Leita í fréttum mbl.is

Sumarið og „garðurinn“

Tók til í „garðinum“ í dag. Það þýðir að ég sópaði svalirnar hjá mér, tók niður gamlan og visnaðan sýprus og ók með „garðaúrganginn“ í Sorpu. Henti þar einni lítilli pottaplöntu á meðan aðrir stórvirkari tæmdu stórar kerrur sem þeir fengu á leigu hjá Byko. Á leiðinni heim úr Sorpu, kom ég við í Storð og keypti garðaúrgang næsta árs, sígræna plöntu sem heitir Ilm... eitthvað og blómstrar hvítum blómum. Ég keypti líka þrjár plöntur sem blómstra mörgum litlum gulum blómum til að setja í bastkörfuna sem hangir utan á svalahandriðinu, ég held að plantan heiti Sólbrá.

Í dag eru svalirnar mínar þær svölustu í blokkinni og ég mun njóta þess í sumar að sitja þar með einn svalan og lesa í bók á meðan sólin bakar mig. Ummmmm ... ljúft!


Stúdentsafmæli

Mér var nokkuð brugðið þegar vinkona mín og skólasystir úr MK hringdi í mig fyrir um 6 vikum og minnti mig á að við ættum 25 ára stúdentsafmæli í vor. Það gat ekki verið að það séu 25 ár liðin síðan við útskrifuðumst úr MK, við höfum í fyrsta lagi ekki elst nema um kannski 4 ár og svo lítum við miklu betur út í dag en við gerum í þá gömlu góðu!

Dagatalið og almanakið lýgur víst ekki frekar en tíminn sjálfur og við hófum þegar undirbúning að almennilegu hófi þeirra 45 stúdenta sem útskrifuðumst úr MK þann 20. maí 1983. Leit að netföngum og uppsetning vefsíðu féll í minn hlut. Vefsíðan var ekkert mál, http://mk1983.blogcentral.is og málið er dautt. Skannaði inn nokkrar myndir, laug og bullaði öðru hvoru í dagbókinni og samstúdentar mínir upplifðu síðustu 6 vikur eins og ég hafi fundið upp hjólið, öreindirnar og amömbur. Á föstudagskvöld hittumst við svo í Rúgbrauðsgerðinni og þvílíkir fagnaðarfundir. Sjaldan eða aldrei hef ég skemmt mér jafn vel og þarna, magnað að hitta allt þetta lið uppá nýtt, mætingin var bara mjög góð, þrír af þeim 45 sem útskrifuðust eru látnir og allnokkrir eru búsettir erlendis og áttu ekki heimangengt. Nokkrir höfðu ekki áhuga á að hitta okkur en með mökum og nokkrum sérvöldum kennurum mættu 42 einstaklingar í hófið og skemmtu sér hreint konunglega.

Ef einhver þeirra skyldu rekast inná þessa síðu þá færi ég þeim bestu þakkir fyrir kvöldið. Við erum ótrúlega flott, eiginlega langflottust, eins og sjá má af myndunum af fimmmenningaklíkunni þar sem myndin til vinstri er tekin árið 1983 og í fyrradag stilltum við okkur aftur upp í sömu röð. Flottar dömur finnst þér ekki?

1983   IMG_3609
1983                          2008


Sólrík Kaupmannahöfn að baki (og á bringu)

Jæja, þá er ég komin heim úr afslöppunarferðinni minni til Kaupmannahafnar. Snilldin við þessa ferð var að í þá þrjá heilu daga sem ég var í ríki Margrétar drottningar, voru búðir að mestu lokaðar í tvo! Það var virkilega hressandi og í raun upplífgandi að vita til þess að enn eru til þjóðir sem virða helgidaga. Vissulega voru flestir veitingastaðir og krár opnar en verslunareigendur höfðu langflestir lokað. Það þýddi að ég og systur mínar tvær sem voru með í för máttum gjöra svo vel að eyða dögunum í annað en búðarráp, fyrir það var ég þakklát en ekki fer sögum af gleði systranna.

Við komum til Kaupmannahafnar seint á laugardag, byrjuðum á því að koma okkur á Comfort Hotel Europa, sem er staðsett á horni Istegade og Colbjornsensgade, rétt við lestarstöðina. Við fengum rúmgott hornherbergi sem vísaði út á þessar tvær götur og út um gluggann á 3. hæð gátum við fylgst með stjörnum næturinnar eiga sín viðskipti við aðvífandi einstaklinga.  Ef þið smellið á tengilinn þá er ég ekki frá því að herbergið okkar sé einmitt herbergið sem er á myndunum. Oftast nær voru þarna sömu stúlkurnar en við urðum þó varar við að það voru vaktaskipti hjá þeim, einar unnu á nóttunni aðrar á daginn. Rétt við hótelið voru tveir næturklúbbar sem gera út á nektarsýningar, var af þeim nokkuð ónæði á aðfararnótt sunnudags og mánudags en eitthvað dró úr hávaðanum af þeim völdum aðfararnótt þriðjudags.

Á sunnudag lá leið okkar niður á Ráðhústorg og eftir Strikinu til að kanna aðstæður. Um hádegisbil hittum við síðan nokkra aðra Íslendinga og Guðlaug Arason rithöfund, sem leiddi okkur í sannleikann um þessa fyrrum höfuðborg Íslands. Sannarlega skemmtilegur göngutúr sem hófst við Ráðhúsið og lauk við Nýhöfn. Mæli ég eindregið með því við þá sem leggja leið sína til Kaupmannahafnar og eiga lausa 2-3 tíma á sunnudegi að fara í göngutúr með Guðlaugi. Að gönguferðinni lokinni var vitaskuld sest niður við Nýhöfn í nokkra stund og litið í botn á bjórglasi. Því næst tókum við okkur far með síkjabát og sigldum í um 60 mínútur og hlýddum á ýmsan fróðleik með augum Dana. Það var ekki síðri ferð og mæli ég vitaskuld einnig með þeirri skoðunarferð. Að loknum góðum degi, þar sem við nutum leiðsagnar um Kaupmannahöfn, sólarinnar og stundarinnar settumst við niður á ítalskan veitingastað við Vesterbrogade, sem ég man ekki hvað heitir og mæli svo sem heldur ekki með.

Á mánudag, héldum við út á ný og eftir að við höfðum fullvissað okkur um að búðirnar væru ennþá lokaðar á Strikinu ákváðum við að skella okkur upp á Kolatorg og fá okkur ölglas. Vildi svo skemmtilega til að á leið okkar urðu flokkur tindáta sem voru á leið til höllu drottningar til að hafa vaktaskipti við félaga sína. Við gátum hreinlega ekki annað en tekið upp gamla íslenska siði og eltum strákana niður að Amilíuborgarhöll og fylgdust með fornu siðum við vaktaskipti lífvarðanna. Verð ég að segja eins og er að mér fannst þetta pínulítið spennandi og jafnvel dálítið fróðlegt en í leiðinni hugsaði ég hversu ógurlega gamaldags þetta væri. Þarna sprönguðu lífverðir drottningar, í fylgd með einum lögregluþjóni, sem gætti þess að dátarnir væru ekki truflaðir á leið sinni. Þegar við komum síðan að höllinni mætti okkur annar lögregluþjónn sem sagði okkur að við mættum ekki stíga yfir ákveðna ímyndaða línu, "Om du gjor det så må jeg bruge min pistol!" sagði löggan og sýndi okkur vopnið. Við brostum bara og spurðum hvað hann hefði mörg skot í byssunni?  Eftirá að hyggja þá benti ég systrum mínum á að það væri eins gott að þetta hefðu ekki verið íslenskar löggur, þeir hefðu sjálfsagt ekki haft húmör fyrir þessu og hefðu jafnvel dregið upp hina ógurlegu gasbrúsa við minnsta tilefni.

Eftir að hafa fylgst með skiptunum, röltum við um Amelíugarðinn við konungshöllina (sem er náttúrulega drottningarhöll sem stendur) og settumst niður við höfnina og kíktum í botn á ölkrús. Það var ótrúlega ljúft, en því miður man ég ekki nafnið á barnum. Sólin gjörsamlega steikti okkur og okkur leið eins og við værum á sólarströnd, ótrúlega notalegt að sitja svona, horfa á mannlífið, skúturnar og hlusta á sjávarniðinn! Magnað, alveg magnað. Eftir að hafa heilsað upp á þá bræður Tuborg og Carlsberg töltum við síðan sem leið lá að Kolatorgi þar sem þeir bræður tóku okkur fagnandi. Ætli það hafi ekki tekið okkur um tvo klukkutíma að komast að því að við þyrftum aðeins að vinda ofanaf okkur og við brugðum á það ráð að ganga upp í Sívalaturn, sem er rétt við torgið. Það var líka algjörlega þess virði og mæli ég sérstaklega með því sem eiga þess nokkurn kost. Að loknum góðum degi þar sem sólin setti mark sitt á okkur systur þá brugðum við okkur aftur út á Vesterbrogade en að þessu sinni varð kínverskt veitingahús fyrir valinu, það heitir Canton og er við Vesterbrogade 20. Fínn veitingastaður, snyrtilegur, góð þjónusta og maturinn sem við fengum var afbragð. Á leiðinni heim á hótel fundu þær systur mínar skyndilega fyrir gríðarmikilli þörf fyrir Mojito en við höfðum heyrt af því að besti mojito í Kaupmannahöfn væri á áströlskum veitingastað, Reefn'Beef, við Jernbanegade 4. Og þvílíkur staður, mettar og sælar eftir kínamatinn sáum við samstundis eftir því að hafa ekki farið beinustu leið á þennan frábæra veitingastað. Fyrir forvitnis sakir fengum við að líta á matseðilinn og þar er sko ekkert slor - en það er svo sem ekki ókeypis heldur svo við töldum okkur bara sleppa vel á Canton. Mér skilst að mojitoinn hafi ekki klikkað enda voru þær snöggar með þann fyrri og nutu þess síðari í botn! Gott hjá mínum.

Á mánudag var loksins komið að því að búðirnar opnuðu, við hikuðum ekki mikið, strikið var sett á Strikið og þar var fyrsta alvöru stopp vitaskuld í H&M. Þar voru kortin okkar strauuð (strau-uð, skrítið orð) og við puntaðar hátt og lágt. Eftir stoppið þar og víðar á Strikinu þrömmuðum við aftur uppá hótel, sóttum töskurnar okkar, settum innkaupin í þær og héldum í stærstu verslunarmiðstöð Evrópu, Fields. Þegar hér var komið við sögu hafði ég fengið nóg af verslunum og mælti mér mót við kunningja minn hjá danska knattspyrnusambandinu, DBU, og við fengum okkur indælan kaffibolla og spjölluðum um landsins gagn og nauðsynjar, og svo smávegis um fótbolta. Þegar því spjalli lauk var kominn tími til að taka lestina til Kastrup og þar fengum við síðustu máltíðina á veitingastaðnum O'Learys þar sem við fengum afbragðs hamborgara og kvöddum bræðurna Carlsberg og Tuborg, sem fagnaði 133 afmælisdegi sínum þann 13. maí.

Það er við hæfi að ljúka þessum langa pistli á því að slá um sig með slagorðum veitingastaðarins á Kastrup - O'Learys - Better than Live!


Lifi Kópavogur!!!

kopavogur100x150

Þá er það ljóst, Kópavogur lagði Reykjavík að velli í fyrstu Útsvarskeppni Ríkissjónvarpsins. Mér fannst sigurinn bæði sanngjarn og skemmtilegur hjá mínum mönnum þó ég hafi verið pínulítið móðguð yfir því að engum skuli hafa dottið í hug að setja a.m.k. eina konu í liðið!! Strákarnir stóðu sig frábærlega og þó þeir hafi ekki vitað hvað Sæmundur á sparifötunum er í lokaspurningunni þá var ég hæstánægð með niðurstöðuna.

Besta atriði kvöldsins átti þó annar þáttastjórnandinn, Kópavogsbúinn Þóra Arnórsdóttir, þegar hún náði að þagga niður í landsmönnum með vel leiknum hríðarverkjum. Hún náði mér í algjöra þögn, salurinn dró vart andann og Sigmar var ekki alveg viss um hvað hann ætti að gera. Hann var þó ekki alveg jafn steinrunninn og Össur Skarphéðinsson var þegar Ingibjörg Pálmadóttir fékk hjartaáfall í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum árum.

Í síðustu færslu sagði ég frá því að um þessar mundir eru liðin 25 ár frá því ég útskrifaðist sem stúdent frá MK. Af því tilefni og því að Kópavogur vann Útsvar þykir mér við hæfi að flytja ykkur ljóð sem við krakkarnir sungum gjarnan í rútu í skólaferðalögum. Þeir sem þekkja til Kópavogs kannast við Kópavogslækinn í Kópavogsdal. Hann rennur ofan úr Breiðholti og fellur til sjávar í Kópavogi, rétt sunnan við Þinghól. Lækur þessi, sem í dag er tær og fínn var í þá daga sem ég var að alast upp í Kópavogi ekki alveg eins hreinn og lengi vel mátti sjá í honum miður skemmtilega hluti, s.s. salernispappír. Lækurinn var því í daglegu tali okkar krakkana nefndur „Skítalækur“. Engu að síður leituðum við oft þangað og veiddum hornsíli og óðum í honum. Lækurinn var þó og er ekki hættulaus því í miklum rigningum umbreytist hann í allnokkuð fljót og fyrir mörgum, mörgum árum síðan drukknaði í honum barn.

Þó lagið sé engin „Reykjavíkurtjörn“ þá þykir mér vænt um það, rétt eins og mér þykir vænt um bæinn minn. Lagið er sungið við bandaríska blökkumannasálminn „We shall overcome“ og þú mátt alveg reyna þig! Til hamingju Kópavogsbúar, þetta var góð afmælisgjöf en afmælisdagur bæjarins er á sunnudaginn, 11. maí.

Lifi Kópavogur, lifi Kópavogur
lifi Kópavooooooooooooogur.
Ó þú yndislegi bær, og skítalækur tær.
Lifi Kópavooooogur.


Afslöppun, endurfundir og skoðunarferð

Ætli sumum bloggvinum mínum þyki það ekki aumt af mér að blogga bara um afslöppun og endurfundi þegar stjórnarheimilið í Reykjavík logar stafna á milli og meirihlutinn hleypur í var, slekkur á símanum, lætur ekki ná í sig, hverfa af yfirborði Reykjavíkur!  Þetta er bara svo mikið leikrit að ég treysti mér ekki til að taka þátt í því. Fagna hins vegar hverjum þeim sem nennir að hósta, ræskja sig og hnerra út af þessari makalausu uppákomu.

Í dag brá ég mér bæjarleið frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. Það er svo sem ekki í frásögur færandi en þó að því leyti að með mér var maður sem hafði sérstaklega óskað eftir því að fá leiðsögn um Kópavog, svona í leiðinni. Ég brást vitaskuld vel við beiðni hans og byrjaði á því að sýna honum elsta hluta bæjarins og fór með honum út á nes. Þar dvöldum við nokkuð við að skoða Einingaverksmiðjuna Borg og uppfyllingar á norðan- og vestanverðu Kársnesinu. Það var bara skemmtilegt að taka að sér hlutverk fararstjóra í þessari ferð og útskýra hvað hefur verið í gangi þarna, hverju íbúar voru að mótmæla sl. sumar og haust. Ég held að ég hafi ekki virkað mjög neikvæð enda er það mín skoðun að uppbygging á svæðinu sé af hinu góða, en hún má ekki verða í slíku magni að hún eyðileggi þá stemmingu sem fyrir er á Kársnesi.

Við dvöldum nokkuð lengi á Kársnesi og þar sem við áttum stefnumót í Hafnarfirði ókum við þangað og tókum þátt í bráðskemmtilegum fundi þar við hlógum í um 30 mínútur stanslaust. Mjög skemmtilegt. Á leiðinni til baka fórum við Reykjanesbraut og ókum framhjá Vífilsstaðavatni og þaðan inní nýjustu hverfi Kópavogs við Vatnsenda og Elliðavatn. Þar er mögnuð uppbygging og er þessi nýjasta viðbót við Kópavog sannarlega bæjarprýði. Sumar framkvæmdir þarna eru mér þó ekki alveg að skapi, en það var svo sem ekki lagt uppí þessa vegferð til þess að þóknast mér eða gera mér til hæfis.

Frá Vatnsenda ókum við út á Breiðholtsbraut þar sem við fórum í fljótheitum eftir Nýbýlavegi og framhjá framkvæmdum þar við Lund. Þar er enn eitt dæmi um framkvæmdir sem ekki voru í takti við íbúa bæjarins og ég held að margir séu nú að reka upp stór augu þegar þeir sjá mikla umferðargötu eins og Nýbýlaveg vera allt að því inní stofu á 2. eða 3. hæð einnar íbúablokkarinnar í Lundi.

Hvað um það, ég ætlaði ekki að skrifa bara um skoðunarferðina, um helgina liggur leið mín til fyrrum höfuðborgar Íslands, minnar uppáhaldsborgar Kaupmannahafnar. Þar ætla ég að slappa af, kíkja í heimsókn til þeirra bræðra, Tuborg og Carlsberg og fylgjast með mannlífinu í 20 stiga hita og sólskini á Nýhöfn.

Um næstu helgi eru það síðan endurfundir með félögum mínum úr MK en við fögnum um þessar mundir 25 ára útskriftarafmæli. Við höfum sett upp bloggsíðu af því tilefni, http://mk1983.blogcentral.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband