inn að skoða, verðmeta og jafnvel máta. Svo skal ég líta í augun á sjálfri mér í speglinum og taka upplýsta ákvörðun um það hvort kjóllinn henti mér eða ekki.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 3.5.2009 kl. 23:00

3 Smámynd: Snæbjörn Björnsson Birnir

Skil ekki alveg þessa óþolinmæði. Er ekki betra, að nota næginlegan tíma í stjórnarmyndun og með hlutina á hreinu á eftir, í stað þess að gera þetta í einhverjum flýti og svo eilífar umræður um einstök mál á eftir? Reikna með að þegar þessu er lokið, þá fáum við að sjá verkefnalista, sem tekur á öllum mikilvægum málum á besta hátt.

Snæbjörn Björnsson Birnir, 4.5.2009 kl. 00:04

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Gamlir rebbar geta gefið góð ráð. Það segir mér engin,að eftir það sem  á  undan er gengið, þá fái þeir nokkru um stjórnarmyndun ráðið.  Ég held að vegi þungt hjá vinstri grænum,að láta ekki tækifærið renna sér úr greypum að halda um stjórnartaumana.  Mér finnst það ekkert nema eðlilegt, eftir margra ára vörn að "geta nú sótt og skorað".   Ingibjörg ég átti mann sem endaði oft ummæli sín á (rifjaðist upp fyrir mér núna),  "að svo mæltu"  læt ég þessu lokið og bíð góða nótt.

Helga Kristjánsdóttir, 4.5.2009 kl. 01:43

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sæl Ingibjörg, þetta með kjólinn er ágæt pæling en þú endar samanburðinn svipað og gerist í ástarsögunum.

Svona til þess að bæta aðeins við pælinguna; segjum að þér félli kjóllinn og keyptir - myndir þú þá vilja klæðast honum það sem þú ættir eftir ólifað?

Kolbrún Hilmars, 4.5.2009 kl. 12:31

6 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Ég er ánægð með að það skuli vera ríkisstjórn í landinu sem áður var minnihlutastjórn en er nú orðin meirihlutastjórn. - Ég treysti þeirri ríkisstjórn til að vinna og sinna þeim málum sem þarf á meðan flokkarnir vinna að nýjum málefnasamningi.

 Ég er enn ánægðari með að þeir tveir flokkar sem mynda þessa stjórn skuli nú gefa sér tíma til að "opna box Pandóru", draga allt upp úr boxinu og upp á borðið,  sortera kjarnan frá hisminu, hreinsa drulluna og og viðbjóðinn sem viðgegnst hefur í landinu sl. 18 ár.  - Og vinna þannig með hvert og eitt mál frá grunni, og í samhengi, eins og þeim ber að gera sem ætla að stjórna landi okkar, til framtíðar.  Þannig og einungis þannig geturm við byrjað að byggja upp nýtt Ísland.

Ég t.d. vil fá stjórnlagaþing.  Þar sem ég vil að stjórnarskráin verði uppfærð að nýju Íslandi.  Það þarf alltaf tíma,  til að vinna góðum málum framgang.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 4.5.2009 kl. 19:01

7 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Þakka ykkur öllum innlitið. 

Snæbjörn, sammála þér.

Helga, að svo mæltu get ég ekki annað sagt en að þú hafir átt góðan mann.

Kolbrún, þú segir nokkuð, hmmmmm!

Lilja, sammála þér eins og yfirleitt og alltaf. Sammála þér með stjórnlagaþingið, spurning um útfærsluna á því samt.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 5.5.2009 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband