Leita í fréttum mbl.is

Komin heim í heiðardalinn

Mikið er gott að vera komin aftur heim eftir viku í heilsubælinu í Hveragerði. Var reyndar ekki í neinni sérstakri spa meðferð þar, engin leirböð eða nudd á hverjum degi heldur púl og puð við að halda utanum Norðurlandamót U16 kvenna. Mótið fór einstaklega vel fram og var okkur öllum til sóma, að ég tel. Vindur lék þó leiðinlega stórt hlutverk í leikjum þriðjudags og var sárt að geta ekki boðið gestum okkar uppá betra veðurfar en raun varð. En það blés jafnt á réttláta sem rangláta svo allir voru við sama borð.

Sunnlendingar tóku sannarlega vel á móti íslenska liðinu og gestaþjóðunum frá Danmörku, Noregi og Þýskalandi. Þrjár síðastnefndu þjóðirnar gistu á Hótel Selfossi og voru sérlega ánægð með þá þjónustu sem þau fengu þar. Íslenska liðið var á Hótel Örk í Hveragerði og naut þess að vera þar í hinu besta yfirlæti og rólegheitum. Sérstaklega átti það við á föstudag þegar stelpurnar áttu frídag, en þurftu þó að leysa þrautir sem lagðar voru fyrir þær. Meðal annars áttu þær að spæla egg - sem kostaði það að banka uppá í næsta húsi í bænum og fá lánaða pönnu og svo áttu þær að koma fararstjórninni á óvart. Þar kom Kjörís sterkt inn en sumar stelpurnar bönkuðu uppá í verksmiðjunni og voru leystar út með gjöfum handa öllum hópnum. Aðrar bönkuðu uppá hjá blómabóndum og fór fararstjórnin heim með dýrindis blóm er mótinu lauk. Kannski ísinn, blómin og eggin hafi hjálpað til því á laugardag léku stelpurnar síðasta leik sinn á mótinu og unnu þar sinn fyrsta og eina sigur, gegn Svíum.

Stelpurnar stóðu sig þó vel. Þær léku fantavel í sínum fyrsta leik, sem var gegn Dönum, þó hann tapaðist 0-1. Leikurinn gegn Þjóðverjum var einnig frábær, hann tapaðist þó 0-2 en Þjóðverjar unnu síðar mótið mjög svo sannfærandi. Þýska liðið lék eins og þýsk knattpsyrnulið gera gjarnan, var vel skipulagt frá öftustu línu til hinnar fremstu enda máttu Danir, Norðmenn og Frakkar (sem léku til úrslita) þola töp 8-0, 7-0 og 5-0 gegn þessu sterka liði. Því miður var leikur okkar stelpna gegn Norðmönnum ekki góður og tapaðist hann 6-2. Það var því sætt að ná að vinna Svía í leik um sæti 2-0!

En fyrst ég er farin að tala um fótbolta þá verð ég líka að monta mig af Spánverjum, Evrópumeisturunum, sem ég spáði sigri í upphafi júnímánuðar, þó það hafi ekki verið hér á blogginu. Ég mæti því í vinnuna hress og kát í fyrramálið og innleysi sigurlaunin mín í veðbankanum þar! ;-)

Ps. verð líka að benda á góða færslu á Samfó-Kóp þar sem sýnt er hvernig menn fara að því að einkavinavæða heilbrigðiskerfið! http://samfo-kop.blog.is/blog/samfo-kop/entry/581031/


Fótbolti, fótbolti, fótbolti

Næsta vika verður eintómur fótbolti hjá mér. Stúlknalandsliðið, skipað leikmönnum 16 ára og yngri, tekur þá þátt í Norðurlandamótinu sem verður haldið hér á landi 30. júní til 6. júlí. Tveir riðlar eru í mótinu og mun annar riðillinn vera leikinn á Suðurlandi en hinn á Suðurnesjum.

Íslenska liðið verður staðsett á Hótel Örk í Hveragerði en aðrar þjóðir sem eru með þeim í riðli verða á Hótel Selfossi. Leikið verður á Selfossi í Þorlákshöfn og á Hvolsvelli. Þeir sem leið eiga um svæðið eru hvattir til að kíkja þá leiki sem í boði eru.

Lífið er fótbolti!


Góð helgi - stórkostlegt veður

Mikið óskaplega var helgin góð. Fyrst unnu íslensku stelpurnar þær slóvensku 5-0 og færðu þar með móður minni góða afmælisgjöf. Pabbi hefur haldið um fjarstýringuna á sjónvarpinu frá því þær voru fundnar upp og tekst einhvernvegin alltaf að finna fótbolta (enda með áskrift að yfir 100 stöðvum). Ég held að mamma hafi í upphafi ekki haft neinn sérstakan áhuga á fótbolta en hún kann reglurnar vel og þekkir stöku leikmenn. Hún hafði gaman að leiknum hjá stelpunum á laugardaginn og vill endilega koma með mér á völlinn á fimmtudag, ég held ég láti það eftir henni!

Sunnudagurinn var ekki verri, mín var risin úr rekkju uppúr kl. 9 og við tók þramm með systur minni í Versalalaug, 30 mínútna hressandi ganga og svo bara dekur og leti í lauginni þegar þangað var komið. Þar sem veðrið lék við okkur ákváðum við systur (ein til viðbótar hafði bæst við í lauginni) að fjölmenna í Guðmundarlund og grilla okkur eitthvað létt í hádeginu. Þetta létta lét ekki á sér standa og endaði í þrumugóðum kolagrilluðum hamborgara ... mmmmmmm!

Enn hélt veðrið áfram að hafa áhrif á ákvarðanir dagsins og við þrammsystur skunduðum (ókum) á Valbjarnarvöll og sáum seinni hálfleik á leik Þróttar og ÍR. Ég er ekki frá því að ég hafi séð Ægi bloggvini mínum bregða fyrir í Laugardalnum! Eftir að hafa setið smá stund í kulda og trekki við stúkuna færðum við okkur um set og settumst í hallann við norðurenda vallarins og létum þar sólina baka okkur til leiksloka og ögn lengur.

Þegar heim var komið var síðan hitað upp fyrir leik Spánverja og Ítala, þar sem mínir menn unnu í vítaspyrnukeppni og öllum á óvörum reyndist Iker Cassias vera meiri vítabani en Buffon hinn hárprúði ítalski markvörður. Ég fagnaði því vitaskuld enda er það mín spá að Spánverjar nái loks að landa stórum titli.

Ps. verð eiginlega að bæta við að á landsleiknum á laugardag hitti ég einn af „10 bestu“ knattspyrnumönnum Íslands í leikhléi, við spáðum í leiki helgarinnar á EM og ég spáði Rússum og Spánverjum sigri ... knattspyrnumaðurinn var algjörlega á öndverðum meiði en þegar ég lét mig ekki sagði hann. „Þú hefur nú ekkert vit á fótbolta.“ - Þá vitum við það! Wink


Áfram Ísland - alla leið!

Góðir Íslendingar,

laugardaginn 21. júní nk. stendur íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu frammi fyrir einni af þeim þrautum sem fyrir liðið er lagt á leið þess í úrslitakeppni EM sem fram fer í Finnlandi sumarið 2009. Íslensku stelpurnar hafa sett markið hátt og hafa frá því þessi undankeppni hófst ekki legið á þeirri skoðun sinni að þær ætli sér í úrslitakeppnina, fyrst íslenskra A-landsliða í knattspyrnu.

Síðasta sumar var sett glæsilegt aðsóknarmet þegar Serbar komu í heimsókn í Laugardalinn. Nú er komið að því að slá það met þegar Slóvenar mæta í dalinn á laugardag kl. 14:00. Stúkurnar á Laugardalsvelli taka 9.800 manns í sæti. Þau sæti þurfum við að fylla ef við ætlum okkur að ná því takmarki sem stelpurnar og við öll höfum sett okkur. Þinnar nærveru er ekki aðeins óskað hennar er krafist. Ekki láta þitt eftir liggja, taktu þátt í að láta íslenska drauminn rætast. Mættu á völlinn og stattu með stelpunum okkar á vegferð þeirra til Finnlands 2009.

Áfram Ísland - allir með!


Dýrið gengur laust

Breiðablik-FH 4:1 Wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband