Leita í fréttum mbl.is

Hvort er þetta skrum eða heimska?

Ég hef ekki lagt það í vana minn að birta hér erindi eftir aðra en sjálfa mig. En svo bregðast krosstré sem önnur og ég get ekki á strák mínum setið né heldur stillt mig um að birta hér pistil Karls Th. Birgissonar sem hann birtir á vefsíðunni www.herdubreid.is. Tilgangur skrifa hans er offar Þórs Saari, þingmanns (borgara)hreyfingarinnar.

Hvort er þetta skrum eða heimska?

27/10/2009,  Eftir Karl Th. Birgisson

Er nóg að vera lýðskrumari eða þarf maður líka að vera beinlínis heimskur til að hafa uppi málflutning Þórs Saaris um leiðréttinguna á skuldavanda heimilanna? Það er ekki svo óhóflega spurt að ástæðulausu.

Stutta sagan af Þór og leiðréttingunni er nokkurn veginn svona:

Sá þingmaður, sem hæst og stærst hefur talað um nauðsyn aðgerða, „hafði ekki tíma" til að kynna sér málið fyrr en fáeinum klukkustundum áður en það kom til lokaatkvæðagreiðslu í þinginu og hafði þá helzt þetta að segja:

„Ég velti því fyrir mér hvort að öll sú samstaða sem náðist meðal flokkanna í félags- og tryggingamálanefnd stafi af því, að þar inni er kannski fólk sem er að fara að fá stórfelldar afskriftir vegna hlutabréfalána..." Þetta sjónarmið ítrekaði hann síðar.

Hann var kurteislega beðinn að finna þessum sérkennilegu dylgjum stað, en sagðist þá hafa „mismælt sig".

Hann fullyrti líka að málið hefði ekki verið „unnið í samvinnu við aðra". Við lauslega eftirgrennslan hefði hann komizt að því, að við undirbúning leiðréttingarinnar var haft áður óþekkt samráð við banka, sparisjóði, Íbúðalánasjóð, lífeyrissjóði, eignaleigufyrirtæki, Alþýðusambandið, Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna, Samtök atvinnulífsins, Seðlabankann, ótal hagsmunaverði heimila og skuldara og svo framvegis nánast út í hið óendanlega.

Og líka einmitt stjórnarandstöðuna í anda breyttra stjórnarhátta, á fleiri en einum og fleiri en þremur fundum. Kannske hefur þingmaðurinn „ekki haft tíma" til að mæta á þessa fundi.

Þetta víðtæka samráð, þar sem hlustað var á öll sjónarmið, farið yfir tölur og hagstærðir, rök vegin og metin, en umfram allt réttlæti og sanngirni höfð að leiðarljósi - það skilaði einmitt hinni víðtæku samstöðu sem myndaðist um málið í þinginu og utan þess.

En það samrýmist ekki hugmyndaheimi þess, sem gefur sér fyrirfram að á alþingi sitji landráðamenn og spilltir gæzlumenn sérhagsmuna, að þar geti fólk orðið sammála um réttlæti og sanngirni við lausn eins stærsta viðfangsefnis samtímans.

Leiðréttingin er ekki fullkomin, en hún er stærsta skref sem stigið hefur verið í þágu hagsmuna fjölskyldna og heimila í landinu í hálfan annan áratug. Það er leitt að hagfræðingurinn hafi ekki skilning á því, heldur festist í eigin fjarstæðuheimi.

Kjarni leiðréttingarinnar

Kjarni leiðréttingarinnar er að þeim einstaklingum, sem gátu staðið við skuldbindingar sínar fyrir hrun, er gert kleift að gera það áfram, án þess að lengt sé í hengingaról lána út í hið óendanlega. Það er hinn stóri samfélagslegi sigur sem vinnst með leiðréttingunni.

Þetta er hin almenna leiðrétting.

Það eru hins vegar ekki allir svona lánsamir, af því að aðstæður eru hér fordæmalausar og alvarlegar, og því stefnir í fjöldagjaldþrot bæði heimila og fyrirtækja ef ekki er gripið til sértækra aðgerða að auki.

Þess vegna er fjármálafyrirtækjum einnig veitt aukið svigrúm til niðurfellingar skulda þar sem aðstæður krefjast og hjá þeim sem hinar almennu aðgerðir duga ekki.

Á mannamáli þýðir þetta: Ef einstaklingur eða fyrirtæki getur staðið við X hluta af skuldbindingum sínum er heimilt að fella niður hinn hlutann þannig að það, sem eftir stendur, samrýmist greiðslugetu.

Allar eignir (að undanskildu hóflegu húsnæði og einni bifreið í tilviki fjölskyldna/einstaklinga) eru teknar upp í skuldir.

Þetta hefur raunar verið hægt hingað til með frjálsum nauðasamningum (sem hafa þó verið nánast óþekktir), en hér er mælt fyrir um að niðurfellingin myndi ekki skattstofn og að fylgt sé samræmdum reglum undir virku eftirliti. Engan geðþótta og engan klíkuskap. Reglurnar gildi jafnt fyrir alla og með þeim sé fylgzt.

Hinn kosturinn er almenn aðför að skuldurum, fjöldagjaldþrot, íbúðir í þúsundavís í eigu bankanna, aukið atvinnuleysi og félagslegar hörmungar.

Samfélagslega ábyrg afstaða

En skiptir máli hvernig til skuldanna var stofnað? Hvort það var til að kaupa íbúð, hús, jörð, hlutabréf, Porsche eða afleiðusamninga?

Nei. Kerfið hrundi og „verðmætin" glötuðust. Töpuð krafa er töpuð krafa, sama hvernig til hennar var stofnað. Annaðhvort gerum við fjölskyldur og fyrirtæki unnvörpum gjaldþrota eða við reynum að bjarga því sem bjargað verður.

Í þessu felst þó fráleitt nokkur lottóvinningur: Lúxusbíllinn, jörðin og húsbíllinn fara til kröfuhafa, ef þú getur ekki borgað af lánunum.

Í staðinn sleppurðu við gjaldþrotameðferð og kröfur sem elta þig uppi árum og áratugum saman.

Fyrirtæki, sem stunduðu bara brask og hafa enga aðra starfsemi, fara lóðbeint á hausinn. Önnur, sem stunduðu ekki bara brask en eiga enga lífsmöguleika að öðru leyti, fara líka á hausinn.

Ef fólk og fyrirtæki eru hins vegar á annað borð „lífvænleg" er rétt að grípa til ráðstafana. Það er ábyrg afstaða og varnar bæði fjárhagslegu og félagslegu tjóni til frambúðar.

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra orðaði þetta svona í merkri ræðu á ársfundi ASÍ í síðustu viku:

„Heimili og fyrirtæki sem eru í skuldafjötrum eru ekki líkleg til þess að leggja grunn að hagvexti á næstu árum. Reynsla annarra þjóða er að þennan vanda þarf að nálgast af skynsemi og raunsæi og engum er greiði gerður með því að halda til streitu kröfum sem engin forsenda er til að hægt sé að greiða til lengri tíma."

Og hann bætti við:

„Mikilvægt er að hafa réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi og falla ekki í þá gryfju að taka tilfinningalega afstöðu við úrlausn margra verkefna þrátt fyrir að þau eigi sér rót í óreiðu og óhófi undangenginnar markaðs- og eignabólu."

Svona tala alvarlegir stjórnmálamenn við grafalvarlegar aðstæður, en það samrýmist ekki fjarstæðuheimi Þórs Saaris. Hann vill ekkert af þessu vita og segist vera sannfærður um að gervallur þingheimur sé í samsæri um að „púkka undir útrásarvíkingana", hvað sem það merkir nú annars.

Við slíka menn er auðvitað erfitt að rökræða og ætti líklega ekki að vera verkefni fullorðins fólks.

Fámenni, lög og reglur

Þór Saari hefur undirbyggt vandaðan málflutning sinn frekar með því að benda á, að einungis 32 þingmenn hafi greitt atkvæði um málið - allir sögðu já nema hann, sem var á móti. Þetta telur hann augljóslega til marks um enn frekari galla á málinu.

Af þingreynslu sinni mætti Þór læra að í máli, sem allir eru sammála um (nema hann náttúrlega), er sjaldgæft að þingmenn flykkist til að greiða atkvæði, sérstaklega ef þeir hafa gildar ástæður til að vera fjarverandi, eins og forseti þingsins hefur rakið skilmerkilega.

Ef hann vantar frekari skýringar gæti hann spurzt fyrir í eigin þingflokki, þar sem tveir af þremur (utan hann, náttúrlega) voru fjarverandi. Eru Margrét og Birgitta virkilega partur af samsærinu stóra - eða hvar voru þær annars?

Og svo er það flýtirinn, asinn, við að klára málið sem allir viðkomandi (líka þingmenn) hafa verið að vinna við í allt sumar, þótt Þór hafi ekki tekið eftir því. Það er enn eitt dæmið um skandalinn.

Á þessari ósvinnu er ekki flóknari skýring en sá vilji allra hlutaðeigandi, að loks þegar sameiginleg lausn var fundin myndi hún skila sér til fjölskyldna í landinu sem allra fyrst, helzt um næstu mánaðamót.

Þór er ekki svo vitlaus að skilja þetta ekki og til að bjarga andlitinu bætti hann við: „Þetta [með tímann] hefði hins vegar verið unnt að leysa með einfaldri reglugerð ef vilji hefði verið til."

Af þingreynslu sinni mætti Þór Saari líklega vita, að reglugerðir eiga sér stoð í lögum.

Ef félagsmálaráðherrann hefði ætlað að grípa til einnar róttækustu samfélagsaðgerðar seinni tíma með „einfaldri reglugerð", þá hefði hann sleppt öllu þessu tímafreka samráði, ekki skoðað tölur og hagstærðir, sparað sér hugmyndavinnuna og fundina, leitt hjá sér sjónarmið og blásið á alls kyns rök. Og ekki haft fyrir því að leggja fram lagafrumvarp sem þyrfti að tala um við ótal þingmenn.

Þór Saari hefði þá bara lesið reglugerðina í Stjórnartíðindum. Sáttur við sitt.

Og hefði getað haldið áfram skruminu. Nema þetta sé bara heimska.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæl Ingibjörg,Þór Sari var í gær í viðtali á útvarpi Sögu,þar upplýsti hann að Margrét samflokksmanneskja hans var með svínaflensu og Birgitta var hjá veiku barni.  Ég tek tilfinningalega afstöðu núna þú og Kalli góðvinir mínir.

Helga Kristjánsdóttir, 27.10.2009 kl. 15:39

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæl ljúfan,

ég dreg það ekki í efa að Margrét og Birgitta hafi verið löglega afsakaðar. Hins vegar eru digurmæli og upphrópanir Þórs Saaris honum ekki til framdráttar. Ef hann hefur haft svona mikið við málið að athuga - af hverju bar hann ekki þær athugasemdir upp á þinginu áður en málið var afgreitt? Núna kemur hann, gólandi og galandi eins og einhver frelsisengill sem hefur allt á hornum sér.

Veistu, það má vel ver að frumvarpið sé meingallað. En svona var það samþykkt á þinginu og svona mun það ganga í gildi.

Bestu kveðjur til þín Helga mín.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 27.10.2009 kl. 23:14

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ingibjörg mín, Þór Saari er á leiðinni í Samfylkinguna. Þú verður örugglega sett í móttökunefndina.

Sigurður Þorsteinsson, 27.10.2009 kl. 23:46

4 Smámynd: Sigurjón

Ég vara við því að taka það hrátt upp sem Karl Th. segir, enda hef ég oft fengið kjánahroll við að hlusta á manninn í viðtölum, þar sem það er alveg sama um hvað er rætt: Allt sem Sjálfstæðisflokkurinn gerir er vont og allt sem Samfylkingin gerir er gott.  Maðurinn er klárlega ekki hlutlaus og hann tætir þetta verulega úr samhengi, eins og oft áður.  Máski hefur hann eitthvað til síns máls og Þór Saari hafi gert gloríur varðandi þetta mál, en undirtónn skrifa Karls er ljótur og reyndar honum líkur...

Sigurjón, 28.10.2009 kl. 11:47

5 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Sigurjón enda fer hann ekki leynt með það. En fólki ætti ekki að vera vorkun að lesa það sem hann skrifar og dæma svo sjálft.

T.d.

  • rök Þórs að þessi lausn hafi komið með svo skömmum tíma inn á Alþingi.
  • Og eins þegar Þór talar um breytingartillögu sem svo nú finnst hvergi.
  • Og svo þessi klausa:"Hann fullyrti líka að málið hefði ekki verið „unnið í samvinnu við aðra". Við lauslega eftirgrennslan hefði hann komizt að því, að við undirbúning leiðréttingarinnar var haft áður óþekkt samráð við banka, sparisjóði, Íbúðalánasjóð, lífeyrissjóði, eignaleigufyrirtæki, Alþýðusambandið, Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna, Samtök atvinnulífsins, Seðlabankann, ótal hagsmunaverði heimila og skuldara og svo framvegis nánast út í hið óendanlega."

Þetta og margt annað í þessu pisli Karls Th verður ekki hrakið.

Magnús Helgi Björgvinsson, 28.10.2009 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband