Leita í fréttum mbl.is

Þjóðin þarf jafnaðarmenn í ríkisstjórn

Kæru landsmenn,

laugardaginn 25. apríl gengur íslenska þjóðin til alþingiskosninga. Kosningar sem fólkið, almenningur, lýðurinn og skríllinn kröfðust í vetur verða loks að veruleika. Laugardagarnir á Austurvelli munu vonandi verða mörgum okkar leiðarljós í framtíðinni um þann kraft og samtakamátt sem býr í íslenskri þjóð þegar á móti blæs.

Undanfarna áratugi hefur verið sagt að minni kjósenda sé stutt, sú mýta mun verða að baki sunnudaginn 26. apríl þegar þjóðin hefur sent Sjálfstæðisflokkinn í langt frí frá stjórnartaumunum. En það skiptir máli hvað verður kosið. Það hefur ekki farið framhjá þeim sem lesa bloggið mitt að ég styð Samfylkinguna til allra góðra verka. Sá stuðningur grundvallast fyrst og fremst á því að Samfylkingin er eini jafnaðarmannaflokkur landsins. Samfylkingin hefur lagt fram skýra stefnu um það hvernig koma á Íslandi út úr þeirri óreiðu sem frjálshyggja og einkavæðing Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leiddi okkur í. Þar skipta aðildarviðræður við ESB mestu.

Þegar hið svokallaða góðæri var sem mest í upphafi ársins 2007 voru alþingiskosningar framundan. Niðurstaðan varð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar með nærri 2/3 hluta þingheims að baki sér. Þá lýsti ég því yfir að ég fagnaði þeirri ríkisstjórn því staða Íslands væri sú að nú færu loksins þeir sem minna mega sín í þjóðfélaginu að njóta góðs af öllum þeim gríðarlega gróða lýst hafði verið og haldið fram að væri í höfn. Það varð líka raunin og þar fór fremst í flokki Jóhanna Sigurðardóttir núverandi forsætisráðherra.

Samfylkingin gerði margt gott og einnig nokkuð rangt á þeim 18 mánuðum sem hún var í slagtogi við Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn. Stærstu mistökin voru þau að gefa eftir að sækja strax um aðild að ESB og fara í aðildarviðræður. Þau mistök verða ekki endurtekin, því hafa verðandi alþingismenn og forysta Samfylkingarinnar lofað og á það legg ég traust mitt.

Traust er það eina sem íslenskir stjórnmálamenn geta teflt fram í dag enda er trúnaður milli þeirra og þjóðarinnar löngu brostinn og skiptir þá engu hvar í flokki menn standa.

Engum íslenskum stjórnmálamanni treysti ég betur en Jóhönnu Sigurðardóttur, hún er formaður Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokks Íslands, og þess vegna kýs ég Samfylkinguna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hvet samfylkingarfólk til þess að laun björgvins g verði borguð beint úr vasa þeirra sem samfylkinguna kjósa. 

Hvaða ábyrð axlaði hann með því að segja af sér?  sagði hann af sér viss um að klappstýruliðið hans myndi setja hann aftur á launaskrá okkar skattgreiðanda?

En já meira um hvernig ástandið er.  atvinnulausir fá um 150.000 á mánuði og mega svo vinna fyrir 70.000 á mánuði án þess að það skerði bæturnar.  hvað er það annað en vinnuletjandi?

Ok jóhanna,  samtök heimilana hafa gefið hennar stjórn væna falleinkun.  Í raun alveg sama hver er spurður þá hefur þessi ríkisstjórn ekki gert nokkurn skapaðan hlut. 

Fyrningarleið sjávarútvegs.  ok gefum okkur það að árið 2007 hefðir þú Ingibjörg keypt kvóta fyrir 100 millur.  Værir þér alveg sama um að samfylkingin myndi taka frá þér 5 millur á ári?  

ESB.  ok getur verið að esb sé eitthvað sem er skref í rétta átt.  en það virðist vera plan A hjá samfylkingunni að fara þangað og ef það bregst þá virðist það vera plan B hjá þeim líka. 

Segðu mér nú hvað samfylkingin er að gera af viti?   

hafþór skúlason (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 15:05

2 Smámynd: Elfur Logadóttir

Hafþór,

Samfylkingin er að gera mjög margt af viti. Það er fylgt raunhæfum leiðum að þeim markmiðum sem verður að ná, það er ekki verið að lofa upp í ermina á neinum. Loforðauppboðið er ekki í gangi innan Samfylkingarinnar. Raunhæfar leiðir, raunhæfar áætlanir, leitað samstarfs hjá alþjóðasamfélaginu og svo mætti lengi telja.

Það er einnig rangt að ríkisstjórnin hafi ekki gert nokkurn skapaðan hlut, og það eru alls ekki allir sem svara þannig ef þú spyrð. Varðandi efnisatriðin sem þú nefnir:

1. Hvernig í ósköpunum getur það verið vinnuletjandi að fólk hafi í sig á atvinnuleysisbótum? Það er ekki næga vinnu að fá og auðvitað á að greiða mannsæmandi bætur. Ekki gleyma því að atvinnuleysisbætur eru áunnin réttindi einstaklings sem byggja á vinnuframlagi hans í fortíðinni.

2. Það hefur ansi margt verið gert fyrir heimilin í landinu. Til dæmis þetta:

  • Greiðslujöfnun, til þess að létta greiðslubyrðina á meðan versta áfallatímabilið gengur yfir.
  • Hækkun vaxtabóta, sem einnig léttir greiðslubyrðina hjá þeim sem eiga rétt á vaxtabótum.
  • Heimild til úttektar séreignasparnaðar, sem enn gerir fólki kleift að létta greiðslubyrðina á meðan versta áfallatímabilið gengur yfir.
  • Greiðsluaðlögun, fyrir fólk í verulegum fjárhagslegum vandræðum. Gerir einstaklingi kleift að halda íbúð sinni og framtíðartekjum sínum og auðveldara að kljúfa greiðsluhjallinn. Síðast en ekki síst, forðar einstaklingi frá hremmingum gjaldþrotameðferðar.

3. Varðandi sjávarútveginn. Lög og reglur segja að fiskurinn sé sameign þjóðarinnar. Af því leiðir að eignarréttur á fiskveiðiheimildinni er ekki varanleg. Ef útvegsfyrirtæki kaupir sér kvóta fyrir háar fjárhæðir, þá er ekki um varanlega eignfærslu að ræða, fyrirtækið má alltaf gera ráð fyrir því að aflaheimildin breytist, minnki, aukist, jafnvel verði felld niður. Hafi fyrirtækið ekki gert sér grein fyrir þessu við kaupin, hvern er þá við að sakast?

4. Samfylkingin stefnir vissulega að aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þetta gerir Samfylkingin vegna sannfæringar sinnar að með því verði leið okkar út úr þeim skelfilegu aðstæðum sem hægri stjórnir hafa komið okkur í, með því verði leiðin betri, styttri og vænlegri en annars.

Samfylkingin lofar ekki neinu því sem getur skaðað ríkisbúskapinn til skemmri eða lengri tíma. Samfylkingin lofar ekki 20% flatri niðurfellingu skulda. Samfylkingin lofar ekki hreinni tilfærslu verðtryggingar marga mánuði aftur í tímann. Samfylkingin lofar ekki 50% lækkun greiðslubyrði í 3 ár.

Samfylkingin lofar að hugsa best um þá sem eiga erfiðast með að hugsa um sig sjálfir og að tryggja á saman tíma að sem fæstir flytjist yfir í þann hóp. Samtrygging jafnaðarmennskunnar verður í fararbroddi.

Þess vegna áttu að velja Samfylkinguna á laugardag.

X-S.

Elfur Logadóttir, 24.4.2009 kl. 17:18

3 Smámynd: Elfur Logadóttir

Samfylkingin hefur reyndar eitt loforð í farteskinu: Samfylkingin lofar að uppnefna hvorki fólk né félög.

Styrkveitingar eru erfiður málaflokkur. Menn verða ða meta hvað eru eðlilegar styrkfjárhæðir og hvað eru óeðlilegar. Sjálfstæðisflokkurinn segir að 30 milljónir sé of hátt, 25 milljónir sé of hátt en 5 milljónir sé í lagi, þess vegna ætla þeir einungis að skila 25 af 30 milljóna styrkframlagi frá Landsbankanum. Eru þeir að setja normið? Er eðlilegt að taka við 5 milljónum en óeðlilegt að taka við 6? Ég veit það ekki, ég get ekki svarað því.

Styrkveitingar einstaklinga verða þeir sjálfir að svara fyrir. Steinunn Valdís hefur þegar sagt frá því að hún hafi fengið þessa styrki þannig að það þarf ekki að eyða mikilli orku í að velta því fyrir sér. Hvað varðar Björgvin G. þá virðist þar vera misræmi í frásögnum og er það slæmt.

Hins vegar vil ég líka ítreka það að ef þú (eða aðrir) eruð ósátt(ir) við einstaka frambjóðendur, hvar sem í flokki þeir standa, ekki láta það aftra þér frá því að kjósa listann. Notaðu yfirstrikunar og endurröðunarheimild kosningarlaganna. Breyttu þeim lista sem þú kýst - en einungis þeim lista.

Samfylkingin fer raunhæfar leiðir, slíkur flokkur þarf ekki loforðaflaum sem erfitt er að standa við.

Bið þig annars vel að lifa.

Elfur Logadóttir, 24.4.2009 kl. 17:58

4 Smámynd: Elfur Logadóttir

Er einhver ástæða til þess að svara einstaklingum sem snúa út úr og spinna sinn eigin vef? Þú ert augljóslega ekki hingað kominn til þess að taka þátt í málefnalegri umræðu og þess vegna hætti ég að taka þátt í umræðunni.

Elfur Logadóttir, 25.4.2009 kl. 01:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband