Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Lífið er yndislegt

Oftast nær er það þannig með mig að ég er nokkuð viss um hvernig ég á að haga mér á hverjum tíma. Hjá flestum lærist þetta með tímanum og eftir að maður er kominn á sæmilega virðulegan aldur þá eru fáar aðstæður sem koma manni beinlínis á óvart.

Í gær varð ég þó fyrir slíkri reynslu.

Ég var stödd á knattspyrnuvelli í bænum Jaworzno í Póllandi þar sem fram fór leikur Íslands og Póllands í milliriðli U19 ára Evrópumóts stúlkna í knattspyrnu. Liði þessu hef ég fylgt í mörg undanfarin ár, oftast hefur árangur stelpnanna verið vel viðunandi og stundum hefur liðið verið ansi nærri því að komast alla leið í úrslitakeppnina.

Í gær var ljóst að sigur myndi tryggja Íslandi sæti í úrslitakeppninni sem fram fer í Hvíta Rússlandi í júlí. Jafntefli gæti einnig gert það, en þá þurfti niðurstaðan í leik Svía og Dana, sem fram fór á sama tíma, einnig að vera okkur hagstæð. Jafntefli þar myndi duga okkur til að komast áfram og Svíþjóð mátti vinna Danmörk með einu marki.

Um miðjan fyrri hálfleik fékk ég hringingu frá danskri starfssystur minni, sem var stödd á leik Svía og Dana, og sagði hún mér að Svíar höfðu skorað, 1-0. Þá þurftu mínar stúlkur að bíta í skjaldarrendur, hysja upp buxur og sokka og standa sig. Baráttan á vellinum í Jaworzno var gríðarleg og ljóst að markvörður Pólverja myndi verða mínum stúlkum erfið. Leikmaðurinn sá er ekki styttri en 185 cm, stælt og kattliðug, einfaldlega einn besti markvörður sem íslenska fararstjórnin hafði séð á öllum sínum ferli.

Jafnt var í leikhléi, en slæmur 5 mínútna kafli í upphafi síðari hálfleiks færði Pólverjum tveggja marka forystu og Ísland var á leið út úr keppninni. Síðara mark þeirra pólsku var ekki ósvipað markinu fræga sem Maradonna gerði með hönd guðs hér um árið en þrátt fyrir áköf mótmæli minna leikmanna og þjálfara íslenska liðsins, stóð markið og tveggja marka forskot þeirra varð staðreynd.

En Íslendingar standa sig best þegar kreppir að. Mínar dömur hertu róðurinn og uppskáru mark þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum en þá skoraði Thelma Björk Einarsdóttir glæsilegt mark og minnkaði muninn. Hún sagði eftir leikinn að afi hennar, sem lést daginn fyrir leikinn, hafi setið í stúkunni og hvatt hana til dáða og hún tileinkaði markið minningu hans. Leið nú og beið, mínar stelpur sóttu og sóttu að pólska markinu, leikmenn pólska liðsins voru orðnar lúnar enda einum leikmanni færri þar sem einn leikmaður þeirra meiddist í fagnaðarlátum þeirra í tilefni af öðru markinu og allar skiptingar þeirra búnar. Þremur mínútum síðar fengum við hornspyrnu og uppúr henni kom skot sem hafnaði í bakhlutanum á Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur, þaðan sem boltinn sigldi í netið.

Skyndilega var orðið jafnt 2-2, stutt til leiksloka og ég fékk fréttir að leik Svía og Dana hafi lyktað með 1-0 sigri Svía. Loksins flautaði dómarinn til leiksloka í okkar leik og upphófst þá bið sem var ærið taugatrekkjandi. Okkar skilningur, mín og þjálfaranna, var að þessi úrslit myndu duga okkur til þess að vinna riðilinn.

En okkur vantaði staðfestingu, fyrst var hringt í konuna sem allt veit, Klöru Ósk Bjartmarz, á skrifstofu KSÍ. Hún lagði sama skilning í reglugerðina og við en taldi öruggara að fá endanlega staðfestingu frá UEFA. Því brá ég á það ráð að leita til eftirlitsmanna UEFA á staðnum og fá þá til að staðfesta niðurstöðuna. Það voru því spennuþrungnar mínútur á leikvellinum í Jaworzno á meðan liðið beið eftir staðfestingu, allir einhvernvegin vissir um að markmiðið væri í höfn, en samt ekki 100% vissir.

Svo sáum við skælbrosandi hollenska konu koma gangandi út á völlinn til okkar. Við vörum öll klár á því hvaða tíðindi hún ætlaði að færa okkur, og spennan var gríðarleg. Svo kom orðið: Congratulations ... og það hreinlega trylltist allt úti á vellinum - 25 Íslendingar hoppuðu og skoppuðu út um allan völl, föðmuðust og kysstust! Ísland var komið í lokakeppnina, sjálf gekk ég út að hliðarlínu (þóttist ætla að sækja þar myndavél) og vatnaði músum í gleðivímu yfir þessari niðurstöðu, ég vissi ekkert hvað ég átti af mér að gera!

Lífið er ekki saltfiskur, en á þessari stundu var það hreinlega og óendanlega yndislegt!

Til hamingju Ísland, til hamingju stelpur, til hamingju við öll, með frábæran árangur og úrslitakeppni EM U19 kvenna í Hvíta Rússlandi sumarið 2009.

U19_Oli 212

Smelltu til að fá stærri útgáfu.


Eftir kosningar

Niðurstöður kosninganna eru mér að skapi, svona að mestu. Auðvitað hefði ég viljað sjá meiri stuðning við minn flokk, Samfylkinguna, sérstaklega í Suðvestur kjördæmi. Tveir þingmenn til viðbótar við þingflokkinn er gott og ég ætla ekki að vanvirða það en það var aðallega tvennt sem kom mér á óvart.

Annars vegar það að sveiflan til VG hafi ekki verið stærri og hitt að Framsóknarflokkurinn skuli hafa bætt svona miklu við sig. Reyndar kemur hið síðarnefnda mér meira á óvart en hitt. Sannast sagna taldi ég að Framsóknarflokkurinn myndi allt að því þurrkast út. Mitt mat er að óánægðir Sjálfstæðismenn hafi ekki viljað flytja sig lengra til vinstri en að Framsókn og þess vegna hafi sá flokkur fengið betri útkomu en talið var. Það er enda ekki mikill munur á þessum flokkum og ég hef reyndar stundum nefnt hann Sjálfsóknarflokkinn og finnst það réttnefni.

Hvað varðar stjórnarmyndunarviðræðurnar þá kemur það ekki til greina af minni hálfu að gefa eftir aðildarviðræðurnar um ESB. Allt annað er fásinna. Ég treysti Jóhönnu Sigurðardóttur til þess að mynda ríkisstjórn sem verður íslensku þjóðinni til sóma til framtíðar litið. Að sama skapi vona ég að Vinstri grænir sjái ljósið í aðildarviðræðunum - og það að slíkar viðræður séu nauðsynlegar til þess að fá botn í umræðuna um ESB aðildina.


Vægi skoðanakannana

Þann 4. apríl sl. setti ég af stað skoðanakönnun hér á blogginu mínu þar sem ég spurði um það hvaða flokk lesendur síðunnar ætluðu að kjósa. Alls tóku 599 afstöðu til könnunarinnar og af þeim voru 530 gild, 56 ætluðu að skila auðu og 13 ætluðu ekki að kjósa.

Það vekur athygli mína hversu nálægt mín könnun var niðurstöðum kosninganna. Raunar er það þannig að atkvæði til Lýðræðishreyfingarinnar annars vegar og Samfylkingarinnar hins vegar virðast stemma nær alveg. Í minni könnun fékk Samfylkingin t.d. 29,6% greiddra atkvæða en skv. kosningaúrslitum sem nú liggja fyrir á ruv.is fékk Samfylkingin 28,8% atkvæða.

Í raun má segja að þeir sem sækja síðuna mína heim sé nokkuð góður þverskurður af hinu pólitíska landslagi. Ég get ekki annað en verið ánægð með það og þakka ykkur öllum kærlega fyrir heimsóknirnar og þátttökuna í skoðanakönnuninni.

Sigurvegurum kosninganna, þar sem allmargir eru tilnefndir, óska ég til hamingju með árangurinn. Ég hlakka til komandi daga þar sem það mun ráðast hvernig ríkisstjórn Íslands verður skipuð næstu 4 árin.

 ingibjhin.blog.is Kosningar 25.04.09 Mism.
B458,5% 27.69914,8% 6,3%
D14026,4% 44.36923,7% -2,7%
F326,0% 4.1482,2% -3,8%
O478,9% 13.5197,2% -1,6%
P40,8% 1.1070,6% -0,2%
S15729,6% 55.75829,8% 0,2%
V10519,8% 40.58021,7% 1,9%
alls530  187.180   
 

 


OKKAR TÍMI ER KOMINN

sagði Jóhanna Sigurðardóttir í kvöld. Hún hefur sjaldan eða aldrei verið eins glæsileg og einmitt þegar hún fagnaði sigri með félögum sínum á Grand Hótel í kvöld. Rétt eins og álfadrottning í ævintýri.

Reyndar er það þannig að sigur Jóhönnu og Samfylkingarinnar er slíkur að helst mætti halda að hann hafi átt sér stað í ævintýri.

Jafnaðarmönnum um land allt óska ég til hamingju með sigurinn og óska Jóhönnu velfarnaðar í stjórnarmyndunarviðræðurnar framundan. Áfram Ísland!


Makalaus málflutningur ofstækismanna

Undanfarna daga hef ég lýst þeirri skoðun minni með nokkrum rökum af hverju ég kaus Samfylkinguna í Alþingiskosningunum, en ég kaus utan kjörfundar. Ég hef svo sem ekki ætlast til þess að einhver læsi bloggið mitt og breytti frá sannfæringu sinni, enda hef ég reynt að koma mínum sjónarmiðum á framfæri af hlutlægni og eins mikilli einlægni og mér er unnt.

Einhverra hluta vegna hafa bloggarar séð ástæðu til þess að gagnrýna skoðanir mínar, oftast með sérstaklega ómálefnalegum málflutningur, reyndar svo ómálefnalegum að hann er hreint makalaus. Þessa sömu hluti hef ég séð hjá mörgum bloggvinum mínum. Ég er ekki að biðja um það að fá skoðanir ofstækismanna hér inná bloggið mitt, og hef reyndar oftast nær látið þá kumpána í friði. Margir bloggvina minna (og veraldarvina) hafa hins vegar brugðið á það ráð að verja minn málflutning. Fyrir það kann ég þeim miklar og góðar þakkir þó stundum óskaði ég þess að þeir væru ekki að æsa upp ofstækismennina með því að gera þeim til geðs og svara þeim. Orð þessa fólks hafa nefnilega oftar en ekki dæmt sig sjálf og verða sjálfsagt til þess, frekar en bloggið mitt, að óákveðnir lesendur taki ákvörðun með mínum skoðunum frekar en ofstækismannanna.

Mín skoðun á því að styðja Samfylkinguna stendur óhreyfð. Það er búið og gert. Ég hef ekki gleypt við öllu því sem forystumenn flokksins hafa sagt eða gert. Enda tel ég það einn helsta kost Samfylkingarinnar að þar leyfist mönnum að hafa aðrar skoðanir en forystan, þar má maður taka sjálfstæða upplýsta afstöðu. Grundvallarhugsjón jafnaðarmanna er nefnilega svo skýr að útfærsla hennar getur tekið á sig margar myndir og hugsjónir jafnaðarmanna er hægt að framkvæma á margan veg.

Forystumenn flokksins gerðu ákveðin mistök í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum, þeirri skoðun minni hef ég margoft lýst yfir. Samfylkingin er eini jafnaðarmannaflokkur Íslands og þess vegna stimplaði ég S á kjörseðilinn. Jóhanna Sigurðardóttir er formaður Samfylkingarinnar, þess vegna stimplaði ég S á kjörseðilinn. Jóhanna Sigurðardóttir er forsætisráðherra og þar vil ég hafa hana áfram, þess vegna stimplaði ég S á kjörseðilinn og Jóhanna Sigurðardóttir er sá stjórnmálamaður íslenskur sem þjóðin treystir best, þess vegna stimplaði ég S á kjörseðilinn.

Á morgun færð þú tækifæri til að segja þína skoðun, ég skora á þig að merkja X við S á kjörseðlinum þannig tryggir þú best, að mínu mati, farsæld íslenskrar þjóðar til framtíðar.


Þjóðin þarf jafnaðarmenn í ríkisstjórn

Kæru landsmenn,

laugardaginn 25. apríl gengur íslenska þjóðin til alþingiskosninga. Kosningar sem fólkið, almenningur, lýðurinn og skríllinn kröfðust í vetur verða loks að veruleika. Laugardagarnir á Austurvelli munu vonandi verða mörgum okkar leiðarljós í framtíðinni um þann kraft og samtakamátt sem býr í íslenskri þjóð þegar á móti blæs.

Undanfarna áratugi hefur verið sagt að minni kjósenda sé stutt, sú mýta mun verða að baki sunnudaginn 26. apríl þegar þjóðin hefur sent Sjálfstæðisflokkinn í langt frí frá stjórnartaumunum. En það skiptir máli hvað verður kosið. Það hefur ekki farið framhjá þeim sem lesa bloggið mitt að ég styð Samfylkinguna til allra góðra verka. Sá stuðningur grundvallast fyrst og fremst á því að Samfylkingin er eini jafnaðarmannaflokkur landsins. Samfylkingin hefur lagt fram skýra stefnu um það hvernig koma á Íslandi út úr þeirri óreiðu sem frjálshyggja og einkavæðing Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leiddi okkur í. Þar skipta aðildarviðræður við ESB mestu.

Þegar hið svokallaða góðæri var sem mest í upphafi ársins 2007 voru alþingiskosningar framundan. Niðurstaðan varð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar með nærri 2/3 hluta þingheims að baki sér. Þá lýsti ég því yfir að ég fagnaði þeirri ríkisstjórn því staða Íslands væri sú að nú færu loksins þeir sem minna mega sín í þjóðfélaginu að njóta góðs af öllum þeim gríðarlega gróða lýst hafði verið og haldið fram að væri í höfn. Það varð líka raunin og þar fór fremst í flokki Jóhanna Sigurðardóttir núverandi forsætisráðherra.

Samfylkingin gerði margt gott og einnig nokkuð rangt á þeim 18 mánuðum sem hún var í slagtogi við Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn. Stærstu mistökin voru þau að gefa eftir að sækja strax um aðild að ESB og fara í aðildarviðræður. Þau mistök verða ekki endurtekin, því hafa verðandi alþingismenn og forysta Samfylkingarinnar lofað og á það legg ég traust mitt.

Traust er það eina sem íslenskir stjórnmálamenn geta teflt fram í dag enda er trúnaður milli þeirra og þjóðarinnar löngu brostinn og skiptir þá engu hvar í flokki menn standa.

Engum íslenskum stjórnmálamanni treysti ég betur en Jóhönnu Sigurðardóttur, hún er formaður Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokks Íslands, og þess vegna kýs ég Samfylkinguna.

 


Gróa á Leiti

Mörg undanfarin ár hefur Halldór nokkur Jónsson verið fastapenni í áróðursriti Sjálfstæðismanna í Kópavogi, Vogum. Þegar ég leit á www.mbl.is í morgun sá ég svarthvítu myndina af kappanum og svona líka snilldarlega orðaða fyrirsögn: Fékk Samfylkingin 100 milljónir niðurfelldar ?

Sem von er þá vekur fyrirsögn sem þessi áhuga, ég vissi þó hver bæri ábyrgð á skrifunum, svo varinn var settur á áður en ég hóf lesturinn. Aðeins fyrstu orðin gáfu til kynna að nú væri Halldór kominn í hlutverk Gróu gömlu á Leiti, fyrstu fjögur orðin eru: Sú saga gengur staflaust ...svo heldur kappinn áfram að bera út óhróður og staflausa stafi um Samfylkinguna, það góða stjórnmálaafl.

Ekki veit ég hvað Halldóri Jónssyni gengur til með því að bera út óhróður, lygar og ósannindi eins og þau sem hann setur fram í bloggfærslu sinni. Hitt veit ég að Halldór er, hefur verið og mun sjálfsagt áfram verða staðfastur íhaldsmaður, tryggur sínum flokki, sama hvað á gengur. Þegar menn geta ótrauðir fetað í fótspor foringja, eins og þess sem Halldór fylgir í Kópavoginum, þá veit maður að  Halldór lætur ekki vondar kosningaspár hafa áhrif á sig. Hann mun áfram styðja sinn flokk með öllum tiltækum ráðum og beita öllum þeim brögðum sem þurfa þykir, til þess að hvítþvo hvítliðina sem eitt sinn voru kallaðir. Á flibba þeirra hefur aldrei fallið kusk svo orð sé á gerandi.

Halldór Jónssyni óska ég alls hins besta og vona að hann eigi marga góða daga fyrir höndum.


Frelsi - jafnrétti - bræðralag

Úti í fjarskanum hlusta ég nú á beina útsendingu frá kosningafundi frambjóðenda í Reykjavík suður. Mér finnst hiti vera farinn að færast í leikinn. Frammíköll áhorfenda eru margfalt meiri en áður og greinilegt er að FLokkarnir eru með klapplið á bekkjunum.

Einhverra hluta vegna hafa þessi frammíköll vakið meiri athygli hjá mér heldur en þeir kostir og gallar sem frambjóðendur telja upp sjálfum sér til gildis. Mér finnst þetta miður, því ef einhvern tímann hafi þjóðin átt að hlusta á það hvað flokkarnir hafa fram að færa þá er það núna. Frammíköll, ólæti og skipulögð klöpp (sem væntanlega eru ætluð til þess að vinna viðkomandi frummælanda fylgi) missa algjörlega marks, a.m.k. hjá mér.

Það liggur við að mér finnist gott að vera fjarri heimahögum þegar og ef andinn er svona í þjóðfélaginu. Ribbaldar æða milli framboðsskrifstofa og sletta lituðu skyri, krota á gangstéttir og spilla með því umhverfinu, eyða fjármunum og fjárfestingum. Kannski það eina góða sem slík framkoma skapar eru fleiri vinnustundir, sem er gott í sjálfu sér, en flestar þeirra eru unnar í sjálfboðavinnu og eru í sjálfu sér ekki verðmætaskapandi fyrir íslenskt efnahagslíf.

Fyrir ykkur sem enn eru óákvæðin mæli með því að þið kjósið frelsi, jafnrétti og bræðralag og merkið X við S, svo getið þið kosið hér á síðunni líka ------>


Þú kýst ekki eftirá

Það er ekki tilviljun að meirihluti þjóðarinnar vill að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, haldi áfram að leiða ríkisstjórn og uppbyggingastarfið að loknum kosningum. Það er heldur ekki tilviljun að Samfylkingin er sammála stærstu samtökum launafólks, atvinnurekanda og neytenda um að nauðsynlegt sé fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu að sækja um aðild að ESB sem fyrst eftir kosningar og gefa þjóðinni kost á að eiga síðasta orðið um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau skref þarfa að stíga í þágu vinnu og velferðar og til að fyrirbyggja annað hrun.

Aðeins styrkur Samfylkingarinnar í komandi kosningum getur tryggt að samningaviðræður við ESB verði að veruleika strax eftir kosningar og að Jóhanna Sigurðardóttir fái skýlaust umboð til að leiða það starf: Það er ekki hægt að kjósa eftir á.


Fortíð - Nútíð - Framtíð

Nú í aðdraganda kosninga hef ég margoft fengið að heyra spurninguna: „Hvað hefur Samfylkingin gert til að bæta hag heimilanna." Viðkomandi hefur gjarnan svarað sér sjálfur og fullyrt: „Ekki neitt!"

En er það svo?

Það tók Sjálfstæðisflokkinn 18 ár að koma Íslandi á hausinn, en það má með vissum rökum benda á að það sé „léttara" verk en að reisa lýðveldið aftur upp úr öskustónni. Af þessum 18 árum var Framsóknarflokkurinn „hækja" íhaldsins í 16 ár, Samfylkingin var „skækja" íhaldsins (eins og Páll Magnússon formannsframbjóðandi í Framsóknarflokknum orðaði það svo smekklega) í 18 mánuði.

Vissulega hrundi íslenska bankakerfið á vakt Samfylkingarinnar þegar hún var í 18 mánuði í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Það er staðreynd sem mun fylgja flokknum inn í kosningarnar nú og um ókomna tíð. Auðvitað átti okkar fólk í ríkisstjórninni að standa sig betur, vera stífari á bremsunni gagnvart sérhagsmuna- og þenslustefnu Sjálfstæðisflokksins og veita meiri og betri upplýsingar en gert var. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að Samfylkingin hafi gert allt sem mögulegt var til að koma í veg fyrir hrunið. En það er auðvelt að vera vitur eftir á og slá fram fullyrðingum þegar maður þarf ekki að standa skil á þeim. Því hef ég margsinnis spurt sjálfa mig að því hvað Samfylkingin hefði getað gert betur?  

Sjálfstæðisflokkurinn fór með stjórn peningamála í landinu þann tíma sem samstarfið við Samfylkinguna varði. Sjálfstæðisflokkurinn bar ábyrgð á forsætisráðuneytinu (og þar með Seðlabankanum) og fjármálaráðuneytinu. Jú, Björgvin G. Sigurðsson var viðskiptaráðherra og flestir eru samála um að hann hefði getað staðið sig betur, þar á meðal hann sjálfur. Björgvin axlaði ábyrgð á mistökum í stjórn bankamála og sagði af sér. Nokkuð sem ráðherrar úr öðrum stjórnmálaflokku hefðu mátt taka sér til fyrirmyndar.  Bankastjóri Seðlabankans á þeim tíma hjálpaði ekki til því honum þóknaðist ekki að tala við ráðherra viðskiptamála í 18 mánaða stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hann lét sér nægja að vera í einkasamtölum við „sína menn", einkasamtöl sem hægt er að segja frá að hafi farið fram en alls ekki má upplýsa um hvað þau fjölluðu.

Á sama tíma var Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, að standa vaktina í félagsmálaráðuneytinu og kom á gríðarmiklum kjarabótum fyrir þá sem minnst höfðu á milli handanna.

Hún stóð m.a. að því að:

  • afnema skerðingu bóta vegna tekna maka
  • skerðingarhlutfall ellilífeyris var lækkað úr 30% í 25%
  • tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga var að fullu afnuminn
  • komugjöld á heilsugæslu fyrir börn voru afnumin
  • hámark húsaleigubóta var hækkað um 50%
  • stimpilgjöld voru afnumin fyrir fyrstu kaupendur íbúða
  • ný jafnréttislög voru sett

Þetta er aðeins hluti þess sem komið var í  framkvæmda á innan við ári eftir að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við vorið 2007. Það þarf ekki auðugt ímyndunarafl til að sjá ástandið í íslensku þjóðfélagi fyrir sér í dag ef þessar kjarabætur hefðu ekki verið komnar til framkvæmda fyrir fall bankanna.

Það verður hvorki einfalt né auðvelt að reisa íslenskt samfélag uppúr öskustónni og gera okkur á ný að þjóð meðal þjóða. Það er gríðarlega mikilvægt að almenningur í landinu geri sér grein fyrir því að komandi kosningar snúast í raun um tvær ólíkar leiðir í uppbyggingu og endurreisn þjóðarinnar. 

Annarsvegar, er það einkavæðingarleið Sjálfstæðisflokksins sem gengur út á að almenningur greiði sjálfur fyrir sína menntun og heilbrigðisþjónustu. Þeir sem hafa ekki efni á þeirri þjónustu verða þá bara að vera án hennar.

Hinsvegar, er það leið jafnaðarstefnunar þar sem skattar verða hækkaðir til þess að jafna kjör meðal almennings. Með þessari leið getum þó verið viss um að við komum öll til með að hafa jafnan aðgang að mennta- og heilbrigðisþjónustu í framtíðinni hvernig sem fjárhagsleg staða okkar er hverju sinni. Það er ljóst að nú  skiptir öllu máli að jafnaðarstefnan verði höfð að leiðarljósi, enn mikilvægar er að þeir sem hafa látið stýrast af sérhagsmunum og einkavinavæðingu verði ekki settir í bílstjórasætið. Það er fullreynt á 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins.

Endurreisn íslenska lýðveldisins mun vonandi ekki taka 18 ár, en hún verður að vera byggð á bjargi, það þýðir að það verður að gefa ríkisstjórninni, hver sem hún verður, tíma til að treysta undirstöðurnar. Engum öðrum stjórnmálamanni en Jóhönnu Sigurðardóttur treysti ég betur til að leysa það verkefni. Það eru til skyndi- og brellulausnir eins og 20% niðurfelling skulda og einhliða upptaka evru, slíkar lausnir eru skammtímalausnir byggðar á sandi.

Kæri lesandi, ekki láta blekkjast af brellulausnum og gylliboðum. Veldu það stjórnmálafl sem þú treystir best, þann stjórnmálamann sem hefur í gegnum tíðina talað máli alls almennings í landinu og staðið við bakið á þeim sem minna mega sín.

Taktu upplýsta ákvörðun, merktu X við S í kosningunum á laugardag.


Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband