Leita í fréttum mbl.is

Hristu af þér spikið, 10 mínútur jafnast á við klukkustund

Á laugardag fór ég og tippaði eins og venjulega með vinahópnum mínum, við skoruðum vel í þessari viku og fáum rúmar 10 þúsund krónur í okkar hlut! Á meðan við sátum og réðum ráðum okkar varðandi úrslitin í enska boltanum (og sitt hvað fleira) þá kom til okkar sýningarstjórinn að sýningunni "Sumarið 2008" og bauð tippurum að skoða sýninguna áður en við færum heim. Að sjálfsögðu nýtti ég mér þetta boð.

Í einum af fyrstu básunum þá var til sýnis tæki sem finna má á snyrtistofu í Hafnarfirði en tækið er þeirrar náttúru að þú stígur uppá það, stendur eins og staur eða með bogna fætur og tækið hristir þig sundur og saman. Að sögn stúlkunnar sem kynnti tækið þá var 10 mínútna staða á tækinu jafn mikil æfing og 60 mínútna æfing við í venjulegum leikfimisal. Eftir að hafa horft á nokkra stíga á tækið í stutta stund þá ákvað ég loks að slá til og steig uppá tækið. Því hafði ég neitað algjörlega í fyrstu, enda viss um að ég myndi ekki hætta að hristast fyrr en undir kvöldmat ef ég færi á þessa voðalegu vél. En ég lét undan og stillti mér uppá tækinu. Stúlkan stillti það fyrir mig á 10 mínútna æfingu og þar stóð ég og hristist á mismiklum hraða allan þann tíma. Tækið er þannig sett upp að ég sneri botninum og bakinu að gestum sem áttu leið hjá og a.m.k. 4 menn dáleiddust við það eitt að ganga framhjá og munu enn vera á ráfi í Fífunni.

Þetta var undarleg tilfinning að hristast svona, ég er viss um að tækið gerir manni gott, þetta er ekki ósvipað og þegar maður hefur verið í röskri göngu og hefur teigt á stirðum limum að þá er gott að hrista sig örlítið og fá blóðið á hreyfingu. Það var eiginleg tilfinningin, blóðið fór á hreyfingu, hjartslátturinn var nákvæmlega sá sami og þó ég hefði staðið hreyfingarlaus í 10 mínútur og öndunin var bara salla róleg eftir að ég jafnaði mig á hlátrinum sem sprakk uppúr mér á fyrstu mínútunni. Að tækið jafnist á við 60 mínútur í ræktinni er ég ekki viss um, en þetta var notalegt þegar ég steig niður. Mér hitnaði vel og ég er ekki frá því að það hafi verið gott að hrista blóðflæðið af stað með þessum hætti. Ef þú hittir einhversstaðar á þessa kynningu, endilega stökktu uppá tækið og hristu þig í 10 mínútur, það er bara hressandi!


Sjö dagar í Óskastund - aukið mér andagift!

Árlega hitti ég fimm vinkonur mínar á Óskastund. Óskastundin er draumatími þar sem við hittumst og spilum lög sem við teljum að séu bestu, fallegustu, skemmtilegustu og jafnvel skrítnustu lög allra tíma. Allir tímar geta verið mjög mismunandi eftir árstíðum og lag sem maður getur verið í banastuði með eitt árið er með leiðinlegustu lögum allra tíma ári síðar.

Óskastundin heldur uppá 10 ára afmæli þann 12. apríl nk. en tilurð hennar er sú að árið 1998 tókum við okkur saman fimm vin- og kunningjakonur, Alda Jenný Rögnvaldsdóttir, Ásta B. Gunnlaugsdóttir, Ingibjörg Hinriksdóttir, Sigfríður Sophusdóttir og Þjóðhildur Þórðardóttir og hittumst heima hjá Öldu Jenný til að spila óskalögin okkar. Við vorum og erum ekkert að reyna að fela það að við vorum að stæla aðra keppni sem gengur undir því ófrumlega nafni Óskalögin. Eiginmaður Sigfríðar (Siffu) og bróðir Öldu voru í hópi allnokkurra pilta sem hittust einu sinni á ári og deildu lagasmekk sínum með félögunum. Í nokkur ár voru þær stöllur búnar að tala um óskalögin hjá strákunum og þegar öfund þeirra og afbrýði var komin út fyrir öll velsæmismörk varð úr að við stelpurnar hittumst á okkar Óskastund. Allt frá upphafi stóð til að ein til viðbótar, Gunnur Stella Kristleifsdóttir, væri með í þessum hópi en hún tók ferðalag til útlanda framyfir okkur á fyrstu óskastundinni en hefur verið með frá árinu 1999 og hefur lofað að gera taka aldrei neitt annað fram yfir óskastundina hér eftir.

Hvað um það. Þetta hafa verið svaðaleg partý - mikið stuð og stemming og lögin sem leikin hafa verið eru hvert öðru betra (eða verra). Nú er sá tími ársins framundan hjá mér þar sem ég fer að velja óskalögin mín. Þetta er alltaf jafn erfitt. Ég var búin að velja lögin þrjú sem ég ætla að spila fyrir 3 vikum, en er búin að skipta um skoðun fimm sinnum síðan þá og á sjálfsagt eftir að skipta um skoðun 10 sinnum fram að 12. apríl. Keppnisskapið er enda ekki langt undan og á hverri óskastund er stefnt á sigur og EKKERT ANNAÐ! Uppskeran hefur enda verið sú að á þessum 10 árum sem liðin eru frá fyrstu óskastundinni hef ég sigrað tvisvar sinnum, sem er bara nokkuð gott, en betur má ef duga skal og í ár sækist ég eftir þriðja sigrinum.

Tekið er á móti tillögum að lagavali hér á síðunni, endilega látið hugann reika að bestu lögum allra tíma og aukið mér andagift!


Cosí fan tutte

Lukkan leikur við mig, því í kvöld var mér boðið á aðalæfingu á óperunni Cosí fan tutte eftir Mozart í Íslensku óperunni. Það er óperustúdíó ungs tónlistarfólks sem setur sýninguna upp og verð ég að segja að þeim tókst bara bærilega vel upp. Sviðssetningin er skemmtileg, söguþráðurinn (plottið) er gott og tónlistin var hreint afbragð.

Það er óhætt að viðurkenna það hér að ég hef ekki farið á óperusýningu í mörg ár, síðast sá ég Töfraflautuna fyrir mörgum árum og síðan ekki fyrr en Mozart bankaði aftur uppá hjá mér í kvöld. Systurdóttir mín, María Konráðsdóttir, sat í hljómsveitargryfjunni í kvöld og þandi klarinettið sitt af stakri snilld en á sviðinu stjórnaði Þorvaldur Þorvaldsson verkinu í hlutverki Don Alfonso. Þorvaldur var stjarna sýningarinnar að mínu mati, hann var alveg frábær í hlutverkinu og mitt listræna auga telur að hann einn hafi haft jafngott vald á bæði söng og leik. Hjá öðrum fannst mér á köflum skorta á annað hvort. Þar er þó örugglega eingöngu og aðallega um að kenna því að enn hafa margir flytjendur ekki tekið út nægilegan þroska til að takast á við verkefni sem þetta. Það væri því spennandi að sjá þennan leikhóp aftur eftir s.s. 3-6 ár takast á við þetta sama verkefni.

Óperan rann engu að síður ljúft niður í mig og ég þakka þessu unga listafólki fyrir frábæra skemmtun. Þau stóðu sig öll frábærlega. En ég viðurkenni að ég hlakka til að heyra dóm þeirra sem hafa meiri listræna þekkingu en ég á svona hlutum svona svo ég sjái hvort ég hafi nokkurt vit á þessu. Takk fyrir mig.


Slæm tíðindi fyrir landsliðið

Fréttir í gær um meiðsli Guðbjargar Gunnarsdóttur landsliðsmarkvarðar eru slæmar. Íslenska kvennalandsliðið hefur sett stefnuna á Evrópumótið í knattspyrnu í Finnlandi árið 2009 og möguleikar þeirra eru góðir. Það munar þó alltaf um góða leikmenn, sérstaklega markverði, og því eru tíðindi gærdagsins afar slæm fyrir landsliðið.

Því miður tók Þóra B. Helgadóttir þá ákvörðun fyrr á þessu ári að gefa ekki kost á sér í landsliðið vegna anna við vinnu sína í Belgíu. Það er óskandi að hún endurskoði þá ákvörðun í ljósi frétta gærdagsins. Markverðir eru ákaflega mikilvægir leikmenn í hverju liði og oftar en ekki geta þeir skipt sköpum á úrslitastundu. Það er þó rétt sem bent hefur verið á að það kemur maður í manns stað og nú þurfa þeir leikmenn sem næstir eru í röðinni að taka við merkinu. Þeim óska ég allra heilla og vona að möguleikar liðsins á að komast í úrslitakeppni EM verði ennþá góðir þrátt fyrir það mikla áfall sem liðið varð fyrir við meiðsli Guðbjargar Gunnarsdóttur.


Aðgerðir flutningabílsjóra

Í morgun mátti ég beita brögðum til að komast til vinnu þar sem flutningabílstjórar höfðu lokað fyrir akrein á Kringlumýrarbraut við Miklubraut. Mér tókst að snúa mig út úr þessu með því að taka nokkrar krókaleiðir og var bara sátt þegar ég kom til vinnu á réttum tíma.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 129829

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband