Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
24.2.2009
Drottningin í viðtali
Mikið djö... langar mig til að blogga um drottninguna sem var í viðtali í Kastljósi í kvöld. Hins vegar var kvöldið hjá mér svo frábært að ég nenni því ekki. Vísa á þá fjölmörgu sem hafa bloggað um málið hér á mbl blogginu, eða nei annars, það má ekki lengur segja að maður vísi á þá fjölmörgu, maður þarf að telja þá upp. Og ekki nóg með það, það þarf líka að sýna framá að þeir séu ekki tengdir við hina ógurlegu Baugsmiðla, sem ekkert mark er takandi á. Svo mega þeir hinir sömu ekki vera í vitlausum flokki, þar eru bara fulltrúar skrílsins. Já og svo verða þeir að aðhyllast sérstaka stefnu í ákveðnum flokki - hinir eru bara kjánar sem ekkert vita. Því ...
Abbessiníukeisari heitir Negus Negusi,
og Negus Negusi segir: Búlúlala.
Öllum mönnum, sem íhuga málstað ríkisins,
finnst unun að heyra Negus Negusi tala.
Og í hreinskilni sagt eru allir óvinir ríkisins,
sem ekki hlusta á Negus Negusi tala.
Ég er Negus Negusi, segir Negus Negusi,
ég er Negus Negusi. Búlúlala.
Eftir Kastljósþátt kvöldsins mætti umskrifa þetta ljóð Steins Steinars einhvern vegin svona:
Seðlabankakeisari heitir Davíð Oddsson,
og Davíð Oddsson segir: Bankinn MINN.
Öllum mönnum, sem íhuga málstað ríkisins,
finnst unun að heyra Davíð Oddsson tala.
Og í hreinskilni sagt eru allir óvinir ríkisins,
sem ekki hlusta á Davíð Oddsson tala.
Ég er Davíð Oddsson, segir Davíð Oddsson,
ég er Davíð Oddsson. Bankinn MINN!
Læt mér því nægja að ergja mig á bæjarstjóranum hér í bæ ... a.m.k. í bili.
24.2.2009
Saltkjöt og baunir ... þúsundkall!
Nei það kostar ekkert að koma til mín í dæmigerðan sprengidagsmat. Eina sem þarf er boðskort. Í ár munu 25 mæta til mín í íbúðina og njóta veitinga, sem nú malla í rólegheitum á eldavélinni hjá mér. Það er miklu minna mál en margur heldur að elda oní svona marga, maður þarf bara að eiga nógu stóra potta og skipuleggja sig pínulítið.
Myndir segja meira en mörg orð og hér fyrir neðan má sjá pottana á eldavélinni heima hjá mér, inní ofni eru kartöflur og rófur við 50 gráðu hita eða minna.
Ég held það sé hægt að smella til að stækka myndina.
22.2.2009
Dansinn í kringum gullkálfinn
Í Silfri Egils í dag var Hjálmar Sveinsson meðal viðmælenda en hann hefur á undanförnum misserum fjallað nokkuð um skipulag og skipulagsbreytingar á höfuðborgarsvæðinu. Hjálmar sagði að sennilega yrði dómur sögunnar miskunnarlaus yfir skipulagi því sem hér hefur ruðst yfir samfélagið á síðustu 5-7 árum.
Það vakti athygli mína að þátturinn ekki margra mínútna gamall þegar bæjarstjórinn hér í bæ var kominn upp í samtali hans og Egils Helgasonar. Árið 2002 var samþykkt aðalskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið sem gilda átti til ársins 2024 en Hjálmar benti á að sveitarstjórar á svæðinu, m.a. bæjarstjórinn í Kópavogsbæ, hefðu ekki tekið neitt mark á þessu plaggi. Hann benti líka á að ef talað var um samráð milli sveitarfélaga um skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu þá fór bæjarstjórinn hér strax að tala um "sovétskipulag". Í mínum huga er það nokkuð merkilegt að bæjarstjórinn skuli nota orðið "sovétskipulag" því það er einmitt dæmigert fyrir þá uppbyggingu sem höfð hefur verið í hávegum hér í Kópavogi. Í dæmigerðu sovétskipulagi er þétting byggðar höfð í fyrirrúmi, þar má finna háar ósmekklegar byggingar þar sem nágrennið er undirlagt undir bílastæði og umferðin er alltaf eins mikil og götur ná að anna, jafnvel meiri. Dæmi um þetta má einmitt finna í þeim ríkjum sem byggð voru upp af kommúnistum uppúr síðari heimsstyrjöld.
Annað sem Hjálmar benti á var að skipulagið var alltaf unnið í þágu verktakanna. Það voru ekki hagsmunir íbúanna sem voru í forgrunni, heldur var skipulagi þröngvað í gegn á stuttum tíma með eins naumum meirihluta og unnt var. Hann nefndi einnig að sveitarstjórar hér á svæðinu litu svo á að skipulagsmál væri samkeppni um íbúa, þeir hundsuðu samráð og hver og einn hugsaði um sinn eigin rass án þess að líta til heildarinnar. Ég man eftir því þegar við, fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Kópavogs, bentum á að nær útilokað væri að manna allar þær íbúðir sem í byggingu væru á höfuðborgarsvæðinu og við vildum að Kópavogsbær færi að haga sér eins og hluti af heild í stað þess að vera eins og "Palli einn í heiminum". Svar bæjarstjórans var hnitmiðað: "Ef við byggjum ekki þá gera það einhverjir aðrir og við töpum íbúunum!"
Viti menn, nú þegar bankakreppan hefur skollið á okkur af fullum þunga eru mörg hundruð íbúða í Kópavogi auðar og það er ekkert sem bendir til þess að þær muni fyllast fyrr en eftir umtalsverðan tíma. Það sama má segja um heilu hverfin í Mosfellsbæ, Reykjavík, Garðabæ og Hafnarfirði, þar sem skipulagið hefur liðið fyrir það að sveitarstjórarnir hafa litið á það sem samkeppni um íbúa og á sama tíma hundsað alla samvinnu. Í raun er hægt að segja að viðhorf þeirra sé eins og bankastjóranna sem kepptust við að lána viðskiptavinum sínum eins mikið fé og hægt var á sem stystum tíma. Þeir kepptu líka um það hver gæti sýnt bestu afkomuna á hverjum tíma og virðist í dag sem engu hafi skipt hvort sannleikur var þar á borð borinn eða ekki.
Bankamenn, útrásarvíkingar og jafnvel bæjarstjórar hafa sagt að "allir" hafi tekið þátt í dansinum í kringum gullkálfinn og benda þá gjarnan á almenning máli sínu til stuðnings. Slíkar bendingar hafa engan tilgang annan en að draga athyglina frá þeim sem mesta eiga sök, þar er ekki við almenning að sakast. Almenningur sat aðeins danstíma í boði fjölmiðla hjá sveitarstjórnum, bankastjórnum og útrásarvíkingum. Það er löngu kominn tími til að menn líti í spegil og játi á sig að þeir hafi farið of geyst og látið glepjast. Menn verða menn að meiru eftir slíkar játningar!
Viðtalið við Hjálmar er allrar athygli vert og tengill á það er hér fyrir neðan.
Silfur Egils, viðtalið við Hjálmar Sveinsson:
http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4440920/2009/02/22/2/.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.2.2009
Kópavogur bærinn minn - 5. hluti
Hér hef ég aðeins sagt frá örfáum deiluefnum sem oddvitarnir hafa efnt til með sínum óvenjulega stjórnunarstíl, sem kannski væri eðlilegra að kalla alræðistilburði. Ótalin eru ýmis mál, s.s. deilur vegna kaupa á löndum í Glaðheimum og Vatnsenda, hagsmunatengsl vegna verkefnaúthlutana í útgáfumálum bæjarins og einkavinaráðningar inná bæjarskrifstofurnar.
Miðað við framkomu bæjarstjórans í minn garð í aðdraganda kosninga hefði ekkert átt að koma mér sérstaklega á óvart þegar ég mætti á mína fyrstu bæjarstjórnarfundi í upphafi kjörtímabilsins 2006-2010. Ég væri hins vegar að segja ósatt ef ég segði að það hafi ekki komið mér á óvart var hversu dónalegur og ruddalegur bæjarstjórinn er í garð bæjarfulltrúa á opinberum fundum. Ekki síður kom mér á óvart hversu mikill undirlægjuháttur er innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gagnvart oddvitanum, með einni undantekningu þó. Fyrir það fyrsta þá talar bæjarstjórinn niður til allra þeirra sem ekki eru sammála honum í einu og öllu, gildir þá einu hvort viðkomandi séu með honum í flokki eða ekki, en vissulega er örlítill blæbrigðamunur þar á. Hann hikar ekki við að segja andstæðinga sína í bæjarstjórn ljúga, vera skyni skroppna og óundirbúa á bæjarstjórnarfundum. Á þeim fundum sem ég hef setið hefur forseti bæjarstjórnar látið það algjörlega óátalið af bæjarstjóranum en ef samskonar brigsl eru borin á bæjarstjórann stekkur forseti hins vegar upp og áminnir bæjarfulltrúa um virðingu gagnvart bæjarfulltrúum og fundi bæjarstjórnar, þar skiptir öllu máli hvar í flokki menn eru.
Nýjasta dæmið um þvingunarstarfsemi bæjarstjórans eru siðareglur sem samkomulag var um að taka upp innan stjórnkerfis Kópavogsbæjar. Var það skoðun bæjarfulltrúa minnihlutaflokkanna að samkomulag væri um að siðareglurnar væru unnar í samvinnu allra flokka. En á síðasta bæjarstjórnarfundi ber svo við að bæjarstjóri leggur siðareglurnar fram til fyrri umræðu, án þess að bera frumdrög þeirra undir minnihlutann. Og ekki nóg með það, hann ætlaðist til þess að reglurnar yrðu samþykktar til síðari umræðu án mikilla athugasemda af hálfu minnihlutans. Við slíkt var að sjálfsögðu ekki unað af okkar hálfu en í þessu máli eins og svo mörgum öðrum var meirihlutavaldi beitt í þeim tilgangi einum að aðeins ein skoðun sé markæk, þannig var lýðræðið borið ofurliði og raddir okkar hafa mátt sín lítils.
Þá hafa Stjórnsýslulög ekki skipt þennan meirihluta neinu máli, nema þau komi sér vel til að kvelja minnihlutaflokkana. Skiptir þá engu hvort um er að ræða mannaráðningar, hæfniskröfur eða óeðlileg afskipti af skipulagsmálum. Vissulega hef ég oft snöggreiðst inná bæjarstjórnarfundum, ég hef oft blygðast mín fyrir framkomu oddvita meirihlutaflokkanna í fjölmiðlum og ég hef oft mátt þola háðsglósur frá vinum og félögum vegna þeirra. Sem betur fer hefur húmorinn þó oftar en ekki bjargað geðheilsunni sem og vissan um að mín störf þoli alla skoðun og að ég hafi starfað af heilindum og með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.
Engu að síður hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þátttaka í bæjarpólitíkinni í Kópavogi sé beinlínis mannskemmandi. En við Íslendingar höfum oft mátt þola mótlæti og þrátt fyrir að mér finnist ég ekkert brjálæðislega gömul þá veit ég að orð Bjarna Thorarensens í ljóðinu Ísland eigi jafnvel við í dag eins og á þeim dögum þegar ljóðið var samið. Fjör kenni oss eldurinn, frostið oss herði" orti Bjarni og á mér er engan bilbug á mér að finna. Ég hef lært að bregðast við skrúðmælgi bæjarstjórans og fylgisveina hans og á sama tíma þessi háttsemi þeirra félaga hefur þjappað okkur félögunum í Samfylkingunni saman. Okkur hefur því reynst létt verk að verjast ósanngjörnum og óvönduðum málflutningi þeirra í okkar garð. Það hafa bæjarbúar líka gert og fullyrði ég að það fyrirfinnast ekki íbúar í einu sveitarfélagi sem eru jafn mikið á varðbergi gagnvart stjórnsýslu meirihluta bæjarstjórnar og einmitt hér í Kópavogi.
Þá vakt mun ég standa með íbúum þessa yndislega bæjar áfram. Ég er og verð Kópavogsbúi nú og alltaf. Það hef ég verið í 45 ár og mun halda áfram að standa vörð um bæinn minn, sama hversu heitt bæjarstjórinn óskar þess að ég hverfi á braut!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
18.2.2009
Kópavogur bærinn minn - 4. hluti
En það var ekki aðeins bæjarstjórinn sem gerði mér lífið leitt í starfi mínu. Það gerði líka formaður bæjarráðs, Ómar Stefánsson. Hann er ákaflega hörundssár maður, sem mér finnst nokkuð merkilegt miðað við það hvað hann var ötull í ýmiskonar félagsstarfi og hefur sjálfsagt, rétt eins og ég, mátt þola meiri gagnrýni fyrir sín störf en þakkir. Það kom mér því algjörlega í opna skjöldu að vera kölluð inná skrifstofu framkvæmdastjóra einn góðan veðurdag vegna þess að sveitarstjórnarmaður í Kópavogi hafði borið fram formlega kvörtun vegna mín. Mér vitanlega hafði ég ekki brotið neitt af mér en skýringin var ekki langt undan. Ég hafði vogað mér að tjá mig um formann bæjarráðs í athugasemdakerfi á bloggsíðu Guðríðar Arnardóttur, oddvita Samfylkingarinnar í Kópavogi (http://gudridur.blog.is/blog/gudridur/entry/496854/). Athugasemdina setti ég inná á bloggsíðuna kl. 16:22 á sunnudegi og svo virðist sem formaður bæjarráðs telji að vinnuveitendur mínir eigi að skipta sér af því hvað ég geri í mínum frítíma. Mér fannst þessi atlaga Ómars gegn mér afar ómerkileg og ósmekkleg svo ekki sé meira sagt því ekki nægði drengnum að væla einu sinni í mínum yfirmönnum heldur ítrekaði hann umkvörtun sína og það oftar en einu sinni.
Eftir tæplega 3ja ára kynni þá þykir mér ljóst orðið að oddvitar meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn eiga afar erfitt með að taka mótlæti. Er það miður því, eins og oft hefur komið fram hér áður þá fylgir þátttöku í félagsstarfi sem og öðrum störfum á opinberum vettvangi oftar en ekki gagnrýni. Reyndar er ég allt að því furðu lostin yfir þessari uppgötvun því ég hefði haldið að sveitarstjórnarmenn eins og þessir tveir væru ýmsu vanir og þeir væru ekki svo hörundssárir og raunin hefur verið. Reyndar á ég von á því, miðað við fyrri reynslu, að þeir tveir eða flokkshestar þeirra muni væla undan þessum skrifum mínum. Fari svo þá lofa ég því að segja frá þeim athugasemdum hér á blogginu mínu.
Í kosningabaráttunni 2006 gagnrýndi ég nokkuð meirihlutaflokkana vegna þeirrar útþenslustefnu sem þar hafði verið fylgt. Það var og er mér ekki að skapi hversu hratt bærinn hefur þanist út á síðustu 18 árum og enn síður var mér að skapi síendurteknar sögusagnir um einkavinavæðingu bæjarstjórans á framkvæmdasviði bæjarins. Bæði fyrir og á meðan á kosningabaráttunni stóð heyrði ég ítrekaðar sögur af því að sumum verktökum væri stöðugt úthlutað lóðum, gegn því að þeir greiddu nokkrar fjárhæðir í flokkssjóði meirihlutaflokkanna. Reyndar hafa þessar sögusagnir lifað góðu lífi, bæði á bloggsíðum og í fjölmiðlum og síðustu misseri hafa ýmsir fjölmiðlar fjallað um samskipti bæjarstjórans við byggingafyrirtæki sem ekki geta talist eðlileg milli bæjarstjóra sem verkkaupa annars vegar og byggingarfélags sem verksala hins vegar. Þar hefur að auki verið gefið í skyn að bæjarstjórinn hafi setið beggja vegna borðs vegna fyrirtækjanna BYGG og Klæðningar.
Ekki ætla ég að dæma um sannleiksgildi þessara umfjallana en orðatiltækið: Þar sem er reykur, þar er eldur" segir að mínu mati margt en ég legg það í dóm lesenda að dæma um hvort fótur sé fyrir þessum ásökunum sem gengu í endurnýjun lífdaga nú í upphafi ársins 2009.
http://www.mannlif.is/ordromur/nr/699
http://www.mannlif.is/ordromur/nr/735
http://www.mannlif.is/ordromur/nr/729
http://www.mannlif.is/ordromur/nr/720
http://www.mannlif.is/ordromur/nr/714
http://www.mannlif.is/ordromur/nr/687
http://www.dv.is/brennidepill/2009/1/15/bygg-atti-leynihlutinn-i-klaedningu/
http://www.dv.is/frettir/2009/2/3/sakadi-baejarstjora-um-fjarkugun/
Því miður reyndist það svo að óhöndugleg samskipti oddvita bæjarstjórnarflokkanna við mig voru ekki einstæmi heldur dæmigerð fyrir raunverulega samskiptatækni þeirra, ef tækni skyldi kalla, og hafa bæjarbúar Kópavogs ekki farið varhluta af þeim. Á þessu kjörtímabili, 2006-2010, hafa íbúar stofnað íbúasamtök fyrir Kársnes, Vatnsenda, Lindir og Nónhæð en áður voru til sérstök íbúasamtök vegna framkvæmda á landsvæði Lundar í Fossvogsdal. Þar fyrir utan hafa samskipti við íbúa í Suðurhlíðum Kópavogs verið heldur stirð vegna fyrirhugaðra framkvæmda við austurhluta Dalvegar. Að íbúar eins sveitarfélags skuli grípa til þess ráðs að stofna íbúasamtök, sem hafa það markmið eitt að standa saman gegn fyrirhuguðum framkvæmdum skipulagsyfirvalda, er í sjálfu sér ekki óeðlilegt. En að íbúasamtökin verði fjögur á einu kjörtímabili í einu sveitarfélagi er nokkuð sem á sér ekki hliðstæðu.Öll eiga þessi samtök það sameiginlegt að meðlimir þeirra telja sig vera fórnarlömb skipulagsbreytinga". Stofnun allra þessara íbúasamtaka er skýrasta dæmið um það hvernig bæjaryfirvöld hafa unnið gegn vilja íbúanna á 18 ára meirihlutasamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.2.2009 kl. 08:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2009
Kópavogur bærinn minn - 3. kafli
Síðla árs 2005 tók ég ákvörðun um að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kópavogi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2006. Leitaði ég að samþykkis minna vinnuveitenda hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir því og var það leyfi fúslega veitt, bæði af þáverandi framkvæmdastjóra Þórði Skúlasyni og þáverandi formanni Vilhjálmi Þ.Vilhjálmssyni. Skömmu síðar er ég sat við vinnu mína mætir þar bæjarstjóri Kópavogsbæjar og ávarpa ég hann kurteislega með orðunum góðan daginn herra bæjarstjóri." Það stóð ekki á svörum hjá bæjarstjóranum sem rumdi út úr sér Huh, maður talar ekki við svona kerlingar. Þær ættu bara að koma sér burtu úr bænum!"
Eins og við er að búast varð ég orðlaus við þessi viðbrögð og átti það sama við um félaga mína sem heyrðu til bæjarstjórans og er hætt við að þessi framkoma hans hafi orðið til þess að atkvæðum Sjálfstæðisflokksins fækkaði um a.m.k. eitt í Kópavoginum þá um vorið. Bæjarstjórinn varð sér síðan aftur til skammar þegar hann hreytti ónotum í mig þegar ég sinnti starfi mínu á launamálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldin var í húsi Orkuveitu Reykjavíkur í ársbyrjun 2006. Leitaði ég þá óformlega til minna samstarfsmanna um það hvort þeim þætti þetta eðlileg framkoma sveitarstjórnarmanns í minn garð. Viðbrögðin voru þau að þetta væri sannarlega ekki eðlilegt, þar sem ég væri einungis að sinna mínu starfi og sérstaklega ekki þar sem ég hafi gætt þess í hvívetna að láta framboð mitt ekki hafa áhrif á þjónustu mína í þágu sveitarfélaganna á landinu.
Í raun hefði þetta viðmót bæjarstjórans ekki átt að koma mér á óvart. Mér er ákaflega minnisstæður framboðsfundur sem fór fram í Þinghólsskóla í aðdraganda bæjarstjórnarkosninganna 1990. Þar sá ég fyrst til verðandi bæjarstjóra, nýjan oddvita Sjálfstæðismanna í Kópavogi. Hann fór mikinn á fundinum, gagnrýndi skipulagsmál og gatnakerfi Kópavogs óspart og sagði eitthvað á þá leið að helst mætti halda að íbúar Kópvogshælis hafi dregið upp gatnakerfið í bænum, svo vitlaust væri það." Ég brást ókvæða við orðum bæjarstjórans og benti honum á að okkur krökkunum sem ólumst upp í bænum var kennt að maður gerði ekki grín að íbúum Kópavogshælis og hann ætti að skammast sín fyrir þessi orð. Þarna varð ég vitni að því í fyrsta sinn að oddvitinn er þrátt fyrir allt breyskur maður og hann baðst afsökunar á orðum sínum, sagði að hann hafi ekki ætlað að meiða neinn. Þessa hlið hef ég ekki séð hjá bæjarstjóranum síðan.
Því miður reyndist þetta viðmót bæjarstjórans í minn garð í upphafi árs 2006 aðeins vera forsmekkurinn af því sem koma skyldi. Ég náði 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi, sem hlaut 4 sæti í bæjarstjórn. Þar með varð ég 1. varabæjarfulltrúi flokksins og hef tekið virkan þátt í störfum bæjarstjórnar sem og bæjarráðs það sem af er kjörtímabilinu. Þegar ég mætti á minn fyrsta fund hjá bæjarráði hreytti bæjarstjórinn í mig þeirri athugasemd hvort Samfylkingin gæti ekki farið aftar á listann til að manna sín sæti í bæjarráði." Mér varð hugsað til þessara orða bæjarstjórans þegar ég hlýddi á fund bæjarstjórnar um áramót þegar síðari umræða var um fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2009. Þar sem ég hlustaði á útsendingu frá fundinum heyrði ég að meðal fundarmanna var Bragi nokkur Michaelson, en hann skipaði 11. sætið á lista Sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar 2006. Velti ég því fyrir mér hvort Bragi hafi fengið sömu köldu kveðjuna frá bæjarstjóranum í upphafi bæjarstjórnarfundar og ég þegar ég mætti til fundar bæjarráðs haustið 2006.
Það er mín gæfa að hafa verið dugleg í ýmiskonar félagsstarfi auk þess sem ég skrifaði greinar um íþróttir kvenna í dagblöð um margra ára skeið. Þessi reynsla mín hefur fært mér heim sanninn um að maður á ekki að búast við því að fá þakkir fyrir störf sín. Hitt er algengara að fá gagnrýni fyrir hvaðeina en í engu er vikið að því sem vel er gert.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.2.2009
Kópavogur bærinn minn - 2. kafli
Kjörtímabilið 2002-2006 höfðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur ákveðið að síðasta ár kjörtímabilsins myndu flokkarnir skipta með sér verkum þannig að Sjálfstæðisflokkurinn myndi taka að sér starf bæjarstjóra en Framsóknarflokkur fengi formennsku í bæjarráði. Þegar Sigurður lést undir lok árs 2004 breyttist allt. Framsóknarflokkurinn varð að rekaldi sem ekkert réði við samstarfsflokkinn og sú mæta kona, Hansína Ásta Björgvinsdóttir, sem tók við af Sigurði sem bæjarstjóri í upphafi árs 2005, átti einfaldlega ekki roð í verðandi bæjarstjóra. Þar fyrir utan virtist Hansína ekki eiga vísan stuðning félaga sinna í Framsóknarflokknum og eru fræg átökin í Framsóknarfélaginu Freyju þar sem núverandi bæjarritari, Páll Magnússon og hans stuðningsmenn, gerðu stjórnarbyltingu og felldu sitjandi stjórn, en í fréttum frá þessum tíma kemur fram að 43 konur voru kjörnar inní Freyju á fundinum sjálfum og tóku þessar 43 konur þátt í að samþykkja sjálfar sig í félagið. Samkvæmt fjölmiðlum voru þarna í forsvari eiginkonur þeirra bræðra Árna og Páls Magnússona og voru menn sammála um að "valdaránið" væri hluti af pólitísk langtímaáætlun bræðranna, áætlun sem ljóst að aldrei komst í framkvæmd.
En innan bæjarstjórnar Kópavogs fór oddviti Sjálfstæðisflokksins fljótlega að gera sig breiðan. Kosningar voru haldnar 2006 og þar hélt meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks naumum meirihluta. En fall Framsóknar var hátt, flokkurinn tapaði 2 bæjarfulltrúum og eftir sat einn maður, Ómar Stefánsson, sem ljóst var að oddviti samstarfsflokksins bar ekki mikla virðingu fyrir. Hann rétti honum þó stöku bitlinga sem dugði til að halda Ómari góðum. Samkvæmt heimildum mínum innan Framsóknarflokksins var og er talsverð óánægja með stjórnunarstíl Ómars, hann veitir félögum sínum í flokknum fá tækifæri til að tjá sig og hafa áhrif innan flokksins, en hann baðar sig sjálfur í því litla ljósi sem gægist undan skugga bæjarstjórans. Tíðar myndir af Ómari á forsíðu Voga, blaði Sjálfstæðismanna í Kópavogi þykja bera þess vott að Ómar sé orðinn full hliðhollur flokknum og að hans rödd sé aðeins sem hjáróma væl á móti djúpum bassa bæjarstjórans.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2009
Kópavogur - bærinn minn
Kópavogsbær er minn heimabær, hér er ég alin upp, hér hef ég búið allt mitt líf að undanskildum tveimur vetrum sem ég dvaldi í Stykkishólmi og þessi bær er mér kærastur allra bæja í heimi hér. Hér er gott mannlíf, hér býr fjöldinn allur af góðu fólki og mér finnst bæjarstæðið eitt það fallegasta á landinu.
Vegna þessarar ástar minnar á bænum ákvað ég árið 2006 að bjóða mig fram til bæjarstjórnar í Kópavogi. Það latti mig að vísu ekki að ég hef ég ekki verið sérlega hrifin af útþenslu- og steypustefnu þess meirihluta sem setið hefur við völd hér í bæ frá því seint á síðustu öld. Mér hefur fundist áhersla þess meirihluta vera öll á það að þjónusta verktaka og byggingarfyrirtæki en íbúarnir hafa verið hlunnfarnir og á þá hefur ekki verið hlustað. Ég viðurkenni það fúslega að þegar Sigurður heitinn Geirdal var bæjarstjóri þá hafði bærinn heldur mýkra yfirbragð út á við. Hann var skemmtilegur hann Sigurður, réttsýnn, sanngjarn og drengur góður. Maður vissi að hann hefði stjórn á samstarfsflokknum, eða öllu heldur þeim sem hann leiddi. Óvænt og ótímabært fráfall Sigurðar Geirdals var því ekki aðeins missir fyrir hans fjölskyldu og Framsóknarflokkinn. Fráfall hans varð áfall fyrir Kópavogsbúa og samfélagið hér í heild. Það kom strax í ljós.
Meira síðar ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.2.2009 kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.2.2009
Er það tilviljun...
Sjálfsagt er eitthvað til í þessari frétt. En mér finnst eins og nú séu allir fingur farnir að benda á bankana sjálfa og stjórnendur þeirra. Er það tilviljun að þeir fingur séu dregnir upp núna, í aðdraganda kosninga? Er það tilviljun að þeir fingur séu dregnir upp núna þegar krafan um fjarvist DO verður háværari og háværari?
Ég held ekki.
Reynslulausir réðu í bönkum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2009
Sjálfssýn sjálfstæðismanna
Eftir erfiðar draumfarir í kjölfar sýningar RUV á viðtali BBC við fyrrverandi forsætisráðherra, þá átti ég dálítið bágt með að renna yfir Voga, blað sjálfstæðismanna í Kópavogi, sem barst til mín á föstudagsmorgun. Þar sem blaðið var borið út með Fréttablaðinu þá kippti ég því með mér í vinnuna, hálf fegin að það hafi aldrei komið inná heimili mitt .
Miðað við forsíðu og baksíðu blaðsins þá held ég að litli framsóknarmaðurinn í bæjarstjórn Kópavogs sé genginn til liðs við íhaldið því þetta er í annað eða þriðja sinn á skömmum tíma sem hann prýðir forsíðu blaðsins en hana hefur foringinn venjulega átt einn. Það vakti líka furðu mína að íhaldsflokkurinn í Kópavogi er farinn að setja mynd af Steingrími J. á forsíðuna hjá sér og ekki nóg með það hún er birt aftur á blaðsíðu 3. Ef ég þekki rétt til í auglýsingabransanum þá eru þessar tvær síður, ásamt baksíðunni verðmætustu" síður blaðsins og þykir mér skjóta nokkuð skökku við að íhaldsflokkur Kópavogs skuli vera farinn að hampa formanni VG með þessum hætti.
En þegar inní blaðið er komið tekur ekki skárra við. Íhaldsflokkurinn grobbar sig af Drengjunum okkar" í spurningaþættinum Útsvari. Ekki þar fyrir að drengirnir þrír sem þar taka þátt fyrir hönd Kópavogs, eru allra góðra gjalda verðir, en ég verð að spyrja mig hvort það sé virkilega svo, í 30.000 sálna samfélagi eins og Kópavogi, að þar skuli ekki finnast ein einasta kona sem er þess verðug að taka þátt í þessum spurningaleik í sjónvarpinu? Þar fyrir utan virðast drengirnir okkar" alls ekki hafa gaman að þættinum og sjást sjaldan brosa, sem er afar ólíkt keppendum annarra sveitarfélaga og er þá Garðabær með talinn.
Þó ég hafi aðeins verið komin á blaðsíðu 3 þá sýna íhaldsmenn í Kópavogi ótrúlega kvenfjandsamlega skoðun sína, ekki aðeins með því að hampa drengjunum okkar" heldur einnig með því að tala um að bæjarfeður Kópavogs hugsi meira um framtíðina en fortíðina. Hvaða bæjarfeður eru það? Eru það Gö og Gokke eða eru það allir karlarnir í bæjarstjórninni? Hvers eiga þær Guðríður, Sigurrós og Áshildur að gjalda að vera ekki taldar með? Ekki geta þær talist bæjarfeður Kópavogs!
Til að skemmta skrattanum enn meir slá þeir íhaldsmenn í Kópavogi upp mynd af varaformanni flokksins, konu sem ég hef miklar mætur á, gangandi yfir það sem virðist sviðna jörð en horfandi kankvís framan í linsu ljósmyndarans. Hvort þetta sé einhver tákngerving stjórnunar íhaldsflokksins í ríkisstjórn síðustu 18 ár, þar sem ekkert virðist eftir nema auðnin ein, veit ég ekki, en það vakti sérstaka athygli mína hversu bakland varaformannsins var fátæklegt.
Sennilega hafa íhaldsmenn ætlað að skemmta mér þegar þeir settu Týsblaðið, blað ungrasjálfstæðismanna inní Voga. Það er alltaf gaman að vita hvað unga fólkið er að hugsa og hvernig þau horfa til framtíðar. Meðal greinarhöfunda í Týsblaðinu eru þeir Jón Gunnarsson alþingismaður, Jóhann Ísberg, formaður Sjálfstæðisfélags Kópavogs og Sigurður Þorsteinsson, sem ekki lætur getið hvaða titil hann hefur en mig grunar að hann bloggi sem óður maður á Moggablogginu. Jóhann er fæddur árið 1959, Jón Gunnarsson árið 1956 og ef Sigurður er sá sem ég held þá er hann fæddur í kringum 1956 og skrifar á http://ziggi.blog.is. Þessir þrír eru því furðu fullorðnir miðað við unga íhaldsmenn. Reyndar getur verið að ég hafi misskilið Blað ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi" eitthvað því það má vera að blaðið hafi aðeins verið forsíðan og ekkert annað. Þá vitum við a.m.k. að ungir sjálfstæðismenn í Kópavogi virðast ekki hafa ýkja margt fram að færa!
Enn fletti ég blaðinu og á bls. 11 er grein eftir Ármann á Alþingi. Ég hafði ekki nennu til að lesa greinina en ég velti fyrir mér myndefninu með greininni sem hefur fyrirsögnina: Allir verða að standa saman að endurreisn. Með greininni fylgir mynd af Ármanni, sem við mína fyrstu sýn virtist standa á einhverju hamfarasvæði en við nánari athugun stendur hann í grunni húsbyggingar og í myndatexta segir að greinarhöfundur sé í eftirlitsferð sem bæjarfulltrúi í Kópavogi." Nú er ég að vísu bara varabæjarfulltrúi, en ég hef hvergi séð í starfslýsingu að bæjarfulltrúar ættu að fara í sérstakar eftirlitsferðir" um bæinn!
Lögin mín
Eldri færslur
- Júní 2012
- Febrúar 2012
- Apríl 2011
- Desember 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Apríl 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Myndasíða
Heimasíðan mín
- www.ingibjorg.net
- Völvuspá Dollýar 2011 Spá Dollýar dulrænu fyrir árið 2011
- Lystauki - Veisluþjónusta Besta veisluþjónusta landsins. Fersk og framandi en þó hefðbundin. Mjög gott.
Bloggvinir
- Anna Einarsdóttir
- Birna Steingrímsdóttir
- Bragi Sigurðsson
- Elfur Logadóttir
- Eygló
- Gudrún Hauksdótttir
- Guðrún Jóna Jónsdóttir
- Gísli Tryggvason
- Helga Kristjánsdóttir
- Jenný Stefanía Jensdóttir
- Jón Svavarsson
- Karl Gauti Hjaltason
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Linda Samsonar Gísladóttir
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Magnús Helgi Björgvinsson
- Margrét Júlía Rafnsdóttir
- Marinó G. Njálsson
- Pjetur Hafstein Lárusson
- Samfylkingin í Kópavogi
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Sigurður Haukur Gíslason
- Sigurður Sigurðsson
- Smári Jökull Jónsson
- Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)
- TARA
- Unnur G Kristjánsdóttir
- Veiðifélagið
- Ólafur Þór Gunnarsson
- Þórarinn M Friðgeirsson
- Sigþrúður Þorfinnsdóttir
- Valdimar H Jóhannesson