Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Íslenska konan

Í kvöld leit ég inná bloggsíðu Láru Hönnu og sá þar tvö myndbönd frá Alþingi. Annað þeirra var dæmigert fyrir skortinn á hæfileikum sumra alþingismanna en hitt er dæmigert fyrir kraftinn, kjarkinn og þorið í íslensku konunni sem Ómar orti svo fallega um fyrir nokkrum árum. Ragnheiður Ólafsdóttir varaþingmaður sýndi það og sannaði í þinginu að hún er þessi dugmikla íslenska kona sem Ómar orti um.

Íslenska konan
Ómar Ragnarsson 

Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.
Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér.
Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Hún er íslenska konan sem ól þig og þér helgar sitt líf.

Með landnemum sigldi hún um svarrandi haf.
Hún sefaði harma, hún vakti er hún svaf.
Hún þerraði tárin hún þerraði blóð.
Hún var íslenska konan sem allt á að þakka vor þjóð.

Ó, hún var ambáttin hljóð
hún var ástkonan rjóð
hún var amma svo fróð.

Ó, athvarf umrenningsins
inntak hjálpræðisins
líkn frá kyni til kyns.

Hún þraukaði hallæri, hungur og fár.
Hún hjúkraði og stritaði gleðisnauð ár
Hún enn í dag fórnar sér endalaust má.
Hún er íslenska konan sem gefur þér allt sem hún á.

Ó, hún er brúður sem skín
Hún er barnsmóðir þín.
Hún er björt sólarsýn.

Ó, hún er ást, hrein og tær
Hún er alvaldi kær.
Eins og Guðsmóðir skær.

Og loks þegar móðirin lögð er í mold
þá lýtur þú höfði og tár falla á fold.
Þú veist hver var skjól þitt þinn skjöldur og hlíf.
Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.

En sólin hún hnígur og sólin hún rís.
Og sjá þér við hlið er þín hamingjudís,
sem ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.


Siðareglum neytt uppá bæjarfulltrúa með valdi

Fyrir um hálfu ári kom bæjarstjóri Kópavogs með þá hugmynd fram á fundi bæjarráðs Kópavogs að semja skyldi siðareglur fyrir bæjarfulltrúa og æðstu stjórnendur bæjarins. Þessi tillaga kom mér þægilega á óvart og sannast sagna átti ég ekki von á þessari hugmynd úr þessari átt!

Þegar bæjarráðsfulltrúar fóru að velta fyrir sér hvernig ætti að standa að gerð siðareglana kom í ljós að það átti að vinna þær að mestu á skrifstofu bæjarstjóra og síðan að leggja þær fram til samþykktar. Þetta er ekki sérlega lýðræðisleg en þó venjuleg stjórnsýsla undir stjórn þessa bæjarstjóra. Sem von er þá var hugmynd bæjarstjórans vel tekið en þó settir varnaglar við framkvæmd verksins og á fundi bæjarráðs í september var sérstaklega bókað það álit fulltrúa minnihlutans í bæjarstjórn Kópavogs að slíkar siðareglur ætti að inna í góðri sátt allra bæjarfulltrúa. Bæjarstjórinn bókaði af sinni alkunnu hógværð að "afgreiðsla og fullvinnsla siðareglna verður á höndum bæjarráðsfulltrúa, sem eru kjörnir fulltrúar."

Það gerist síðastliðinn fimmtudag að siðareglurnar eru lagðar fram "fullskapaðar" í bæjarráði og teknar til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í dag. Þar neitaði bæjarstjórinn að hlusta á röksemdir minnihlutans um að það væri hentugra að reglur sem þessar væru unnar í góðri sátt allra bæjarfulltrúa. Reglunum var vísað til síðari umræðu án þess að til kæmu nokkur sáttatónn um það að minnihlutaflokkarnir kæmu að gerð þeirra á einn eða annan hátt.

Nú veltir e.t.v. einhver fyrir sér af hverju ég set orðið "fullskapaðar" í gæsalappir. Það er þó einföld skýring á því. Reglurnar eru fullskapaðar svo langt sem þær ná, en í þær vantar marga þætti s.s. varðandi það að kjörnir bæjarfulltrúar geri grein fyrir hagsmunatengslum sínum við einkafyrirtæki og almenningshlutafélög og því hvaða fjárhagslegu hagsmuna þeir gætu átt í ýmsum málum. Þá er orðalag í þeim reglum sem meirihlutinn lagði fram í bæjarstjórn í dag til skammar svo ekki sé meira sagt. Stundum hefur verið sagt að orðalag sé tyrft, illskiljanlegt og erfitt yfirferðar, slíkar samlíkingar eiga sannarlega við um það skjal sem lagt var fyrir bæjarstjórn í dag.

Því miður virðist það því verða þannig að það verður Gunnars leið eða engin leið.  Siðareglur bæjarfulltrúa og æðstu stjórnenda bæjarins verður troðið uppá bæjarstjórn með meirihlutavaldi. Er það miður því reglur sem þessar geta hæglega orðið til þess að efla samstöðu og samvinnu bæjarfulltrúa og æðstu stjórnenda bæjarins. Ekki veitir af á þessum síðustu og verstu tímum.


Vetrarsól

Hvers virði er allt heimsins prjál 
ef það er enginn hér
sem stendur kyrr
er aðrir hverfa á braut.
Sem vill þér jafnan vel
og deilir með þér gleði og sorg
þá áttu minna en ekki neitt
ef þú átt engan vin.

Hvers virði er að eignast allt
í heimi hér
en skorta þetta eitt
sem enginn getur keypt.
Hversu ríkur sem þú telst
og hversu fullar hendur fjár
þá áttu minna en ekki neitt
ef þú átt engan vin.

Það er komin vetrartíð
með veður köld og stríð.
Ég stend við gluggann
myrkrið streymir inní huga minn.
Þá finn ég hlýja hönd
sál mín lifnar við,
eins og jurt sem stóð í skugga
en hefur aftur litið ljós.
Mín vetrarsól.

 


Ég - nei ég. Ég - nei ég!!

Það væri fyndið að lesa fréttir af Alþingi í dag, og það verður sjálfsagt fyndið í framtíðinni, en í dag er ástandið þannig að maður er algjörlega forviða á því að kjörnir þingmenn skuli eyða dýrmætum tíma sínum og þjóðarinnar í marklaust þrátt um það hver samdi hvaða frumvarp og hver ekki!

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra lagði í dag fram frumvarp til laga um greiðsluaðlögun, frumvarp sem lengi hefur verið beðið eftir. Nú bregður svo við að íhaldsflokkurinn og bændaflokkurinn fyrrverandi leggja fram frumvarp um sama efni á þingi í dag. Ef eitthvað er að marka íhaldsmenn þá er frumvarp þeirra og frumvarp dómsmálaráðherra nánast eins. Ef svo er, af hverju þurftu þeir að leggja fram annað frumvarp? Af hverju studdu íhaldsmenn ekki bara frumvarp Rögnu ef það var "nánast" eins og þeirra frumvarp? Af hverju þarf að eyða tíma Alþingis í það að þrátta um hver gerði hvað hvenær, hvers vegna og hvernig?

Reyndar verð ég að segja það bændaflokknum til hróss að þeirra þingmaður sem lagði frumvarpið fram hitti sennilega naglann á höfuðið þegar hann sagði að  "ræður sjálfstæðismanna um frumvarpið virtust vera keppni um það hver pissaði lengst og hver hefði ljósritað hraðast. Hins vegar væri ljóst, að í þeirri keppni hefðu framsóknarmenn vinninginn því þeirra frumvarp hafi komið fram fyrst á Alþingi." 


Katrín Jakobsdóttir

kom mér til að brosa í dag LoL

Bréfaskriftir opinberra starfsmanna

Mikið var ég ánægð með bréfaskriftir sem forsætisráðherra stóð fyrir í gær. Jóhanna Sigurðardóttir er ekkert að hika, bíða eða velta ástandinu fyrir sér. Hún er með puttann á púlsinum, finnur og veit að eitt af því sem þarf til að íslensk þjóð nái sátt við bankakerfið, rétt eins og erlendir aðilar, er að skipta út úr efsta lagi Seðlabankans. Jóhanna gerir sér líka grein fyrir því að það eitt að skipta út stjórnendunum er ekki nóg til þess að efla trú almennings og alþjóðasamfélagsins. Það þarf meira til, það þarf alvarlegar umbætur í stjórnkerfinu og Jóhanna ætlar ekki að láta sitt eftir liggja þar.

Það er trú mín að sagan muni fara mildilegum höndum um Jóhönnu Sigurðardóttur, hún er vinsælasti stjórnmálamaður Íslands nú um stundir og hennar gjörðir hafa jafnan verið í þágu fólksins í landinu. Hennar tími er kominn. Áfram Jóhanna!


Sunnudagur til sigurs - fyrir íslenska þjóð

Ný ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttir fær mínar bestu óskir um gott gengi og farsæld á þeim stutta tíma sem henni er ætlað að stjórna. Það er ljóst að ríkisstjórninni bíða ærin verkefni, verkefni sem eru af stærðargráðu sem engin önnur ríkisstjórn hefur þurft að takast á við. Það þarf því duglegt og fullfrískt fólk til starfa og ég met það við nöfnu mína, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að hafa tekið þá afstöðu að hugsa fyrst um sjálfa sig, koma sér til heilsu og huga síðan að flokknum sínum í aðdraganda kosninga í lok apríl.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þann kraft sem býr í þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, hann er ljós öllum þeim sem nokkru sinni hafa hlýtt á þessi tvö flytja ræður af þeim eldmóði og krafti sem einkenna þau bæði. Það er ekkert launungarmál að ég hef meiri trú á forsætisráðherranum, hún hefur margsinnis sýnt það og sannað að hún lætur verkin tala.  En ég verð í næstu 80 daga að treysta því að Steingrímur Jóhann hafi í ræðum sínum ekki einungis haft í frammi orðskrúð heldur að hann muni sýna það á næstu dögum að hann hafi líka kjark og þor til þess að takast á við verkefnin og framkvæma.

Í kvöldfréttum RUV kom síðan stuðningur úr óvæntri átt frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrrverandi menntamálaráðherra sem sagði að fátt óvænt og ekkert nýtt væri í stjórnarsáttmála og verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar. Það má því búast við því að hún, a.m.k., muni standa þétt við bakið á hinni nýju ríkisstjórn.

Verkefnaáætlun nýrrar ríkisstjórnar

Heimilin: Í þessum mánuði verði lögð fyrir Alþingi frumvörp um greiðsluaðlögun fyrir heimilin í landinu. Einnig greiðslujöfnun gengistryggðra lána og frestun nauðungaruppboða í allt að sex mánuði með reynt verður að tryggja búsetuöryggi. Gjaldþrotalögum breytt skuldurum í hag. Fólk megi nýta hluta af séreignarsparnaði til að mæta brýnum fjárhagsvanda. Bankarnir nýti öll úrræði sem íbúðalánasjóður hafi. Reglum Lánasjóðs námsmanna verður breytt þannig að fólk geti stundað lánshæft nám í stað þess að fara á atvinnuleysisbætur.

Atvinnulífið: Lagt verður í vinnuaflsfrekar framkvæmdir og þjóðhagslega hagkvæm verkefni. Frekari hugmyndir verða kynntar fljótlega. Engin ný áform um álver verði á dagskrá ríkisstjórnarinnar. Útlánageta byggðastofnunar verði efld. Þá verði reynt að örva fjárfestingu innlendra og erlendra aðila. Brýnt sé að verðmati á eignum nýju bankanna verði hraðað og að framkvæmt verði bráðabirgðauppgjör í bönkunum. Ríkisbönkunum verði sett útlánamarkmið fyrri árið 2009 til að örva hagkerfið.

Efnahagsmál: Unnið verði í náinni í samvinnu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Skipt verði um yfirstjórn í Seðlabankanum. Einn seðlabankastjóri verði ráðinn á faglegum forsendum. Sérstakt peningastefnuráð beiti stjórntækjum bankans. Tekið verður saman yfirlit um lántökur og heildarskuldbindingar þjóðarbúsins. Alþjóðlegir sérfræðingar ráðnir til að aðstoða við samninga á alþjóðavettvangi vegna innistæðutrygginga og samninga við erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

Lýðræðisumbætur og breytingar á stjórnarskrá: Sameign þjóðarinnar á auðlyndum verði tryggð og réttur til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki þurfi að rjúfa þing til að breyta stjórnarskrá. Hægt verði að breyta henni með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá verði haldið Stjórnlagaþing. Kosningalögum breytt og persónukjör heimilað í kosningum til Alþingis. Þá verði gerðar breytingar á skipun hæstaréttardómara og lögum um ráðherraábyrgð.

Evrópumál: Evrópunefnd falið að ljúka úttekt á viðhorfum hagsmunaaðila til ESB og framtíðarhorfum í gjaldmiðlamálum. Skýrslu skilað 15. apríl 2009. Aðild að ESB verði aldrei ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband