Leita í fréttum mbl.is

Metnaðarfullir Héraðsbúar

Í dag var mér sá sómi sýndur að vera boðið austur á Fljótsdalshérað til að taka þátt í vígslu þriggja fótboltavalla. Með mér í för var fræðslustjóri Knattspyrnusambands Íslands, Sigurður Ragnar Eyjólfsson, og fyrir austan tók landshlutafulltrúi KSÍ á Austurlandi, Guðmundur Ingvason á móti okkur.

Fyrsta vígslan fór fram við Hallormsstaðaskóla í dálitlu rökkri á einstaklega fallegu stæði fyrir sparvöll, sem samkvæmt upplýsingum Sigga Ragga, var völlur númer 110 sem vígður er í sparkvallaátaki KSÍ. Nemendur Hallormsstaðaskóla, sem eru ríflega 50 talsins, voru að sjálfsögðu mættir út á völl og voru ákaflega kát og glöð með að hafa fengið þennan glæsilega völl til afnota. Það var gaman að hitta þennan hóp fyrir, krakkarnir eru ófeimin og dugleg að fylgjast með og sérstaka athygli vakti ein lítil hnáta sem spurði að því hvers vegna það ætti að ganga inná völlinn í gegnum markið. „Af hverju er ekki hlið?“ spurði sú stutta. Því miður held ég að hún hafi ekki fengið fullnægjandi svar við spurningu sinni enda liggja svör við svona góðum spurningum bara hjá sparkvallasérfræðingum landsins, og þeir voru ekki staddir á Hallormsstað.

BruarasNæsti sparkvöllur var við Brúarásskóla, þar eru einungis tæplega 40 nemendur í skólanum en sá skóli er sérstaklega beint inná íþróttir og njóta krakkarnir þar þess út í ystu æsar. Það var fín stemming við Brúarás og greinilegt að krakkarnir kunna vel að meta sparkvöllinn, allir tóku þátt í vígslu vallarins og allir léku þar knattspyrnu í skamma stund eftir að vígslunni lauk. Myndin hér til vinstri er frá vígslu vallarins. Það sést vel á myndinni að krakkarnir létu smávegis snjó og örlítið frost ekkert á sig fá og þeir allra hörðustu menn voru bara léttklæddir í stuttermabol og sumir aðrir voru berleggjaðir.

FellavollurEftir vígslu vallarins við Brúarásskóla var komið að glæsilegum gervigrasvelli við Fellaskóla í Fellabæ, skammt utan Egilsstaða. Þar er völlur í fullri stærð með besta mögulega búnaði, upphitaður og með góðri flóðlýsingu. Greinilegt er að Héraðsbúar eru ákaflega stoltir af framkvæmdum við vellina og mega þeir svo sannarlega vera það. Þarna er allt eins og best verður á kosið. Héraðsbúar fjölmenntu við vígslu vallarins, sjónvarpið mætti á staðinn til að festa atburðinn á filmu og eftir að allir flokkar Íþróttafélagsins Hattar höfðu fengið tækifæri til að leika á vellinum var stórfengleg flugeldasýning eins og þær gerast bestar. Myndin hér til hægri sýnir þegar völlurinn var tekinn í notkun.

Ég vil nota tækifærið hér og óska Héraðsbúum innilega til hamingju með vellina þrjá. Þeir sýna að það er stórhugur og metnaður meðal sveitarstjórnarmanna og íþróttafólks á Héraði og eru örugglega margir sem líta börnin fyrir austan öfundaraugum vegna þeirrar frábæru knattspyrnuaðstöðu sem er í sveitarfélaginu þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 129551

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband