Leita í fréttum mbl.is

Jarðskjálftar

Ég viðurkenni það hér og nú að ég er skíthrædd við jarðskjálfta. Fyrir 8 árum var ég stödd austur á Laugarvatni ásamt leikmönnum og þjálfurum U17 ára stúlknaliðsins þegar þjóðhátíðarskjálftinn reið yfir. Þjálfarinn og ég stilltum okkur upp í dyragætt eins og á að gera og horfðum á jörðina ganga í bylgjum fyrir utan gluggann. Leikmennirnir, sem voru nýkomnar af æfingu, voru í sturtu!. Viðurkenni það líka hér og nú að ég hefði ekki viljað skipta við þær!

Í dag var ég stödd á 5. hæð í Borgartúni í Reykjavík og mér fannst skjálftinn ekki ósvipaður þeim fyrir 8 árum. Hann var álíka langur, kannski örlítið styttri, en krafturinn var mjög svipaður. Núna forðaði ég mér ekki í dyragætt, hugsaði aðeins um möguleikann að ég myndi annað hvort fara þangað eða skríða undir borð. Við skrifborðið mitt sat hins vegar tölvumaður og ég kunni ekki við að príla undir borð til hans, minnug örlaga Monicu Lewinski hér um árið!

Í dag lét ég mér nægja að halda fast í borðbrúnina og sitja sem fastast á stólnum. Það þarf talsvert til að hreyfa mig úr stað, en mér fannst að ég mætti hafa mig alla við að tolla á stólbrúninni! Svo verður maður að bera sig vel, er það ekki? Við erum Íslendingar, vön allskonar náttúruvá og ekkert hræðir okkur. Það má alls ekki láta vita að maður sé smeikur ... eða á það bara við um karlmenn? Ef svo er þá ætla ég bara að láta það vaða ... ÉG ER KELLING! Crying


Umbylting í skipulagsmálum Kópavogsbæjar

Í kvöld sat ég fund í Samfylkingarsalnum í Hamraborg og hlýddi á Birgi H. Sigurðsson sviðsstjóra Skipulags- og umhverfissviðs Kópavogsbæjar. [Ég ætlaði að vera fúl yfir því að missa af leik Breiðabliks og Grindavíkur í Landsbankadeild karla ... en var bara sátt við fundinn í Hamraborginni, svona eftirá] Birgir var mættur á fundinn til að segja frá þeim hugmyndum sem eru í farvatninu varðandi framtíðarskipulag Kársness. Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum þeim sem fylgst hefur með skipulagsmálum í Kópavogi að alls engin sátt hefur verið um þær hugmyndir sem kynntar voru á fundi í Salnum rétt fyrir jól árið 2006. Síðasta sumar var Vesturbær Kópavogs þakinn rauðum mótmælaborðum frá Samtökum um betri byggð í Kópavogi. Þau mótmæli hafa greinilega haft einhver áhrif því í orðum Birgis á fundinum í kvöld kom fram að hann hefur setið nokkra fundi með fulltrúum Betri byggðar og kynnt fyrir þeim þær hugmyndir sem nú eru á borði skipulagssviðs.

Það verður ekki sagt að þær hugmyndir sem Birgir kynnti á fundinum séu hógværar, þær eru nær því að vera útópískar og alveg klárlega eru þær framsýnar svo ekki sé meira sagt. Það efni sem Birgir kynnti var í raun í þrennu lagi. Í fyrsta lagi þar sem frá var horfið árið 2007, byggt verði á uppfyllingu á norðanverðu nesinu, og verulega verði bætt við byggðina á vestanverðu nesinu. Ef ég hef hlustað rétt þá gerir sú tillaga ráð fyrir allt að 1.400 íbúðum á þessu svæði. Í öðru lagi er tillaga þar sem enn er aukið við uppfyllingu vestast á nesinu, þar verði fyllt upp í ríflega 10 hektara svæði og öðrum 700 íbúðum bætt við. Þriðja útgáfan gerir síðan ráð fyrir enn einni 10 hektara uppfyllingu með enn einum 700 íbúðum. Þetta þýðir að íbúðafjölgunin gæti mest orðið 2.800 íbúðir sem þýðir fjölgun um 5-8.000 íbúa á Kársnesi.

Í máli Birgis kom fram að með þessum hugmyndum væri verið að kallast á við þær hugmyndir sem þegar eru komnar fram um skipulag í Vatnsmýrinni í Reykjavík, með eða án flugvallar. Í hugmyndum 2 og 3 er gert ráð fyrir tengingu við Hlíðarfót (heitir ekki landsvæðið við ylströndina það?) annars vegar með göngu/hjólabrú (tillaga 2) og hins vegar með ökubrú (3). Einnig er gert ráð fyrir Öskjuhlíðargöngum í öllum tillögunum, þau eru í raun forsenda fyrir þeim hugmyndum sem hann kynnti á fundinum. Hér er ekki verið að tala um skipulag til næstu fimm ára heldur skipulag til framtíðar, hér er horft 20, 30 jafnvel 40 ár fram í tímann.

Persónulega finnst mér þetta spennandi hugmyndir sem vert er að skoða. Mér finnst að það eigi að horfa á þá þróun sem er að verða í Vatnsmýrinni og það hvernig Kópavogsbúar geta nýtt sér þær framkvæmdir sem þar eru fyrirhugaðar. Samgöngumiðstöð er að rísa við Hótel Loftleiðir, göngubrú yfir Fossvog (sem að líkindum yrði ekki nema 100-200 metra löng) gæti þannig tengt íbúa Kópavogs við það svæði, þar sem verður miðstöð mennta og heilsugæslu hér á höfuðborgarsvæðinu. Kópavogur gæti kallast á við það svæði t.d. með því að byggja óperuhúsið á umræddri uppfyllingu og laðað þannig farþega úr samgöngumiðstöðinni yfir brúna, gangandi eða hjólandi. Í Kópavogi væri þá að finna iðandi mannlíf og menningu. Þarna er hægt að sjá fyrir sér verslanir, veitingastaði og kaffihús. Birgir benti réttilega á að þessa framtíðarsýn sjáum við ekki nema að koma fólki fyrir á svæðinu, verslanir, veitingastaðir og kaffihús þrífast ekki nema að þar sé fólk.

Mér fannst ég hafa skrifað áður um þátt sem sýndur var í sjónvarpinu ekki fyrir löngu og fjallaði um olíukreppuna. Þar var því spáð að olíubirgðir Jarðar færu þverrandi og að orka yrði mikið dýrari en hún er í dag og myndi á endanum hverfa alveg. Mér dettur ekki í hug að vera hér með einhverja dómsdagsspá en mig rennir í grun að þessi spá eigi rétt á sér. Orkubirgðir Jarðar fara þverrandi, olíuverð hefur hækkað og mun halda áfram að gera það. Ferðamáti Íslendinga mun breytast í náinni framtíð og við þurfum að fara að huga að hagkvæmari ferðamátum en þeim að vera stöðugt eitt í hverjum bíl. Það er því mikilvægt að stytta ferðaleiðir, þar kemur brú yfir Fossvog sterk inn.

Af hverju er ekki lengur hægt að skipuleggja íbúðahverfi eins og þau voru skipulögð fyrir 100-200 árum, með miðbæ? Um daginn velti ég því fyrir mér hvernig það væri ef Kópavogur skipulegði næsta hverfi í "gömlum" anda, 3-4 hæða hús, þétt saman með einum kjarna þaðan sem lægju götur sem nefndar væru t.d. eftir nýjum starfsstéttum sem ekki voru til þegar Bakarastígur, Smiðjustígur og Laugavegur voru nefnd. Þarna yrði Tölvunargata, Geimfaragata, Viðskiptagata (þar sem allar búðirnar yrðu), Lagagata, Fluggata, Ferðagata (hótelin yrðu þar) o.s.frv. Bílar væru allt að því bannaðir á þessu svæði, aðeins eitt bílastæði væri fyrir hverja íbúð (öll neðanjarðar) og gestastæði yst í byggðinni. Lögð yrði áhersla á vistvænar samgöngur, reiðhjólastíga og gönguleiðir. Í hjarta svæðisins yrði vinalegt torg þar sem fólk kæmi saman á hátíðar- og tyllidögum. Hjartað yrði ekki endilega inní miðju hverfi heldur alveg eins við smábátahöfnina þaðan sem þú getur tekið ferju yfir Fossvoginn að Ylströndinni, háskólanum og sjúkrahúsinu.

Væri þetta ekki spennandi framtíðarsýn?


Til hamingju Eurobandið

Það tók sig upp gömul gæsahúð þegar nafn Íslands var lesið upp í kvöld. Frammistaða þeirra Regínu Óskar og Friðriks Ómars var til mikilla fyrirmyndar og ég var nokkuð viss um að þau kæmust áfram, en maður veit aldrei og þegar nafn Íslands var dregið úr umslaginu hoppaði ég af kæti. Frábær árangur hjá þeim - nú hefur maður eitthvað til að hlakka til á laugardag.

Áfram Ísland!


Fyrsta útgáfa - takk fyrir að dönsurum var sleppt og að skipt var um búninga (sérstaklega höfuðfat Regínu Óskar)


Þetta var í lokakeppninni hér heima. Mun betra en fyrsta útgáfa.


Opinbera myndbandið, skemmtilegt og mátulega hallærislegt.


Sprengja í Kópavogi

Helsta frétt dagsins í dag var sprengja sem fannst í Fossvogsdal þar sem verið var að grafa fyrir nýju íþróttahúsi HK. Fréttaflutningur af sprengjunni var magnaður upp jafnt og þétt í dag og ég efast ekki um að þetta verður fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum kvöldsins. Það er mikil mildi að ekki skuli hafa orðið slys á fólki og miðað við fréttirnar þá brást lögregla og allir þeir sem að málinu komu við á hárréttan hátt. Sprengjan virðist ekki hafa legið djúpt í jörðu, það var því gott að dr. Gunni notaði aðeins venjulega skóflu við fyrstu skóflustunguna að húsinu en ekki gröfu eins og stundum hefur tíðkast.

 


Mynd af vefsvæði Kópavogsbæjar af fyrstu skóflustungunni að íþróttahúsinu við Fagralund.


Skortur á sigrum og nýr formaður

Ég er ekki sátt við fótboltasumarið það sem af er. Það vantar tilfinnanlega sigra í Kópavogin en hvorugt liðanna í Landsbankadeild karla, Breiðablik eða HK, hafa náð að hala inn 3 stig í leikjum sínum. HK hefur tapað 3 leikjum og Blikar hafa gert tvö jafntefli. Það er reyndar von í dag, þriðjudag, að Blikar reki af sér slyðruorðið og kræki í stigin þrjú en til þess að svo megi verða þurfa strákarnir að leggja KR að velli í Frostaskjóli. Fyrirfram er það ekki allra líklegustu úrslitin en vonin er alltaf til staðar og leikurinn byrjar með ellefu mönnum í hvoru liði og engu marki á töflunni. Það er því alltaf möguleiki!

Stelpurnar okkar Kópavogsbúa í Landsbankadeild kvenna hafa staðið sig ögn betur, HK/Víkingur hefur landað einu stigi í tveimur leikjum en Blikastelpurnar hafa gert ögn betur og krækt sér í 4 stig í sínum tveimur leikjum. Ég treysti báðum þessum félögum til að gera betur í næstu leikjum sínum og næla í sex stig í Kópavog í næstu umferð.

Í kvöld var aðalfundur Samfylkingarfélagsins í Kópavogi. Fundurinn var fjölmennur og góður og greinilegt að málflutningur Samfylkingarinnar á sér frjósaman jarðveg hér í bæ, á það sérstaklega við þar sem ekki hefur þegar verið steypt eða malbikað yfir græna fleti og landspildur. Tjörvi Dýrfjörð, sem verið hefur formaður Samfylkingarfélagsins undanfarin tvö ár, lét af störfum í kvöld en í hans stað var kjörin skólasystir mín til margra ára, Ýr Gunnlaugsdóttir. Ég er sannfærð um að hún mun takast á við þetta verkefni af festu og ábyrgð og hlakka ég sannarlega til næstu missera í starfi Samfylkingarinnar í Kópavogi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband