Leita í fréttum mbl.is

Megas stórkostlegur

Þó margar af mínum nánustu vinum eigi erfitt með að trúa því þá held ég mikið uppá Magnús Þór Jónsson, Megas. Textasmíði hans er algjörlega einstök í íslenskri menningarsögu og oftar en ekki hittir hann naglann á höfuðið eða stingur á mestu meinsemdir samfélagsins í textum sínum.

Í sumar kom út platan „Frágangur“ þar sem Megas stígur á stokk með mögnuðum hljóðfæraleikurum sem kalla sig Senuþjófana. Senuþjófarnir tróðu upp með Megasi á tónleikum á laugardagskvöld og betri tónleika hef ég ekki farið á um ævina. Meistari Megas steig hvorki feilnótu né feilspor en þó voru senuþjófar kvöldsins, hljóðfæraleikararnir í Senuþjófunum. Þvílíkir meistarar ... það munaði minnstu að meistarinn sjálfur stæði í skugganum af þeim, ég stóð mig a.m.k. ítrekað að því að horfa með mikilli aðdáun á Nils Törnqvist trommuleikara og Guðmund Pétursson gítarleikara sem fóru hreinlega á kostum í höllinni.

En þó þeir hafi skyggt á Megast um stund þá sló meistarinn hvergi af. Í rúma 2 klukkutíma söng hann af krafti og innlifun eins og honum einum er lagið, hver perlan á fætur annari leit dagsins ljós og ég iðaði í sæti mínu, efst í stúkunni á Laugardalshöllinni. Það er erfitt að sitja kyrr undir svona frábærum lögum. Hámarki náðu tónleikarnir að mínu mati þegar Megas flutti eitt fallegasta ástarljóð íslenskrar tónlistarsögu, Tvær stjörnur. Þvílík snilld, þvílík innlifun, þvílíkur munaður að hafa orðið þess aðnjótandi að fá þetta meistarastykki beint í æð. Og sviðsmyndin þegar lagið var flutt, maður minn ... „stórkostleg“ er eina orðið sem dugar.

Megasi og Senuþjófunum þakka ég fyrir frábæra kvöldstund og Sigrún systir fær líka þakkir fyrir þolinmæðina og fórnfýsina að þrauka þessa tónleika með mér (henni finnst Megas ekki skemmtilegur en hún dáðist að því að meistarinn fékk sér ekki einu sinni vatnssopa þann tíma sem hann stóð á sviðinu).


Hverskonar bull er þetta?

Ég er alveg steinhætt að botna nokkurn skapaðan hlut í því sem gengur á í Reykjavík. Þetta er nógu slæmt í Kópavogi, en hér á bæ hafa menn þó almennt lesið um hvað verið er að semja áður en gengið er til samninga. Svo virðist sem að í Reykjavík hafi menn ekki lesið nokkurn skapaðan hlut, bara látið telja sér trú um að það sem eigi að samþykkja sé gott. Núna koma menn eins og jólasveinar af fjöllum og segja, ég vissi bara ekki að við værum að semja um það sem við vorum að semja um. Ef við hefðum vitað það þá hefðum við e.t.v. lesið samninginn!!!!

Hvernig ætlast menn til að kjósendur í Reykjavík eða hvar sem þeir eru geti trúað og treyst stjórnmálamönnum sem ekki lesa einu sinni þá samninga sem þeir leggja til að verði samþykkir! Ég hélt einmitt að það væri meginhlutverk sveitarstjórnarmanna ... að lesa þá samninga sem þeim er treyst til að undirrita fyrir hönd íbúa sveitarfélagsins og hina formlegu eigendur þeirra stofnana sem þar eru reknar. 

Í Reykjavík hafa menn brugðist þessu trausti og er mér þá nokk sama hvar í flokki menn standa. Hitt er hins vegar ljóst, hafi ég hlustað rétt á fréttirnar, að ábyrgð Sjálfstæðismanna er mest í þessu efni, þar vildu menn slá ryki í augu almennings vegna þessa klúðurs og selja sig út úr öllu draslinu.

Óeiningin innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna er síðan alveg sér kapituli. Þar virðast þau Gísli Marteinn og Hanna Birna fara fremst í flokki og reyndar munu orð Hönnu Birnu um lýðræðislegar niðurstöður (svo fremi sem þær eru þær sömu og Sjálfstæðismenn hafa komist að) lifa lengi meðal landsmanna.

Er nema von að maður spyrji ... hverskonar bull er þetta?


Einkavinavæðing meirihlutans

Eins og kunnugt er rís bæjarstjóri Kópavogsbæjar upp á afturlappirnar í hvert skipti sem kjaramál starfsmanna bæjarins eru til umræðu og fer með þuluna um að allt fari á hvolf í þjóðfélaginu fái þeir hækkun launa. Það eru þó greinilega undantekningar á þessu í hans huga því hann réð vin sinn og pólitískan samherja til vinnu hjá bænum á vildarkjörum.
 
Sumarið 2006 var Guðmundur Gunnarsson oddviti Sjálfstæðisflokksins á Álftanesi og fyrrverandi bæjarstjóri þar, ráðinn sem verkefnisstjóri hjá skipulagsdeild Kópavogs.  Það var skömmu eftir að meirihluti Sjálfstæðisflokksins á Álftanesi féll og Guðmundur missti bæjarstjórastarfið þar.
 
Verkefnisstjórastarf þetta var aldrei auglýst og ekki var ljóst hver óskaði eftir stöðugildinu. Guðmundur sinnti aðallega sömu verkefnum og ritari skipulagsstjóra og unnu þau samhliða.
 
Guðmundi var raðað 26 launaflokkum hærra en ritara skipulagsstjóra. 

Þegar Guðmundur var ráðinn til Kópavogsbæjar og sinnti sömu störfum og þáverandi ritari skipulagsstjóra (sem hafði 6 ára starfsaldur hjá Kópavogsbæ) var honum raðað í launaflokk 146.  Þáverandi ritari skipulagsstjóra var í launaflokki 120.
 
Taxti í  launaflokki 120 skv. kjarasamningi starfsmannafélags Kópavogsbæjar er 167.140 en í launaflokki 146 er taxtinn 239.522 kr.  Til viðbótar er Guðmundur með fasta yfirvinnu 60 klst á mánuði. Hann er því með heildarlaun um 390 þús. á mánuði.  Engin gögn benda til þess að ritari skipulagsstjóra hafi fengið greidda fasta yfirvinnu á þeim tíma sem var samið við Guðmund Gunnarsson og líklega fátítt að starfsmenn bæjarins hafi almennt fengið launin sín hífð upp með þeim hætti, þó það hafi breyst eitthvað síðan hjá ákveðnum starfshópum.
 
Í desember 2006 er gerður starfslokasamningur við ritara skipulagsstjóra með því ákvæði að viðkomandi hafi ekki uppi frekari kröfur á hendur Kópavogsbæ vegna starfsloka sinna. Það gerist æ oftar að starfslokasamningar eru gerðir við starfsmenn bæjarins sem þykja „ódælir“.
 
Í kjölfar brotthvarfs ritara skipulagsstjóra sinnti Guðmundur Gunnarsson þeim verkefnum þar til nú í haust er nýr ritari var ráðinn, eða í tæpt ár. Hann var þó á miklu betri launum en fráfarandi ritari eins og kemur fram hér að ofan.
 
Skv. starfsmati raðast byggingarfulltrúi bæjarins sem er tæknifræðingur í launaflokk 140. Guðmundur vinur Gunnars er hins vegar menntaður vélvirki, þannig að ekki er það menntunin sem skýrir hversu hátt hann raðast miðað við aðra starfsmenn.
 
Í ljósi þess að þáverandi ritari skipulagsstjóra er kona hefur bæjarstjóri brotið jafnréttislög hvað varðar jöfn kjör kvenna og karla. Til viðbótar er hér grímulaus einkavinavæðing, þar sem hlaupið var undir bagga þegar bæjarstjóri Álfaness missti vinnuna í kjölfar stjórnarskipta þar.  Guðmundur Gunnarsson og Gunnar Birgisson áttu saman verktakafyrirtækið Gunnar og Guðmund í gamla daga ... og eru samherjar í pólitík.
 
Um leið og bæjarstjóri hefur brotið jafnréttislög og brotið alvarlega trúnað í starfi nýtur hann stuðnings Ómars Stefánssonar, oddvita Framsóknarflokksins, sem í máli sínu á bæjarstjórnarfundi þann 9. október styður Gunnar og ákvörðun hans.  Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Kópavogi heldur á einum manni, Ómari Stefánssyni.
 
Með þessum gjörningi hafa þeir einnig gefið dyggum starfsmönnum bæjarins langt nef, nema þetta gefi tóninn fyrir kjarasamninga starfsmanna bæjarins!


Er eitthvað til í þessu?

Tekið af vefsíðunni www.mannlif.isGunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, er á leiðinni í fjögurra vikna frí á suðrænar strendur og fær því tækifæri til að blása ærlega úr nös eftir vel heppnað sextugsafmæli sitt á dögunum. Gunnar þykir vel að fríinu kominn enda er hann þekktur fyrir að taka sér helst aldrei frí.  Einhverjir gárungar í Kópavogi vilja þó meina að tímasetning ferðalagsins hafi lítið með sextugsafmælið sem slíkt að gera heldur sjái bæjarstjórinn sér þann kost vænstan að fara í frí núna þar sem lyfturnar í húsi bæjarstjórnar verði óvirkar á næstu vikum en umtalsverðar breytingar eru fyrirhugaðar á bæjarskrifstofunum og félagsheimilinu í Fannborginni ...

Ég held ekki!


John, Yoko og friðarsúlan

Í kvöld var tendrað friðarljós í Viðey. Ljósið er hugmynd Yoko Ono, ekkju bítilsins Johns Lennon, og hún valdi því stað í Viðey ... af öllum stöðum heims! Íslendingar eiga að vera stoltir af því að Yoko Ono hafi valið friðarljósi sínu, friðarsúlu sinni, stað á Íslandi. Þar sem ég horfði á beina útsendingu frá Viðey í kvöld fylltist ég stolti og þakklæti þegar ljósið var tendrað og undir hljómaði eitt fegursta lag allra tíma „Imagine“ eftir John Lennon.

John Lennon er einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum og reyndar persónum svona yfirleitt. Það litla sem ég hef kynnt mér af ferli hans, bæði sem bítils og ekki, hefur mér líkað og ég er ákaflega hrifin af boðskap hans um frið á jörð og sáttmála milli mannanna. Þegar ég var ung stúlka, nýskriðin út úr menntaskóla, eða jafnvel enn í menntaskóla, samdi ég ljóð um John Lennon og ef ég man rétt þá myndskreytti ég ljóðið og hengdi uppá vegg í herberginu mínu við Álfhólsveginn.

Þar sem ég stóð við herbergisgluggann minn hér í Efstahjallanum í kvöld og horfði til norðurs í átt að Viðey varð mér hugsað til lokalínunnar í þessu ljóði mínu „hversvegna skutu þið ...Lennon?“

Um leið og ég óska Íslendingum til hamingju með friðarsúluna og þakka Yoko Ono fyrir að hafa valið henni stað hér á Íslandi rifja ég upp ljóðið mitt sem ég nefndi Spurningin.

Ég spyr mig sjálfa,
hvers vegna hungur?
hvers vegna stríð?
Hvers vegna skutuð þið King?

Þörfnumst við hjálpar?
hjálpar til að yfirvinna
geðveikina sem hrjáir okkur öll?

Hjálpar til að skilja
mikilvægi
friðarins

Hvern langar í stríð?
Stríð sem eyðileggur
þann hinn sama.
Stríð sem leggur
svarta dulu
á götur, hús
manneskjur, sálir.

Það sem við viljum
er friður á jörð?

Hvers vegna skutuð þið ...
Lennon?

 


mbl.is Friðarsúlan lýsir upp Viðeyjarsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband