Leita í fréttum mbl.is

Lögregluaðgerðir

Í gærkvöldi setti ég inn tvær færslur hér á bloggið. Annars vegar um prófkjör í Bandaríkjunum, þar sem ég taldi að dagar Hillary Clinton væru taldir (sem reyndist ekki vera) og hins vegar um það hvað það væri gott að fara glaður í háttinn. Þar hitti ég naglann á höfuðið, enda dreymdi mig mikið og í morgun komst ég að því að draumfarir mínar eru fyrir góðu. Í draumráðningabókinni minni segir eitthvað á þá leið að þeir sem hafi verið að ofsækja dreymandann muni fara halloka og dreymandinn vinni fullnaðar sigur! Það er gott.

Vöruflutningabílstjórar hafa ekki verið að sækja á mig og hef ég losnað blessunarlega við óþægindi af þeirra sökum. Í dag hef ég varla haft undan að uppfæra vefsíður til að fá nýjustu fréttir og aukafréttatími RÚV varði örugglega lengur en þeir sjálfir áformuðu. Ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að ákveða hvort ég standi með bílstjórum eða löggunni í þessu máli. Helst er ég á þeirri skoðun að báðir aðilar séu komnir út í öfgar sem mér líkar ekki við að sjá hér á Íslandi.

Mótmæli bílstjóra beindust í upphafi að hækkandi olíuverð en síðan bættust við kröfur um undanþágu frá reglugerðum um hvíldartíma. Ég get tekið undir að bensín- og olíuverð er allof hátt nú um stundir, en það er ekki íslenskri ríkisstjórn að kenna heldur mætti frekar benda á stefnu George W. Bush í málefnum Miðausturlanda. Þá er ég ekki viss um að ég sé sammála því að það eigi að draga úr kröfum um hvíldartíma hjá bílstjórunum. Eiginlega er það mér þvert um geð. Í vetur hefur verið mikið átak í gangi hjá Umferðarstofu þar sem ökumenn eru hvattir til að taka sér 15 mínútna hvíld frá akstri, enda er syfjaður eða sofandi ökumaður óendanlega hættulegur sjálfum sér og öllum öðrum í umferðinni.

Lögreglan á ekki mikla samúð hjá mér heldur eftir atburði dagsins. Miðað við þau myndskeið sem sést hafa á vefmiðlum þá gengu þeir fram af gríðarlegri hörku, sem að mínu viti á engan rétt á sér. Notkun þeirra á piparspreyi var tilviljunarkennd og virtust sumir lögregluþjónar ekki hafa annað að markmiði en að klára úr brúsanum á hvern þann sem fyrir varð. Það hlýtur að vera hægt að finna einhvern meðalveg sem er milli þess að yfirlögregluþjónninn gangi meðal manna og gefi þeim í nefið og þess sem við urðum vitni að í dag. Lögreglan verður að skoða sinn gang með opnum hug en ekki þeirri vissu að það hefði ekki verið hægt að gera neitt öðruvísi, eins og mig grunar að hún muni þrátt fyrir allt gera.

Íslendingar eru í eðli sínu friðsöm þjóð, það er ekki möguleiki í stöðunni að sitja þegjandi hjá á meðan samfélagið breytist í lögregluríki. Hér þarf að grípa inní af festu og ábyrgð og þeir sem þessu landi stjórna geta ekki fylgst með þessu úr fjarlægð, eða með bundið fyrir augu. Nú þarf styrka stjórn og ég treysti því að ráðherrar þessa lands muni taka þetta mál upp og koma í veg fyrir að hér verði lögregluríki í ætt við það sem við sáum í dag.


Gott að fara glaður í háttinn

Það er alltaf gott að fara glaður í háttinn. Nú undir nóttina þá kíkti ég aðeins á youtube.com og komst að því að bresku þættirnir „Britain's got talent“ eru aftur komnir á dagskrá. Í fyrra vann óperusöngvarinn Paul Potts eftir að hafa flutt hreint magnaða útgáfu af Nessun Dorma. Algjörlega magnaður flutningur hjá þessum manni sem leit ekki út eins og óperusöngvari, langt því frá!

Í fyrsta þætti ársins 2008 er annar snillingur á ferðinni, ungur drengur sem heitir Andrew Johnston, en hann söng Pie Jesu af slíkri snilld að mér vöknaði um augu og fann hvernig það hríslaðist um mig gæsahúð. Ótrúlega fallegur söngur hjá þessum 13 ára dreng sem hefur verið strítt frá því hann fór að syngja 6 ára gamall. En það var annar kappi, Craig Harper, sem gladdi mig nú undir nóttina. Hann kom með algjört snilldaratriði sem gerði það að verkum að ég horfði þrisvar sinnum og brosti hringinn í öll skiptin sem ég sá hann flytja sitt atriði.  Meira ætla ég ekki að segja, heldur leyfa þér að njóta þess að sjá kappann á sviðinu.


Úrslitastund

Það verður spennandi að fá af því fréttir í fyrramálið hvernig prófkjöri Demókrata í Pensylvaníu lýkur. Miðað við fréttir þá þarf Hillary Clinton að vinna yfirburðarsigur til að eiga möguleika á útnefningu flokksins. Það er í raun ótrúleg staða því fyrir um ári síðan þá leit allt út fyrir að Hillary myndi ekki verða skotaskuld úr því að hljóta útnefninguna. En á einu ári getur margt breyst. Miðað við þær takmörkuðu fréttir sem ég hef sankað að mér um slag þeirra Clinton og Obama þá hefur Hillary spilað illa úr þeim spilum sem hún hafði á hendi.

Klaufagangur og vandræði er meðal þess sem hefur dregið verulega úr trúverðugleika hennar og þar ber frásögn hennar af heimsókn til Bosníu hæst. Á www.youtube.com má sjá ótal myndbönd þar sem gert er grín að þessum ummælum hennar og mörgum öðrum eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan. Því miður held ég að stríðið sé tapað fyrir Hillary Clinton, ég hefði gjarnan viljað sjá konu á forsetastóli í Bandaríkjunum en tek þó undir ummæli Barak Obama um að það skipti í raun engu máli hver taki við af George W. Bush, næsti forseti Bandaríkjanna verði klárlega betri kostur en hann.

 


First we'll take Copenhagen, then we'll take Berlin

Í síðustu viku bauð Icelandair uppá flug til áfangastaða sinna á helmings punktaafslætti. Ég er svo heppin að eiga nokkurt safn af slíkum punktum og ákvað að reyna hvað ég gæti til að nýta mér þetta kostaboð. Reyndi ég að sannfæra systur mínar um að koma með m.a. með því að nefna helgarferð til Berlínar. Engin slík ferð fannst en það varð úr að Sigrún sagði já takk og ég bókaði okkur í stutta ferð til Kaupmannahafnar um Hvítasunnuhelgina. Á vefsíðu Icelandair fann ég síðan ágætt hótel að ég held og þar var líka afbragðs gott tilboð í gangi.

Degi síðar hringir Bubba systir og segist hafa áhuga á að koma með, hún á punkta sem hún þurfi að nota og eftir tvær tilraunir tókst mér að fá staðfestingu á ferð fyrir hana. Samstarfskona mín sem bjó um árabil í Danmörku tók síðan að sér að hringja á hótelið og spurði hvort unnt væri að fá þriðja rúmið inní herbergið okkar Sigrúnar og reyndist það létt verk. Ég sendi síðan Bubbu staðfestingu á þessu og allt er klappað og klárt. Kvöldið eftir hringir Bubba í mig og er áhyggjufull: „Ég er að fara til Kaupmannahafnar," segir hún og ég heyri að hún er dálítið undrandi í röddinni. „Já einmitt," segi ég og skil ekki alveg af hverju hún er svona undrandi. „Hvert eruð þið að fara?" spyr hún og er enn eitthvað skrítin í röddinni. „Nú, til Kaupmannahafnar," segi ég og er ekki alveg að ná þessu. „Erum við þá ekki að fara til Berlínar?" segir þá Bubba og ég skelli hressilega uppúr.

Þá hafði Bubba talið það víst að við værum að fara til Berlínar og var ákaflega sátt við það. Hún ætlar samt að koma með til Kaupmannahafnar, þó hún hefði kostið að fara til Berlínar enda hefur hún, ekki frekar en ég, komið þangað. Við eigum það bara inni systurnar þegar næsta tilboð berst frá Icelandair, og við eigum betri tíma, þá skellum við okkur þangað en framboðið á ferðum til Berlínar var ekki nærri eins mikið og til Kaupmannahafnar og fól ávallt í sér fleiri daga frá vinnu en ferðin til Kaupmannahafnar, þess vegna varð Kaupmannahöfn ofaná!


Helgin

Helgin var góð eins og við var að búast. Fór til Akureyrar snemma á laugardagsmorgun til að sitja stjórnarfund KSÍ og hitta fulltrúa félaga á Norðurlandi. Alltaf gaman að koma í höfuðstað Norðurlands. Frábært veður spillti heldur ekki fyrir og fjallasýn úr flugvélinni var mögnuð. Fyrir norðan hitti ég mikið af skemmtilegu fólki, þar ber hæst Hönnu Dóru Markúsdóttur, sem á sæti í kvennanefnd KSÍ og svo hittum við líka þau hjón Erlu og Stefán sem slógu hressilega í gegn sl. sumar sem fylgdarfólk Evrópumeistara Þjóðverja í úrslitakeppni U19. Frábært fólk sem var virkilega gaman að hitta. Heimferðin gekk ekki alveg eins og áætlað var þar sem vélin sem við áttum að fara með suður bilaði fyrir norðan og við urðum að bíða eftir annarri vél úr bænum. Það gerði þó ekki mikið til enda gafst þar með tími til að kíkja skylduheimsókn í Bautann.

Þegar heim var komið brunaði ég beint í tvöfalt afmæli þeirra systra, Unnar Ýrar og Maríu Konráðsdætra. Þar biðu veisluföng eins og þau gerast best, gleði og glaumur. Frændi minn, Úlfar Garpur, var líka á svæðinu en ég sé alltof lítið af honum þessa dagana. Úlfar er alveg frábær 3ja ára gaur, hraustur og duglegur eins og pabbi hans - skemmtilegur strákur.

Eftir stutt stopp í afmælinu hentist ég heim enda stóð til að líta á tónleika með Samkór Kópavogs. Þeir fóru fram í Digraneskirkju og stóðu algjörlega undir væntingum. Virkilega skemmtilegur kór þarna á ferðinni og frábært að Kópavogur skuli eiga svona mikið af hæfileikaríku áhugafólki í tónlist. Með í för á tónleikunum voru þó nokkrir atvinnumenn í tónlist, stórkostleg hljómsveit undir stjórn Hjörleifs Valssonar og frábærir einsöngvarar sem þó voru aðeins þrír í dag en einn einsöngvarinn fékk óværu í röddina og treysti sér ekki til að syngja. Hún kom þó fram til þess að reyna í eitt skipti en fann að röddin var ekki eins og hún á að sér og stjórnandi kórsins, sem heitir Björn, leysti hennar hlut af stakri snilld. Flott hjá honum.

Í kvöld var síðan skylduáhorf á besta sjónvarpsþáttinn í íslensku sjónvarpi síðustu misseri Boston Leagal, þættir sem eru gargandi snilld að mínu viti. Það óvænta gerðist í kvöld að Alan Shore tapaði máli og reyndar fleiri lögmenn á stofunni í Boston og Danny Crane hélt sig nokkuð til hlés. Ég hef grun um að hann komi tvíefldur til leiks í næsta þætti nk. sunnudag.

Á morgun er síðan venjulegur vinnudagur, mánudagur, sem er einn besti dagur vikunnar að mínu viti. Þér óska ég góðrar vinnuviku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 129829

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband