Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Tökum þátt í vali á frambjóðendum Samfylkingarinnar

 

Samfylkingin býr sig nú af krafti undir sveitarstjórnarkosningarnar laugardaginn 29. maí næstkomandi. Sveitarstjórnarmálin verðskulda miklu meiri athygli í fjölmiðlum en þau hafa verulega pólitíska þýðingu, bæði fyrir landið og flokkinn. Sveitarfélögin stjórna þeim málaflokkum sem skipta fjölskyldurnar hvað mestu máli og í ráði er að fela þeim enn stærri verkefni. Fjárhagur þeirra og afkoma skiptir einnig miklu máli fyrir heildarhag þjóðarbúsins. Ríkisstjórn mín hefur lagt kapp á að efna til meira og betra samstarfs við sveitarfélögin í landinu en áður hefur tíðkast og vinna í samvinnu við þau sóknaráætlun fyrir landið um leið og leitast verður við að finna þeim styrkari fjárhagsgrundvöll og styrkja skipulag þeirra og svæðasamvinnu. Ríki og sveitarfélög verða að vinna saman ef við ætlum að ná tökum á rekstri þjóðarbúsins og sækja fram til aukinnar velsældar og velferðar á ný.

Kosið á sex stöðum
Um helgina verður valið á lista Samfylkingarinnar í sex sveitarfélögum, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Akureyri,Mosfellsbæ og Hafnarfirði. Samtals er um að ræða 78 frambjóðendur, 43 karlar og 35 konur. Samfylkingin hefur verið í fararbroddi í jafnræði milli kynja á framboðslistum og ég treysti því að enda þótt færri konur séu framboði en karlar þá halli ekki á konurnar þegar upp er staðið. Ríkisstjórnin hefur gert sitt í þessum efnum með því að efna til sérstaks átaks þar sem konur eru hvattar til þess að gefa kost á sér á lista í sveitarstjórnarkosningum og stefna hátt. Í þeirri endurreisn og uppgjöri sem nú stendur þurfum við á konum að halda í forystunni.

Nýjungar í boði
Á hverjum stað ræður flokksfélagið aðferðinni við að velja á lista og ég fagna því að farnar eru nýjar leiðir sums staðar. Það er engin ein aðferð sú eina rétta og því er fjölbreytni sem gefur nýja reynslu af hinu góða. Þannig er til að mynda í fyrsta sinn forvalsfundur hjá Samfylkingunni í Kópavogi og kosið um hvert og eitt hinna sex efstu sæta. Í fyrsta sinn verður nú boðinn fram hreinn Samfylkingarlisti á Seltjarnarnesi og þar verður viðhaft forval við val í efstu sætin. Sem fyrr er Samfylkingin eini flokkurinn sem heldur netprófkjör eins og gert var í í öllum kjördæmum fyrir síðustu alþingiskosningar. Í tveimur af bæjarfélögunum sex verður netprófkjör og framkvæmd þess gefur okkur dýrmæta reynslu inn í framtíðina.

Traust jarðsamband
Ég fagna því einnig að allstaðar þar sem Samfylkingin býður fram er myndarlega staðið að málum, gefin út kynningarblöð og haldnir sameiginlegir kynningarfundir frambjóðenda. Það er enginn viðvaningsbragur á undirbúningi og það sýnir að flokksstarfið er í traustum og öruggum höndum. Framboð til sveitarstjórnarkosninga eru Samfylkinginni sérstaklega mikilvæg og þaðan hefur flokkurinn sótt marga öfluga forystumenn. Það er m.a. skýringin á því að á vettvangi Samfylkingarinnar er öflug forystusveit sem hefur hlotið þjálfun og eldskírn í félags- og stjórnmálastarfi með fólkinu í landinu. Þetta er okkar trausta jarðsamband sem hefur gefið Samfylkingunni sjálfsöryggi og festu til þess að láta að sér kveða svo um munar í íslenskum stjórnmálum.

Góðir félagar, tökum þátt í vali á frambjóðendum okkar um helgina og sækjum fram til sigurs undir merkjum Samfylkingarinnar í vor.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar


Almennt minnisleysi og doði

Almennt minnisleysi og doði alltof margra okkar Íslendinga gerir það að verkum að við verðum að spyrja í sífellu þessara spurninga:

  • Hvaða flokkur sat aftur við völd yfir íslenskri stjórnsýslu samfleytt í 18 ár, allt til 2009?
  • Hvaða tveir flokkar hafa setið saman við völd á Íslandi lengst af lýðveldistímanum og "áttu" sér tvö viðskiptaveldi, stundum kennd við Kolkrabba og Smokkfisk, þar sem pólitísk og viðskiptaleg völd tvinnuðust saman?
  • Hvaða tveir flokkar stýrðu einkavæðingu bankanna á grundvelli sömu helmingaskiptareglu og áður hafði gilt um embætti og viðskiptavöld?
  • Hvaða flokkur skildi framkvæmdastjórann sinn og nánasta trúnaðarvin formanns síns eftir sem varaformann í bankaráði einkavædds Landsbanka sem hægri hönd Björgólfs Guðmundssonar allt að hruni bankans?
  • Hvaða flokkur hefur rekið dýrustu prófkjör Íslandssögunnar og um leið fengið hærri einstaka styrki frá fyrirtækjum en nokkur annar (25 og 30 milljónir frá Landsbanka og FL Group fyrir EINAR kosningar)?
  • Hvaða flokkur hefur ekki birt nein nöfn á fyrirtækjunum sem styrktu höfuðstöðvar flokksins og ENGAR UPPLÝSINGAR um alla styrkina til kjördæmisráða og aðildarfélaga eins og þó er orðið skylt?

Er svarið við 330 milljóna spurningunni að finna í viðhenginu?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvað segja krakkarnir aftur

Bwah ... er það ekki?

En svona tala aðeins alvöru „Sjálfstæðismenn“

„Vonandi verður Gunnar Birgisson leiðtogi í bæjarmálum enn um sinn, hann hefur mikla yfirsýn, bæði félagslega og fjárhagslega, manna líklegastur til að finna sparnaðarleiðir án þess að skerða grunngildi í velferð bæjarbúa og hafa samfélagsleg gildi umfram allt að leiðarljósi.“

Svo mörg voru þau orð!


Endurgreiddi lögbrot fyrir mistök og bætti fyrir það

Undanfarna daga hefur verið rætt um arðgreiðslur sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ásbjörn Óttarsson, greiddi sjálfum sér eftir taprekstur fyrirtækis í hans eigu. Ætla ég ekki að blanda mér í það en fyrirsagnir vefmiðla vöktu athygli mína í gær. Hér koma nokkur dæmi.

  • Ásbjörn Óttarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins játar lögbrot vegna arðgreiðslna - www.Skutull.is
  • Ásbjörn Óttarsson skilar 20 milljónum í kjölfar frétta í fjölmiðlum - www.dv.is
  • Þú braust lögin! Ég gerði það ekki viljandi, segir Ásbjörn Óttarsson þingmaður - www.Pressan.is
  • Hefur endurgreitt ólöglegan arð - www.ruv.is
  • Endurgreiddi arðgreiðslu - www.visir.is
  • Ásbjörn játar brot á lögum - Bjarni segir brotið ekki hafa áhrif - www.visir.is
  • Þingmaður skilar 20 milljóna króna arðgreiðslu eftir fyrirspurn frá Fréttablaðinu. Var ólögmæt - www.eyjan.is
  • Bjarni Ben um Ásbjörn: Á ekki að hafa áhrif þótt hann hafi játað lögbrot. Hefur bætt fyrir það - www.eyjan.is

Þrjá vefmiðla skildi ég viljandi útundan, mbl.is, bb.is og amx.is. Fyrirsögnin á vefjum www.mbl.is og www.bb.is er sú sama:

  • Greiddi ólöglegan arð fyrir mistök - Mbl.is
  • Greiddi ólöglegan arð fyrir mistök - bb.is

Hinn "virti" fréttamiðill www.amx getur ekki um mistök, lögbrot eða siðleysi þingmannsins einu orði og kemur það svo sem ekki á óvart.


Flottir frambjóðendur

Framboðsfrestur til forvals Samfylkingarinnar í Kópavogi rann út 11. janúar sl. Alls skiluðu 13 félagar inn framboðsgögnum, 6 konur og 7 karlar. Þeir eru í stafrófsröð:

Elfur Logadóttir, lögfræðingur, 4. sæti
Guðmundur Örn Jónsson, verkfræðingur, 3. sæti
Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi, 1. sæti
Guðrún Jóna Jónsdóttir, tölvunarfræðingur, 3. sæti
Hafsteinn Karlsson, bæjarfulltrúi, 2. sæti
Hjördís Erlingsdóttir, sölufulltrúi, 3. sæti
Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnisstjóri, 3. sæti
Óðinn Hilmisson, trésmiður, 4. sæti
Pétur Ólafsson, nemi, 3. sæti
Sigurður M. Grétarsson, sérfræðingur, 3. sæti
Svala Jónsdóttir, fjölmiðlafræðingur, 3. sæti
Tjörvi Dýrfjörð, verkefnastjóri, 3. sæti
Þorsteinn Ingimarsson, sölu­ og markaðsstjóri, 2. sæti

Bæjarfulltrúarnir Jón Júlíusson og Flosi Eiríksson gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn Kópavogs.

Forvalið er opið félögum í Samfylkingunni sem eiga lögheimili í Kópavogi og eru orðnir 16 ára á forvalsdag. Forvalið fer fram laugardaginn 30. janúar nk. og hefst kl. 10:00. Kjörskrá vegna fundarins verður lokað viku fyrr, laugardaginn 23. janúar kl. 18:00.

Kjörstjórn Samfylkingarinnar í Kópavogi

Engin geimvísindi

Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarstjóri í Kópavogi, sendi heldur óvænt að ég tel frá sér yfirlýsingu í kvöld þess efnis að hann hyggi ekki á framboð til bæjarstjórnar í Kópavogi nú í vor. Ég hef verið í ágætri stöðu til þess að fylgjast með flokkadráttum í Kópavogi bæði innan Samfylkingar, þar sem ég starfa, sem og innan annarra flokka sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn. Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum að óróleikinn í Sjálfstæðisflokknum hefur verið mikill og megnið af þeim væringum sem þar hafa átt sér stað hafa snúist um fyrrverandi bæjarstjóra, hinn brottvikna Gunnar I. Birgisson.

Gunnar er stór maður að öllu leyti en líkt og líkamlegt ástand hans hefur dregist saman á undanförnum vikum hefur líka minnkað álit margra á honum sem stjórnmálamanni og svei mér ef það hefur ekki líka dregið nokkuð úr styrk hans innan flokks og utan. Hann sér hins vegar enn stórt og mikið ljón þegar hann lítur í spegilinn það sást vel í Morgunblaðinu í gær þar sem hann fór hörðum orðum um þá sem nú sitja í bæjarstjórn Kópavogs. Eins og hans er von og vísa, fór hann víða, hann eirði engum og hjó víða.

Gunnsteinn Sigurðsson er heiðarlegur maður og sanngjarn þó ég sé fjarri því alltaf sammála skoðunum hans á hinum ýmsu málum. Yfirlýsingin sem hann sendi frá sér í dag lauk með orðunum: "Ég styð Sjálfstæðisflokkinn og óska þess að kjósendur beri gæfu til að kjósa heiðarlegt og duglegt fólk á framboðslistann sem hefur hugsjónir flokksins og heill bæjarbúa að leiðarljósi í hvívetna."

Ég tel að ekki þurfi nein geimvísindi til að átta sig á því að þarna skýtur Gunnsteinn föstum skotum á Gunnar og hans fylgifiska sem sannarlega hafa sig mikið í frammi innan SjálfstæðisFLokksins í Kópavogi. Eins og við var að búast þá skildi Gunnar sneiðina, var ekki lengi að grípa til varna og heldur því fram að hann hafi ekki komið nálægt bæjarpólitíkinni í Kópavogi síðasta hálfa árið!

Ég veit að lesendum Morgunblaðisins hefur fækkað mikið undanfarið en sjálfsagt hafa einhverjir aðgang að blaðinu t.d. í vinnunni eins og ég. Afskipti Gunnars af bæjarpólitíkinni hafa opinberlega verið minni eftir að hann hröklaðist úr stóli bæjarstjóra en hann er sannarlega kominn í stuð ef eitthvað er að marka grein sem hann skrifar í flokksblaðið sl. miðvikudag. Þar fer hann mikinn og gagnrýnir fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2010 og skýtur mjög ómaklega á núverandi bæjarstjóra. Ég vona bara að Gunnsteinn stigi skrefið til fulls og segi skilið við þennan hóp fólks sem kennir sig við sjálfstæði og fari að vinna eftir sannfæringu sinni en ekki sannfæringu annarra, allra síst fv. bæjarstjóra sem fer vægast sagt með ósannindi þegar hann segist ekki hafa komið nálægt bæjarpólitíkinni sl. mánuði!


Ríkisstjórnin er greinilega að gera ekki neitt

Miðað við ummæli margra stjórnarandstöðuþingmanna þá er þessi ríkisstjórn ekki að gera neitt og það litla sem hún gerir er þveröfugt við það sem á að gera. Það er líklega þess vegna sem ástandið hér heima er mun skárra en ráð var fyrir gert. Atvinnuleysi er minna. Verðbólga er lægri. Stýrivextir hafa lækkað hraðar en gert var ráð fyrir. Viðskipti á bankamarkaði ganga snuðrulaust. Alþingi hefur aldrei starfað lengur (a.m.k. ekki svo ég muni eftir). Það er greinilega allt á heljarþröm eins og stjórnarandstaðan heldur fram.

Svo eru það viðbrögðin eftir ákvörðun forsetans. Þau hafa að sögn stjórnarandstöðunnar engin verið og fjölmiðlar í útlöndum hafa vaðið upp með tóma þvælu og vitleysu og jafnvel haldið því fram að við ætlum ekkert að borga. Auðvitað er það allt ríkisstjórninni að kenna. Þessar liðleskjur hafa ekkert gert síðustu daga og látið hlutina dankast og veltast eftir vindi.

Þetta má glögglega lesa úr listanum sem utanríkisráðuneytið hefur birt um viðbrögð vegna synjunar forsetans. Það sem ríkisstjórnin hefur gert er að fulltrúar forsætis-, fjármála-, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og utanríkisráðuneytis hafa unnið að því að miðla upplýsingum til annarra ríkja til að byggja upp með jöfnum skrefum traust og trúverðugleika Íslands og íslensks efnahagslífs erlendis eftir hrunið.

Breska almannatengslastofan Financial Dynamics hefur verið hópnum til ráðgjafar og aðstoðar. Að auki hafa breska almannatengslafyrirtækið Headland Consultants og hollenska almannatengslafyrirtækið Huijskens unnið fyrir íslensk stjórnvöld á þessu tímabili.

Eftir að forseti Íslands synjaði lögunum staðfestingar hinn 5. janúar hafa íslensk stjórnvöld unnið markvisst að því að upplýsa önnur ríki og erlenda fjölmiðla um nýja stöðu í Icesavemálinu og sjónarmið Íslands.

Meðal meginskilaboða í samtölum fulltrúa Íslands hafa verið að Ísland muni standa við skuldbindingar sínar, vilji finna sanngjarna lausn á málinu í sátt við önnur ríki og að þjóðaratkvæðagreiðsla um málið sé nú í undirbúningi.

Að neðan er yfirlit yfir helstu aðgerðir íslenskra stjórnvalda dagana 5.-6. janúar.

Samskipti við önnur ríki & alþjóðastofnanir

  • Forsætisráðherra ræddi símleiðis við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.
  • Forsætisráðherra ræddi símleiðis við Jan-Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands.
  • Forsætisráðherra ræddi símleiðis við Jan Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs.
  • Fjármálaráðherra ræddi símleiðis við Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands.
  • Fjármálaráðherra ræddi símleiðis við Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands.
  • Fjármálaráðherra ræddi símleiðis við Anders Borg, fjármálaráðherra Bretlands.
  • Utanríkisráðherra ræddi símleiðis við Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs.
  • Utanríkisráðherra ræddi símleiðis við Jens Henriksson, stjórnarmann Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hjá AGS.
  • Utanríkisráðherra ræddi símleiðis við Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar.
  • Utanríkisráðherra ræddi símleiðis við Grazyna Bernatowicz, varautanríkisráðherra Póllands.
  • Utanríkisráðherra ræddi símleiðis við Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands.
  • Utanríkisráðherra ræddi símleiðis við Maris Riekstins, utanríkisráðherra Lettlands.
  • Utanríkisráðherra ræddi símleiðis við Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands.
  • Utanríkisráðherra átti fund með Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi.
  • Frekari fundir og samtöl ráðherra við erlenda ráðherra eru fyrirhugaðir.
  • Sendiherrar erlendra ríkja í Reykjavík voru boðaðir á fund í utanríkisráðuneytinu 5. janúar og upplýstir um stöðu Icesavemálsins. Þessi ríki eru Bretland, Þýskaland, Frakkland, Danmörk, Noregur, Svíþjóð Finnland, Kanada, Bandaríkin, Kína, Indland, Japan, Færeyjar og Pólland.
  • Haldinn var sérstakur fundur með sendiherrum Norðurlandanna á Íslandi - Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar.
  • Utanríkisráðuneytið hefur ítrekað verið í sambandi við sendiherra Hollands gagnvart Íslandi sem staðsettur er í Osló.
  • Utanríkisráðuneytið hefur ítrekað verið í sambandi við sendiherra Bretlands á Íslandi.
  • Utanríkisráðuneytið fól öllum sendiráðum Íslands að ganga á fund stjórnvalda í gistiríkjum og upplýsa um stöðu Icesavemálsins.
  • Ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins ræddi símleiðis við ráðuneytisstjóra norska fjármálaráðuneytisins.
  • Ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins ræddi símleiðis við ráðuneytisstjóra danska fjármálaráðuneytisins.
  • Sendiráð Íslands í London átti samtöl og fundi með embættismönnum í breska forsætis- og utanríkisráðuneytinu.
  • Sendiherra Íslands í London átti samtöl við breska þingmenn.
  • Sendiherra Íslands í London átti samtöl við sendiherra Spánar í Bretlandi en Spánn er formennskuríki ESB á fyrri hluta árs 2010.
  • Embættismenn utanríkisráðuneytisins voru sendir frá Reykjavík og Brussel til Hollands og funduðu með sviðsstjóra forsætisráðuneytis Hollands.
  • Sendiherra Íslands í Brussel fundaði með sendiherra Spánar, formennskuríkis ESB.
  • Sendiherra Íslands í Brussel ræddi við stækkunarskrifstofu framkvæmdastjórnar ESB.
  • Sendiherra Íslands í Brussel ræddi við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).
  • Sendiherra Íslands í Brussel ræddi við sendiherra Svíþjóðar gagnvart ESB.
  • Sendiherra Íslands í Brussel ræddi við sendiherra Bretlands gagnvart ESB.
  • Sendiherra Íslands í Brussel ræddi við sendiherra Hollands gagnvart ESB.
  • Sendiherra Íslands í Brussel fundaði með belgíska utanríkisráðuneytinu.
  • Sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn fundaði með ráðuneytisstjóra danska utanríkisráðuneytisins.
  • Sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn fundaði með sendiherra Noregs í Danmörku.
  • Sendiherra Íslands í Helsinki átti samtal við finnska fjármálaráðuneytið.
  • Staðgengill fastafulltrúa Íslands hjá NATO fundaði með skrifstofu framkvæmdastjóra bandalagsins.
  • Sendiherra Íslands í Tókíó fundaði með utanríkis- og fjármálaráðuneyti Japans.
  • Sendiherra Íslands í París fundaði með ráðuneytisstjóra Evrópumála í franska forsætisráðuneytinu.
  • Sendiherra Íslands í París ræddi við skrifstofustjóra ráðherraskrifstofu í spænska utanríkisráðuneytinu.
  • Sviðsstjóri viðskiptasviðs utanríkisráðuneytisins ræddi símleiðis við skrifstofustjóra Evrópumála í þýska utanríkisráðuneytinu.
  • Sendiráð Íslands í Washington D.C. átti fund í bandaríska utanríkisráðuneytinu.
  • Sendiráð Íslands í Berlín mun eiga fund í þýska utanríkisráðuneytinu 7. janúar.
  • 7. janúar mun sendiherra Íslands í París eiga fund með skrifstofustjóra skrifstofu Evrópumálaráðherra Frakklands.
  • 7. janúar mun sendiherra Íslands í Vín eiga fund með austuríska utanríkisráðuneytinu.
  • 8. janúar mun sendiherra Íslands í Osló eiga fund með ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytis Noregs.
  • Öll sendiráð Íslands munu áfram vera í virkum samskiptum við viðeigandi stjórnvöld í öðrum ríkjum til að upplýsa um stöðu og þróun Icesaveamálsins og sjónarmið Íslands.

Samskipti við erlenda fjölmiðla

  • Ríkisstjórn Íslands gaf 5. janúar út tvær fréttatilkynningar um viðbrögð sín við ákvörðun forseta Íslands.
  • Ríkisstjórnin gaf út fréttatilkynningu á ensku hinn 6. janúar.
  • Utanríkisráðuneytið og önnur ráðuneyti eftir atvikum sendu fréttatilkynningar ríkisstjórnar á tengslanet sitt meðal erlendra fjölmiðla og Financial Dynamics kom þeim á framfæri í Bretlandi.
  • Öll sendiráð Íslands sendu fréttatilkynningu ríkisstjórnar til fjölmiðla í gistiríkjum sínum
  • Utanríkisráðuneytið, önnur ráðuneyti og sendiráð Íslands erlendis hafa haft milligöngu um viðtöl erlendra fjölmiðla við íslenska ráðamenn.
  • Fjármálaráðherra hefur m.a. talað við AP, Reuters, E24, Independent, BBC Radio, ITN/Channel 4, og veitti forsíðuviðtal í hollenska blaðinu Volkskrant.
  • Utanríkisráðherra hefur m.a. talað við Independent, Times of London og TV2 í Danmörku
  • Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur m.a. talað við Dagens Næringsliv, Reuters, BBC Radio og útvarpsstöð sem sendir út um öll Bandaríkin.
  • Benedikt Stefánsson, aðstoðarmaður efnahagsráðherra, fór í viðtal hjá BBC Radio og Sky News (Jeff Randall Show).
  • Fjölmiðlafulltrúar ráðuneytanna hafa svarað miklum fjölda fyrirspurna og veitt bakgrunnsupplýsingar, einkum til Bretlands, Hollands, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Sviss.
  • Fjölmiðlafulltrúar ráðuneytanna hafa ítrekað haft samband við erlenda fjölmiðla til að leiðrétta villandi eða rangan fréttaflutning.

Annað

  • Samráðshópur forsætis-, utanríkis-, fjármála- og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins hefur komið saman daglega og unnið náið saman til tryggja að aðgerðir í upplýsingamálum séu samræmdar og markvissar.
  • Unnið hefur verið með breska almannatengslafyrirtækinu Financial Dynamics að því að koma málstað Íslands á framfæri í erlendum fjölmiðlum og leiðrétta rangfærslur.
  • Unnið hefur verið með hollenska almannatengslafyrirtækinu Huijskens að því að meta fjölmiðlaumfjöllun í Hollandi og möguleg viðbrögð.
  • Almannatengslafyrirtækið KOM mun veita tímabundna aðstoð í upplýsingamálum.
  • Öll sendiráð Íslands vakta umfjöllun um Icesavemálið og Ísland og leggja mat á möguleg viðbrögð.
  • Samráðshópur forsætis-, utanríkis-, fjármála- og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins átti fund með fulltrúum samtakanna InDefence.

http://www.utanrikisraduneyti.is/frettaefni/frettatilkynningar/nr/5371


Forsetinn var varaður við

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra sendi forseta Íslands bréf í fyrradag, þar sem hann var varaður við alvarlegum afleiðingum þess að synja Icesave-lögunum staðfestingar. Þar kemur fram að Bretar og Hollendingar græða jafnvel meira á því að Íslendingar hafni lögunum.

Jóhanna sendi Ólafi Ragnari Grímssyni bréf á mánudaginn, þar sem sérfræðingar stjórnarráðsins röktu afleiðingar þess að forseti synjaði því að staðfesta lögin um ríkisábyrgð. Seðlabanki Íslands fór yfir samantektina, sem fréttastofa hefur undir höndum. Þar kemur fram, að það sé óvíst og algerlega í höndum Breta og Hollendinga hvort koma muni til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, því þeir geti fallið frá samningnum sem lögin fjalla um.

Fari svo, eða ef meirihluti þjóðarinnar fellir lögin, verði fyrri lögin um Icesave áfram í gildi. Þar séu sett slík skilyrði fyrir ríkisábyrgð, að afar ólíklegt sé að samningarnir öðlist gildi, að því er fram kemur í bréfinu. Þannig væri ósamið milli Íslendinga, og Breta og Hollendinga. Þeir hafi nú þegar leyst til sín kröfur meginþorra innstæðueigenda á þrotabú Landsbankans. Í krafti þeirra muni þeir fá til sín langstærstan hluta þess sem greiðist úr þrotabúinu, og fái þannig á næstu sjö árum allar þær greiðslur sem þeir hefðu fengið samkvæmt samningnum.

Bretar og Hollendingar yrðu þannig í reynd eins og eigendur þrotabúsins, og hefðu ráð íslenskra skuldunauta þrotabúsins í hendi sér. Í skjalinu kemur fram að litlar líkur séu á að þeir vilji ganga til nýrra samninga við Íslendinga næstu árin. Þeir græði lítið meira á samningum, eða jafnvel minna en án þeirra, og gætu með nokkrum rétti haldið því fram að íslensk stjórnvöld séu ekki samningshæf. Að auki gætu þeir gert kröfur fyrir dómstólum á hendur Tryggingasjóðs innistæðueigenda og íslenska ríkisins. Þeir þurfi þó ekki að taka afstöðu til þess fyrr en 2012.

Í millitíðinni gætu þeir neytt utanríkis-pólitísks aflsmunar, á vettvangi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og innan Evrópusambandsins. Í bréfinu kemur fram að í ljósi þarfa íslenska ríkisins, sveitarfélaga og orkufyrirtækja til endurfjármögnunar, væri slík töf afar dýrkeypt.

Stór lán ríkissjóðs komast á gjalddaga árið 2011, ásamt lánum Landsvirkjunar og annarra sem njóta ríkisábyrgðar. Hættan á greiðslufalli ykist því. Í bréfinu kemur einnig fram að fari Bretar og Hollendingar í mál, gætu þeir gert kröfu um að íslenska ríkið ábyrgðist innistæður í Icesave að fullu, með vísan til jafnræðissjónarmiða. Félli dómur þeim í hag yrði því að reikna með algeru greiðslufalli íslenska ríkisins frá dómsuppsögudegi. Í málarekstri gætu Bretar og Hollendingar stuðst við fyrri yfirlýsingar íslenska ríkisins um að það muni standa við skuldbindingar sínar. Þá myndu kröfur sveitarfélaga, líknarfélaga og annarra innistæðueigenda einnig styrkjast, svo fjárhagsleg tap Íslands gæti numið hundruðum milljarða króna.

Bretar og Hollendingar gætu neitað að styðja fyrirgreiðslu við Ísland innan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, þar sem það hefði ekki staðið við yfirlýsingar sínar. Norðurlöndin myndu væntanlega líka stöðva lánveitingar sínar. Samstarfsáætlun Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins yrði þá óvirk, og alls eins líklegt að henni yrði rift. Matsfyrirtækin lækki lánsmatshæfi ríkisins væntanlega niður í ruslflokk. Hættan á greiðslufalli ríkissjóðs og Landsvirkjunar aukist, og staða Íslands í alþjóðasamstarfi væri stórlöskuð. Í bréfi forsætisráðherra til forseta Íslands kemur að síðustu fram að hætta sé á að um langa hríð yrði litið svo á að landið væri óábyrgt, og stjórnvöld ekki fær um að taka bindandi ákvarðanir.

Daginn eftir að Ólafi Ragnari barst þetta bréf, neitaði hann að staðfesta lögin um ríkisábyrgð vegna Icesave.

Ofangreint er frétt RÚV frá því í hádeginu í dag.

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item319691/


Er Icesave "bara" PR mál?

Í stöðunni sem nú er kominn upp eru margir skringilegir vinklar - einn eru þær fullyrðingar frá sjálfstæðismönnum, framsóknarmönnum og leppum þeirra í Indefence að þær hremmingar sem Íslendingar séu lentir í séu PR mál!

En staðreyndirnar segja okkur í stuttu máli - sólarhring eftir ákvörðun forsetans - þetta:

  • Engin lán munu koma frá Norðurlöndunum
  • Efnahagsáætlun AGS er í uppnámi vegna tafa á lánum frá Norðurlöndunum Lánshæfismat Íslands hefur verið sett í ruslflokk.
  • Lán til orkufyrirtækja verða hugsanlega afturkölluð.
  • Bretar ýja að því að þeir muni leggja hald á eignir Landsbankans í Bretlandi.
  • Frekari stýrivaxtalækkanir virðast úr sögunni í bili.
  • Ekkert lát hefur verið á hækkun skuldatryggingaálag ríkissjóðs.

Öllum sem vildu vita áttu að vera ljóst það hverjar afleiðingarnar yrðu - allir þessir fyrrnefndu ábyrgðaraðilum núverandi ástands höfðu fengið upplýsingar um það hvaða afleiðingar yrðu. Nú er það helsta verkefni ríkistjórnarinnar að lágmarka þennan skaða af ákvörðunun forsetans.

En ábyrgðaraðilarnir - íhald, framsókn og Indefence - þurfa að átta sig á að frosnar lánalínur til íslenskra fyrirtækja og sveitarfélaga er efnahagslegt stórslys ekki ímyndunarvandi - að ekki er bara nóg að "leiðrétta misskilning útlendinga" eins og stjórnarandstaðan heldur fram.

Þetta viðhorf rímar reyndar við viðhorfin frá 2006 - frá sömu stjónmálaflokkum - þegar á útlendinga sem vöruðu við þennslu bankakerfisins var ekki hlustað og þeir sakaðir um að skilja ekki íslenska efnahagsundrið!

Margir bloggarar hafa bent á þetta, t.d. þessir:

Gunnar Smárason

"Það var nánast vandræðalegt að fylgjast með fréttum hér í Kbh. í gær. Bæði greiningaraðilar bankanna, þeir hinir sömu og vöruðu við 2006, og fréttaskýrendur voru á einu máli. Ákvörðun forseta Íslands væri óskiljanleg út frá hagsmunum þjóðarinnar og myndi senda Ísland langt til baka."

Sjá hér http://blog.eyjan.is/gunnar/

Baldur McQueen

"Óskaplega er gaman að sjá endurnýtingu á orðalagi frá 2006 hjá íslenskri stjórnarandstöðu. Þetta er misskilningur - það þarf að leiðrétta -  nú þarf að koma málstað Íslendinga á framfæri - o.s.frv, o.s.frv. Nákvæmlega eins og þegar íslenska efnahagsundrið var gagnrýnt fyrir örfáum árum síðan."

http://www.baldurmcqueen.com/index.php/2010/Sami-songur-og-2006.html

 


Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband