Leita í fréttum mbl.is

Síðasti besti kossinn

Arinbjörn Sigurðsson, skipstjóri og frændi minn, lést í gærkvöldi, laugardaginn 10. október 2009. Addi frændi, eins og við nefndum hann jafnan, var eini albróðir mömmu minnar og sá sem ég hélt mest uppá sem barn og unglingur. Hann var svo yndislegur maður, hlýr og góður. Á þessari stundu leitar hugurinn til þess tíma sem við krakkarnir fórum með mömmu og pabba vestur á Seltjarnarnes til að heimsækja Adda og Lilju. Addi tók okkur alltaf opnum örmum, kallaði á okkur og bað um "besta kossinn". Undantekningarlaust hlupum við systurnar í faðm hans og kysstum hann með okkar "besta kossi" á kinnina og hann brosti til okkar, allan hringinn.

Addi var fengsæll skipstjóri, ég fylgdist spennt með skipafréttum og heyrði af hverri stórsölunni hjá honum í Kúxhafen, Húll og Grímsbý. Ég var svo ákaflega stolt af því að eiga svona flottan frænda sem var ekki aðeins harðduglegur heldur færði hann tekjur í þjóðarbúið og af honum voru fluttar fréttir í útvarpinu.

Addi var aldrei nefndur á nafn öðruvísi en að skeyta "og Lilja" aftan við. Lilja var hans stoð og stytta. Það var ekki alltaf létt að vera ein heima með börnin þegar eiginmaðurinn sigldi um heimsins höf. Eftirá að hyggja held ég hún hafi stundum tekið andköf þegar allur barnaskarinn hennar mömmu ruddist innúr dyrunum en alltaf tók hún okkur fagnandi þó ekki hafi hún fengið eins góða kossa frá okkur og Addi frændi fékk.

Síðast þegar ég sá Adda frænda var hann á spítala helsjúkur af því meini sem síðar dró hann til dauða. Þar sem ég sá hann liggja í rúminu gekk ég til hans og kyssti hann mínum allra besta kossi á kinnina. Hann var bara nokkuð hress og vildi endilega að mamma aðstoðaði hann við að borða eftirréttinn sem í boði var á spítalanum. Það var falleg sjón að sjá þau systkinin þarna saman. Mamma að mata veikan bróður sinn og hann leit á mig með glettnisglampa í augum þegar hún stakk uppí hann bleikum búðingi. Hann sagði líka að nú væri komið að henni að greiða til baka þau skipti sem hann mataði hana þegar hún var lítil stúlka.

Mömmu þótti undurvænt um Adda bróður sinn og nú er hún ein eftir af þeim systkinum öllum Addi, Ulla, Siggi, Helga og Sjana hafa öll kvatt þetta jarðlíf. Þau voru samrýmdur og sterkur systkinahópur og það voru forréttindi að fæðast inní svona góðan hóp. Fyrir það þakka ég, í hjarta mér er gleði yfir því að hafa átt svona flottan frænda og í kveðjuskyni sendi ég honum minn allra besta koss.

Hvíldu í friði kæri frændi.

Farðu í friði

Við fæðumst til að ferðast meira,
fæðing dauði er ferðalag.
Margra bíður sultur seyra
en sumum gengur allt í hag.

Öll við fáum okkar kvóta
af meðlæti og mótlæti.
Flest við munum einnig hljóta
okkar skerf af ástinni.

Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Sama hvað á okkur dynur
aftur hittumst við á ný.

Úr hjarta mínu hverfur treginn
er ég hugsa um hlátur þinn.
Bros þitt veitti birtu á veginn
betri um stund varð heimurinn.

Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Þar til heimsins þungi dynur
þokar okkur heim á ný.

Sólin skín á sund og voga
sumar komið enn á ný.
Horfið burt í bláum loga
stjörnublik á bak við ský.

Lag og texti: Magnús Eiríksson


Fýluför í boði Finns?

Ég játa að það vakti pínulitla lukku hjá mér þegar framsóknarmennirnir Höskuldur og Sigmundur skunduðu inní stjórnarráðið um það leyti sem Ögmundur gafst upp á því að vera ráðherra. Lukkan var ekki tilkomin vegna þess að Höskuldur og Sigmundur voru búnir að finna hugsanlegan lánveitandi í Noregi og hún var heldur ekki tilkomin vegna þess að Ögmundur gafst uppá því að vera ráðherra, heldur vegna þess að framsóknarmennirnir ætluðu sér að sækja sér prik á þessum afleita tímapunkti.

Ég játa að ég var ekki hrifin af því að Ögmundur gafst uppá því að vera ráðherra. Mér finnst að hann hefði átt að standa við það að vera ráðherra eins og hann hafði lofað en ekki fara í einhverja fýlu vegna einhvers sem maður þarf að geta sér til um hvað er.

Ég játa líka að ég var pínu ánægð með að Höskuldur og Sigmundur hafi farið úr landi um stundarsakir, þó ekki væri nema til þess að leita allra leiða til að fá lán. Þeir virðast þá a.m.k. gera sér grein fyrir því að við þurfum á láni/lánum að halda.

Ég játa að það kom mér ekki á óvart að lánsför þeirra Höskuldar og Sigmundar í Austurveg var ekki eingöngu til hagsbóta fyrir íslenska þjóð, heldur virðist hún einnig verið farin í einhverju hagsmunapoti fyrir félaga þeirra og vini. Lára Hanna, bloggvinkona mín, gerir þessu ágæt skil í færslu sinni frá í gær.

Ég játa að ég leita að Finni, ætli ég finni hann?


Þegar doðinn færist yfir

Þegar doðinn færist yfir er fátt að blogga um.  

Forkastanlega framganga í Hádegismóum

Eftir tíðindi dagsins frá Hádegismóum hafa margir ákveðið að segja upp Morgunblaðinu og einhverjir hafa hótað að hætta að blogga á Moggablogginu. Sumir hafa jafnvel hvatt aðra til að gera slíkt hið sama á Fasbók, Twitter og hvað þetta heitir allt. Allt vegna þess að karlinn hann Davíð hefur verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins. 

Og só vott?

Ég er reyndar ekki áskrifandi að Mogganum og hefði kannski sagt upp áskriftinni í dag, um það get ég ekki fullyrt. Ég get fullyrt að í dag hef ég engar fyrirætlanir um að hætta að lesa mbl.is eða hætta að skrifa hér á blog.is. Ég tel að sú þrönga klíka sem nú ræður ríkjum á Mogganum hafi gott af því að heyra hvað ég hef að segja, enda ég geri ekki ráð fyrir því að það verði þeim allt að skapi.

Framganga forystumanna á Hádegismóum við að segja upp 30 blaðamönnum í dag er allt annað mál og að mínu viti algjörlega forkastanleg. Mér liggur við að spyrja hvað þeir kumpánar tveir sem ráðnir voru í dag fái í laun ef það þarf að segja upp 30 manns á gólfinu? Verst er augljóslega að á þeim lista eru blaðamenn sem hafa varið lunganum af starfsævi sinni hjá fyrirtækinu, hafa starfað þar af dyggð og trúmennsku og þeir hlutu laun erfiðis síns í dag.  Fyrir þetta fordæmi ég nýja eigendur og ég dreg það ekki í nokkurn efa að nýir ritstjórar beri ábyrgð á þessum uppsögnum, nú degi áður en þeir setjast í ritstjórnarstólinn.

Þeir blaðamenn sem fengu uppsagnarbréf í dag eiga samúð mína alla. Sérstaklega þeir blaðamenn sem ég þekki persónulega. En þeir blaðamenn sem eftir sitja fá samúðarkveðjur frá mér, ekki aðeins vegna þess að þurfa að vinna undir flokksaga íhaldsklíkunnar, heldur einnig vegna þess að í dag sjá þeir á eftir góðum vinnufélögum og vinum. Gangi ykkur vel og vonandi haldið þið sjálfstæði ykkar í ykkar skrifum. Það mun ég gera hér á blogginu!

Fyrst ritað 24. endurbirt í dag


Góðir hlutir gerast hægt

Undanfarna daga og vikur hafa ýmsir þrýstihópar farið mikinn í bloggheimum og í fjölmiðlum þar sem því hefur statt og stöðugt verið haldið fram að það sé ekkert að gerast hjá ríkisstjórninni. Þessu hefur verið svo ítrekað haldið fram að margir eru farnir að trúa þessu. Það er eðlilegt og það er í okkar eðli að trúa því sem okkur er sagt, trúa án þess að staðreyna.

En hefur ríkisstjórnin setið auðum höndum? Nei ég held ekki, alþingismenn fengu ekki að fara í sumarfrí fyrr en langt var liðið fram á haustið og ég hef ekki orðið vör við það að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi verið mikið fjarverandi vinnustöðvum sínum, án þess þó að ég hafi lagst í djúpar rannsóknir þar á. Hins vegar hafa margir þeirra sem nú hrópa á torgum tekið sér gott leyfi, ekki náðist í forystumenn Sjálfstæðisflokksins á dögunum og enn dýpra hefur verið niður á forystu Framsóknarflokksins. Nú koma þessir foringjar og gæðingar þeirra fram á sjónarsviðið, endurnærðir og fullir orku eftir gott frí og hamra á ríkisstjórninni og heldur því fram að ekkert hafi gerst á síðustu vikum.

Það er löngu sannað, og það vita allir sannir verkmenn, að það tekur mun styttri tíma að rífa niður heldur en byggja upp. Góðir hlutir gerast hægt, segir einhversstaðar og ég held að forystumenn stjórnarandstöðunnar verði að líta í spegilinn þegar færi gefst og spyrja sjálfa sig, hvað það taki langan tíma að byggja upp það þjóðfélag sem þeir dunduðu sér við að rífa niður á tæpum 10 árum.

Já og ég heyrði í Sigmundi Davíð í útvarpinu í dag, það var hressandi, sumt breytist ekkert!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband