Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Siðferði hefur sjaldan skipt meira máli en einmitt nú

Sumarið er ekki beint bloggtími. Útivera, fótbolti og samvistir við fjölskyldu og vini á betur við heldur en innitíð með tölvuskjá í andlitinu. Það breytir þó ekki því að bloggtími gefst öðru hvoru og af nógu er að taka nú þegar íslensk þjóð er að ganga í gegnum einhverja erfiðustu tíma sem við höfum horfst í augu við hin síðari ár.

Stjórnmálamenn eru við það að falla í flokk óvinsælustu starfsstétta sem fyrir finnast. Þeirra bíða  ákvarðanir sem munu kalla á mikið mótmæti. Ég tel það harla ólíklegt að þessi ríkisstjórn sem nú situr, og ég er ákaflega ánægð með, muni sitja út allt kjörtímabilið. Mér þykir það miður, en ástandið í þjóðfélaginu og staða efnahagsmála á lands- og heimsvísu verður ríkisstjórninni ekki til framdráttar.

En mótlæti herðir menn og sýnir hvað í þeim býr. Það er ekki vandi að stjórna í samfélagi þar sem vindurinn er stöðugt í bakið og aldrei er á brattann að sækja. Að stjórna þjóð, þar sem mörg ljón eru í veginum og Þrándar búa í hverju húsi er erfitt verkefni og í slíkt verk þarf öfluga stjórnmálamenn. Þá þurfum við fólk með bein í nefinu, réttlátt og sanngjarnt fólk, sem hefur jöfnuð að leiðarljósi. Við þurfum líka fólk sem hugsar um hag þjóðar fram yfir allt annað, ekki síst sinn eigin hag og persónulegan.

Siðferði hefur sjaldan skipt meira máli en einmitt nú. Spilling, svik, undirferli og sjálfbirgingsháttur eru hugtök sem ég vona að séu á hröðu undanhaldi eftir gósentíð síðustu ára. Okkur ber skylda til að afhjúpa þá sem hafa nýtt sér aðstöðu sína, sjálfum sér og sínum til hagsbóta. Okkur ber skylda til að koma í veg fyrir slíkt og standa klár á því að slík háttsemi verði ekki látin standa án afleiðinga.

Framundan eru erfiðir tímar, íslensk þjóð þarf að fá allt uppá borð, við þurfum að heyra sannleikann. Af því tilefni er ágætt að hafa í huga að á skilti einu í útrýmingarbúðunum í Auschwitz segir "Ef við lærum ekki af sögunni, er hætta á að hún endurtaki sig."


Alda og Ásta deildu verðlaunum

Í fyrsta sinn í manna minnum varð jafntefli í Óskastundinni. Það voru lögin Hallelujah og Tölum saman sem slógu í gegn og hlutu hvort um sig einkuninna 8,9.

  1. Haleluja, Alda
  2. Tölum saman, Ásta B.
  3. Someday, Gunnur Stella
  4. Með þér, Ásta B.
  5. Mad Word, Alda
  6. Hold on strong, Siffa
  7. Vetrarsól, Siffa
  8. Þú komst við hjartað í mér, Alda
  9. Tonight, Ingó
  10. Súkkulaði, Ásta B.
  11. My love, my life, Gunnur Stella
  12. Þér við hlið, Ingó
  13. Jesú Kristur og ég, Ingó
  14. I got u babe, Þjobba
  15. Xanadu, Siffa
  16. Bella, Þjobba
  17. Laugardagskvöld, Þjobba
  18. I will be, Gunnur Stella

Óskastundin var haldin í Vestmannaeyjum að þessu sinni og voru móttökur þeirra heiðurshjóna Þjóðhildar Þórðardóttur og Stefáns Friðrikssonar með slíkum sóma að við hinar höfum vart séð annað eins. Færi ég þeim bestu þakkir fyrir sem og öllum öðrum sem gerðu dvöl okkar í Eyjum ógleymanlega, þ.m.t. lögreglustjóranum, nágrannakonunni, kettinum, Snorra í Betel, Bróa frænda, Eyfa, fulla karlinum, Ingó Idol og Árna Johnsen sem var í huga sumra okkar dag sem nótt.


Já, svo þú ert þessi Jónatan!

Um daginn var mér boðið í leikhús, eða öllu heldur um daginn leysti ég út jólagjöf sem ég fékk um síðustu jól og fór í leikhús. Það var ekki amaleg samfylgdin sem ég fékk, nöfnurnar Sigrún systir og Sigrún Birta, dóttur dóttir hennar fóru sem sagt með mér í Þjóðleikhúsið að sjá Kardimommubæinn. Við systur, ég og Sigrún, höfum oft rætt það hvað við vorum hræddar hér forðum þegar við fórum ásamt foreldrum okkar að sjá Kardimommubæinn, sennilega í uppfærslunni árið 1974. Þegar ræningjarnir ruddust inn í salinn inn um hliðardyr í stóra sal Þjóðleikhússins þá brá okkur ógurlega.

Við vorum því ósköp fegnar allar þrjár að fá sæti fyrir miðjum sal þar sem tryggt er að engir ræningjar myndu bregða okkur. Sú stutta, Sigrún Birta sem er 5 ára, var þó vör um sig framan af sýningunni. Hún átti alltaf von á þessum ræningjum í hús og þótti vissara að lauma sér í fangið á frænku sinni þar sem hún sat bísperrt en spennt fyrstu mínútur leikritsins. Þegar þeir Kasper, Jesper og Jónatan mættu loks á svæðið áttaði hún sig á því að það var engin átstæða til að vera hrædd við þessa gaura, þeir voru aðallega bara svangir greyin.

Um ljónið gilti hins vegar öðru máli. Það hljómaði ekki vel að sitja í salnum, tiltölulega framarlega og eiga von á ljóni upp á svið. Ljón sem allir íbúar í Kardimommubænum voru hræddir við og Bastían bæjarfógeti var ekkert sérlega ólmur að ná í. Það var því mikill léttir að sjá að ljónið var undir sömu sök selt og ræningjarnir, það var bara svangt og þegar það fékk uppáhaldsmatinn sinn, rjómasúkkulaði, þá var það ljúft eins og lamb.

Það voru sælar og glaðar stelpur sem töltu út í kvöldkulið eftir tveggja tíma skemmtun í Þjóðleikhúsinu. Allar vorum við kátar í hjartanu því það er gott að upplifa jafn fallega sögu og söguna af ræningjunum í Kardimommubænum, sem geta verið hið heiðarlegasta fólk. Takk fyrir okkur góða Þjóðleikhús.


Seinagangur í stjórnarmyndun

Þetta fer að verða ágætt. Voru Samfylking og VG ekki búin að gera það upp við sig FYRIR kosningar að ganga bundin til kosninga, sannfærð um eigið ágæti og að samvinnan ætti að halda áfram eftir kosningar?

Nú er liðin vika frá kosningum, er það ekki nægur tími fyrir flokka sem þegar hafa ákveðið að þeir ætli að starfa saman til þess að ganga frá stjórnarsáttmála? Hvað tefur?

Er það virkilega þannig að gamlir refir úr pólitíkinni séu að standa í vegi fyrir stjórnarmyndun eins og maður hefur heyrt utan af sér síðustu daga? Ætlar einhver að segja mér að menn eins og Hjörleifur Guttormsson og Ragnar Arnalds (sem voru uppá sitt besta á mínum æskuárum) séu að skipta sér af stjórnarmynduninni? Gallharðir andstæðingar aðildar að ESB og sjá fjólublátt, rautt, grænt og brúnt við það eitt að heyra á Evrópusambandið minnst!

Er það satt að hinu megin sitji menn sem vilja fara inní ESB, „hvað sem það kostar“, og krefjist þess að ekkert verið gefið eftir? Ef svo er þá er varla nema von að ekkert þokist. Þetta er eins og að kasta vatni á gæs, hella olíu á eld, reyna að leiða saman svart og hvítt og ætlast til þess að báðir litir haldi sér.

Margoft hef ég lýst því yfir hér á spjallinu að mér finnst að okkur beri skylda til þess að fara í aðildarviðræður um aðild að ESB, þar með er ég ekki að segja að við eigum að fara inn. En við verðum að sækja um, öðruvísi fáum við það ekki á hreint hvað slík aðild mun kosta okkur, hvað slík aðild felur í sér, hvort slík aðild muni í raun vera okkur sú aðstoð sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda.

Ef gamlir draugar, mér liggur við að segja aftan úr forneskju, ætla sér að stoppa það þá held ég að við þurfum að fara að draga hausinn uppúr sandinum og fara að horfa fordómalaust til framtíðar. Varkár, með hagsmuni íslenskrar þjóðar í hverjum vasa, í hverri hugsun, aðeins þannig getum við verið viss um að okkar framtíð sé borgið, að við verðum aftur þjóð meðal þjóða.

 


Að loknum 1. maí

Þá er 1. maí frá þetta árið. Ég hef aldrei gert mikið úr þessum degi, hef nokkrum sinnum þrammað í kröfugöngu en í dag hélt mig að mestu leyti heima. Hlýddi þó á fréttir af fundahöldum hér og þar um landið.

En nú undir kvöld leit ég við á YouTube, rétt eins og ég geri alloft og rakst þar að nýju á myndband sem Fésbókarvinur minn benti mér á fyrir nokkru síðan. Er þetta lagið Amsterdam, sem ég heyrði fyrst í flutningi David Bowie uppá enska tungu. Strax við fyrstu hlustun gjörsamlega féll ég fyrir laginu. En myndbandið sem ég rakst á á YouTube var að ég held með upprunalega flytjandanum, Jacques Brel. Það er alveg ljóst að lagið hlaut dýpri og meiri merkingu við að heyra þann flutning, jafnvel þó ég skilji varla orð í frönsku.

Og fyrst ég er farin að dreifa tónlistarmyndböndum á framandi tungu hér, er þá ekki rétt að benda á þetta hérna líka. Flytjandinn, sem jafnframt er höfundur lags og texta, er Anne Linnet og lagið er Tusind stykker. Eintóm snilld.


Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband