Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
Stundum þykir við hæfi og sjálfsögð kurteisi að gefa gjafir en í öðrum tilvikum er ásetningurinn sá að hafa áhrif á stjórnvalds- eða viðskiptaákvarðanir einhvern tíma í framtíðinni.
Tilvitnunin hér að ofan er komin úr pistli Stefáns Erlendssonar stjórnmálafræðings sem hann skrifaði í Morgunblaðið 13. september í fyrra undir fyrirsögninni Boðsferð, gjafir og mútur. Ástæða skrifanna var umfjöllun um laxveiði ferð sem Guðlaugur Þór Þórðarson þáði í Miðfjarðará á tíma þegar Baugur var með ána í leigu. Í tilefni af umræðum um gjafir FL Group og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins hefur bloggvinkona mín Lára Hanna Einarsdóttir endurbirt grein Stefáns á bloggi sínu í tilefni af.
En Lára Hanna gerir meira, hún dregur fram pistil sem hún skrifaði í ágúst 2008, um feril REI málsins. Það er ekki að ástæðulausu sem hún gerir það og í raun öðlast skrif hennar nýja merkingu nú þegar í ljós hafa komið gríðarháir styrkir frá FL Group og Landsbankanum til Sjálfstæðisflokksins aðeins nokkrum vikum áður en REI málið kom upp á yfirborðið.
Ef þú hefur ekki nennu til að lesa pistilinn hennar Láru Hönnu, sem reyndar er grein sem Pétur Blöndal skrifaði í Morgunblaðið 4. nóvember og er ansi langur, þá vil ég hvetja þig til þess að láta ekki þessi myndbönd fara framhjá þér:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2009
Verklausa ríkisstjórnin
Á framboðsfundum og alþingi hafa andstæðingar Samfylkingarinnar gjarnan talað um hina "verklausu ríkisstjórn", oftar en ekki hefur orðið minnihluta fylgt þessum orðum. En hvað er það sem hin verklausa ríkisstjórn hefur staðið fyrir. Lítum á 10 dæmi:
- Afnám skerðinga vegna tekna maka.
- Frítekjumark í almannatryggingum á atvinnutekjur fólks 67 ára og eldri, rúmlega 100 þúsund krónur á mánuði.
- Frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja, rúmlega 100 þúsund krónur á mánuði.
- Frítekjur á lífeyrissjóðstekjur öryrkja, ríflega 27 þúsund krónur á mánuði.
- Aldursbundin örorkuuppbót hækkuð.
- Frítekjumark á fjármagnstekjur, tæpar 100 þúsund krónur á ári. Lágmarks-framfærslutrygging lífeyrisþega upp á 150 þúsund krónur á mánuði var innleidd 1. september og hækkuð í 180 þúsund 1. janúar 2009.
- Barnabætur hækkaðar.
- Útgjöld til almannatrygginga aukin um nálægt 10 milljarða árið 2008.
- Lífeyrir almannatrygginga var hækkaður um nærri 10 milljarða til viðbótar 1. janúar 2009, með 9,6% hækkun lífeyris og tæplega 20% hækkun lágmarks framfærslutryggingarinnar.
- Bifreiðastyrkir hækkaðir um 20% og réttindi aukin, en þeir höfðu ekki hækkað í níu ár.
Allt eru þetta aðgerðir í þágu almennings, hins almenna launþega, hins almenna Íslendings.
Samfylkingin hefur móta sér stefnu til framtíðar, stefnu sem hefur það að markmiði að koma Íslandi og Íslendingum út úr þeirri efnahagslegu lægð sem við nú búum við. Hér er ekki um neinar skyndilausnir að ræða, engar reddingar heldur framtíðarsýn í efnahags-, atvinnu- og velferðarmálum. Það má lesa allt um þetta í litlum bæklingi sem hægt er að nálgast á slóðinni hér að neðan.
Íslendingar þurfa raunsæja, markvissa framtíðarsýn. Merkjum X við S í kosningunum 25. apríl.
http://www.samfylkingin.is/LinkClick.aspx?fileticket=MbqVBdqfP2A%3d&tabid=166
10.4.2009
Fullkomlega óeðlilegt
Nú þegar SjálfstæðisFLokkurinn hefur birt lista yfir þau fyrirtæki, sem styrktu flokkinn um eina milljón króna eða meira, verð ég að segja að sumir þessara styrkja eru að mínu viti fullkomlega óeðlilegir. Á það sérstaklega við um þau fyrirtæki sem eru á markaði og í eigu almennings.
Listinn frá SjálfstæðisFLokknum er eftirfarandi:
Exista hf. 3 milljónir
FL-Group hf. 30 milljónir
Glitnir banki hf. 5 milljónir
KB-banki hf. 4 milljónir
Landsbanki Íslands hf. 5 milljónir
Landsbanki Íslands hf. 25 milljónir
MP-Fjárfestingarbanki 2 milljónir
Straumur-Burðarás hf. 2,5 milljónir
Tryggingamiðstöðin 2 milljónir
Þorbjörn hf. 2,4 milljónir
Það sem kemur helst á óvart í þessu öllu er að bankarnir hafa greinilega verið að launa SjálfstæðisFLokknum það traust sem hann sýndi eigendum þeirra með því að selja þeim ríkisbankana á sínum tíma. Ég hef sagt það hér á spjallsíðum að ég bíði spennt eftir uppgjöri Framsóknarflokksins, þess hlýtur að verða krafist að þeir opni sitt bókhald, það eiga Samfylkingin, Vinstri grænir og Frjálslyndir líka að gera. Það er útilokað annað en að Framsóknarflokkurinn hafi hlotið háa og mikla styrki frá mörgum þessara félaga sem að ofan greinir, þeirra flokkssjóður getur ekki hafa verið svo íturvaxinn af félagsgjöldum einum saman.
Persónulega átti ég lítið hlutafé í Exista og KB banka, hlutafé sem ég tapaði að fullu í hruninu, og ég verð að segja að mér finnst stuðningur félagsins við SjálfstæðisFLokkinn óeðlilegur. Það á reyndar við um öll þessi félög, því síðast þegar ég vissi voru þau öll skráð í Kauphöllina, ja nema kannski MP-fjárfestingarbanki og Þorbjörn hf, a.m.k. voru þessi félög ekki sérstaklega áberandi í markaðsfréttum.
Komi í ljós að félögin hafi styrkt alla flokkana af háum fjárhæðum þá er ljóst að þau eru að bera fé á opinbera aðila, og það sem verra er, flokkarnir tóku við fjármununum. Ég efast ekki um að hinir flokkarnir hafa fengið einhverja fjármuni frá þessum félögum og nú verður sjálfsagt farið í reiptog um það hvað teljist "eðlilegt" og "innan marka" í fjárhagslegum stuðningi félaga við flokkana. Nú óska ég þess bara að þessi umræða drukkni ekki í þeirri umræðu sem við verðum að fara í gegnum nú í aðdraganda kosninga, það er hvernig við ætlum að komast uppúr þeim öldudal sem þjóðin er í, þetta má ekki skyggja á málefnalega umræðu um framtíð lands og þjóðar.
ps. á ég að trúa því að sjálfstæðismenn séu í meirihluta þeirra sem skoða síðuna mína? Endilega takið þátt í skoðanakönnuninni hér til hægri á síðunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.4.2009
Hefnd ættarinnar
Þegar ég sá Morgunblaðið í morgun velti ég því fljótlega fyrir mér hvort nú væri ættarveldið í Sjálfstæðisflokknum að fórna Guðlaugi Þór á altari sjálfsupphafningarinnar sem hefur verið svo áberandi innan flokksins undanfarna áratugi.
Fréttirnar af framlögum FL group og Landsbankans eru sannarlega alvarlegar, en það hreinlega hlaut að vera að "flokkur atvinnulífsins" hefði einhver slík stórfyrirtæki á bak við sig, sama hvað hver sagði. Í kjölfar fréttanna af framlagi FL kemur yfirlýsing frá Geir Haarde að hann einn hafi safnað peningunum, sótt þá og eytt. Því trúði náttúrulega ekki nokkur maður og því var fundið fórnarlamb, hugmyndasmiður Morgunblaðsins sendur af stað og fréttin um Guðlaug Þór varpaði nýju ljósi á páskafríið hjá mörgum í morgun.
En af hverju Guðlaugur Þór? Hann harðneitaði því í gær að vita nokkuð um þennan styrk og því er Morgunblaðið ekki aðeins að varpa ábyrgðinni á Guðlaug Þór heldur einnig að gera hann að lygara. Í kjölfar landsfundar Sjálfstæðisflokksins komust ýmsar gróusögur á kreik um að stuðningsmenn hans í Reykjavík hafi farið mikinn á fundinum til að afla stuðnings við Kristján Þór Júlíusson. Í flokki eins og Sjálfstæðisflokknum er slíkt ekki látið óátalið. Guðlaugur Þór lá því vel við höggi og honum var hent fyrir ljónin.
Mér dettur ekki í hug að bera blak af Guðlaugi Þór eða nokkrum öðrum í Sjálfstæðisflokknum vegna þessa máls. En ég er þeirrar skoðunar að miklu, miklu fleiri hafa vitað um styrkina. Ekki láta neinn segja þér annað!
![]() |
Guðlaugur Þór: Ég óskaði ekki eftir styrk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ræða Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í kvöld var mjög góð. Hún talaði af hreinskilni og heiðarleika við þjóðina, sagði frá því sem vel hefur verið gert og benti einnig á það sem enn hefur ekki náð í gegn, m.a. vegna þrákelkni Sjálfstæðismanna við það að ræða frumvarp um stjórnskipunarlög.
Það var við því að búast að einhverjir myndu gagnrýna ræðu Jóhönnu hér á mbl.is, það er þeirra réttur, rétt eins og ég nýti mér það að taka undir orð hennar og hrósa. En einhverjir bloggara skilja ekki hvað Jóhanna á við þegar hún segir Samfylkinguna vilja byggja velferðarbrú.
Málið er að á síðustu nærri 20 árum hefur Sjálfstæðisflokkurinn grafið djúpa gjá milli íbúa þessa lands. Gjá þar sem markmiðið var að styðja við og hlaða undir flokksgæðinga og gróðapunga á meðan tekið var af þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Stöðugur niðurskurður hefur verið í velferðarkerfinu á þessum tíma, loforð sem gjarnan var haldið á lofti fyrir kosningar um bættan hag þeirra sem höllum fæti stóðu í þjóðfélaginu voru svikin um leið og kosningar voru yfirstaðnar. Er það eðlilegt að samtök öryrkja þurfi að fara í mál við ríkið til þess að það standi við gjörða samninga og loforð? Er það eðlilegt að búið sé að skera svo mikið niður til heilbrigðiskerfisins að nú standi það eftir eins og beinagrindin ein? Á sama tíma var keppst við að hlaða undir einkavinina sem fitnuðu eins og púkinn í fjósi Sæmundar.
Undanfarin ár hefur myndast ógnarmikil gjá milli þjóðfélagshópa þar sem hinir efnameiri hafa keppst við að sýna mátt sinn og megin en hinir sem minna hafa milli handanna hafa mátt þola sívaxandi álögur, okurvexti og svikamillu sérvaldra einkavina í bönkunum, sem hrundu undir lok síðasta árs með afleiðingum sem íslensk þjóð mun verða lengi að takast á við og orðspor okkar sem þjóðar verður skaðað um langan tíma. Þessa gjá þarf að brúa og þar er engum brúarsmiði betur treystandi til verksins en Jóhönnu Sigurðardóttur.
Smíðin mun kosta blóð, svita og tár, hún mun ekki mælast vel fyrir á öllum stöðum og sjálfsagt munu fjósamenn Sjálfstæðisflokksins hallmæla öllu því sem vel verður gert og ekki efast um það eitt andartak að þeir munu reyna að rífa niður brúna og grafa undan undirstöðum hennar svo fljótt sem auðið er.
Þá mun meirihluti þjóðarinnar, þeir sem ekki nutu nema molanna af nægtaborði íhaldsins, þurfa að standa vaktina með forsætisráðherranum og verja hana fram í rauðan dauðann.
Það er ekki bara fólkið sem brást í Sjálfstæðisflokknum, það gerði flokkurinn líka.
![]() |
Byggja þarf velferðarbrú |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.4.2009
Minnisleysingjarnir - Snilldargrein
Sverrir Jakobsson skrifar frábæra grein í Fréttablaðið í dag. Hún er slík snilld að ég verð að ræna henni úr Fréttablaðinu og deila henni með ykkur hér á blogginu.
Um daginn fór fram endurnýjun á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem fólst í því að nýjum mönnum var skipað í brúna. Ekki sáu menn ástæðu til að endurskoða stefnu flokksins enda voru menn almennt sáttir við stjórn hans á efnahagsmálum. Til að undirstrika það var fyrrverandi formaður flokksins til margra ára fenginn til að segja brandara og sáust myndir af fundarmönnum veltast um af hlátri yfir máli hans. Sjálfstæðismenn afneita þó ekki hruni frjálshyggjunnar en hún kemur þeim ekki við enda var flokkurinn aldrei frjálshyggjuflokkur. Segir hinn nýi formaður.
Það var eiginlega orðið löngu tímabært að sjálfstæðismenn fræddu okkur um þetta því að satt að segja var maður farinn að misskilja ýmislegt. Að hluta til má þó kenna leiðtogum flokksins sjálfum um þetta þar sem þeir ráku félög eins og Frjálshyggjufélagið og gáfu út bækur sem hétu nöfnum eins og Uppreisn frjálshyggjunnar. Kannski ekki skrítið að einhverjum detti í hug að snúa út úr og halda því fram að frjálshyggjan hefði eitthvað með hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins að gera. En þetta er sem sagt misskilningur eða kannski var okkur að dreyma. Maður fær raunar oft þá tilfinningu þegar maður fylgist með pólitískri umræðu á Íslandi þessa dagana.
Núna er t.d. mikið deilt um gjaldeyrishöft en það merkilega er að þeir sem gagnrýna þau núna eru þeir sömu og ákváðu að taka þau upp fyrir fáeinum mánuðum. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki gert annað en að reyna að tryggja að kerfið sem fyrri ríkisstjórn tók upp virki eins og það á að gera. Af einhverjum ástæðum hindrar það samt ekki sjálfstæðismenn í að draga fram áratuga gamlar klisjur um haftabúskap og gefa í skyn að ríkisstjórnin hafi komið á höftum af illmennsku sinni en ekki vegna þess að allir íslenskir bankar urðu gjaldþrota, ríkisstjórnin þurfti að þjóðnýta tapið og ganga í leiðinni til nauðasamninga við nokkrar erlendar þjóðir. Allt á meðan þeir stóðu vaktina.
Lausnirnar sem nú eru í boði flokksins sem er ekki og hefur aldrei verið frjálshyggjuflokkur - og síamstvíbura flokksins hjá Viðskiptaráði og Samtökum atvinnulífsins - kallast raunar óþægilega mikið á við málflutning sömu aðila fyrir fáeinum misserum; málflutning tímans þegar hinir einkavæddu og ofvöxnu bankar voru að byggja upp milljarðaskuldir undir því kjörorði að menn færu alltaf betur með eigið fé en annarra. Man einhver eftir því þegar bankarnir vildu gera ensku að ríkismáli vegna þess að íslenskan var ekki nógu kúl fyrir þá? Eða þegar Viðskiptaráð samþykkti ályktanir um að Íslendingar mættu ekki bera sig saman við Norðurlöndin vegna þess að við stæðum þeim "framar á flestum sviðum"? Já, ótrúlegt en satt: Fyrir fáeinum mánuðum fannst Viðskiptaráði það marktækt innlegg í pólitíska umræðu að Ísland væri svo miklu betra en hin Norðurlöndin. Og frjálsara, gleymum því ekki. Samt var Sjálfstæðisflokkurinn aldrei frjálshyggjuflokkur. Ekki í raun.
Núna hafa sjálfstæðismenn gleymt frjálshyggjunni og við eigum að gera það líka. Viðskiptaráð minnist ekki lengur á ályktanirnar um að við séum miklu betri en Norðurlöndin. Þeir hafa gleymt þessu og vilja að við gerum það líka. Og hinir frjálsu fjölmiðlar vilja auðvitað stuðla sem mest að þess konar minnisleysi enda eru það sömu aðilar sem eiga þá. Minnisleysi getur verið þægilegt ef ætlunin er að læra ekkert af mistökum. Annars er það hins vegar ekkert sérlega sniðugt.
Núna virðist drjúgur hluti þjóðarinnar vera ákveðinn í að halla sér aftur að stólbakinu og gleyma á meðan hlegið er að uppistandi Kristgervingsins. Hann leiðir þá aftur í gömlu góða dagana þegar þeir voru mennirnir með svörin - eða raunar hann með svörin fyrir þá. Kannski koma þeir aftur ef við skiptum um merkimiða, látum eins og ekkert hafi gerst og reynum að kenna manninum sem kom á eftir að þrífa upp það sem við gerðum sjálf? Jafnvel hrópa á skúringamanninn af þjósti: Af hverju ertu ekki búinn að þrífa upp það sem ég sullaði niður? Þannig er veröld hinna minnislausu. En ef þrifin eiga að ganga upp er kannski betra að við hin vísum sóðanum á dyr og leyfum honum að standa úti; a.m.k. rétt á meðan verið er að þrífa.
Eins og svo oft áður þá skipti ég yfir á rás 7 á miðlaranum mínum undir nóttina í gær til að fylgjast með málefnalegri og virðulegri umræðu á hinu háa Alþingi. Undanfarin kvöld hef ég hagað málum á þennan hátt og hef furðað mig á því hversu döpur umræðan er þar á bænum. Sér í lagi hef ég átt erfitt með að skilja í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem halda uppi sérlega ómerkilegu málþófi vegna frumvarps um stjórnskipunarlög.
Í gærkvöld þrættu þeir við stjórnarliða um það í hvaða röð þeir ættu að taka til máls, auk þess sem þeir kvörtuðu yfir því að fáir þingmenn væru í þingsalnum til að hlusta á þá. Málið var nefnilega að þrátt fyrir að 14 þingmenn væru á mælendaskrá þá tókst Illuga Gunnarssyni að flytja tvær ræður um þetta sama mál. Nú er útsýnið takmarkað úr sjónvarpstækinu en mig grunar að ástæða þess að Illugi þurfti að tala svona títt hafi verið að fáir þingmenn minnihlutans hafi verið viðstaddir ræðuhöldin og því hafi þeir gripið til þess ráðs að láta flytja sig framar á mælendaskrána - svo þeir misstu ekki taktinn, blessaðir!
Áður en ég slökkti sá ég þau Arnbjörgu Sveinsdóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins og Bjarna Benediktsson, formann sama flokks, standa við borðið hjá forseta þingsins og endurraða á mælendaskrána. Það fór enda svo að sirkusinn í boði Sjálfstæðisflokksins hélt áfram inní nóttina en á meðan ég svaf styrkist ég enn í trúnni á því að með málþófinu vonist þeir til þess að tíminn standi kyrr - tali þeir nógu mikið.
Ég held að Sjálftæðismenn séu skíthræddir við kosningar sem þó munu skella á þeim laugardaginn 25. apríl, hvort sem þeim líkar betur eða verr.
6.4.2009
Í hálfgerðri forundran
Það var í hálfgerðri forundran sem ég hlustaði á útsendingu frá Alþingi um hádegisbil í dag. Fyrst komu þingmenn Sjálfstæðisflokksins upp í umvörpum og vildu breyta út frá fyrirliggjandi dagskrá þingsins. Forseti Alþingis benti þeim vinsamlega á, og í dálítið föðurlegum tón, að það væri forseti Alþingis sem setti upp dagskrá þingsins en ef þeir vildu breyta út frá henni þá væri hann tilbúinn til að skoða það á fundi með formönnum þingflokkanna í hádegisverðarhléi.
En þetta dugði ekki til því en enn og aftur héldu þingmenn Sjálfstæðisflokksins áfram að haga sér eins og óþekkir krakkar fyrir framan sælgætisrekkann í stórmarkaðnum. Heimtandi gotterí og vildu ekki það sem búið var að setja í pokanum. Þeir vældu og vældu, jafnvel þó að neðar í pokanum væri það góðgæti sem þeir vildu.
Þau mál sem Sjálfstæðismenn vilja ræða voru nefnilega á dagskrá þingsins. Bara ekki í þeirri röð sem þeir vilja!
Vegna einstaks umburðarlyndis og gæsku bar forseti Alþingis síðan upp tillögu Sjálfstæðismanna og leyfði þingheimi að greiða atkvæði um dagskrártillöguna. Þá tók ekki betra við, því þá þyrptust þeir upp í ræðustól til að gera grein fyrir atkvæði sínu. Á daginn kom að tillaga Sjálfstæðismanna um breytingu á dagskrá var felld með nokkrum mun.
Frá hádegi hafa Sjálfstæðismenn hrúgast í ræðustól til að agnúast út í frumvarp um stjórnlagaþing eins og þeir hafa gert undanfarna daga. Þeir geta haldið áfram að halda Alþingi í gíslingu með málþófi sínu. Verði þeim að góðu með það, en að koma síðan upp og halda því fram að ríkisstjórnin og aðrir flokkar á þingi séu að halda þeim frá kosningabaráttu er náttúrulega slík firra að engu tali tekur.
Það verk fellur algjörlega í hlut Sjálfstæðisflokksins.
Kannski þetta málþóf þeirra eðlilegt. Þeir vita sem er að þeir munu tapa miklu fylgi í kosningunum 25. apríl og eru þess vegna skíthræddir við það að taka þátt í kosningabaráttunni.
Persónulega hlakka ég til kosninganna og veit að þjóðin mun fagna með mér að þeim loknum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.4.2009
Besti ráðherra þjóðarinnar.
Í framhaldi af færslu minni hér að neðan langar mig að benda á að sá embættismaður íslenskur, sem þjóðin ber mest traust til, er Jóhanna Sigurðardóttir.
Hefur þú velt því fyrir þér af hverju það er?
Ég held að það sé vegna þess að hún hefur það sem ég sagði í fyrri færslu að vantaði í íslenskt samfélag, þ.e. að hafa siðferðiskompásinn rétt stilltann. Hjá henni ganga heildarhagsmunir framar hagsmunum fárra. Hún hefur verið umdeild og gagnrýnd, yfirleitt af þeim sem til þessa, og gjarnan í skjóli íhaldsins, hafa notið þess að vera í litlum forréttindahópi.
Foreldrar mínir eru bæði fædd árið 1932. Síðasta sumar sagði pabbi við mig í óspurðum fréttum að Jóhanna Sigurðardóttir væri sá ráðherra sem hefði gert mest og best fyrir hann á allri hans ævi. Ég varð dálítið hissa, enda er karl faðir minn frekar hallur undir frelsi einstaklingsins og öðrum þeim hugmyndum sem gildi Sjálfstæðismanna grundvallast á. Þegar ég innti hann eftir því af hverju hann hefði sagt þetta þá stóð ekki á svari, lífeyrir hans hafði hækkað svo að eftir því var tekið.
Reyndar er það ekki skrítið að faðir minn hafi orðið þess var að lífeyririnn hafi hækkað því frá því Jóhanna Sigurðardóttir settist í stól félagsmálaráðherra vorið 2007 hafa lægstu lífeyrisbætur verið hækkaðar verulega og lífeyrisþegar fá nú greiddar bætur án tillits til tekna maka og séreignasparnaðar. Skv. fyrirliggjandi upplýsingum verða greiðslur til lífeyrisþega næstum helmingi hærri á árinu 2009 en þær voru 2007. Þetta er árangur þrotlauss starfs jafnaðarráðherrans Jóhönnu Sigurðardóttur.
Því miður held ég að þessi uppgötvun karls föður míns verði ekki til þess að hann gefi Jóhönnu atkvæði sitt í komandi kosningum. Ég mun þó halda áfram að reyna að snúa honum á mitt band.
Lögin mín
Eldri færslur
- Júní 2012
- Febrúar 2012
- Apríl 2011
- Desember 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Apríl 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Myndasíða
Heimasíðan mín
- www.ingibjorg.net
- Völvuspá Dollýar 2011 Spá Dollýar dulrænu fyrir árið 2011
- Lystauki - Veisluþjónusta Besta veisluþjónusta landsins. Fersk og framandi en þó hefðbundin. Mjög gott.
Bloggvinir
- Anna Einarsdóttir
- Birna Steingrímsdóttir
- Bragi Sigurðsson
- Elfur Logadóttir
- Eygló
- Gudrún Hauksdótttir
- Guðrún Jóna Jónsdóttir
- Gísli Tryggvason
- Helga Kristjánsdóttir
- Jenný Stefanía Jensdóttir
- Jón Svavarsson
- Karl Gauti Hjaltason
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Linda Samsonar Gísladóttir
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Magnús Helgi Björgvinsson
- Margrét Júlía Rafnsdóttir
- Marinó G. Njálsson
- Pjetur Hafstein Lárusson
- Samfylkingin í Kópavogi
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Sigurður Haukur Gíslason
- Sigurður Sigurðsson
- Smári Jökull Jónsson
- Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)
- TARA
- Unnur G Kristjánsdóttir
- Veiðifélagið
- Ólafur Þór Gunnarsson
- Þórarinn M Friðgeirsson
- Sigþrúður Þorfinnsdóttir
- Valdimar H Jóhannesson