Leita í fréttum mbl.is

Danskir dagar

Um helgina skrapp ég vestur í Stykkishólm og tók þátt í dönskum dögum. Talsverðar fréttir hafa verið frá hátíðinni og flestar þeirra hafa verið neikvæðar. Er það miður, því mín upplifun af hátíðinni er sú að þar hafi flest farið vel fram og skv. því sem ég átti von á.

Það verður þó ekki framhjá því litið að nokkur unglingadrykkja var á svæðinu, heldur meiri en hún hefur verið þau tvö skipti sem ég hef áður sótt hátíðina. Ástæðan er bæði sú sem framkvæmdastjóri hátíðarinnar benti á, þ.e. að hátíðin væri ekki um sömu helgi og menningarnótt, og hitt að skólar hefjast nú fyrr en þeir gerðu þegar ég sótti hátíðina síðast heim og e.t.v. voru unglingarnir að nota þessa síðustu helgi fyrir vetrarannir til að skvetta úr klaufunum.

Mér þótti ákaflega miður að verða vitni að þessari unglingadrykkju, en þó verður að segjast eins og er að hinir fullorðnu voru ekki endilega betri en unglingarnir hvað það varðar. Það breytti þó ekki því að ég skemmti mér vel, bæði á föstudag og laugardag og var stórglæsileg flugeldasýningin frá Súgandisey hátindur hátíðahaldanna.

Það er virkilega skemmtilegt að fylgjast með því hvað sveitarfélög um land allt leggja mikinn metnað í hátíðir sem þessa. Reyndar væri það fróðlegt að taka það saman hvaða sveitarfélög efna til bæjarhátíða yfir sumartímann. Þær eru örugglega fleiri en maður heldur.

Hólmurum þakka ég fyrir helgina og hlýjar móttökur.


Frábærir Íslendingar

Þeir voru aldeilis frábærir leikmenn íslenska landsliðsins í handbolta í dag. Leikurinn gegn Þjóðverjum var stórkostleg skemmtun og kom mér algjörlega í opna skjöldu. Það hefur því miður oft verið þannig að eftir góðan leik, eins og gegn Rússum á dögunum, þá kemur slakur leikur. Sem betur fer var slíkt ekki uppi á teningnum í dag og sýndu strákarnir sannkallaða meistaratakta.

Til hamingju Ísland!


Að gefnu tilefni

vil ég taka fram að ég er ekki yfirlæknir á heyrnar- og talmeinastöðinni eins og Fréttablaðið heldur fram í dag. Því starfi sinnir alnafna mín Ingibjörg Hinriksdóttir, háls-, nef- og eyrnalæknir.


Myndir úr sumarleyfi

Veiðifélagið 2008 120Eins og ég hafði lofað hér fyrr í vikunni þá hef ég sett inn valdar myndir úr sumarleyfinu. Þessar myndir má m.a. sjá með því að smella á tenglana hér að neðan.

Ég á í pínulitlum vandræðum með skipulagið en allar myndirnar ættu að vera í einhverjum hópnum. Svo má líka bara smella á þennan tengil og vafra um myndasafnið allt en það telur hátt í 900 myndir.


Um samráð Kópavogsbæjar við íbúasamtök

Grein eftir Þórarinn H. Ævarsson
sem hann ritaði í Morgunblaðið 2. ágúst 2008

ENN og aftur eru uppi harðar deilur milli íbúasamtakanna Betri byggðar á Kársnesi (BBK) og Kópavogsbæjar vegna hugmynda þess síðarnefnda um framtíðarskipulag vestast á Kársnesi. Yfirstandandi deila er í raun tvískipt, því annarsvegar er deilt um skipulagið sem slíkt og hinsvegar er deilt um það hvort samráð sem samtökunum hafði verið lofað hafi í raun og veru átt sér stað.

Ef við rifjum aðeins upp söguna þá féll bæjarstjórn frá skipulagstillögum sem lagðar voru fram á síðasta sumri í kjölfar kröftugra mótmæla íbúa. Í kjölfar þessarar ákvörðunar var það gefið út að unnið yrði að nýju skipulagi að hverfinu í náinni samvinnu við hagsmunaaðila og þá sérílagi samtökin BBK.

Nú eru komnar fram nýjar tillögur og skilur Gunnar Birgisson bæjarstjóri Kópavogs ekkert í óánægju bæjarbúa og forsvarsmanna BBK með hugmyndirnar, enda hafi þær verið unnar í samráði við samtökin og að hann hafi fundargerðir frá fjölmörgum samráðsfundum, því til staðfestingar. Það er ekkert nýtt að Gunnar standi í hártogunum við viðdeilendur sína og beri fyrir sig ósannindi í málflutningi sínum, enda virðist tilgangurinn ávallt helga meðalið hjá Gunnari, sama hversu lágt sem hann þarf að leggjast. Greinarhöfundur er varaformaður samtakanna BBK og hefur sem slíkur setið þá fundi sem samtökin hafa verið boðuð á. Fundirnir hafa alls verið þrír og hafa þeir að mestu verið kynning bæjaryfirvalda á hugmyndum sem virðast hafa verið fullmótaðar þegar samtökunum var boðið að borðinu. Birgir Sigurðsson nýráðinn sviðstjóri skipulags og umhverfissviðs stýrði þessum fundum af röggsemi og verður að segjast að hann er talsvert áferðarfegurri og þægilegri í viðmóti en yfirmaður hans.

Það kom því miður berlega í ljós strax í upphafi þessarar fundalotu sem stóð í nokkrar vikur að Birgir hafði ekki séð ástæðu til að lesa athugasemdir samtakanna við fyrri skipulagstillögur, en mikil vinna hafði verið lögð í það að gera vandaðar athugasemdir sem tóku á flestöllu því sem áhyggjufullir bæjarbúar höfðu við fyrri tillöguna að athuga. Það að þykjast vera að starfa að heilindum með samtökum á borð við BBK sem hafa einungis eðlilega hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi en nenna ekki einu sinni að kynna sér baráttumál viðsemjandans lýsir dómgreindarbresti og virðingarleysi, svo ekki sé meira sagt.

Samráðið var sem sé það að við fengum tækifæri til að hlusta á sviðsstjórann útlista fyrir okkur hvað allt yrði nú gott þegar flugvöllurinn færi og brýr yrðu byggðar yfir Fossvoginn. Vatnsmýrarmegin var svo ansi fallegur grænn reitur sem við afæturnar Kópavogsbúar gætum nýtt okkur til útivistar, en grænt framlag Kópavogs var að mestu falið í frjálslegri notkun Birgis á grænum yfirstrikunarpenna eftir norðanverðri strandlengju Fossvogs.

Á þessum 3 fundum var stjórn BBK sýnd ein fundargerð og gerði stjórn BBK við hana alvarlega athugasemd. Ekki var ein einasta fundargerð samþykkt af samtökunum og er allt tal Gunnars Birgissonar um að hann hafi fundargerðir máli sínu til sönnunar jafn marktækt og annað sem kemur frá honum. Það getur hver sem er skrifað það sem honum sýnist og kallað það fundargerð en það er marklaust ef það er ekki lesið yfir og samþykkt af þeim sem fundinn sitja. Óundirrituð fundargerð er jafn mikils virði, Gunnar, og ef ég kæmi heim til þín með afsal af húsinu þínu óundirritað.

Vandamálið er að tillögurnar sem lagðar hafa verið fram eru langt frá því að vera ásættanlegar. Ef Gunnar, Birgir og aðrir embættismenn bæjarins hefðu haft fyrir því að lesa yfir athugasemdir BBK þá ætti það ekki að koma þeim á óvart. Stóri munurinn nú er að það hefur verið skipt um verkfræðistofu og allar þær upplýsingar sem fyrir ári síðan þótti afar trúverðugar og óumdeilanlegar af hálfu bæjarins eru nú allt í einu ónothæfar. Ný stofa gerir ráð fyrir að eintómir geldingar búi á nesinu og stundi síðan vinnu á suðurhluta höfuðborgarsvæðisins. Þetta skilar því að Kársnesbraut er allt í einu komin niður i 14.000 bíla á sólarhring í stað 19-20.000 eins og tölur síðasta árs gáfu til kynna, þrátt fyrir aukinn fjölda íbúða. Notað er sem viðmið nýtt hverfi í Garðabæ, en bent á það í framhjáhlaupi að það geti verið að það sé búið að skrá þar íbúðir í fasteignamat en að það sé enn ekki búið að selja íbúðirnar. Sé það málið þá lækkar hlutfall íbúa auðvitað verulega á svæðinu og er það þá ómarktækt til viðmiðunar.

Það að bera síðan þessar tillögur saman við upprunalegar tillögur Kópavogsbæjar frá árinu 2006, sem bærinn hafði sjálfur fallið frá, er ekkert annað en hneyksli. Samtökin BBK voru stofnuð í kjölfar tillagna frá apríl 2007. Það eru tillögurnar sem samtökin börðust á móti og ætti að sjálfsögðu að bera nýjar tillögur saman við þær.

Þessi kynning og þetta mál allt er hroðvirknislega unnið og þeim sem að því komu til minnkunar. Hér er ekki verið að huga að hagsmunum íbúanna frekar en í síðustu tilraun. Ég legg til að það verði byrjað aftur á núllpunkti og að þessu sinni verði tekið eitthvert tillit til þeirra sem búa á svæðinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband