Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Enn af siðferði bankamanna

Í dag hafa borist fréttir af því að banki nokkur hafi, á árinu 2007, lánað börnum milljónir króna til að kaupa hlutabréf í öðrum banka. Í fyrstu var ég hissa á bankanum, svo varð ég hissa á foreldrunum, síðan varð ég reið út í foreldrana og loks varð ég bálill útí þá sem stjórnuðu þessum aðgerðum inní bönkunum. Af hverju? Jú vegna þess að gjörningur þessi mun hafa verið ólöglegur og því þarf að fella niður skuldir barnanna vegna glötuðu hlutafjárbréfanna.

Er þetta ekki allt einhvernvegin öfugsnúið?

Af hverju á bankinn að bera tjón af því að foreldrar nokkurra barna hafi verið svo gráðug að taka lán út á nafn barna sinna til þess að kaupa bréf í öðrum banka? Af hverju samþykkti bankinn að lána börnum milljónir króna, var enginn þar sem sá neitt athugavert við það að lána ólögráða og ófjárráða einstaklingum milljónir króna? Af hverju eiga núverandi eigendur bankanna að bera tjón vegna þess að starfsmenn bankans voru slíkir einfeldningar að þeir lánuðu fé út úr bankanum til ófjárráða einstaklinga með veði í engu nema hlutabréfum í öðrum banka?

Hver er ábyrgð starfsmanna bankanna? Ég er ekki að áfellast konurnar „á gólfinu“ því ég hef fulla trú á því að allar aðvörunarbjöllur hefðu hringt í kollinum á þeim. Ég áfellist stjórnendur bankans, eða millistjórnendur eða framkvæmdastjóra deilda eða hvað þeir nú kallast, jakkafataklæddu strákarnir á þrítugs og fertugsaldrinum sem maður sá tíðum á kaffihúsum bæjarins í miðjum vinnutímanum (sjálfsagt á áríðandi „buisness“ fundi með jafnöldrum sínum úr öðrum banka eða annarri deild). Hver er ábyrgð foreldranna, sem sannarlega stofnuðu til þessara lána og hafa væntanlega ritað undir skjalið þar sem þeir lofuðu að greiða til baka ALLA fjárhæðina ásamt vöxtum og vaxtavöxtum (bankarnir eru bæði með belti og axlabönd á þeim lánum sem ég hef tekið hjá þeim).

Stóð kannski í smáa letrinu „ef í ljós kemur að þessi gjörningur er ólöglegur, þá þarftu ekki að borga lánið til baka, við blæðum þessum milljónum bara á þig.“ ... eða stóð kannski „kæri vinur þegar þú ert búinn að hirða arðinn af bréfunum sem þú fékk lánað til að kaupa eða verði þau verðlaus og þú situr uppi með skuldina, þá skaltu ekki hafa áhyggjur. Við reddum þessu!“

Finnst engum þetta óeðlilegt? Svo kemur bara í ljós að bankarnir máttu alls ekki lána börnum alla þessa peninga!

Nú?

En hver á þá að borga peningana til baka? Það er ómögulegt að ganga á börnin (ég er sammála því), en hvað með foreldrana, þessa sem stofnuðu til skuldarinnar? Er kannski foreldraábyrgðin gengin úr gildi líka? Og aftur spyr ég um ábyrgð stjórnenda bankanna, þið munið að þeir höfðu milljónatugi og jafnvel hundruði í laun á mánuði, hver er þeirra ábyrgð? Engin?

Afsakið, meðan ég æli!

ps. þú þarna, starfsmaður í ráðuneytinu, sem skrifaðir grein í Moggann í dag og trúir því að Baldur hafi bara haft upplýsingar um stöðu bankanna í fjölmiðlum - ertu ekki að grínast?

pps. ... viðbót: Helgarblað DV greinir frá nöfnum einhverra þeirra sem tóku lán, en það var eins og mig grunaði að þarna voru stofnfjáreigendur sem ekki réðu við græðgi sína og skrifuðu börnin fyrir hluta stofnfjár (sem var takmarkað á hverja kennitölu).

 


Hvort er þetta skrum eða heimska?

Ég hef ekki lagt það í vana minn að birta hér erindi eftir aðra en sjálfa mig. En svo bregðast krosstré sem önnur og ég get ekki á strák mínum setið né heldur stillt mig um að birta hér pistil Karls Th. Birgissonar sem hann birtir á vefsíðunni www.herdubreid.is. Tilgangur skrifa hans er offar Þórs Saari, þingmanns (borgara)hreyfingarinnar.

Hvort er þetta skrum eða heimska?

27/10/2009,  Eftir Karl Th. Birgisson

Er nóg að vera lýðskrumari eða þarf maður líka að vera beinlínis heimskur til að hafa uppi málflutning Þórs Saaris um leiðréttinguna á skuldavanda heimilanna? Það er ekki svo óhóflega spurt að ástæðulausu.

Stutta sagan af Þór og leiðréttingunni er nokkurn veginn svona:

Sá þingmaður, sem hæst og stærst hefur talað um nauðsyn aðgerða, „hafði ekki tíma" til að kynna sér málið fyrr en fáeinum klukkustundum áður en það kom til lokaatkvæðagreiðslu í þinginu og hafði þá helzt þetta að segja:

„Ég velti því fyrir mér hvort að öll sú samstaða sem náðist meðal flokkanna í félags- og tryggingamálanefnd stafi af því, að þar inni er kannski fólk sem er að fara að fá stórfelldar afskriftir vegna hlutabréfalána..." Þetta sjónarmið ítrekaði hann síðar.

Hann var kurteislega beðinn að finna þessum sérkennilegu dylgjum stað, en sagðist þá hafa „mismælt sig".

Hann fullyrti líka að málið hefði ekki verið „unnið í samvinnu við aðra". Við lauslega eftirgrennslan hefði hann komizt að því, að við undirbúning leiðréttingarinnar var haft áður óþekkt samráð við banka, sparisjóði, Íbúðalánasjóð, lífeyrissjóði, eignaleigufyrirtæki, Alþýðusambandið, Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna, Samtök atvinnulífsins, Seðlabankann, ótal hagsmunaverði heimila og skuldara og svo framvegis nánast út í hið óendanlega.

Og líka einmitt stjórnarandstöðuna í anda breyttra stjórnarhátta, á fleiri en einum og fleiri en þremur fundum. Kannske hefur þingmaðurinn „ekki haft tíma" til að mæta á þessa fundi.

Þetta víðtæka samráð, þar sem hlustað var á öll sjónarmið, farið yfir tölur og hagstærðir, rök vegin og metin, en umfram allt réttlæti og sanngirni höfð að leiðarljósi - það skilaði einmitt hinni víðtæku samstöðu sem myndaðist um málið í þinginu og utan þess.

En það samrýmist ekki hugmyndaheimi þess, sem gefur sér fyrirfram að á alþingi sitji landráðamenn og spilltir gæzlumenn sérhagsmuna, að þar geti fólk orðið sammála um réttlæti og sanngirni við lausn eins stærsta viðfangsefnis samtímans.

Leiðréttingin er ekki fullkomin, en hún er stærsta skref sem stigið hefur verið í þágu hagsmuna fjölskyldna og heimila í landinu í hálfan annan áratug. Það er leitt að hagfræðingurinn hafi ekki skilning á því, heldur festist í eigin fjarstæðuheimi.

Kjarni leiðréttingarinnar

Kjarni leiðréttingarinnar er að þeim einstaklingum, sem gátu staðið við skuldbindingar sínar fyrir hrun, er gert kleift að gera það áfram, án þess að lengt sé í hengingaról lána út í hið óendanlega. Það er hinn stóri samfélagslegi sigur sem vinnst með leiðréttingunni.

Þetta er hin almenna leiðrétting.

Það eru hins vegar ekki allir svona lánsamir, af því að aðstæður eru hér fordæmalausar og alvarlegar, og því stefnir í fjöldagjaldþrot bæði heimila og fyrirtækja ef ekki er gripið til sértækra aðgerða að auki.

Þess vegna er fjármálafyrirtækjum einnig veitt aukið svigrúm til niðurfellingar skulda þar sem aðstæður krefjast og hjá þeim sem hinar almennu aðgerðir duga ekki.

Á mannamáli þýðir þetta: Ef einstaklingur eða fyrirtæki getur staðið við X hluta af skuldbindingum sínum er heimilt að fella niður hinn hlutann þannig að það, sem eftir stendur, samrýmist greiðslugetu.

Allar eignir (að undanskildu hóflegu húsnæði og einni bifreið í tilviki fjölskyldna/einstaklinga) eru teknar upp í skuldir.

Þetta hefur raunar verið hægt hingað til með frjálsum nauðasamningum (sem hafa þó verið nánast óþekktir), en hér er mælt fyrir um að niðurfellingin myndi ekki skattstofn og að fylgt sé samræmdum reglum undir virku eftirliti. Engan geðþótta og engan klíkuskap. Reglurnar gildi jafnt fyrir alla og með þeim sé fylgzt.

Hinn kosturinn er almenn aðför að skuldurum, fjöldagjaldþrot, íbúðir í þúsundavís í eigu bankanna, aukið atvinnuleysi og félagslegar hörmungar.

Samfélagslega ábyrg afstaða

En skiptir máli hvernig til skuldanna var stofnað? Hvort það var til að kaupa íbúð, hús, jörð, hlutabréf, Porsche eða afleiðusamninga?

Nei. Kerfið hrundi og „verðmætin" glötuðust. Töpuð krafa er töpuð krafa, sama hvernig til hennar var stofnað. Annaðhvort gerum við fjölskyldur og fyrirtæki unnvörpum gjaldþrota eða við reynum að bjarga því sem bjargað verður.

Í þessu felst þó fráleitt nokkur lottóvinningur: Lúxusbíllinn, jörðin og húsbíllinn fara til kröfuhafa, ef þú getur ekki borgað af lánunum.

Í staðinn sleppurðu við gjaldþrotameðferð og kröfur sem elta þig uppi árum og áratugum saman.

Fyrirtæki, sem stunduðu bara brask og hafa enga aðra starfsemi, fara lóðbeint á hausinn. Önnur, sem stunduðu ekki bara brask en eiga enga lífsmöguleika að öðru leyti, fara líka á hausinn.

Ef fólk og fyrirtæki eru hins vegar á annað borð „lífvænleg" er rétt að grípa til ráðstafana. Það er ábyrg afstaða og varnar bæði fjárhagslegu og félagslegu tjóni til frambúðar.

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra orðaði þetta svona í merkri ræðu á ársfundi ASÍ í síðustu viku:

„Heimili og fyrirtæki sem eru í skuldafjötrum eru ekki líkleg til þess að leggja grunn að hagvexti á næstu árum. Reynsla annarra þjóða er að þennan vanda þarf að nálgast af skynsemi og raunsæi og engum er greiði gerður með því að halda til streitu kröfum sem engin forsenda er til að hægt sé að greiða til lengri tíma."

Og hann bætti við:

„Mikilvægt er að hafa réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi og falla ekki í þá gryfju að taka tilfinningalega afstöðu við úrlausn margra verkefna þrátt fyrir að þau eigi sér rót í óreiðu og óhófi undangenginnar markaðs- og eignabólu."

Svona tala alvarlegir stjórnmálamenn við grafalvarlegar aðstæður, en það samrýmist ekki fjarstæðuheimi Þórs Saaris. Hann vill ekkert af þessu vita og segist vera sannfærður um að gervallur þingheimur sé í samsæri um að „púkka undir útrásarvíkingana", hvað sem það merkir nú annars.

Við slíka menn er auðvitað erfitt að rökræða og ætti líklega ekki að vera verkefni fullorðins fólks.

Fámenni, lög og reglur

Þór Saari hefur undirbyggt vandaðan málflutning sinn frekar með því að benda á, að einungis 32 þingmenn hafi greitt atkvæði um málið - allir sögðu já nema hann, sem var á móti. Þetta telur hann augljóslega til marks um enn frekari galla á málinu.

Af þingreynslu sinni mætti Þór læra að í máli, sem allir eru sammála um (nema hann náttúrlega), er sjaldgæft að þingmenn flykkist til að greiða atkvæði, sérstaklega ef þeir hafa gildar ástæður til að vera fjarverandi, eins og forseti þingsins hefur rakið skilmerkilega.

Ef hann vantar frekari skýringar gæti hann spurzt fyrir í eigin þingflokki, þar sem tveir af þremur (utan hann, náttúrlega) voru fjarverandi. Eru Margrét og Birgitta virkilega partur af samsærinu stóra - eða hvar voru þær annars?

Og svo er það flýtirinn, asinn, við að klára málið sem allir viðkomandi (líka þingmenn) hafa verið að vinna við í allt sumar, þótt Þór hafi ekki tekið eftir því. Það er enn eitt dæmið um skandalinn.

Á þessari ósvinnu er ekki flóknari skýring en sá vilji allra hlutaðeigandi, að loks þegar sameiginleg lausn var fundin myndi hún skila sér til fjölskyldna í landinu sem allra fyrst, helzt um næstu mánaðamót.

Þór er ekki svo vitlaus að skilja þetta ekki og til að bjarga andlitinu bætti hann við: „Þetta [með tímann] hefði hins vegar verið unnt að leysa með einfaldri reglugerð ef vilji hefði verið til."

Af þingreynslu sinni mætti Þór Saari líklega vita, að reglugerðir eiga sér stoð í lögum.

Ef félagsmálaráðherrann hefði ætlað að grípa til einnar róttækustu samfélagsaðgerðar seinni tíma með „einfaldri reglugerð", þá hefði hann sleppt öllu þessu tímafreka samráði, ekki skoðað tölur og hagstærðir, sparað sér hugmyndavinnuna og fundina, leitt hjá sér sjónarmið og blásið á alls kyns rök. Og ekki haft fyrir því að leggja fram lagafrumvarp sem þyrfti að tala um við ótal þingmenn.

Þór Saari hefði þá bara lesið reglugerðina í Stjórnartíðindum. Sáttur við sitt.

Og hefði getað haldið áfram skruminu. Nema þetta sé bara heimska.


Ætli það sé óhætt

að skrifa hér færslu sem gæti verið höfðingjunum í Hádegismóum á móti skapi?

Í hinu skelfilega dagblaði DV er því haldið fram að moggabloggara hafi verið hent út af mbl.is vegna þess að hann skrifaði færslu um fyrrverandi ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu (eða er hann kannski fráfarandi?). Nú veit ég ekki hvað stóð í bloggi litla Landsímamannsins en kannski var þar eitthvað um það að farið hafi fé betra úr embættismannakerfi stjórnsýslunnar? Ekki veit ég það.

En af hverju kýs ráðuneytisstjórinn að hverfa af vettvangi nú, aðeins nokkrum dögum eftir að hafa skrifað bréf þar sem hann furðar sig á að mál hans hafi verið tekið upp hjá sérstökum saksóknara. Hann hafi jú verið hreinsaður af öllum grun!!

Persónulega veit ég ekkert um þetta mál annað en það sem fjölmiðlar hafa greint frá en öllu hugsandi fólki hlýtur að vera ljóst að maður sem átti fund með fjármálaráðherra Bretlands og hafði auk þess aðgang að upplýsingum frá sérfræðingum í ... hvað var það ... "fjármálahruni" - hann bjó yfir meiri vitneskju en allur almenningur hér í landi. Ég furða mig í sjálfu sér ekki á því að hann hafi selt hlut sinn í Landsbankanum og hugsa að ég hefði gert það sama hefði ég verið í hans sporum. En ég er allt eins viss um að ég hefði talið það siðferðilega rangt að eiga hlut í fjármálafyrirtæki, eða öðru því fyrirtæki sem var skráð í Kauphöllina, væri ég ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu!!!

Það er ekki mikil reisn yfir aumlegu yfirklóri ráðuneytisstjórans um að hann hafi ekki búið yfir öðrum upplýsingum en almenningur hér á landi.  Nú er mál hans í höndum sérstaks saksóknara og þá mun sannleikurinn koma í ljós. Mín tilfinning er að hann muni ekki eiga sjö dagana sæla, en hans huggun er þó að margir vinir hans sitja í sætum dómara. Ætli það verði honum ekki til bjargar þegar á hólminn er komið!

 


Það eru allir á móti Icesave

Umræðan um Icesave hefur tröllriðið íslensku samfélagi undanfarna mánuði. Flestir eru búnir að fá sig fullsadda af umræðunni um þetta leiðindamál og ég held að það sé óhætt að fullyrða að það eru allir á móti Icesave. Það vill enginn borga þessar skuldir en á sama tíma held ég að langstærstur hluti landsmanna vilji ekki að litið verði á Íslendinga sem "glæpamenn" og "þjófa". Ef okkur ber skylda til að greiða þessar skuldir, sem aðeins örsmár hluti okkar stofnaði til með okkar ábyrgð að okkur forsppurðum, þá greiðum við hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Það er síðan í okkar valdi að reyna að ná til baka eins miklu og unnt er uppí þessar skuldir, hvort heldur sem er hjá þeim einstaklingum og félögum sem stofnuðu til þeirra eða með öðrum ráðum.

Í samningnum sem undirritaður var í dag kemur skýrt fram að ríkisstjórnin viðurkennir ekki ábyrgð landsins á Icesave. Ef dómur fellur síðar meir á þá leið að Íslandi beri ekki skylda til að greiða þær skuldbindingar sem ritað hefur verið undir þá ber fjármálaráðherra að taka málið upp á nýju og þá með þátttöku ESB. Þetta sama kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu Íslands, Hollands og Englands og er það pólitísk skuldbinding aðila að taka á því máli sameiginlega. Þetta eru kannski ekki ítrustu og bestu fyrirvarar, en fyrirvarar engu að síður.

Auðvitað hefði verið best að Ísland hefði ekki greitt neitt fyrr en dómur fellur í málinu en í hvaða samningsstöðu erum við? Setjum okkur í sæti Englendinga t.d., þar sem einstaklingar, félög og stofnanir lögðu traust sitt á íslenska banka, sem buðu fáheyrða vexti í sjóðum sem þeir sögðu trausta og tryggða af íslenska ríkinu. Þegar bankarnir voru komnir að fótum fram fóru fjármunir að streyma út úr bönkunum til Íslands, Tortóla eða eitthvert annað og breska ríkisstjórnin taldi að ekkert annað en hryðjuverkalög gæti komið í veg fyrir eitt mesta rán í sögu breskra banka. Ég áfellist ekki bresk stjórnvöld að treysta ekki íslensku ríkisstjórninni, ég áfellist ekki bresk stjórnvöld að treysta ekki íslenskum dómstólum. Ég áfellist hins vegar bresk stjórnvöld að hafa ekki þegar upplýst hvers vegna þau settu hryðjuverkalögin og af hverju þau skýrðu það ekki strax út hvað var að gerast í íslensku bönkunum í London.

Í dag var stigið stórt skref í átt að endurreisn íslensks samfélags. Það er þó löng og ströng leið framundan og það verður ekki neinn dans á rósum hjá sitjandi ríkisstjórn. Þeim óska ég gæfu og gengis í öllum sínum störfum. Stjórnarandstöðuna bið ég um að draga andann djúpt og spara upphrópanirnar, þær hjálpa engum í stöðunni eins og hún er núna og fellur þegar best lætur aðeins undir popúlisma.


Síðasti besti kossinn

Arinbjörn Sigurðsson, skipstjóri og frændi minn, lést í gærkvöldi, laugardaginn 10. október 2009. Addi frændi, eins og við nefndum hann jafnan, var eini albróðir mömmu minnar og sá sem ég hélt mest uppá sem barn og unglingur. Hann var svo yndislegur maður, hlýr og góður. Á þessari stundu leitar hugurinn til þess tíma sem við krakkarnir fórum með mömmu og pabba vestur á Seltjarnarnes til að heimsækja Adda og Lilju. Addi tók okkur alltaf opnum örmum, kallaði á okkur og bað um "besta kossinn". Undantekningarlaust hlupum við systurnar í faðm hans og kysstum hann með okkar "besta kossi" á kinnina og hann brosti til okkar, allan hringinn.

Addi var fengsæll skipstjóri, ég fylgdist spennt með skipafréttum og heyrði af hverri stórsölunni hjá honum í Kúxhafen, Húll og Grímsbý. Ég var svo ákaflega stolt af því að eiga svona flottan frænda sem var ekki aðeins harðduglegur heldur færði hann tekjur í þjóðarbúið og af honum voru fluttar fréttir í útvarpinu.

Addi var aldrei nefndur á nafn öðruvísi en að skeyta "og Lilja" aftan við. Lilja var hans stoð og stytta. Það var ekki alltaf létt að vera ein heima með börnin þegar eiginmaðurinn sigldi um heimsins höf. Eftirá að hyggja held ég hún hafi stundum tekið andköf þegar allur barnaskarinn hennar mömmu ruddist innúr dyrunum en alltaf tók hún okkur fagnandi þó ekki hafi hún fengið eins góða kossa frá okkur og Addi frændi fékk.

Síðast þegar ég sá Adda frænda var hann á spítala helsjúkur af því meini sem síðar dró hann til dauða. Þar sem ég sá hann liggja í rúminu gekk ég til hans og kyssti hann mínum allra besta kossi á kinnina. Hann var bara nokkuð hress og vildi endilega að mamma aðstoðaði hann við að borða eftirréttinn sem í boði var á spítalanum. Það var falleg sjón að sjá þau systkinin þarna saman. Mamma að mata veikan bróður sinn og hann leit á mig með glettnisglampa í augum þegar hún stakk uppí hann bleikum búðingi. Hann sagði líka að nú væri komið að henni að greiða til baka þau skipti sem hann mataði hana þegar hún var lítil stúlka.

Mömmu þótti undurvænt um Adda bróður sinn og nú er hún ein eftir af þeim systkinum öllum Addi, Ulla, Siggi, Helga og Sjana hafa öll kvatt þetta jarðlíf. Þau voru samrýmdur og sterkur systkinahópur og það voru forréttindi að fæðast inní svona góðan hóp. Fyrir það þakka ég, í hjarta mér er gleði yfir því að hafa átt svona flottan frænda og í kveðjuskyni sendi ég honum minn allra besta koss.

Hvíldu í friði kæri frændi.

Farðu í friði

Við fæðumst til að ferðast meira,
fæðing dauði er ferðalag.
Margra bíður sultur seyra
en sumum gengur allt í hag.

Öll við fáum okkar kvóta
af meðlæti og mótlæti.
Flest við munum einnig hljóta
okkar skerf af ástinni.

Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Sama hvað á okkur dynur
aftur hittumst við á ný.

Úr hjarta mínu hverfur treginn
er ég hugsa um hlátur þinn.
Bros þitt veitti birtu á veginn
betri um stund varð heimurinn.

Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Þar til heimsins þungi dynur
þokar okkur heim á ný.

Sólin skín á sund og voga
sumar komið enn á ný.
Horfið burt í bláum loga
stjörnublik á bak við ský.

Lag og texti: Magnús Eiríksson


Fýluför í boði Finns?

Ég játa að það vakti pínulitla lukku hjá mér þegar framsóknarmennirnir Höskuldur og Sigmundur skunduðu inní stjórnarráðið um það leyti sem Ögmundur gafst upp á því að vera ráðherra. Lukkan var ekki tilkomin vegna þess að Höskuldur og Sigmundur voru búnir að finna hugsanlegan lánveitandi í Noregi og hún var heldur ekki tilkomin vegna þess að Ögmundur gafst uppá því að vera ráðherra, heldur vegna þess að framsóknarmennirnir ætluðu sér að sækja sér prik á þessum afleita tímapunkti.

Ég játa að ég var ekki hrifin af því að Ögmundur gafst uppá því að vera ráðherra. Mér finnst að hann hefði átt að standa við það að vera ráðherra eins og hann hafði lofað en ekki fara í einhverja fýlu vegna einhvers sem maður þarf að geta sér til um hvað er.

Ég játa líka að ég var pínu ánægð með að Höskuldur og Sigmundur hafi farið úr landi um stundarsakir, þó ekki væri nema til þess að leita allra leiða til að fá lán. Þeir virðast þá a.m.k. gera sér grein fyrir því að við þurfum á láni/lánum að halda.

Ég játa að það kom mér ekki á óvart að lánsför þeirra Höskuldar og Sigmundar í Austurveg var ekki eingöngu til hagsbóta fyrir íslenska þjóð, heldur virðist hún einnig verið farin í einhverju hagsmunapoti fyrir félaga þeirra og vini. Lára Hanna, bloggvinkona mín, gerir þessu ágæt skil í færslu sinni frá í gær.

Ég játa að ég leita að Finni, ætli ég finni hann?


Þegar doðinn færist yfir

Þegar doðinn færist yfir er fátt að blogga um.  

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband