Leita í fréttum mbl.is

Hroki eða karlremba?

Oftast nær reyni ég á horfa á Silfur Egils eftir hádegisfréttir á sunnudögum. Ef ég missi af þættinum kíki ég á hann á netinu og sortera þá út það sem mig langar að hlusta á - sá kostur verður æ oftar fyrir valinu. Á sunnudag horfði ég hins vegar á þáttinn með nokkurri athygli og áhuga enda margt að ræða á vettvangi íslenskra efnahagsmála. Í upphafi þáttarins voru mætt í stúdíó til Egils nokkrir mætir menn, Gunnar Smári Egilsson, Jón Magnússon, Jón Steindór Valdimarsson og Edda Rós Karlsdóttir.

Umræðurnar voru athyglisverðar þó ekki hafi allir þeir sem sátu við borðið verið sammála um greiningu á efnahagsástandinu. Einn þátttakandanna fannst mér tala öðrum fremur af mikilli skynsemi og yfirvegun um efnahagsástandið, en það var Edda Rós Karlsdóttir. Hún setti skoðanir sínar fram á yfirvegaðan hátt og greinilegt er að þarna fer kona sem hefur greinargóða þekkingu á efnahagsástandinu. Mér fannst hún tala af varúð um ástandið og færði hún góð rök fyrir máli sínu. Kannski hefur innlegg hennar skyggt eitthvað á þá sem voru með henni í þættinum því þrír af fjórum þeirra ágætu karla sem sátu með henni til borðs voru ósparir á að grípa frammí fyrir henni og koma sínum ljómandi hugmyndum á framfæri. Aldrei varð ég þess vör að Edda Rós gripi frammí fyrir þeim, enda ber slíkt ekki vott um góða mannasiði. 

Þegar leið á þáttinn óskaði Edda Rós þess að það yrði talað af ákveðinni virðingu um krónuna. Þessi beiðni hennar fór öfugt ofan í alþingismanninn Jón Magnússon sem hreytti í Eddu Rós að flokksformaður hennar hafi sagt krónuna vera ónýtan gjaldmiðil. Ég fékk ekki betur séð en Eddu brygði við þessar hreytur enda var hún í þættinum sem forstöðumaður Greiningardeildar Landsbankans en ekki annað.

Persónulega hef ég ekki hugmynd um hvar í flokki Edda Rós stendur, enda finnst mér það ekki koma málinu við. Ég veit hverra manna hún er og ég veit hver eiginmaður hennar er, og þykist meira að segja vita hvar í flokki hann stendur, en aldrei hef ég innt Eddu Rós eftir því hvar hún standi í pólitík, enda varðar mig ekki um það. Hún er hins vegar einn virtasti bankamaður landsins og hefur yfir að búa mikilli þekkingu á efnahagsástandi hinnar íslensku þjóðar. Miðað við ástandið eins og það er í dag þurfum við á slíku fólki að halda og Jón Magnússon setti beinlínis niður við hreytur sínar í garð Eddu Rósar Karlsdóttur í þættinum Silfri Egils á sunnudag.


Til hamingju Hólmarar

Þetta var algjörlega frábær leikur. Frá því ég bjó og starfaði í Stykkishólmi fyrir næstum 20 árum síðan hef ég fylgst með öðru auganu með körfuboltaliði Snæfells. Frammistaða þeirra í kvöld minnti mig um margt á liðið sem var í Hólminum veturinn 1989-1990 en það ár vann liðið sér þátttökurétt í efstu deild í fyrsta sinn. Það var mögnuð stemming meðal Hólmara það árið og fyrir mig var algjörlega ómetanlegt að fylgjast með samfélaginu hreinlega umturnast í körfuboltabrjálæðinga á einum vetri.

Þessum árangri hafa Hólmarar fylgt vel eftir og í vetur hafa Snæfellingar teflt fram stórkostlegu liði, það sýndu piltarnir í kvöld. Endurkoma þeirra í 4. leikhluta var eins og spennutryllir og sigurinn í framlengingunni var dísætur LoL.

Til hamingju Hólmarar.


mbl.is Snæfell í úrslit eftir frábæran endasprett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífspeki Woody Allens

Þá er það ákveðið. Í næsta lífi ætla ég að fylgja lífsspeki Woody Allens og lifa lífinu afturábak.

In my next life I want to live my life backwards. You start out dead and get that out of the way. Then you wake up in an old people's home feeling better every day. You get kicked out for being too healthy, go collect your pension, and then when you start work, you get a gold watch and a party on your first day. You work for 40 years until you're young enough to enjoy your retirement. You party, drink alcohol, and are generally promiscuous, then you are ready for high school. You then go to primary school, you become a kid, you play. You have no responsibilities, you become a baby until you are born. And then you spend your last 9 months floating in luxurious spa-like conditions with central heating and room service on tap, larger quarters every day and then Voila! You finish off as an orgasm!
I rest my case.


Óskastundinni rúllað upp

Ætli maður hafi ekki bara rúllað óskastundinni upp. Sigurlagið var„Söknuður“ með Vilhjálmi Vilhjálmssyni og ekki nóg með það heldur varð ég kona kvöldsins með lögin mín sem skoruðu hæst af öllum lögum. Lögin sem ég spilaði í kvöld voru auk „Söknuðar“, „Þú fullkomnar mig“ með Sálinni og „My number one“ með Elenu Paparazu. Þetta voru þau þrjú lög sem skoruðu best af þeim þrennum sem gildir limir stundarinnar mættu með til Siffu í Hlégerðið.

Þjóðhildur fékk verðlaun fyrir frumlegasta lagið, en svo undarlega vildi til að ekkert lag fékk tvö stig sem frumlegasta lagið og því var dregið úr spilastokki og Þjobba vann fyrir lagið „Í bláum skugga“ með Stuðmönnum. Siffa var ekki að spara verðlaunin, nú frekar en endranær, en í tilefni af 10 ára afmæli Óskastundarinnar fengu allir sigurvegarar stundarinnar sl. 10 ár glæsilega eignarbikara fyrir afrekið.

Niðurstaðan og lögin sem leikin voru í kvöld eru komin inná óskastundarlistann á heimasíðunni minni. Ég þakka stelpunum í Óskastundinni fyrir frábært kvöld og þakka kærlega fyrir mig.

Að ári eru það Vestmannaeyjar hjá Þjóðhildi ... Ég hakka til!

 


Til fyrirmyndar

Það er alls ekki víst að það sé til fyrirmyndar að setja inn færslu á bloggið svona undir nóttina en ég var að koma heim eftir heimsókn til Helgu Einarsdóttur sem er með mér í saumaklúbb og ég varð að benda á nokkuð sem mér þykir vera til fyrirmyndar. Blogg landsmanna er oftar en ekki yfirfullt af neikvæðum athugasemdum um alla mögulega hluti en mig langar til að vera ögn á jákvæðari nótum fyrir svefninn.

Þar sem ég ók heim til mín áðan þá fór ég inná Nýbýlaveg frá Hafnarfjarðarvegi. Vestast á Nýbýlavegi standa yfir miklar vegaframkvæmdir vegna bygginga fjölbýlishúsa við Lund og færslu á háspennustreng. Þar hafa verkamenn verið að vinna í allan vetur og þegar ég ók þarna í gegn áðan þá var mér hugsað til þess hversu vel er gengið um vinnusvæðið og hversu góðar vegmerkingar eru þarna á svæðinu. Akvegurinn er heldur mjór á kafla og þarna er rétt svo pláss fyrir akstur úr sitt hvorri áttinni en merkingar eru svo vel úr garði gerðar að það þarf alvarlega vangæslu til að orsaka þarna slys. Ég ek þarna um nær daglega, alla daga á leið í og úr vinnu og oft um helgar. Hingað til hef ég ekki orðið vör við óhöpp á svæðinu, það þakka ég fyrst og fremst góðum merkingum og skýrum.

Þeir sem að þessu verki standa eiga þakkir skildar, frágangur þarna er til fyrirmyndar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 129829

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband