13.6.2008
Lognið á undan storminum
Ætli nú sé lognið á undan storminum. Andleysið hefur verið að ganga frá mér þessa dagana, kannski fór svona mikið í jazz tónleikana um daginn? Kannski er það bara málið að ég nenni ekki að sitja við tölvuna á kvöldin þegar veðrið er svona gott. Ég er búin að fara í nokkra hressandi göngutúra síðustu kvöld og dregið að mér fullt af fersku og góðu súrefni. Frábært.
Annars viðurkenni ég að ég horfi dálítið á fótbolta þessa dagana, bæði í sjónvarpinu á EM og hér heima á knattspyrnuvöllum landsins. Ekki amalegt það. Kosturinn við það að fara á völlinn og sjá íslenskt knattspyrnufólk reyna með sér (móti því að sitja í sófanum og horfa á bestu knattspyrnumenn Evrópu) er að þar hittir maður mann og annan og getur átt vitrænt spjall.
Ekki það að mér finnist samskiptin hér á blogginu eitthvað þurr, þvert á móti, en þegar ég á þess kost þá kýs ég helst að eiga samskipti við fólk augliti til auglitis frekar en á lyklaborðinu. Þó það geti verið mjög gott svona inn á milli.
En til að gleðja bloggvini mína þá ætla ég að færa ykkur dásamlega uppskrift að sumarlegu kjúklingasalati á grænmetis beði sem ég eldaði fyrir vinnufélaga mína í dag. Ægir, það væri gaman að sjá mynd af þessari framreiðslu hjá þér svona sem mótvægi við saltkjötið í vetur!
Ummmm ... virkilega gott.
Kjúklingasalat Hrefnu
- ½ bolli olía
- ¼ bolli balsamik edik
- 2 msk. sykur
- 2 msk. soyjasósa
sjóða saman í ca. 1 mínútu, kæla og hræra í á meðan það kólnar. Þessu er dreift yfir salatið þegar það er tilbúið til framreiðslu.
- 1 pk. af instant súpunúðlum með kryddi
- 1 pk. möndluflögur eða heslihnetuflögur
- Sesamfræ
Rista saman á pönnu í olíu, það tekur lengstan tímann að brúna núðlurnar, svo hneturnar og sesamfræin þurfa bara stuttan tíma. (Ég setti líka furuhnetur í þennan pakka, mjög gott)
- 4 kjúklingabringur
- 1 fl. Sweet Hot Chilisósa
bringurnar eru skornar í strimla og snöggsteiktar í olíu, sweet hot chilisósu og látið malla í smá stund. Þegar kjúklingurinn er steiktur á hann það til að blotna mikið (þ.e. það rennur úr honum vökvi), ég valdi það að hella soðinu af áður en ég setti Sweet Hot Chili sósuna á pönnuna
- 1 pk. Rukólasalat blanda
- Nýir íslenskir tómatar í sneiðum
- 1 mangó í teningum
- 1 rauðlaukur sneiddur
Salatið er sett á fat og núðlublandan yfir og kjúklingastrimlunum raðað yfir.
Borið fram með snittubrauði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.6.2008
Bestu tónleikar EVER!
Fór á bestu tónleika sem ég hef hlýtt á EVER í kvöld. Geggjaðir djass tónleikar í Salnum í boði Bjössa Thor og vina hans! Aldrei, ADLDREI hef ég notið tónleika í botn eins og þessa. Hápunkturinn var að Andrea Gylfa og SUMMERTIME ... þvílík snilld, þvílíkur flutningur.
Ég grét fögrum tárum að flutningi loknum, þetta var GEGGJAÐ! (ég þoli ekki hástafi), en þetta var GEGGGGGGGGGJAÐ! Þakka Bjössa Thor og félögum fyrir magnaða tónleika, vona að þeir hafi verið teknir upp! FIMM broskallar ... það gerist ekki betra! STÓRKOSTLEGT! Lifi Bjössi Thor og félagar ... ummmmmmmmmm!!!!!!!
Tónlist | Breytt s.d. kl. 02:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.6.2008
Æran hans Geira
Eftirfarandi grein birtist á baksíðu Fréttablaðsins í morgun. Mér fannst hún orða í hnotskurn skoðun mína á umræddum dómi yfir Geira í Goldfinger og leyfi mér að birta hana hér að höfundi hennar forspurðum. Greinina skrifaði Bergsteinn Sigurðsson.
Æran hans Geira
Héraðsdómur Reykjavíkur skar úr um í vikunni að umfjöllun tímaritsins Ísafoldar um Geira á Goldfinger hefði vegið að æru hans. Ekki hefðu verið færðar sönnur á ásakanir um að á Goldfinger færi fram mansal og vændi. Geiri fékk milljón til að jafna sig.
Auðvitað er það sjálfsögð krafa að færð séu sterk rök fyrir ávirðingum á borð við þær sem bornar voru á Geira í Ísafold. Hafi það ekki verið gert á dómstóll að dæma ummælin dauð og ómerk. Mér er hins vegar fyrirmunað að skilja hvernig í ósköpunum héraðsdómi tókst að komast að þeirri niðurstöðu að æra Geira beðið slíka hnekki að það kosti ekki undir milljón að rétta hana við. Ef orðspor Geira væri alþjóðlegur gjaldmiðill væri það íslenska krónan: verðlaust, til trafala og of hátt skráð.
Það er nefnilega þannig að um nokkurt skeið hefur Geiri unnið ötullega að því að skapa sér ímynd ógeðfellds nektarbúllueigenda með óhreint mjöl í pokahorninu sem vílar fátt fyrir sér til að ná sínu fram. Tveggja ára gamlar fréttir af handtöku Geira, eftir að hann ruddist inn á Bóhem við fimmta mann og hélt þar fólki nauðugu, benda til að þessi ímynd sé ekki fullkomlega innistæðulaus. Hvort sem ásakanir Ísafoldar eru sannar eða ekki, eru þær í fullu samræmi við þann orðstír sem Geiri á Goldfinger hefur leynt og ljóst getið sér.
Ekki er útskýrt í dómnum hvað liggur að baki upphæðinni sem Geira var dæmd, hvernig tjón hans var metið. Mögulega töldu dómararnir að ásakanirnar hefðu kostað Geira viðskipti. Eflaust væri það gild röksemd ef Geiri væri eigandi Heklu eða Kaffitárs. En Geiri selur ekki bíla eða kaffi heldur hefur atvinnu af því að höfða til lægstu hvata mannsins. Eitthvað segir mér að fastagestunum á Goldfinger þyki brigslyrði um vændi og mansal engin sérstök fyrirstaða fyrir því að venja komur sínar þangað.
Dómurinn er líka enn eitt dæmið um snarhækkandi miskabætur í meiðyrðamálum, meðan bætur til þolenda kynferðisbrota standa í stað. Það er eins og dómarar hafi einhvern tímann orðið ásáttir um að þolendur kynferðisbrota skyldi bættur skaðinn með andvirði notaðs fellihýsis og við það sitji. Nú er hins vegar lag fyrir réttarkerfið að koma skikk á skaðabótamatið með því að búa til sérstakan gullfót, eða réttara sagt gullfingur; fastan ærustuðul Geira á Goldfinger sem allar miskabætur tækju mið af. Í nauðgunarmálum þyrfti bara að slá tuttugu prósent af.
4.6.2008
Undarleg deila um heimildarmynd
Síðustu daga hef ég ekki getað horft á mikið á sjónvarp eða hlustað á útvarpsfréttir. Það er eiginlega tilviljun að fréttatímar hafa farið framhjá mér og ég hef ekki lagt mig niður við það að hlusta eða horfa á fréttir á netinu. Nú undir kvöld þegar ég settist við tölvuna fyrir háttinn þá sé ég frétt á visir.is þar sem segir í fyrirsögn Dettur ekki í hug að biðja Þórhall afsökunar. Fyrirsögnin vakti athygli mína og ekki minnkaði forvitnin við að lesa innganginn að fréttinni.
Í stuttu máli snýst fréttin um að dagskrárstjóri RÚV, Þórhallur Gunnarsson, hafi ekki viljað sýna heimildarmynd Árna Snævarrs um Evrópusambandið. Í framhaldi af því hafi Árni bloggað um það á vefnum og leitt að því líkum að Þórhallur hafi ekki viljað sýna myndina af ótta við viðbrögð frá Sjálfstæðisflokknum. Í framhaldinu telur Þórhallur að Árni skuldi honum afsökunarbeiðni enda segist aldrei muni láta stjórnmálaflokk hafa áhrif á sín störf.
Gott og vel, ég ætla ekki að blanda mér í þessa deilu, en ég get ekki annað en harmað það að RÚV skuli ekki hafa séð sér fært að sýna þessa mynd. Hvort sem Þórhalli eða Sjálfstæðisflokknum líkar það betur eða verr þá er hugsanleg aðild að Evrópusambandinu á dagskrá og það á að ræða þann möguleika að Ísland sæki þar um aðild. Umræðan ein og sér um Evrópusambandið er ekki umsókn. Ég skil ekki þann ótta sem menn hafa við umræðuna og ég er klárlega ekki ein um þá skoðun því skoðanakannanir hafa sýnt að meirihluti Íslendinga vill skoða möguleikann á aðild. Í þættinum sem hægt er að horfa á á vefsíðu visir.is segir danskur þingmaður að Íslendingar hafi komið sér upp einskonar ljósritunarlýðræði því við tökum upp reglurnar frá Brussel og ljósritum þær yfir á íslenska stjórnskipun.
Er þá ekki betra að skoða möguleikann á aðild af fullri alvöru, vera þar í skini og skúrum heldur en að vera í skugga Evrópusambandsins alla tíð og reyna að bera inn ljósið með hattinum okkar eins og Bakkabræður forðum!
Slóðin að heimildarmyndinni: http://www.visir.is/article/20080603/FRETTIR01/792782120
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.5.2008
Frábærir tónleikar
Listahátíð í Reykjavík er ótrúleg upplifun, hún er á hverju ári núna og það er svo margt í boði að maður verður hálf ruglaður og oftast nær fer megnið framhjá manni, því miður. Þetta árið lét ég ekki eina tónleika framhjá mér fara, þeir voru undir yfirskriftinni "Ferð án fyrirheits" og voru tónleikar þar sem leikin voru lög við ljóð Steins Steinarrs.
Tónleikarnir voru undir stjórn Jóns "góða" Ólafssonar og voru þeir hreint stórkostlegir. Jón upplýsti það að lög hefðu verið samin við ríflega 100 ljóð Steins og sum ljóðin eiga sér allt að sjö lög. Hvaða annað íslenskt skáld getur státað að því? Mér er til efs að það sé nokkurt. Í kvöld voru bæði leikin gömul og klassísk lög sem við þekkjum öll, s.s. Hudson Bay, Ræfilskvæði og Barn. En þarna voru líka flutt ný lög eftir Jón Ólafsson við ljóð Steins. Jóni hefur tekist vel upp í flestum lögunum. Mér fannst þó skemma nokkuð fyrir að hljóðblöndun fyrir hlé, þegar nýju lögin voru leikin, var ekki nægilega góð. Söngurinn var yfirskyggður af hljóðfæraleiknum og það var miður því sum ljóðanna kann maður ekki og því var erfitt að finna tilfinninguna í laginu. Þau voru þó öll ákaflega vel flutt enda valinn maður í hverju hljómsveitarrúmi.
Fyrir ykkur sem misstuð af tónleikunum í gær og í kvöld þá bendi ég á nýjan hljómdisk með lögum Jóns Ólafssonar við ljóð Steins Steinarrs. Þetta er eigulegur gripur og þarna fá ljóðin að njóta sín í fullkominni hljóðblöndun.
Jóni Ólafssyni, hljómsveit hans og öllum söngvurum sem komu fram á tónleikunum þakka ég fyrir mig. Þetta var frábær skemmtun!
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lögin mín
Eldri færslur
- Júní 2012
- Febrúar 2012
- Apríl 2011
- Desember 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Apríl 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Myndasíða
Heimasíðan mín
- www.ingibjorg.net
- Völvuspá Dollýar 2011 Spá Dollýar dulrænu fyrir árið 2011
- Lystauki - Veisluþjónusta Besta veisluþjónusta landsins. Fersk og framandi en þó hefðbundin. Mjög gott.
Bloggvinir
- Anna Einarsdóttir
- Birna Steingrímsdóttir
- Bragi Sigurðsson
- Elfur Logadóttir
- Eygló
- Gudrún Hauksdótttir
- Guðrún Jóna Jónsdóttir
- Gísli Tryggvason
- Helga Kristjánsdóttir
- Jenný Stefanía Jensdóttir
- Jón Svavarsson
- Karl Gauti Hjaltason
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Linda Samsonar Gísladóttir
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Magnús Helgi Björgvinsson
- Margrét Júlía Rafnsdóttir
- Marinó G. Njálsson
- Pjetur Hafstein Lárusson
- Samfylkingin í Kópavogi
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Sigurður Haukur Gíslason
- Sigurður Sigurðsson
- Smári Jökull Jónsson
- Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)
- TARA
- Unnur G Kristjánsdóttir
- Veiðifélagið
- Ólafur Þór Gunnarsson
- Þórarinn M Friðgeirsson
- Sigþrúður Þorfinnsdóttir
- Valdimar H Jóhannesson