Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
11.1.2008
Metnaðarfullir Héraðsbúar
Í dag var mér sá sómi sýndur að vera boðið austur á Fljótsdalshérað til að taka þátt í vígslu þriggja fótboltavalla. Með mér í för var fræðslustjóri Knattspyrnusambands Íslands, Sigurður Ragnar Eyjólfsson, og fyrir austan tók landshlutafulltrúi KSÍ á Austurlandi, Guðmundur Ingvason á móti okkur.
Fyrsta vígslan fór fram við Hallormsstaðaskóla í dálitlu rökkri á einstaklega fallegu stæði fyrir sparvöll, sem samkvæmt upplýsingum Sigga Ragga, var völlur númer 110 sem vígður er í sparkvallaátaki KSÍ. Nemendur Hallormsstaðaskóla, sem eru ríflega 50 talsins, voru að sjálfsögðu mættir út á völl og voru ákaflega kát og glöð með að hafa fengið þennan glæsilega völl til afnota. Það var gaman að hitta þennan hóp fyrir, krakkarnir eru ófeimin og dugleg að fylgjast með og sérstaka athygli vakti ein lítil hnáta sem spurði að því hvers vegna það ætti að ganga inná völlinn í gegnum markið. Af hverju er ekki hlið? spurði sú stutta. Því miður held ég að hún hafi ekki fengið fullnægjandi svar við spurningu sinni enda liggja svör við svona góðum spurningum bara hjá sparkvallasérfræðingum landsins, og þeir voru ekki staddir á Hallormsstað.
Næsti sparkvöllur var við Brúarásskóla, þar eru einungis tæplega 40 nemendur í skólanum en sá skóli er sérstaklega beint inná íþróttir og njóta krakkarnir þar þess út í ystu æsar. Það var fín stemming við Brúarás og greinilegt að krakkarnir kunna vel að meta sparkvöllinn, allir tóku þátt í vígslu vallarins og allir léku þar knattspyrnu í skamma stund eftir að vígslunni lauk. Myndin hér til vinstri er frá vígslu vallarins. Það sést vel á myndinni að krakkarnir létu smávegis snjó og örlítið frost ekkert á sig fá og þeir allra hörðustu menn voru bara léttklæddir í stuttermabol og sumir aðrir voru berleggjaðir.
Eftir vígslu vallarins við Brúarásskóla var komið að glæsilegum gervigrasvelli við Fellaskóla í Fellabæ, skammt utan Egilsstaða. Þar er völlur í fullri stærð með besta mögulega búnaði, upphitaður og með góðri flóðlýsingu. Greinilegt er að Héraðsbúar eru ákaflega stoltir af framkvæmdum við vellina og mega þeir svo sannarlega vera það. Þarna er allt eins og best verður á kosið. Héraðsbúar fjölmenntu við vígslu vallarins, sjónvarpið mætti á staðinn til að festa atburðinn á filmu og eftir að allir flokkar Íþróttafélagsins Hattar höfðu fengið tækifæri til að leika á vellinum var stórfengleg flugeldasýning eins og þær gerast bestar. Myndin hér til hægri sýnir þegar völlurinn var tekinn í notkun.
Ég vil nota tækifærið hér og óska Héraðsbúum innilega til hamingju með vellina þrjá. Þeir sýna að það er stórhugur og metnaður meðal sveitarstjórnarmanna og íþróttafólks á Héraði og eru örugglega margir sem líta börnin fyrir austan öfundaraugum vegna þeirrar frábæru knattspyrnuaðstöðu sem er í sveitarfélaginu þeirra.
Í gærkvöldi var haldinn fundur í Hamraborginni þar sem gestir voru fjórir þingmenn Samfylkingarinnar, þau Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Lúðvík Bergvinsson þingflokksformaður, Gunnar Svavarsson, oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi og Árni Páll Árnason. Eftir að þau fjögur höfðu flutt stutt ávarp til fundarins var fundarmönnum, sem voru fjölmargir, boðið að bera fram spurningar eða segja sitt álit á framgöngu Samfylkingarinnar það sem af er kjörtímabilinu.
Almennt má segja að fundarmenn hafi verið ánægðir með störf þingmanna okkar en hjá langflestum var sterkur undirtónn þar sem þingmennirnir voru brýndir og hvattir til að verða ekki þær undirlægjur Sjálfstæðisflokksins sem framsóknarmenn voru þann tíma sem þessir tveir flokkar voru í ríkisstjórn. Guðmundur Jónsson flutti sannkallaða eldmessu yfir þingmönnunum og minnti þá á að Samfylkingin er fyrst og fremst jafnaðarmannaflokkur, þar er okkar erindi brýnast.
Ég var mjög ánægð með fundinn og verð að segja það flokknum mínum til hróss að það er gaman að sjá hversu öflugt innra starf hans er og hversu duglegir þingmennirnir eru að mæta á fundi flokksfélaganna víða um land. Við, hinir almennu flokksmenn, fundum vel fyrir því í gær að okkar skoðanir skipta máli og að þingmennirnir hlusta á okkar málflutning. Það er gott að vera ekki bara mikilvægur hlekkur í flokksstarfinu þegar kosningar eru í nánd heldur alltaf og allsstaðar.
6.1.2008
Pressa
Pressa, nýr íslenskur spennusería sem sýndur er á Stöð 2, er að mínu viti algjör snilld! Fyrsti þátturinn, sem var sýndur milli jóla og nýárs var í boði Byrs sparisjóðs og ég datt beinlínis inní þáttinn. Hraðinn er mikill, efnisþráðurinn þannig að maður fylgir honum alveg þó hann sé mátulega dulúðlegur og svo er þátturinn meinfyndinn. Gestur er t.d. algjörlega óborganlegur karakter.
Það hefur aldrei legið fyrir mér að kaupa mér áskrift að Stöð 2. Ég hef hins vegar haft áskrift að Sýn um nokkurt skeið, enda fæ ég þar ýmsa afþreyingu sem mér líkar vel, s.s. meistaradeildina í fótbolta, golf o.fl. Fyrsti þátturinn af Pressu ýtti nokkuð við mér. Mér finnst þetta spennandi og í kvöld brá ég mér bæjarleið til að sjá þátt númer tvö. Hann var ferðarinnar virði og ég velti því mikið fyrir mér hvort ég eigi að vera í heimsóknum hjá vinum og vandamönnum, sem kaupa Stöð 2, á sunnudagskvöldum eða hvort ég eigi að kaupa sjálf áskrift!
Að kaupa áskrift eða kaupa ekki áskrift að Stöð 2, þar er efinn!
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.1.2008
Þetta hefur ekki alltaf verið svona
Það er ánægjulegt að heyra að þær þrjár íþróttakonur, sem urðu efstar í kjöri íþróttamanns ársins 2007 (og þar á meðal Íþróttamaðurinn sjálfur), telji að ekki sé munur á aðbúnaði kynjanna til íþróttaiðkunar í þeirra félögum. En þetta hefur þó því miður alls ekki alltaf verið þannig.
Kunnátta mín um æfingaaðstöðu í sundi og badminton nær ekki langt en mig grunar þó að þar sé málum þannig farið að aðstaðan hafi að jafnaði verið svipuð undanfarin ár og áratugi. Þó hefur e.t.v. mátt finna mismun í fjölda æfinga eða tímasetningu þeirra eftir því hvort konur eða karlar voru á æfingum.
En þeir sem hafa fylgst með knattspyrnu kvenna um nokkurt skeið og muna einhver ár aftur í tímann gætu t.d. rifjað upp þegar leikmenn Vals mættu til leiks íklæddar gömlum Vals búningum til þess að knýja á um að fá nýja og samstæða búninga. Ég minnist þess einnig að hafa þurft að fylgja mínu liði, Breiðabliki, í Vesturbæinn til leiks við KR, þar sem leikurinn fór fram á mölinni en karlalið KR var á æfingu á aðalvellinum á sama tíma. Ég man eftir svipuðu á Valsvelli þar sem stelpurnar léku á þríhyrninginum en strákarnir æfðu á aðalvellinum.
Svo muna allar knattspyrnukonur fæddar fyrir 1975 eftir grastakkamálinu ógurlega þar sem konum var stranglega bannað, með reglugerð KSÍ, að leika knattspyrnu í grastakkaskóm.
Þessu breyttu knattspyrnukonurnar sjálfar, undir forystu Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna HKK, og lögðu þannig grundvöllinn að því að í dag er í flestum félögum ekki gerður greinarmunur á aðstöðu karla og kvenna til iðkunar knattspyrnu. Knattspyrnukonur nútíðarinnar njóta góðs af starfi þessara kjarnakvenna og við sem stóðum í eldlínunni horfum með velþóknun á og njótum þess að sjá hinar gríðarmiklu framfarir sem orðið hafa.
Ekki gert upp á milli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Merkilegt sem það nú er þá þótti mér Brekkukotsannáll strax skemmtileg bók. Hún var á lista yfir lesefni í MK í gamla daga og fyrirfram var ég viss um að bókin yrði leiðinleg og erfið yfirferðar. Sú reyndist ekki raunin. Ég var heppin að því leyti að bekkjarfélagar mínir voru staðráðnir í að gera bókina skemmtilega og hópavinnan okkar snerist talsvert um einmitt það.
Það þurfti þó ekki mikið til.
Nú fer að líða að því að 25 ár séu frá því ég útskrifaðist úr MK, ég hef lesið bókina oft frá þeim tíma. Mér finnst hún gera mér mikið gagn, hún er svo mannbætandi. Í bókinni skýrir Halldór heiminn eins og hann var á sínum tíma. Hann leggur alla flóruna undir, allt frá fátækasta fólkinu til þess sem þótti ríkast og hafði jafnvel flutt úr landi og "meikað það". Bókin kennir manni að í raun eru allir eins fyrir Guði og Birni í Brekkukoti. Í Brekkukoti ríkti sá andi að þar voru allir hafðir í mannatölu, að ég segi ekki höfðíngjatölu, sæll og fátækur, dýrlíngur og tukthúsmatur, að drykkjumönnum undanskildum ...
Meðan ég skrifa þessi orð þá rennur upp fyrir mér sú spurning hvort þessi bók hafi ekki öðru fremur gert mig að jafnaðarmanni? Ef svo er þá á ég bókinni, Halldóri Laxness og Birni í Brekkukoti margt að þakka.
Brekkukotsannáll gefinn út á ný í Bandaríkjunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.1.2008
"FÚLEGGIÐ" Helga Sigrún Harðardóttir
Makalaust hvað Framsóknarmenn eru fúlir þessa dagana. Þeir þola það illa að hafa ekki ítök og að vera utan sængur Sjálfstæðisflokksins. Þetta sést best í fýlukasti sem Helga Sigrún Harðardóttir er í hér á Moggablogginu. Hún fer mikinn gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu og Samfylkingunni, eys úr skálum fýlu sinnar en lætur þó ekki svo lítið að leyfa fólki að rökræða við sig um skoðanirnar. Þetta er dæmigert fyrir Framsóknarmenn sem nú um stundir eru að verða eins og minkabúið hjá bóndanum sem minnkaði og minnkaði þar til það hvarf. Það verða enda örlög þessa fúllynda flokks, að hverfa! Það er gott.
Það er af mörgu að taka hjá "fúlegginu" Helgu Sigrúnu en miðað við síðustu færslu hennar þá kann hún hreinlega ekki að lesa. Hún segir m.a. ... og nú vitna ég orðrétt í bloggfærslu hennar úr Borgarnesræðu foringjans:
c. "... að hún (Samfylkingin) verði þetta raunverulega mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn og að við sem störfum í Samfylkingunni rísum undir þeirri ábyrgð sem er því samfara."
-Í ljósi þess að í Kryddsíldinni var Ingibjörg afar hneyksluð á því að Steingrími J. skyldi detta það í hug að flokkurinn skilgreindi sig og stefnu sína í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn. Og talið um tvíburaturnana sem hún kom inn á verður jafnframt mjög sérkennilegt í þessu ljósi einnig. Ég er ekki viss um að kjósendur Samfylkingarinnar hafi áttað sig á að talið um turnana tvo hefði verið tal um að flytja með sitt hafurtask inn í Valhöll og gera stór stefnumál Sjálfstæðismanna að sínum?
Í fyrsta lagi þá segir Ingibjörg í ræðu sinni að hún vilji að Samfylkingin verði raunverulegt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn í orðunum mótvægi við felast ekki orðin andstaða við ... Kjósendur Samfylkingarinnar hafa alveg áttað sig á því að þó turnarnir séu sannarlega tveir í íslenskum stjórnmálum þá er svo sem ekkert sem kemur í veg fyrir samvinnu þeirra. Þar ræður mestu traust milli þeirra sem stjórna á hverjum tíma og hvort hvor flokkur um sig sé sáttur við að gefa eftir þannig að ásættanlegt verði fyrir báða aðila. Þannig er það í samskiptum tveggja flokka, þó Framsóknarflokkurinn hafi verið fastur UNDIR hælnum á Sjálfstæðisflokknum í allan þennan tíma þá þýðir það ekki að Samfylkingin muni vera þar. Hitt sem Helga Sigrún tiltekur í fúllyndi sínu (þ.e. um stöðuveitingar, sem er sérfræði Framsóknarmanna) er ekki svara vert en henni til upplýsingar þá ER Samfylkingin raunverulegt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, hefur verið það og mun verða það áfram. Í dag eru þessir tveir flokkar hins vegar samstarfsflokkar og það er barasta harla gott.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tvær sannkallaðar draumadrottningar hafa yfirgefið Klakann eða eru á leið yfir hafið nú í janúar. Þarna er ég að tala um söngdrottningar, hæfileikadömurnar og frænku mína og vinkonu Maríu mína og Gretu Sam.
María, systurdóttir mín, er söngkona af guðs náð, auk þess sem hún hefur nú aðeins stúderað sönginn sinn. Hún er hefur líka lokið einleikaraprófi í klarinettuleik og er nú við nám og störf í Þýskalandi. Hún fór utan í haust en er væntanleg aftur, alkomin, í febrúar (vonandi fyrr segir hún sjálf). Það var gott að fá hana heim um jólin en hún er svo mikið knús og krús að það hálfa væri nóg. Það sést best á myndinni hér að neðan:
Svo er hún Gretgus, Gretkó, Gismó, eða bara Greta Sam að fara til Ammmeríku þann 7. janúar þar sem hún ætlar að læra og spila smá fótbolta. Gretkus er vinkona mín og hún er líka fjári góð söngkona, svo er hún líka leikkona, hún er fótboltakona og fimleikakona og svo var hún líka frjálsíþróttakona og matráðskona og svo margt fleira. Hún er líka knús og sér sjálf um að setja inn myndir af sér og sínum nánustu en eftir því sem ég reikna þá má finna 439 myndir af henni og hennar fólki á tenglinum hér á undan.
En ég má ekki gleyma Pjakki Breiðfjörð, sem siglir nú sinn sjó í Karabíska hafinu og lemur húðir af miklum móð. Pjakkur, sem heitir reyndar Ellert Sigþór Breiðfjörð Sigurðarson, er bróðursonur minn og gríðarlega flottur trommari. Hann siglir nú um höfin á skemmtiferðaskipi. Hefur alið manninn við Miðjarðarhafið en flutti sig og skipið fyrir skemmstu yfir til Karabíska hafsins, þar sem hann hefur m.a. leikið jólasvein og eitthvað annað sem ég kann ekki að nefna, hann var a.m.k. íklæddur bleyju og öryggisnælum á gamlárskvöld! Pjakkur er líka sætasti strákurinn á skipinu ... eruð þið ekki sammála því?
2.1.2008
Bitlaust skaup
Mér finnst áramótaskaupið í ár hafa verið heldur bitlaust. Kannski er ég bara svona illa innrætt en mér fannst vanta allan kvikindisskap í skaupið og stundum var full djúpt á gríninu. Mér varð hugsað til allra þeirra sem aldrei sáu einn einasta þátt af Lost. Þeir hafa ekki skilið baun um hvað málið snerist með þessa villuráfandi sauði sem voru rauði þráðurinn í gegnum skaupið. Auðvitað voru nokkur fyndin atriði í skaupinu, ég hló t.d. í fyrstu tvö skiptin sem það var gert grín að vini mínum Samúel Erni, og eins fannst mér Árni Johnsen fyndinn í fyrsta skiptið sem hann var að grafa göngin. Fyndnust fannst mér hins vegar sýnilega lögreglan, annað var ekki sérlega spaugilegt að mínu mati. Eitthvað vantaði líka uppá frumleikann fyrst höfundur skaupsins þurfti að endurtaka sama brandarann aftur og aftur í gegnum skaupið eins og t.d. með Samma, lögguna og Árna Johnsen.
Þá fannst mér höfundurinn missa algjörlega af því sem var hvað fyndnast á árinu og hefði verið hægt að nýta í tætlur, s.s. "Til í allt án Villa" og "Það var ekkert mál að viðhalda meirihlutanum, Björn Ingi þurfti bara að vera sammála okkur!" Svo hefði verið hægt að gera grín að fleiri stjórnmálamönnum, hvar var t.d. Jón Sigurðsson (hann er kannski löngu gleymdur) ... Kristinn H. Gunnarsson á alþingi fyrir þriðja flokkinn.
En svo ég haldi því til haga, mér fannst atriðið með GIB á nektarbúllunni dálítið fyndið, en það er samt orðið svakalega þreytt og ófrumlegt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2008
Gleðilegt nýtt ár
og takk fyrir það gamla.
Lögin mín
Eldri færslur
- Júní 2012
- Febrúar 2012
- Apríl 2011
- Desember 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Apríl 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Myndasíða
Heimasíðan mín
- www.ingibjorg.net
- Völvuspá Dollýar 2011 Spá Dollýar dulrænu fyrir árið 2011
- Lystauki - Veisluþjónusta Besta veisluþjónusta landsins. Fersk og framandi en þó hefðbundin. Mjög gott.
Bloggvinir
- Anna Einarsdóttir
- Birna Steingrímsdóttir
- Bragi Sigurðsson
- Elfur Logadóttir
- Eygló
- Gudrún Hauksdótttir
- Guðrún Jóna Jónsdóttir
- Gísli Tryggvason
- Helga Kristjánsdóttir
- Jenný Stefanía Jensdóttir
- Jón Svavarsson
- Karl Gauti Hjaltason
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Linda Samsonar Gísladóttir
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Magnús Helgi Björgvinsson
- Margrét Júlía Rafnsdóttir
- Marinó G. Njálsson
- Pjetur Hafstein Lárusson
- Samfylkingin í Kópavogi
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Sigurður Haukur Gíslason
- Sigurður Sigurðsson
- Smári Jökull Jónsson
- Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)
- TARA
- Unnur G Kristjánsdóttir
- Veiðifélagið
- Ólafur Þór Gunnarsson
- Þórarinn M Friðgeirsson
- Sigþrúður Þorfinnsdóttir
- Valdimar H Jóhannesson