Leita í fréttum mbl.is

Jafntefli í góðum leik

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu gerði 1-1 jafntefli við Finna í vináttuleik í dag. Miðað við þær fréttir sem ég hef af leiknum þá var leikurinn jafn og spennandi og e.t.v. má segja að niðurstaðan hafi nokkuð í samræmi við væntingar. Það er þó alltaf jafnfúlt að missa sigur niður í jafntefli í uppbótartíma.

Í frétt á vefsíðu KSÍ er skemmtileg frásögn af leiknum en það vakti sérstaka athygli mína að kór Neskirkju hafði sig nokkuð í frammi á pöllunum en kórinn er í ferðalagi í Finnlandi. Gott hjá þeim að mæta á völlinn og styðja stelpurnar, frábært. Miðað við leikinn í dag má reikna með að stelpurnar hafi eignast nokkra nýja aðdáendur sem munu ekki láta sig vanta á landsleikina hér heima í sumar.

Frásögn af leiknum á vef KSÍ.


1. maí - til hamingju með daginn!

Það var mikil og góð stemming í kröfugöngunni í dag.  Hygg ég að langt sé síðan svo margir tóku þátt í göngunni. Tilefni til kröfugöngu á Íslandi í dag er ærið, og veðrið í Reykjavík bauð uppá fjölmenna göngu.

Í ávarpi á Ingólfstorgi sagði formaður SFR að misskiptingin í íslensku þjóðfélagi væri orðin slík að ekki væri nokkur leið til þess að sætta sig við hana. Orð hans um 2.500 fjölskyldur sem þurfa að þiggja matargjafir fyrir jólin og einkaþotuliðið sem héldi uppá afmælið sitt fyrir 100 milljónir eru orð í tíma töluð. Þetta er ekki það þjóðfélag sem ég vil búa í. Undanfarin ár hafa ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks (sem í einu nafni gæti kallast Sjálfsóknarflokkur) búið í haginn fyrir einkaþotuliðið og þeir sem þar ráða hafa skarað rækilegan eld að eigin köku. Veisluborð Sjálfsóknar er uppurið og nú haga þeir sér eins og þeir hafi alls ekki tekið þátt í veisluhöldunum!

Þau verk sem nú bíða ríkisstjórnar Íslands eru ekki líklegt til mikilla vinsælda. Það mun kosta fórnir að brjóta verðbólgudrauginn á bak aftur og koma hjólum atvinnulífsins aftur á gott skrið. Það er krafa dagsins að jöfnuður í íslensku samfélagi verði meiri og að sú gegndarlausa misskipting sem er arfleið Sjálfsóknarflokksins verði stöðvuð hratt og örugglega. Þar mun Samfylkingin gegna lykilhlutverki.

Vinnandi fólki til lands og sjávar færi ég hamingjuóskir í tilefni dagsins.


Áfram stelpur

Það er ánægjulegt að á Íslandi skuli vera komið verðbréfafyrirtæki sem leggur áherslu á þau miklu tækifæri sem felast í mann- og fjárauði kvenna og auknu frumkvæði þeirra til athafna, eins og segir í hugmyndafræði þeirra Auðar-kvenna. Oft hefur mér verið hugsað til þess að íslenskt samfélag hefði verið öðruvísi ef konur hefðu haft meira um stjórn landsins að segja. Ætli Íslendingar hefðu verið meðal hinna viljugu þjóða sem studdu við innrásina í Írak ef kona hefði verið í sæti forsætisráðherra? Ég held ekki.

Í hugmyndafræði Auðar segir einnig að fjölmargar erlendar rannsóknir sýni fram á að fyrirtæki sem njóta aðkomu kvenna í lykilhlutverkum skili betri arðsemi þegar til lengri tíma er litið.  Auður Capital hafnar því viðhorfi að velja þurfi á milli fjárhagslegrar arðsemi og samfélagslegs ávinnings. Fyrirtækið telur einfaldlega að það felist fjárhagslegur ávinningur í því að taka samfélagslega ábyrgð.

Þetta líkar mér!


mbl.is Auður Capital fær starfsleyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reikisamningar milli símafyrirtækja

Um helgina lá leið mín vestur í Stykkishólm, er sú ferð í sjálfu sér ekki í frásögur færandi ef ekki væri vegna þessarar fréttar um útbreiðslu gsm-senda frá Vodafone. Þegar ég var komin langleiðina yfir nýju Vatnaleiðina á leiðinni vestur þá datt síminn minn út. Systir mín sem var með mér í bílnum er með númer frá Símanum og hennar sími var inni allan tímann.

Vodafone síminn minn kom ekki almennilega inn aftur fyrr en ég var komin langleiðina út á Þórsnes og inn í Stykkishólmsbæ. Þetta er að mínu mati ekki góð þjónusta og í raun algjörlega fáránlegt að  símafyrirtækin skuli ekki vera með reikisamning sín á milli þar sem Vodafone getur notað dreifikerfi Símans og öfugt þegar þannig stendur á.

 


mbl.is Nýir gsm sendar settir upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpur gegn framtíðinni

Á hátíðastundum er því oftlega haldið fram að umhverfismál séu málefni framtíðarinnar. Því er ég ekki alveg sammála. Umhverfismál eru málefni nútímans, þau varða framtíðina rétt eins og öll mannanna verk en ef við förum ekki að bregðast við í umhverfismálum þá gæti það orðið of seint fyrir framtíðina.

Íslendingar hafa í gegnum tíðina stært sig af hreinu lofti, ómenguðu vatni og ósnortnu landslagi. Því miður getum við ekki haldið þessu fram af jafnmikilli sannfæringu í dag og fyrir aðeins 25 árum. Íslendingar eru að verða, og eru jafnvel orðnir, algjörir umhverfissóðar. Við mengum stöðugt meira,  í lofti, á láði og legi. Mörgum okkar finnst algjör óþarfi að hugsa um það hvaða vörur eru umhverfisvænar og hverjar ekki. Við ökum enn um á nagladekkjum að vetri, þó götur séu ruddar og hreinsaðar daglega þá daga sem snjóar. Við hikum ekki við að sækja um undanþágur frá mengunarkvótum okkar og nýtum þær undanþágur til hins allra ýtrasta án þess að roðna.

Í dag er „Dagur Jarðar“ eða „Dagur umhverfissins“ (sbr. mbl.is) - í dag vekja fjölmiðlar athygli á umhverfinu og því sem gæti flokkast undir umhverfismál. En hvar er þessi umfjöllun aðra daga, hugsa Íslendingar almennt um umhverfismál? Sumir gera það sjálfsagt, öðrum er alveg sama og velta þessum málum ekkert fyrir sér. Sem betur fer virðist þó sem umhverfisvitund almennings sé að aukast. Þar komum við, bloggararnir, sterk inn.

Á vefsíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi, www.samband.is/dagskra21 segir í Orðum dagsins þann 9. apríl sl. „Bloggarar láta sífellt meira til sín taka í umhverfisumræðunni á heimsvísu. Í nýrri bandarískri skýrslu kemur fram að umfang netumræðu um sjálfbæra þróun hafi vaxið um 50% milli áranna 2006 og 2007. Framan af árinu 2007 snerist þessi umræða einkum um loftslagsbreytingar, en eftir því sem leið á árið færðist áherslan meira á afmarkaðri en reyndar nátengda umhverfisþætti, svo sem endurnýjanlega orkugjafa og sjálfbæra flutninga. Þá má lesa út úr netumræðunni mikla áherslu almennings á tengsl umhverfis og heilsu. Þetta kemur m.a. fram í miklum skrifum um eiturefni og um sjálfbæran landbúnað.“

Ástæða þessarar aukningar er augljós, það getum við lesið úr orðum dagsins frá 10. apríl þar sem fram kemur að plastrusl á fjörum Bretlands hefur aukist um 126% frá árinu 1994. Mannkynið mengar stöðugt meira og við verðum, beinlínis verðum, að fara að snúa þessari þróun okkur í hag. Annað er glapræði og í raun glæpur gegn framtíðinni.


mbl.is Umhverfisviðurkenningar afhentar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 129829

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband