Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Bara hringja í mömmu ...

Um daginn átti ég leið framhjá fjölbýlishúsi í Kópavogi þegar ég sé þrjá unga pilta lyfta hægri hönd og miða á bílinn minn. Bíllinn minn er nýleg Toyota Corolla, draumabíllinn sem ég hef lagt mikið á mig til að eignast (eða þannig ... Lýsing er skráður eigandi!).  Að minnsta kosti tveir boltar hittu bílinn og ég snöggreiddist, snögghemlaði og snögglagðist á flautuna á bílnum. Þar sem strákarnir sáu mig ekki, ruku þeir af stað og hlupu í skjól. Ég hefði aldrei náð þeim á hlaupum og datt það reyndar ekki í hug!

Þegar ég ek síðan í burtu minnist ég þess að ég kannast við eina ágæta konu sem býr einmitt í þessu húsi. Ég var með símanúmerið hennar í símanum mínum og hringi.

- „Halló“
- „Já blessuð, þetta er Ingibjörg, hvað segir þú? Meira hvað það hefur snjóað.“
- „Sæl, jú ótrúlegt magn af snjó. En þetta er bara gaman. Krakkarnir úti að leika sér og rólegt inni hjá mér.“
-„Já einmitt, en ég ætlaði einmitt að benda þér á að ég var að keyra framhjá húsinu þínu og þá stóðu þrír piltar þar fyrir utan og voru að kasta snjóboltum í bílana sem aka framhjá. Ég vona að það hafi ekki verið þinn drengur!“
- „Varst þú að kasta snjóboltum í bíla fyrir utan áðan ....“
Þögn ... svo heyrist svarað lágum rómi. „Já, en ég kom bara inn til að pissa!“ 
- „Ertu alveg brjálaður drengur, þú mátt ekki vera að kasta snjóboltum í bílana, þú getur truflað bílstjórana og þeir geta lent í árekstri. ... Heyrðu, jú þetta var minn strákur, ég er búin að lesa yfir honum. Þakka þér fyrir að láta mig vita!“


mbl.is Reiddist þegar snjó var kastað í bílinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þreyttur á framsókn

Á vefsíðu Vísis, www.visir.is, þann 19. janúar sl. birtist frétt um að Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi, væri að gefast upp á Framsóknarflokknum. Í fréttinni segir m.a.: „Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins er orðinn svo þreyttur á innbyrðis deilum og leiðindum innan flokksins að hann er að gefast upp á að starfa innan hans.

Ástæða leiðans hjá Birni Inga er trúnaðarbréf sem Guðjón Ólafur Jónsson fyrrverandi þingmaður flokksins skrifaði til 2000 flokksfélaga, að eigin sögn í stað jólakorta. Í bréfinu ræðir Guðjón Ólafur um vanda framsóknarflokksins. Hann segir meðal annars að fyrir síðustu kosningar hafi frambjóðendur keypt sér föt fyrir hundruð þúsunda króna allt á reikning Framsóknarflokksins.

Í sjónvarpsfréttum í gær beitti Björn Ingi fyrir sig gömlum töktum úr íþróttafréttamennskunni og sagðist vera orðinn leiður á því að verja eigið mark fyrir ásókn eigin leikmanna. Björn Ingi sagði eitthvað á þá leið að það væri „erfitt að vinna leik ef maður kemst ekki í sókn vegna þess að maður er upptekinn við að verja eigið mark fyrir sjálfsmörkum samherja sinna.“

Hann lauk síðan spjallinu í sjónvarpinu með því að segja að hann ætlaði að íhuga stöðu sína innan flokksins enda væri hann að gefast upp á að starfa innan hans.

Hvernig sem á þetta er litið þá er málið allt hið versta fyrir Framsóknarflokksins. Undanfarin ár hefur allt logað í illdeilum innan flokksins, enda fór það svo að flokkurinn stórtapaði fylgi bæði í sveitarstjórnarkosningunum 2006 og í alþingiskosningunum 2007. Hér í Kópavogi fara framsóknarmenn fínt með ágreining sinn, það er þó greinilegt hverjum þeim sem leggur við hlustir að ekki eru allir hér á bæ sáttir við framgöngu oddvita flokksins og fylgispekt hans við Gunnar Birgisson. Þar hafa þó ekki verið send trúnaðarbréf í 2000 eintökum ... sem er náttúrulega bara grín, svona út af fyrir sig.


Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!

Ó þér unglingafjöld og Íslands fullorðni synir
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!
 

Fischer var stórkostlegur skákmaður, sennilega einn sá mesti sem uppi hefur verið. Ég man eftir einvíginu 1972 og furðaði mig oft á fréttum um undarlega hætti þessa bandaríkjamanns. Hann mætti jafnvel ekki til leiks og tapaði skákum viljandi. En ég man líka eftir hrifningunni sem greip hina íslensku þjóð þegar hann sýndi nokkur af sínum mögnuðu tilþrifum og stórkostlegu leikjum á reitunum 64. Fyrir það verður hans minnst, en hans verður einnig minnst fyrir þá hegðan sem hann sýndi á síðari árum, hatrið, brjálæðið, sérviskuna og annað sem gerði það að verkum að menn hálfpartinn óttuðust hann enda aldrei að vita uppá hverjum hann gat tekið. Að grafa Bobby Fischer í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum er fáránleg hugmynd sem ég vona sannarlega að komi aldrei til framkvæmda.

Í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum liggja mætir menn, stórhugar, eldhugar, framsýnir menn, stórkostlegir menn hver á sínu sviði. Þeir Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson eiga það sameiginlegt að hafa viljað Íslandi allt. Ísland var alltaf í forgrunni ævi þeirra þó hvor þeirra um sig hafi sett það fram á mismunandi hátt. Hugmynd Einars að sölu norðurljósanna er alls ekki eins galin og hún leit út í fyrstu og segja má að vetrarferðir erlendra ferðamanna til Íslands blandist í og með þeirri hugmynd að selja norðurljósin. 

Veit duftsins son nokkra dýrlegri sýn
en drottnanna hásal í rafurloga?
Sjá grundu og vog undir gullhvelfdum boga! –
Hver getur nú unað við spil og vín?
Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín,
mókar í haustsins visnu rósum.
Hvert sandkorn í loftsins litum skín,
og lækirnir kyssast í silfurósum.
Við útheimsins skaut er allt eldur og skraut
af iðandi norðurljósum.
  

Jónas vildi sjá Ísland sem fullstöndugt, sjálfstætt ríki. Draumar hans lutu að því og hann skilaði þjóðinni hugsunum sínum í einhverjum fegurstu ljóðum sem ort hafa verið.

Ísland! farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult og stund þíns fegursta frama
lýsir sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðishetjurnar góðu
austan um hyldýpishaf, hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti;
ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþingið feðranna stóð.
Þar stóð hann Þorgeir á þingi er við trúnni var tekið af lýði.
Þar komu Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll.
Þá riðu hetjur um héröð og skrautbúin skip fyrir landi
flutu með fríðasta lið, færandi varninginn heim.
Það er svo bágt að standa’ í stað, og mönnunum munar
annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkart starf í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?
Landið er fagurt og frítt og fannhvítir jöklanna tindar,
himinninn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.
En á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur og lyngið á lögbergi helga
blánar af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik.
Ó, þér unglingafjöld og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!


mbl.is Fischer grafinn á Þingvöllum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undrandi, hryggur og leiður

Hann sagðist hins vegar í tölvupósti vera afar undrandi, hryggur og leiður yfir efni bréfsins og hlyti að velta fyrir sér hvað byggi að baki.

Ætli það hafi sést tár á hvarmi?


mbl.is Gagnrýnir fatapeninga framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er svona merkilegt við það ...

að fyrrverandi stjórnmálamaður eigi afmæli? Af hverju þurfa öll blöðin að vera með myndir úr afmæli fyrrverandi stjórnmálamanns á annað hvort baksíðu eða forsíðu? Hvernig stendur á því að besti vinur fyrrverandi stjórnmálamanns, sem á afmæli einu sinni á ári eins og aðrir, komist í sjónvarpsþátt til þess að auglýsa afmæli fyrrverandi stjórnmálamanns og birta myndir af sjálfum sér og fyrrverandi stjórnmálamanninum ásamt nokkrum útvöldum vinum fyrrverandi stjórnmálamannsins sem á afmæli eins og aðrir?

Ísland í dag ... merkilegt fyrirbæri.


Hvernig greinir maður heilablæðingu

Gefðu þér smá stund til þess að lesa þetta:

Það var veisla og Inga hrasaði og datt. Hún fullvissaði alla um, að allt væri í lagi með sig (þau buðu henni að hringja í lækni) hún hefði bara hrasað um stein af því að hún væri í nýjum skóm. Henni var hjálpað við að laga sig til og var færður matur á nýjan disk - og þrátt fyrir að hún virtist svolítið óstyrk, hélt Inga áfram að skemmta sér það sem eftir var kvöldsins.

Maðurinn hennar hringdi seinna og sagði frá því að Inga hefði verið flutt á spítalann og kl 6:00 um morguninn hefði hún verið dáin. Hún hafði fengið heilablæðingu í veislunni.

Hefði fólkið vitað hvernig maður getur þekkt einkenni heilablæðingar, væri Inga mögulega enn á lífi.....

Það tekur bara fáeinar mínútur að lesa þetta:

Taugalæknir fullyrðir að fái hann sjúkling með heilablæðingu til meðferðar innan þriggja tíma geti hann afmáð allan skaða af völdum áfallsins ... Að fullu og öllu !

Að hans sögn, felst lausn vandans í því að fólk geti borið kennsl á einkennin, fengið greiningu og komið sjúklingnum undir viðeigandi læknishendi innan þriggja tíma.

Að bera kennsl á Heilablæðingu (Slag)

-Nú segja læknar að allir geti lært að bera kennsl á heilablæðingu með því að beita þremur einföldum ráðum:

1. * Biðja manneskjuna að HLÆJA .
2. * Biðja manneskjuna að LYFTA BÁÐUM HANDLEGGJUM
3. * Biðja manneskjuna að SEGJA EINA EINFALDA SETNINGU (sem er í samhengi) ( t.d. ...Sólin skín í dag).

Ef viðkomandi á í erfiðleikum með eitthvert þessara atriða - hringið þá strax í neyðarnúmerið 112 og lýsið einkennunum.


Kjarasamningar

Jóhann var að útskrifast úr laganámi frá HR. Hann átti sér stóra drauma um glæsta framtíð. Jóhann fór að sækja um vinnu í stóru fyrirtæki í borginni. Starfsmannastjórinn sem tók viðtalið var hrifin af þessum efnilega manni og var mjög heitur fyrir því að ráða hann í vinnu. Áður en viðtalið var búið spurði starfsmannastjórinn hvaða launahugmyndir Jóhann hefði.

„Ég var að spá í 1.500.000 á mánuði svona til að byrja með“, svaraði Jóhann.

Starfsmannastjórinn horfði á hann í smá stund og sagði svo: „Hvernig líst þér á  2.500.000 á mánuði, 2 mánaða sumarleyfi á fullu kaupi, 21% mótframlag í séreignarsjóð, nýjan LEXUS til ótakmarkaðra afnota og húshjálp til að þrífa heimilið“

Jóhann varð orðlaus. Þetta var meira en hann hafði þorað að vona. Að lokum sagði hann í mikilli sigurvímu: „Þú hlýtur að vera að grínast!“

Starfsmannastjórinn svaraði að bragði: „Já - en þú byrjaðir.....“


Björk á hrós skilið

Hlustaði á viðtal við Guðmund Gunnarsson í Kastljósinu þar sem hann var til varnar fyrir dóttur sína, Björk Guðmundsdóttur. Guðmundi tókst ágætlega upp við að verja hana en hann átti erfitt með að benda á rök fyrir því að íslenska pressan væri orðin ákafari heldur en breska pressan. Benti á forsíðuna á DV í dag ... bíddu við ... ég veit ekki um nokkurn mann sem tekur mark á DV í dag. Það blað dó um það leyti sem það tók mann á Vestfjörðum af lífin án dóms og laga, í bókstaflegri merkingu. Mér varð reyndar hugsað til þess atviks þegar ég horfði á Pressuna á Stöð 2 sl. sunnudag, en það er nú annað mál.

Það voru einhverjar fréttir um það á vefnum í dag að bandarísk poppstjarna hafi gist í Keflavík í nótt ásamt vini sínum. Hún óskaði eftir því að fá að vera í friði og að engar myndatökur yrðu. Þrátt fyrir að fjölmargir hafi vitað af konunni í Keflavík, þá virðast allir hafa virt ósk hennar og engar myndir voru teknar. Þetta er nú ekki í líkingu við það sem Guðmundur heldur fram um íslensku pressuna.

En, svo ég vaði nú úr einu í annað, þá á Björk fulla samúð hjá mér. Miðað við vælið í þessum ljósmyndara þá ætti hann nú bara að hafa einhvern annan starfa heldur en að vera að eltast við konur á fimmtugsaldri, innan við 160 cm háar og um 50 kg. Ef hann þolir ekki að slík kona ýti við honum og ef hann þarf að grenja í marga daga á eftir ... ja, þá á Björk hrós skilið!


Er þetta tilviljun?

Ég get ekki að því gert að mér finnst fyrirsögn fréttar um að drykkjusiðir Íslendinga séu orðnir meinlausari hafi eiginlega ekki getað fengið betri fréttafélaga en einmitt þá sem eru í kringum hana.

Drykkja

Næsta frétt á eftir er um einhvern sem gekk berserksgang í Vesturbænum, sjálfsagt mjög meinlaust athæfi en þó fréttnæmt og svo var einhver sem braust inní 15 bíla á Selfossi, að er örugglega jafn meinlaust og hitt.  Það er svo sem ekkert sem segir manni að berserkurinn og bílþjófurinn hafi verið drukknir en í fyrri fréttinni kemur fram að berserkurinn hafi verið ölvaður og það læðist að mér sá grunur að bílþjófarnir hafi ekki verið algjörlega allsgáðir meðan á verknaðnum stóð!


mbl.is Drykkjusiðir Íslendinga orðnir meinlausari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 129442

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband