Leita í fréttum mbl.is

Hárgreiðslustóll bitbein meirihlutans

ml-0708Í bæjarstjórn í gær var eitt heitasta málið umræða um hvort leyfa ætti konu hér í bæ að reka hárgreiðslustofu með einum stól í bílskúr við heimili sitt. Ótal dæmi eru til um að slík starfsemi fari fram í bænum, þó vissulega séu ekki allar hárgreiðslustofur í bílskúrum.

Þegar ég kynnti mér málið fyrir bæjarstjórnarfundinn þá sá ég að málið var búið að velkjast í bæjarapparatinu frá árinu 2003 og að meirihluti bæjarráðs hafði klofnað í málinu sl. fimmtudag. En einhvernvegin taldi ég þó víst að málið yrði afgreitt með einfaldri atkvæðagreiðslu á bæjarstjórnarfundinum og að konan fengi leyfi til að reka hárgreiðslustofu í bílskúrnum sínum.

En nei ... aldeilis ekki. Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs höfðu allt á hornum sér varðandi þessa afgreiðslu. Kom það nokkuð á óvart því fram til þessa hefur bæjarstjóri, a.m.k., verið málsvari einkaframtalsins og öflugrar atvinnustarfsemi í bænum. En ekki í gær.

Eftir að hafa hlustað á örstutta en að mínu viti nokkuð góða ræðu mína um málið sagði bæjarstjóri að ég og við í minnihlutanum hefðum ekki vit á málinu, ég gæti ekki með nokkru móti vitað allar staðreyndir málsins og þess vegna yrði hann að fresta afgreiðslu þess og sjá til þess að við fengjum allar "staðreyndir málsins".  Ég brást vitaskuld ókvæða við og var algjörlega andvíg því að setja málið á ís, enda var ég búin að kynna mér málið vel og reyndar fannst mér það svo sjálfsagt að þetta yrði samþykkt að ég taldi bara að það kæmi ekkert annað til greina.

Gunnar hafði hins vegar sitt fram, málinu var frestað en nú sýnist mér það vera komið öllu lengra en Gunnar gerði ráð fyrir því nú er Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, búinn að taka málið uppá sína arma og núna er algjörlega ómögulegt að sjá hvar það endar.

http://mannlif.is/ordromur/nr/701

 


Skil það núna...

af hverju Gunnar var svona önugur á bæjarstjórnarfundinum í gær.

http://www.mannlif.is/ordromur/nr/699

 


Gunnar fór röngu megin framúr

Var á bæjarstjórnarfundi í gær. Greinilegt var á öllu að Gunnar bæjarstjóri fór röngu megin framúr rúminu í gærmorgun. Var önugur og öfugsnúinn nær allan fundinn. Vildi meðhöndla bæjarstjórnina eins og einhverja byrjendur sem vissu ekki hvar þeir ættu að drepa niður fæti.

Það er svo sem ekki nýtt að bæjarstjórinn sé önugur, hann er það oft, en stundum er það mjög tímabundið ... kannski bara í einu máli og svo jafnar kappinn sig. Það var ekki þannig í gær. Merkilegastir eru þó aðrir bæjarfulltrúar íhaldsins. Þar þorir enginn að segja nokkurn skapaðan hlut fyrr en leiðtoginn hefur talað. Svo þegar kallað er eftir áliti þess fólks þá koma menn upp og skammast yfir því að óskað sé eftir skoðunum þeirra á einstaka málum. Merkilegt. Ekki myndi ég nenna að vera í flokki þar sem ein skoðun er algild, einn má tala og allir þurfa að feta í fótspor leiðtogans.

Þess vegna er ég í Samfylkingunni.


Á ég að hætta að blogga?

Spurningin er hvort ég ætti að hætta að blogga, eða halda úti heimasíðu, www.ingibjorg.net? Veit ekki... fór að velta þessu fyrir mér eftir að hafa lesið færslur Garðars Arnar Hinrikssonar knattspyrnudómara vegna ummæla Valtýs Björns Valtýssonar, bekkjarbróður míns, í útvarpsþættinum "Mín skoðun". Valtýr vill víst að Garðar hætti að blogga, a.m.k. um fótbolta og eftir því sem mér skilst (hlusta mjög sjaldan á X-ið) þá þykri Valtý Birni það ekki sæma knattspyrnudómara að blogga um fótbolta.

Mér er alveg sama þó Garðar Örn bloggi um fótbolta (enda er hann bloggvinur minn). Hann má hafa skoðun á fótbolta eins og hver annar, mér sýnist hann líka hafa skoðun á öllum sköpuðum hlutur og hefur hann til þess stjórnarskrárvarðan rétt. Hann hefur þegar fengið stuðning frá tveimur blaðamönnum, Seth www.seth.blog.is (sem er líka bloggvinur minn) og Henry Birgi www.blogg.visir.is/henry. Þeim finnst hann eigi að halda áfram að blogga.

Ef Valtý Birni finnst að Garðar Örn eigi að hætta að blogga þá spáði ég aðeins í það hvort ég ætti ekki líka að hætta því? Ef Valtý finnst það þá ætti ég ekki að blogga um stjórnmál af því ég er að vinna hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og er í bæjarstjórn Kópavogs, ég ætti ekki að blogga um fótbolta af því ég er í stjórn KSÍ og skrifa stundum um fótbolta í Moggann.

Mér finnst samt að ég eigi að halda áfram að blogga, rétt eins og Garðar Örn, því það er stjórnarskrár varður réttur minn. Ég gæti mín hins vegar vel á því, eins og flestir þeir bloggarar sem ég þekki, að meiða engan með blogginu mínu. Það er er grundvallarskilyrði fyrir þessum ósköpum öllum og ég stefni að því að halda mig við það úm ókomna tíð.

Garðar, Seth, já og Henry Birgir líka ... haldið áfram að blogga.

ps. er að reyna að laga færsluna þannig að vefföngin www.ingibjorg.net, http://seth.blog.is og http://blogg.visir.is/henry birtist á síðunni. Vandræði!


Glæsilegur hópur

Sigurður Ragnar, landsliðsþjálfari, valdi í dag 22 manna leikmannahóp til að standa vaktina í tveimur heimaleikjum. Annars vegar gegn Frökkum, sem eru meðal bestu þjóða heims í knattspyrnu kvenna í dag, og hins vegar gegn Serbum, sem eru mörgum klössum neðar en Frakkar og klassa neðar en Ísland.

Frakkar eru nú um stundir fimmta besta knattspyrnuþjóð Evrópu, þar sem Íslensku stelpurnar eru í 14. sæti. Þær hafa yfir að ráða frábæru liði, teknísku, fljótu og ákaflega reynslumiklu. Það er þó greinilegt á liðinu sem Frakkar stilltu upp gegn Slóvenum á dögunum, þar sem Frakkar sigruðu 6:0, að nokkur kynslóðaskipti hafa átt sér stað í Frakklandi. Það breytir ekki því að leikmenn eins og Hoda Lattaf og Sonia Bompastor munu sjálfsagt verða til nokkurra vandræða á Laugardalsvelli.

Traust mitt til íslensku stelpnanna og Sigga Ragga er hins vegar fullkomið og ég trúi því og treysti að stelpurnar muni koma á óvart á laugardaginn. Þær hafa sett stefnuna á að komast í úrslit Evrópumótsins, sem fram fer í Finnlandi árið 2009. Þangað mæta 12 bestu knattspyrnuþjóðir Evrópu og þurfa því íslensku stelpurnar að hækka sig upp fyrir þjóðir eins og Spán, Tékkland, Holland og Úkraínu.

Það er alls ekki óvinnandi vegur en stelpurnar þurfa stuðning úr öllum áttum og við Íslendinga getum vonandi barið okkur á brjóst sumarið 2009 og sagt... "sjáið, þetta eru OKKAR STELPUR!"

Áfram Ísland

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 129835

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband