Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Ljósin kveikt á jólatréinu

Ljósin voru kveikt á jólatrénu á heimili mínu að viðstöddu fámenni. Það hefur verið hefðbundið hjá mér undanfarin ár að skreyta fyrir 3. desember ár hvert. Ástæðan er einfaldlega sú að gestir sem líta til mín að kveldi þess 3. hafa gjarnan óskað þess að jólin séu komin á heimilið.

Það er ekki í mínum anda að valda þeim vonbrigðum.

Á meðan á skreytingu jólatrésins og ákveikju stóð þá var leikinn nýr geisladiskur með Ragnheiði Gröndal sem ég fékk í snemmbúna afmælisgjöf frá Binnu systur minni og hennar fjölskyldu. Það var ánægjulegt að hlusta á Ragnheiði, snilldarsöngkona þar á ferð. Mér finnst samt að henni hafi fyrr tekist betur upp en á þessum geisladiski. Góður engu að síður og verður sjálfsagt nokkuð í spilaranum.

Vegna viðburðarins sem fagnað hefur verið ár hvert frá 3. desember 1963 verður opið hús fyrir þá sem vilja skoða jólaskreytingarnar frá því ég kem heim úr vinnu uppúr kl. 16.00. Þeir sem ekki eiga heimangengt er heimilt að skilja eftir kveðju.


Áhugaverð vefsíða

Það kemur fyrir öðru hvoru að maður hnýtur um eina og eina vefsíðu sem er full af fróðleik, upplýsingum eða einhverju öðru misgáfulegu. Ég datt inná eina slíka síðu í kvöld. Sá þar m.a. eftirfarandi klausu:

Eftirfarandi greinarstúf mátti lesa í Samúel haustið 1983. Þar myndast Jafnréttisráð Kópavogs við að mótmæla birtingu saklausra nektarmynda í tímaritinu. Gaman að rifja bókun ráðsins upp núna aldarfjórðungi síðar með það í huga, að eina súlustað landsins skuli einmitt vera að finna þar í bæ:

  Á fundi Jafnréttisráðs Kópavogs, sem er sjö manna nefnd skipuð af bæjarstjórninni gerðist það á dögunum að Hauður Helga Stefánsdóttir, fulltrúi krata, vakti máls á síðasta tölublaði Samúels „þar sem birtist mynd af hálfnakinni stúlku“. Þótti henni myndbirtingin vægast sagt mjög ósmekkleg og að eitthvað þyrfti að gera til að bjarga heiðri stúlkunnar. Málið var rætt fram og til baka og voru flestir á móti svona myndum yfirhöfuð, auk þess „þótti ýmsum nefndarmannanna þetta óheppileg þróun að íslenskar stúlkur færu að stunda þessa iðju í gróðaskyni“(úr fundargerðinni).

  Samkvæmt venju var fundargerð Jafnréttisráðs send bæjarráði til yfirlesturs og samþykktar. Oftast skrifar bæjarráð undir svona fundargerðir athugasemdalaust, en í  þessari hnaut það um setningu sem því þóttir heimskuleg eða í besta falli byggð á misskilningi og sendi fundargerðina til Jafnréttisráðs og bað um að hún yrði endurskoðuð.  Setningin er svona: „Öðruvísi þykir horfa við að birta slíkar myndir af erlendum stúlkum.
    En nú brá svo við, að ritarinn á umræddum fundi, sem er eini karlmaðurinn í nefndinni, neitaði að breyta einum einasta stafkrók. Undir þessa fundargerð hefðu allir nefndarmenn skrifað, og svona skyldi hún standa. Hins vegar væri hægt að bæta við hana útskýringum að vild.
    Og á öðrum fundi Jafnréttisráðs um málið nokkrum dögum síðar var ákveðið að breyta punktinum aftan við setninguna í kommu og bæta við: „vegna smæðar þjóðfélags okkar er því veitt mun meiri athygli þegar íslenskt fólk kemur fram á þennan hátt.
    Þá vitum við það.
    Í fundargerðinni er einnig lýst yfir „vanþóknun á klámi í hvers konar mynd.“ Og mun sú vanþóknun einkum beinast að Veitingahúsinu Glæsibæ, sem býður upp á nektardansmeyjar sem skemmtiatriði.

Vefsíðan er www.samuel.is - bráðskemmtileg.


Áróðursmaskína íhaldsins farin af stað

Það var broslegt að heyra síðdegisútvarpið á Bylgjunni í dag. Greinilegt er að áróðursmaskína íhaldsins hefur fengið fyrirskipanir og í lofi og lasti dagsins hringdu stuttbuxnadrengir í umvörpum og hrósuðu Geir Hilmari og Davíð fyrir hugdirfsku þeirra, dugnað og ráðdeildarsemi á örlagatímum.

Það var ekki laust við að kjánahrollurinn góði gerði vart við sig, en þó varð það ekki svo heldur fannst mér það óskaplega fyndið þegar uppvöxnu stuttbuxnadrengirnir hringdu hver af öðrum og hrósuðu ráðherranum. Mest fannst mér fyndið að heyra í Tuma vini mínum, sem ég trúi ekki að hringi á degi hverjum, en hann fylgir fyrirmælum flokksins - það veit ég. Mér finnst svo sem ekkert að því að stöku menn hrósi Geir, en þegar það er gert með þessum hætti verður þetta ekki aðeins kjánalegt, heldur beinlínis hallærislegt.

Mætum öll á mótmælafund á Austurvelli kl. 15 á morgun og ítrekum kröfur okkar um endurnýjun í æðstu valdastöðum.


Krafan stendur enn

Krafan sem ég setti fram hér þann 16. nóvember sl. stendur enn, þrátt fyrir flokksstjórnarfund, rannsóknarnefnd, litla Glitnismanninn og allt það sem gerst hefur frá þeim degi. Til að ítreka kröfuna þá birti ég hana aftur:

Í fyrsta lagi er krafan sú að stjórn Seðlabanka Íslands víki öll og að þar verði skipuð ný stjórn þar sem hæfir einstaklingar setjist í stjórn en ekki einhverjir flokkshestar sem eru í náðinni hjá stjórnvöldum á hverjum tíma.

Í öðru lagi er krafan sú að stjórn Fjármálaeftirlitsins, og æðsta stjórn þess, sem sannarlega svaf Þyrnirósarsvefni undanfarin ár verði látin víkja því aðeins þannig getur almenningur í landinu fengið einhverja vissu fyrir því að eftirlit verði haft með ríkisbönkunum og því sem mun gerast í framhaldinu.

Í þriðja lagi þurfa a.m.k. tveir ráðherrar að stíga fram og axla sína ábyrgð á málinu. Þar fara fremstir ráðherra bankamála annars vegar og ráðherra fjármála hins vegar. Ef fleiri ráðherrar taka uppá því að axla ábyrgð á ástandinu, s.s. forsætisráðherra þá er það í góðu lagi mín vegna.

Í fjórða lagi þarf að boða til kosninga í vor svo þjóðin geti kveðið upp sinn dóm gagnvart þeim stjórnvöldum sem hafa ekki staðið vaktina og sinnt þeim skyldum sem þjóðin fól þeim í síðustu kosningum, kosningunum þar á undan, kosningunum þar þar á undan og svona mætti lengi telja.


Kanarífuglinn

"Isss... við erum bara kanarífugl," sagði vinnufélagi við mig í dag þegar ég hélt því fram að bankakreppan sem nú skekur íslenskt samfélag muni koma illa niður á nágrannaþjóðum okkar á næstu mánuðum. Ég hélt hún væri að tala um Guðna Ágústsson, sem nú eyðir lífeyri sínum á Klörubar á hinum spænskuættuðu Kanaríeyjum.

Sú var þó alls ekki raunin heldur vildi hún, og reyndar fleiri, halda því fram að stjórnendur þjóða og fjármálafyrirtækja í kringum okkur hefðu alvarlega vara á sér vegna þess ástands sem hér er uppi. Á Íslandi hafa hlutirnir gerst hratt og útrásin og vöxturinn hefur verið meiri heldur en þjóðfélagið hefur staðið undir (það er a.m.k. komið í ljós). Það má því líkja íslensku bankakerfi við kanarífugl sem sendur var inní kolanámur hér forðum daga, en ef hann datt niður dauður þá var gasleki kominn í námuna og verkamönnunum skipað upp.

Kannski er Ísland, Íslendingar og hið íslenska bankakerfi aðeins kanarífugl í efnahagskerfi heimsins. Kanarífugl sem öðrum finnst í lagi að fórna til að vernda sjálfan sig og sitt. Þessu þurfum við að breyta og það gerist ekki öðruvísi en að menn gangist við ábyrgðum sínum hvar í flokki sem þeir standa.


Áfram Ísland!

Jæja, nú er það ljóst að það á LOKSINS að ganga frá þessu eftirlaunafrumvarpi. Það er líka LOKSINS búið að ganga frá umtöluðu láni frá hinum og þessum og það er LOKSINS búið að leggja fram vantrausttillögu á ríkisstjórnina.

Nú bregður sjálfsagt einhverjum við þegar ég segi að loksins sé búið að leggja fram vantrausttillögu á ríkisstjórnina, en ég bara spyr, ef stjórnarandstaða á á einhverjum tíma að leggja fram tillögu um vantraust ... er það ekki einmitt núna? Ég er svo sem ekki alveg 100% sammála tillögunni og vil alls ekki kjósa um áramót, en ég vil að það verði kosið í vor. Traust til íslensku þjóðarinnar er ekki beysið í útlöndum. Ég meina, segjum sem svo að þjófur læðist inn til þín og steli frá þér öllu steini léttara. Þú veist hver þjófurinn er og formælir honum sem mest þú getur og þú fylgist með þegar fjármál þjófsins og fjölskyldu hans eru að komast í þrot. Myndi þér ekki bregða ef þjófurinn kæmi til þín og bæði þig um lán en ekki einhver annar fjölskyldumeðlimur?

Traust á suma þá sem stjórna landinu og bönkunum er nákvæmlega ekkert. Annars vil ég benda á frábæra grein Helga Hjörvar í Fréttablaðinu í dag þar sem hann fjallar um síendurtekin mistök bankastjóra Seðlabankans. Ég vil sérstaklega benda á niðurlag greinarinnar þar sem Helgi segir:

Öll gerum við mistök og sætum stundum ósanngirni. ... Það er þess vegna ekki verið að persónugera vandann þegar kallað er eftir breytingum í Seðlabankanum. Það er einfaldlega verið að segja hið sjálfljósa að þegar við nú stöndum á hyldýpisins brún er mikilvægt að hafa faglega yfirstjórn Seðlabankans.

Að lokum vil ég benda bloggurum og öðrum sem villast hingað inn á að nú er tækifæri fyrir okkur Íslendinga að sýna nokkra þjóðerniskennd og flagga. Það þarf ekki að vera á flaggstöng, það má setja lítinn íslenskan fána út í glugga, það hef ég þegar gert. Slíkir fánar fást fyrir tiltölulega lítinn pening t.d. í Söstrene Grene í Smáralind og örugglega víðar. Ég minnist þess að sjá myndir frá Bandaríkjunum eftir 9. september 2001 og það voru fánar út um allt. Um leið og það fór um mig hálfgerður kjánahrollur að sjá alla þessa fána fannst mér þessi flöggun út um víða völl sýna samstöðu þjóðar. Það er nokkuð sem við Íslendingar þurfum á að halda.


Hver er krafan?

Tvisvar sinnum hef ég mætt á mótmælafund á Austurvelli. Oftlega hef ég verið spurð að því hverju verið er að mótmæla, svona fyrir utan ástandinu í landinu og hver krafa mótmælenda er? Sjálf hef ég svo sem velt því fyrir mér hver hin raunverulega mótmælakrafa er og sjálfsagt eru kröfurnar álíka margar og fólkið sem mætir á völlinn. Skoðanir manna eru misjafnar en þó tel ég að nokkrar kröfur sameini raddir þess fólks sem mætir á Austurvöll og krefst breytinga.

Í fyrsta lagi er krafan sú að stjórn Seðlabanka Íslands víki öll og að þar verði skipuð ný stjórn þar sem hæfir einstaklingar setjist í stjórn en ekki einhverjir flokkshestar sem eru í náðinni hjá stjórnvöldum á hverjum tíma.

Í öðru lagi er krafan sú að stjórn Fjármálaeftirlitsins, og æðsta stjórn þess, sem sannarlega svaf Þyrnirósarsvefni undanfarin ár verði látin víkja því aðeins þannig getur almenningur í landinu fengið einhverja vissu fyrir því að eftirlit verði haft með ríkisbönkunum og því sem mun gerast í framhaldinu.

Í þriðja lagi þurfa a.m.k. tveir ráðherrar að stíga fram og axla sína ábyrgð á málinu. Þar fara fremstir ráðherra bankamála annars vegar og ráðherra fjármála hins vegar. Þessir tveir hafa verið í miðju þessa máls í mislangan tíma að vísu. Afsögn þeirra yrði ekki til annars en að auka traust almennings og heimsins á því að á Íslandi ríki lýðræði og að stjórnsýslan sé skilvirk og ÁBYRG. Ef fleiri ráðherrar taka uppá því að axla ábyrgð á ástandinu, s.s. forsætisráðherra þá er það í góðu lagi mín vegna.

Í fjórða lagi þarf að boða til kosninga í vor svo þjóðin geti kveðið upp sinn dóm gagnvart þeim stjórnvöldum sem hafa ekki staðið vaktina gegn þeim flokki manna sem kallaðir hafa verið útrásarvíkingar. Þeirra ábyrgð er síðan efni í annan pistil sem ég ætla að geyma til betri tíma þegar betur hefur komið í ljós hvað þeir hafa kostað íslensku þjóðina, svona fyrir utan æruna, sómann og traustið gagnvart erlendum þjóðum.


Sameinuð stöndum við ... öll 500!

Annan laugardaginn í röð skellti ég mér á Austurvöll til að treysta mín heit. Í dag var fjölmenni á vellinum, a.m.k. 12 sinnum 500 manns og stemmingin var engu lík. Íslendingar eru ekki sérstaklega duglegir við að tjá tilfinningar sínar, þeir eru ekki mikið fyrir að opinbera sig á nokkurn hátt og það að láta heyrast í sér á opinberum vettvangi er aðeins örfáum gefið. Þetta hef ég margsinnis reynt á fótboltavellinum þar sem stúkugestir sitja og styðja sitt lið í hljóði. Örfáir ungir menn hafa síðustu sumur haft sig í frammi eftir að hafa styrkt hjarta sitt og sál á öldurhúsi fyrir hvern leik. Svo hafa reyndar alltaf verið til einn og einn kverúlant sem hefur látið í sér heyra og hlotið augngotur frá samferðafólki sínu að launum.

Á Austurvelli í dag stóð almenningur ekki þögull og horfði á. Hörður Torfason stemmdi saman hópinn og á vellinum hljómaði saman krafan um ábyrgð og lýðræði í íslensku samfélagi. Þetta var hressandi að hrópa hátt og snjallt JÁ þegar Hörður spurði spurninga, það var hressandi að taka undir með ræðumönnum og klappa þeim lof í lófa ... það var hressandi að leyfa tilfinningunum aðeins að brjótast fram. Þær hafa smátt og smátt verið að gægjast fram í dagsljósið hjá Íslendingum og ráðamenn landsins hafa smá saman orðið hræddari og hræddari um stöðu sína gagnvart þjóðinni. Ég rölti aðeins um á vellinum og sá þar gamla og núverandi samferðarmenn mína í gengnum tíðina. Öll vorum við þarna í þeim tilgangi að láta stjórnmálamenn þjóðarinnar vita að okkur stendur ekki á sama.

Viðar Þorsteinsson, heimspekingur, átti ræðu dagsins að mínu mati. Hann flutti ræðu sína svo umbúðalaust. Hér ræður gömul og gjörspillt klíka ríkjum, hér er ekkert raunverulegt lýðræði, stjórnmálamennirnir fara sínu fram hvort sem þjóðin fylgi þeim að málum eða ekki. Fjölmiðlar taka vísvitandi þátt í spillingunni með því að verja þessi sömu öfl, sem oftar en ekki eru eigendur þeirra og launagreiðendur. Það sáum við best um síðustu helgi þegar eggjakast nokkurra reiðra ungmenna var aðalumræðuefni fjölmiðlanna eftir frábæran og FRIÐSAMAN útifund á Austurvelli.

Ég hlakka til næstu helgi, að geta aftur átt stund með alþýðu landsins í mótmælum á Austurvelli. Ég verð þó að viðurkenna að ég vona að í millitíðinni verði einhver úr hópi spillingaraflanna búinn að átta sig og farinn frá, hvort sem það er stjórn Seðlabankans, stjórn Fjármálaeftirlitsins eða stjórn Ríkisins. Viðar Þorsteinsson benti á að það þyrfti að stofna lýðveldið Ísland uppá nýtt ... ég hef heyrt verri hugmynd!


Ljós í myrki

KertiBloggvinur minn sendi mér eftirfarandi kveðju sem mér er bæði ljúft og skylt að birta og bera áfram um bloggheima. Ég vil þó, vegna sérstakrar brunahræðslu, benda bloggvinum mínum og lesendum á að fara varlega með kertaljós í glugga. Einnig vil ég tileinka ljósið í kvöld og næstu kvöld vinkonu minni að austan og sendi henni og fjölskyldunni mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Ljós í myrkri
Á þessum skammdegisdögum er nauðsyn að birta og ylur kærleiks og vinskapar streymi um nágrenni okkar. Við þyrftum nú strax að hvetja alla til að byrja á því sem kallað er -Ljós í myrkri-. Í fyrstu væri einungis lifandi kertaljós í einum glugga, falleg kveðja til nágrannanns.

Þetta er í raun byrjun á ljósaskreytingu aðventunnar en væntanlega meir með hvítum ljósum sem síður eru tengd sjálfum jólunum. Stígandi væri í þessu sem byrjaði á kertaljósi í glugga og endar í fallegum vel upplýstum gluggum í byrjun aðventu.

Kertaljós er staðalbúnaður á mínu heimilli en ekki veitir af að hvetja menn og reyndar öll börn Guðs til kærleiks og væntumþykju þó ekki sé til annars en að líða vel í eigin hjarta.

Látið þetta ganga!


Mæliglasið að fyllast

Það er auðheyrt úti í samfélaginu að mæliglas almennings, skrílsins og verkalýðsins er að fyllast. Mæliglas flokksbundinna sem óflokksbundinna er að fyllast og sumir þingmenn hafa jafnvel tjáð sig opinberlega um að þeirra mæliglas sé við það að verða fullt.

Síðustu 40 daga höfum við Íslendingar beðið eftir því að fá upplýsingar um það sem raunverulega er í gangi. Í byrjun októbermánaðar bað forsætisráðherra Guð að blessa íslensku þjóðina. Það má vera sjálfsagt að forsætisráðherra biðji um blessun Guðs hvenær sem er á árinu, en þessi bón ráðherrans hefur orðið mér æ meira umhugsunarefni. Hvað er það sem Geir veit en vill ekki deila með sinni þjóð? Hann vill ekki heldur deila því með flokksmönnum sínum eða Alþingi. Og það er þessi óvissa sem er að fylla mæliglas mitt og þjóðarinnar allrar bæði hratt og örugglega.

Á meðan Geir heldur þjóðinni í óvissu og myrkri grassera kjaftasögur, úlfaldagerðir eru gróskumestu fyrirtæki landsins þar sem hver mýflugan af annarri sprettur fram sem fullgildur úlfaldi. Af hverju má þjóðin ekki heyra sannleikann? Af hverju heldur Geir ennþá hlífiskildi yfir stjórn Seðlabanka Íslands? Af hverju hefur enginn ráðherra gengið fram fyrir skjöldu og segir að hann hafi ekki verið starfi sínu vaxinn? Af hverju kom bankakreppan ráðamönnum þjóðarinnar svona gríðarlega mikið á óvart? Af hverju er ekki löngu komin yfirlýsing um að Íslendingar ætli að taka upp Evru eða aðra erlenda mynt? Af hverju er ekki löngu komin yfirlýsing um að Íslendingar ætli að vera þjóð meðal þjóða og ganga í Evrópusambandið, eða a.m.k. hefja aðildarviðræður þar um? Af hverju hafa fjölmiðlamenn ekki gengið fastar fram en þeir hafa gert og krafið ráðherra svara? Af hverju hefur Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn ekki gengið frá láni til Íslendinga? Eftir hverju er verið að bíða?

Á meðan íslensk þjóð bíður, þá fyllist mæliglasið. Það skvettist ögn uppúr því á Austurvelli sl. laugardag. Það þarf enginn að efast um að gusugangurinn verður mun meiri næstkomandi laugardag ef ráðherrar ríkisstjórnarinnar ætla að halda áfram að hafa öll ljós slökkt og halda þjóðinni óupplýstri um stöðu mála. Stundum er betra að segja hinn óþægilega sannleika hreint út. Það er í það minnsta stórmannlegra og heiðarlegra.

Að endingu óska ég þess að mótmælendur á Austurvelli nk. laugardag verði ekki með skrílslæti.

Skrílslæti


Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband