Leita í fréttum mbl.is

Sjálfssýn sjálfstæðismanna

Eftir erfiðar draumfarir í kjölfar sýningar RUV á viðtali BBC við fyrrverandi forsætisráðherra, þá átti ég dálítið bágt með að renna yfir Voga, blað sjálfstæðismanna í Kópavogi, sem barst til mín á föstudagsmorgun. Þar sem blaðið var borið út með Fréttablaðinu þá kippti ég því með mér í vinnuna, hálf fegin að það hafi aldrei komið inná heimili mitt Wink.

Miðað við forsíðu og baksíðu blaðsins þá held ég að litli framsóknarmaðurinn í bæjarstjórn Kópavogs sé genginn til liðs við íhaldið því þetta er í annað eða þriðja sinn á skömmum tíma sem hann prýðir forsíðu blaðsins en hana hefur foringinn venjulega átt einn. Það vakti líka furðu mína að íhaldsflokkurinn í Kópavogi er farinn að setja mynd af Steingrími J. á forsíðuna hjá sér og ekki nóg með það hún er birt aftur á blaðsíðu 3. Ef ég þekki rétt til í auglýsingabransanum þá eru þessar tvær síður, ásamt baksíðunni „verðmætustu" síður blaðsins og þykir mér skjóta nokkuð skökku við að íhaldsflokkur Kópavogs skuli vera farinn að hampa formanni VG með þessum hætti.

En þegar inní blaðið er komið tekur ekki skárra við. Íhaldsflokkurinn grobbar sig af „Drengjunum okkar" í spurningaþættinum Útsvari. Ekki þar fyrir að drengirnir þrír sem þar taka þátt fyrir hönd Kópavogs, eru allra góðra gjalda verðir, en ég verð að spyrja mig hvort það sé virkilega svo, í 30.000 sálna samfélagi eins og Kópavogi, að þar skuli ekki finnast ein einasta kona sem er þess verðug að taka þátt í þessum spurningaleik í sjónvarpinu? Þar fyrir utan virðast „drengirnir okkar" alls ekki hafa gaman að þættinum og sjást sjaldan brosa, sem er afar ólíkt keppendum annarra sveitarfélaga og er þá Garðabær með talinn.

Þó ég hafi aðeins verið komin á blaðsíðu 3 þá sýna íhaldsmenn í Kópavogi ótrúlega kvenfjandsamlega skoðun sína, ekki aðeins með því að hampa „drengjunum okkar" heldur einnig með því að tala um að bæjarfeður Kópavogs hugsi meira um framtíðina en fortíðina. Hvaða bæjarfeður eru það? Eru það Gö og Gokke eða eru það allir karlarnir í bæjarstjórninni? Hvers eiga þær Guðríður, Sigurrós og Áshildur að gjalda að vera ekki taldar með? Ekki geta þær talist bæjarfeður Kópavogs!

Til að skemmta skrattanum enn meir slá þeir íhaldsmenn í Kópavogi upp mynd af varaformanni flokksins, konu sem ég hef miklar mætur á, gangandi yfir það sem virðist sviðna jörð en horfandi kankvís framan í linsu ljósmyndarans. Hvort þetta sé einhver tákngerving stjórnunar íhaldsflokksins í ríkisstjórn síðustu 18 ár, þar sem ekkert virðist eftir nema auðnin ein, veit ég ekki, en það vakti sérstaka athygli mína hversu bakland varaformannsins var fátæklegt.

Sennilega hafa íhaldsmenn ætlað að skemmta mér þegar þeir settu Týsblaðið, blað ungrasjálfstæðismanna inní Voga. Það er alltaf gaman að vita hvað unga fólkið er að hugsa og hvernig þau horfa til framtíðar. Meðal greinarhöfunda í Týsblaðinu eru þeir Jón Gunnarsson alþingismaður, Jóhann Ísberg, formaður Sjálfstæðisfélags Kópavogs og Sigurður Þorsteinsson, sem ekki lætur getið hvaða titil hann hefur en mig grunar að hann bloggi sem óður maður á Moggablogginu. Jóhann er fæddur árið 1959, Jón Gunnarsson árið 1956 og ef Sigurður er sá sem ég held þá er hann fæddur í kringum 1956 og skrifar á http://ziggi.blog.is. Þessir þrír eru því furðu fullorðnir miðað við unga íhaldsmenn. Reyndar getur verið að ég hafi misskilið „Blað ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi" eitthvað því það má vera að blaðið hafi aðeins verið forsíðan og ekkert annað. Þá vitum við a.m.k. að ungir sjálfstæðismenn í Kópavogi virðast ekki hafa ýkja margt fram að færa!

Enn fletti ég blaðinu og á bls. 11 er grein eftir Ármann á Alþingi. Ég hafði ekki nennu til að lesa greinina en ég velti fyrir mér myndefninu með greininni sem hefur fyrirsögnina: Allir verða að standa saman að endurreisn. Með greininni fylgir mynd af Ármanni, sem við mína fyrstu sýn virtist standa á einhverju hamfarasvæði en við nánari athugun stendur hann í grunni húsbyggingar og í myndatexta segir að greinarhöfundur sé í „eftirlitsferð sem bæjarfulltrúi í Kópavogi." Nú er ég að vísu bara varabæjarfulltrúi, en ég hef hvergi séð í starfslýsingu að bæjarfulltrúar ættu að fara í sérstakar „eftirlitsferðir" um bæinn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband