Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
30.5.2008
Frábærir tónleikar
Listahátíð í Reykjavík er ótrúleg upplifun, hún er á hverju ári núna og það er svo margt í boði að maður verður hálf ruglaður og oftast nær fer megnið framhjá manni, því miður. Þetta árið lét ég ekki eina tónleika framhjá mér fara, þeir voru undir yfirskriftinni "Ferð án fyrirheits" og voru tónleikar þar sem leikin voru lög við ljóð Steins Steinarrs.
Tónleikarnir voru undir stjórn Jóns "góða" Ólafssonar og voru þeir hreint stórkostlegir. Jón upplýsti það að lög hefðu verið samin við ríflega 100 ljóð Steins og sum ljóðin eiga sér allt að sjö lög. Hvaða annað íslenskt skáld getur státað að því? Mér er til efs að það sé nokkurt. Í kvöld voru bæði leikin gömul og klassísk lög sem við þekkjum öll, s.s. Hudson Bay, Ræfilskvæði og Barn. En þarna voru líka flutt ný lög eftir Jón Ólafsson við ljóð Steins. Jóni hefur tekist vel upp í flestum lögunum. Mér fannst þó skemma nokkuð fyrir að hljóðblöndun fyrir hlé, þegar nýju lögin voru leikin, var ekki nægilega góð. Söngurinn var yfirskyggður af hljóðfæraleiknum og það var miður því sum ljóðanna kann maður ekki og því var erfitt að finna tilfinninguna í laginu. Þau voru þó öll ákaflega vel flutt enda valinn maður í hverju hljómsveitarrúmi.
Fyrir ykkur sem misstuð af tónleikunum í gær og í kvöld þá bendi ég á nýjan hljómdisk með lögum Jóns Ólafssonar við ljóð Steins Steinarrs. Þetta er eigulegur gripur og þarna fá ljóðin að njóta sín í fullkominni hljóðblöndun.
Jóni Ólafssyni, hljómsveit hans og öllum söngvurum sem komu fram á tónleikunum þakka ég fyrir mig. Þetta var frábær skemmtun!
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.5.2008
Jarðskjálftar
Ég viðurkenni það hér og nú að ég er skíthrædd við jarðskjálfta. Fyrir 8 árum var ég stödd austur á Laugarvatni ásamt leikmönnum og þjálfurum U17 ára stúlknaliðsins þegar þjóðhátíðarskjálftinn reið yfir. Þjálfarinn og ég stilltum okkur upp í dyragætt eins og á að gera og horfðum á jörðina ganga í bylgjum fyrir utan gluggann. Leikmennirnir, sem voru nýkomnar af æfingu, voru í sturtu!. Viðurkenni það líka hér og nú að ég hefði ekki viljað skipta við þær!
Í dag var ég stödd á 5. hæð í Borgartúni í Reykjavík og mér fannst skjálftinn ekki ósvipaður þeim fyrir 8 árum. Hann var álíka langur, kannski örlítið styttri, en krafturinn var mjög svipaður. Núna forðaði ég mér ekki í dyragætt, hugsaði aðeins um möguleikann að ég myndi annað hvort fara þangað eða skríða undir borð. Við skrifborðið mitt sat hins vegar tölvumaður og ég kunni ekki við að príla undir borð til hans, minnug örlaga Monicu Lewinski hér um árið!
Í dag lét ég mér nægja að halda fast í borðbrúnina og sitja sem fastast á stólnum. Það þarf talsvert til að hreyfa mig úr stað, en mér fannst að ég mætti hafa mig alla við að tolla á stólbrúninni! Svo verður maður að bera sig vel, er það ekki? Við erum Íslendingar, vön allskonar náttúruvá og ekkert hræðir okkur. Það má alls ekki láta vita að maður sé smeikur ... eða á það bara við um karlmenn? Ef svo er þá ætla ég bara að láta það vaða ... ÉG ER KELLING!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.5.2008
Umbylting í skipulagsmálum Kópavogsbæjar
Í kvöld sat ég fund í Samfylkingarsalnum í Hamraborg og hlýddi á Birgi H. Sigurðsson sviðsstjóra Skipulags- og umhverfissviðs Kópavogsbæjar. [Ég ætlaði að vera fúl yfir því að missa af leik Breiðabliks og Grindavíkur í Landsbankadeild karla ... en var bara sátt við fundinn í Hamraborginni, svona eftirá] Birgir var mættur á fundinn til að segja frá þeim hugmyndum sem eru í farvatninu varðandi framtíðarskipulag Kársness. Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum þeim sem fylgst hefur með skipulagsmálum í Kópavogi að alls engin sátt hefur verið um þær hugmyndir sem kynntar voru á fundi í Salnum rétt fyrir jól árið 2006. Síðasta sumar var Vesturbær Kópavogs þakinn rauðum mótmælaborðum frá Samtökum um betri byggð í Kópavogi. Þau mótmæli hafa greinilega haft einhver áhrif því í orðum Birgis á fundinum í kvöld kom fram að hann hefur setið nokkra fundi með fulltrúum Betri byggðar og kynnt fyrir þeim þær hugmyndir sem nú eru á borði skipulagssviðs.
Það verður ekki sagt að þær hugmyndir sem Birgir kynnti á fundinum séu hógværar, þær eru nær því að vera útópískar og alveg klárlega eru þær framsýnar svo ekki sé meira sagt. Það efni sem Birgir kynnti var í raun í þrennu lagi. Í fyrsta lagi þar sem frá var horfið árið 2007, byggt verði á uppfyllingu á norðanverðu nesinu, og verulega verði bætt við byggðina á vestanverðu nesinu. Ef ég hef hlustað rétt þá gerir sú tillaga ráð fyrir allt að 1.400 íbúðum á þessu svæði. Í öðru lagi er tillaga þar sem enn er aukið við uppfyllingu vestast á nesinu, þar verði fyllt upp í ríflega 10 hektara svæði og öðrum 700 íbúðum bætt við. Þriðja útgáfan gerir síðan ráð fyrir enn einni 10 hektara uppfyllingu með enn einum 700 íbúðum. Þetta þýðir að íbúðafjölgunin gæti mest orðið 2.800 íbúðir sem þýðir fjölgun um 5-8.000 íbúa á Kársnesi.
Í máli Birgis kom fram að með þessum hugmyndum væri verið að kallast á við þær hugmyndir sem þegar eru komnar fram um skipulag í Vatnsmýrinni í Reykjavík, með eða án flugvallar. Í hugmyndum 2 og 3 er gert ráð fyrir tengingu við Hlíðarfót (heitir ekki landsvæðið við ylströndina það?) annars vegar með göngu/hjólabrú (tillaga 2) og hins vegar með ökubrú (3). Einnig er gert ráð fyrir Öskjuhlíðargöngum í öllum tillögunum, þau eru í raun forsenda fyrir þeim hugmyndum sem hann kynnti á fundinum. Hér er ekki verið að tala um skipulag til næstu fimm ára heldur skipulag til framtíðar, hér er horft 20, 30 jafnvel 40 ár fram í tímann.
Persónulega finnst mér þetta spennandi hugmyndir sem vert er að skoða. Mér finnst að það eigi að horfa á þá þróun sem er að verða í Vatnsmýrinni og það hvernig Kópavogsbúar geta nýtt sér þær framkvæmdir sem þar eru fyrirhugaðar. Samgöngumiðstöð er að rísa við Hótel Loftleiðir, göngubrú yfir Fossvog (sem að líkindum yrði ekki nema 100-200 metra löng) gæti þannig tengt íbúa Kópavogs við það svæði, þar sem verður miðstöð mennta og heilsugæslu hér á höfuðborgarsvæðinu. Kópavogur gæti kallast á við það svæði t.d. með því að byggja óperuhúsið á umræddri uppfyllingu og laðað þannig farþega úr samgöngumiðstöðinni yfir brúna, gangandi eða hjólandi. Í Kópavogi væri þá að finna iðandi mannlíf og menningu. Þarna er hægt að sjá fyrir sér verslanir, veitingastaði og kaffihús. Birgir benti réttilega á að þessa framtíðarsýn sjáum við ekki nema að koma fólki fyrir á svæðinu, verslanir, veitingastaðir og kaffihús þrífast ekki nema að þar sé fólk.
Mér fannst ég hafa skrifað áður um þátt sem sýndur var í sjónvarpinu ekki fyrir löngu og fjallaði um olíukreppuna. Þar var því spáð að olíubirgðir Jarðar færu þverrandi og að orka yrði mikið dýrari en hún er í dag og myndi á endanum hverfa alveg. Mér dettur ekki í hug að vera hér með einhverja dómsdagsspá en mig rennir í grun að þessi spá eigi rétt á sér. Orkubirgðir Jarðar fara þverrandi, olíuverð hefur hækkað og mun halda áfram að gera það. Ferðamáti Íslendinga mun breytast í náinni framtíð og við þurfum að fara að huga að hagkvæmari ferðamátum en þeim að vera stöðugt eitt í hverjum bíl. Það er því mikilvægt að stytta ferðaleiðir, þar kemur brú yfir Fossvog sterk inn.
Af hverju er ekki lengur hægt að skipuleggja íbúðahverfi eins og þau voru skipulögð fyrir 100-200 árum, með miðbæ? Um daginn velti ég því fyrir mér hvernig það væri ef Kópavogur skipulegði næsta hverfi í "gömlum" anda, 3-4 hæða hús, þétt saman með einum kjarna þaðan sem lægju götur sem nefndar væru t.d. eftir nýjum starfsstéttum sem ekki voru til þegar Bakarastígur, Smiðjustígur og Laugavegur voru nefnd. Þarna yrði Tölvunargata, Geimfaragata, Viðskiptagata (þar sem allar búðirnar yrðu), Lagagata, Fluggata, Ferðagata (hótelin yrðu þar) o.s.frv. Bílar væru allt að því bannaðir á þessu svæði, aðeins eitt bílastæði væri fyrir hverja íbúð (öll neðanjarðar) og gestastæði yst í byggðinni. Lögð yrði áhersla á vistvænar samgöngur, reiðhjólastíga og gönguleiðir. Í hjarta svæðisins yrði vinalegt torg þar sem fólk kæmi saman á hátíðar- og tyllidögum. Hjartað yrði ekki endilega inní miðju hverfi heldur alveg eins við smábátahöfnina þaðan sem þú getur tekið ferju yfir Fossvoginn að Ylströndinni, háskólanum og sjúkrahúsinu.
Væri þetta ekki spennandi framtíðarsýn?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2008
Til hamingju Eurobandið
Það tók sig upp gömul gæsahúð þegar nafn Íslands var lesið upp í kvöld. Frammistaða þeirra Regínu Óskar og Friðriks Ómars var til mikilla fyrirmyndar og ég var nokkuð viss um að þau kæmust áfram, en maður veit aldrei og þegar nafn Íslands var dregið úr umslaginu hoppaði ég af kæti. Frábær árangur hjá þeim - nú hefur maður eitthvað til að hlakka til á laugardag.
Áfram Ísland!
Fyrsta útgáfa - takk fyrir að dönsurum var sleppt og að skipt var um búninga (sérstaklega höfuðfat Regínu Óskar)
Þetta var í lokakeppninni hér heima. Mun betra en fyrsta útgáfa.
Opinbera myndbandið, skemmtilegt og mátulega hallærislegt.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.5.2008
Sprengja í Kópavogi
Helsta frétt dagsins í dag var sprengja sem fannst í Fossvogsdal þar sem verið var að grafa fyrir nýju íþróttahúsi HK. Fréttaflutningur af sprengjunni var magnaður upp jafnt og þétt í dag og ég efast ekki um að þetta verður fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum kvöldsins. Það er mikil mildi að ekki skuli hafa orðið slys á fólki og miðað við fréttirnar þá brást lögregla og allir þeir sem að málinu komu við á hárréttan hátt. Sprengjan virðist ekki hafa legið djúpt í jörðu, það var því gott að dr. Gunni notaði aðeins venjulega skóflu við fyrstu skóflustunguna að húsinu en ekki gröfu eins og stundum hefur tíðkast.
Mynd af vefsvæði Kópavogsbæjar af fyrstu skóflustungunni að íþróttahúsinu við Fagralund.
20.5.2008
Skortur á sigrum og nýr formaður
Ég er ekki sátt við fótboltasumarið það sem af er. Það vantar tilfinnanlega sigra í Kópavogin en hvorugt liðanna í Landsbankadeild karla, Breiðablik eða HK, hafa náð að hala inn 3 stig í leikjum sínum. HK hefur tapað 3 leikjum og Blikar hafa gert tvö jafntefli. Það er reyndar von í dag, þriðjudag, að Blikar reki af sér slyðruorðið og kræki í stigin þrjú en til þess að svo megi verða þurfa strákarnir að leggja KR að velli í Frostaskjóli. Fyrirfram er það ekki allra líklegustu úrslitin en vonin er alltaf til staðar og leikurinn byrjar með ellefu mönnum í hvoru liði og engu marki á töflunni. Það er því alltaf möguleiki!
Stelpurnar okkar Kópavogsbúa í Landsbankadeild kvenna hafa staðið sig ögn betur, HK/Víkingur hefur landað einu stigi í tveimur leikjum en Blikastelpurnar hafa gert ögn betur og krækt sér í 4 stig í sínum tveimur leikjum. Ég treysti báðum þessum félögum til að gera betur í næstu leikjum sínum og næla í sex stig í Kópavog í næstu umferð.
Í kvöld var aðalfundur Samfylkingarfélagsins í Kópavogi. Fundurinn var fjölmennur og góður og greinilegt að málflutningur Samfylkingarinnar á sér frjósaman jarðveg hér í bæ, á það sérstaklega við þar sem ekki hefur þegar verið steypt eða malbikað yfir græna fleti og landspildur. Tjörvi Dýrfjörð, sem verið hefur formaður Samfylkingarfélagsins undanfarin tvö ár, lét af störfum í kvöld en í hans stað var kjörin skólasystir mín til margra ára, Ýr Gunnlaugsdóttir. Ég er sannfærð um að hún mun takast á við þetta verkefni af festu og ábyrgð og hlakka ég sannarlega til næstu missera í starfi Samfylkingarinnar í Kópavogi.
19.5.2008
Sumarið og „garðurinn“
Tók til í garðinum í dag. Það þýðir að ég sópaði svalirnar hjá mér, tók niður gamlan og visnaðan sýprus og ók með garðaúrganginn í Sorpu. Henti þar einni lítilli pottaplöntu á meðan aðrir stórvirkari tæmdu stórar kerrur sem þeir fengu á leigu hjá Byko. Á leiðinni heim úr Sorpu, kom ég við í Storð og keypti garðaúrgang næsta árs, sígræna plöntu sem heitir Ilm... eitthvað og blómstrar hvítum blómum. Ég keypti líka þrjár plöntur sem blómstra mörgum litlum gulum blómum til að setja í bastkörfuna sem hangir utan á svalahandriðinu, ég held að plantan heiti Sólbrá.
Í dag eru svalirnar mínar þær svölustu í blokkinni og ég mun njóta þess í sumar að sitja þar með einn svalan og lesa í bók á meðan sólin bakar mig. Ummmmm ... ljúft!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2008
Stúdentsafmæli
Mér var nokkuð brugðið þegar vinkona mín og skólasystir úr MK hringdi í mig fyrir um 6 vikum og minnti mig á að við ættum 25 ára stúdentsafmæli í vor. Það gat ekki verið að það séu 25 ár liðin síðan við útskrifuðumst úr MK, við höfum í fyrsta lagi ekki elst nema um kannski 4 ár og svo lítum við miklu betur út í dag en við gerum í þá gömlu góðu!
Dagatalið og almanakið lýgur víst ekki frekar en tíminn sjálfur og við hófum þegar undirbúning að almennilegu hófi þeirra 45 stúdenta sem útskrifuðumst úr MK þann 20. maí 1983. Leit að netföngum og uppsetning vefsíðu féll í minn hlut. Vefsíðan var ekkert mál, http://mk1983.blogcentral.is og málið er dautt. Skannaði inn nokkrar myndir, laug og bullaði öðru hvoru í dagbókinni og samstúdentar mínir upplifðu síðustu 6 vikur eins og ég hafi fundið upp hjólið, öreindirnar og amömbur. Á föstudagskvöld hittumst við svo í Rúgbrauðsgerðinni og þvílíkir fagnaðarfundir. Sjaldan eða aldrei hef ég skemmt mér jafn vel og þarna, magnað að hitta allt þetta lið uppá nýtt, mætingin var bara mjög góð, þrír af þeim 45 sem útskrifuðust eru látnir og allnokkrir eru búsettir erlendis og áttu ekki heimangengt. Nokkrir höfðu ekki áhuga á að hitta okkur en með mökum og nokkrum sérvöldum kennurum mættu 42 einstaklingar í hófið og skemmtu sér hreint konunglega.
Ef einhver þeirra skyldu rekast inná þessa síðu þá færi ég þeim bestu þakkir fyrir kvöldið. Við erum ótrúlega flott, eiginlega langflottust, eins og sjá má af myndunum af fimmmenningaklíkunni þar sem myndin til vinstri er tekin árið 1983 og í fyrradag stilltum við okkur aftur upp í sömu röð. Flottar dömur finnst þér ekki?
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Jæja, þá er ég komin heim úr afslöppunarferðinni minni til Kaupmannahafnar. Snilldin við þessa ferð var að í þá þrjá heilu daga sem ég var í ríki Margrétar drottningar, voru búðir að mestu lokaðar í tvo! Það var virkilega hressandi og í raun upplífgandi að vita til þess að enn eru til þjóðir sem virða helgidaga. Vissulega voru flestir veitingastaðir og krár opnar en verslunareigendur höfðu langflestir lokað. Það þýddi að ég og systur mínar tvær sem voru með í för máttum gjöra svo vel að eyða dögunum í annað en búðarráp, fyrir það var ég þakklát en ekki fer sögum af gleði systranna.
Við komum til Kaupmannahafnar seint á laugardag, byrjuðum á því að koma okkur á Comfort Hotel Europa, sem er staðsett á horni Istegade og Colbjornsensgade, rétt við lestarstöðina. Við fengum rúmgott hornherbergi sem vísaði út á þessar tvær götur og út um gluggann á 3. hæð gátum við fylgst með stjörnum næturinnar eiga sín viðskipti við aðvífandi einstaklinga. Ef þið smellið á tengilinn þá er ég ekki frá því að herbergið okkar sé einmitt herbergið sem er á myndunum. Oftast nær voru þarna sömu stúlkurnar en við urðum þó varar við að það voru vaktaskipti hjá þeim, einar unnu á nóttunni aðrar á daginn. Rétt við hótelið voru tveir næturklúbbar sem gera út á nektarsýningar, var af þeim nokkuð ónæði á aðfararnótt sunnudags og mánudags en eitthvað dró úr hávaðanum af þeim völdum aðfararnótt þriðjudags.
Á sunnudag lá leið okkar niður á Ráðhústorg og eftir Strikinu til að kanna aðstæður. Um hádegisbil hittum við síðan nokkra aðra Íslendinga og Guðlaug Arason rithöfund, sem leiddi okkur í sannleikann um þessa fyrrum höfuðborg Íslands. Sannarlega skemmtilegur göngutúr sem hófst við Ráðhúsið og lauk við Nýhöfn. Mæli ég eindregið með því við þá sem leggja leið sína til Kaupmannahafnar og eiga lausa 2-3 tíma á sunnudegi að fara í göngutúr með Guðlaugi. Að gönguferðinni lokinni var vitaskuld sest niður við Nýhöfn í nokkra stund og litið í botn á bjórglasi. Því næst tókum við okkur far með síkjabát og sigldum í um 60 mínútur og hlýddum á ýmsan fróðleik með augum Dana. Það var ekki síðri ferð og mæli ég vitaskuld einnig með þeirri skoðunarferð. Að loknum góðum degi, þar sem við nutum leiðsagnar um Kaupmannahöfn, sólarinnar og stundarinnar settumst við niður á ítalskan veitingastað við Vesterbrogade, sem ég man ekki hvað heitir og mæli svo sem heldur ekki með.
Á mánudag, héldum við út á ný og eftir að við höfðum fullvissað okkur um að búðirnar væru ennþá lokaðar á Strikinu ákváðum við að skella okkur upp á Kolatorg og fá okkur ölglas. Vildi svo skemmtilega til að á leið okkar urðu flokkur tindáta sem voru á leið til höllu drottningar til að hafa vaktaskipti við félaga sína. Við gátum hreinlega ekki annað en tekið upp gamla íslenska siði og eltum strákana niður að Amilíuborgarhöll og fylgdust með fornu siðum við vaktaskipti lífvarðanna. Verð ég að segja eins og er að mér fannst þetta pínulítið spennandi og jafnvel dálítið fróðlegt en í leiðinni hugsaði ég hversu ógurlega gamaldags þetta væri. Þarna sprönguðu lífverðir drottningar, í fylgd með einum lögregluþjóni, sem gætti þess að dátarnir væru ekki truflaðir á leið sinni. Þegar við komum síðan að höllinni mætti okkur annar lögregluþjónn sem sagði okkur að við mættum ekki stíga yfir ákveðna ímyndaða línu, "Om du gjor det så må jeg bruge min pistol!" sagði löggan og sýndi okkur vopnið. Við brostum bara og spurðum hvað hann hefði mörg skot í byssunni? Eftirá að hyggja þá benti ég systrum mínum á að það væri eins gott að þetta hefðu ekki verið íslenskar löggur, þeir hefðu sjálfsagt ekki haft húmör fyrir þessu og hefðu jafnvel dregið upp hina ógurlegu gasbrúsa við minnsta tilefni.
Eftir að hafa fylgst með skiptunum, röltum við um Amelíugarðinn við konungshöllina (sem er náttúrulega drottningarhöll sem stendur) og settumst niður við höfnina og kíktum í botn á ölkrús. Það var ótrúlega ljúft, en því miður man ég ekki nafnið á barnum. Sólin gjörsamlega steikti okkur og okkur leið eins og við værum á sólarströnd, ótrúlega notalegt að sitja svona, horfa á mannlífið, skúturnar og hlusta á sjávarniðinn! Magnað, alveg magnað. Eftir að hafa heilsað upp á þá bræður Tuborg og Carlsberg töltum við síðan sem leið lá að Kolatorgi þar sem þeir bræður tóku okkur fagnandi. Ætli það hafi ekki tekið okkur um tvo klukkutíma að komast að því að við þyrftum aðeins að vinda ofanaf okkur og við brugðum á það ráð að ganga upp í Sívalaturn, sem er rétt við torgið. Það var líka algjörlega þess virði og mæli ég sérstaklega með því sem eiga þess nokkurn kost. Að loknum góðum degi þar sem sólin setti mark sitt á okkur systur þá brugðum við okkur aftur út á Vesterbrogade en að þessu sinni varð kínverskt veitingahús fyrir valinu, það heitir Canton og er við Vesterbrogade 20. Fínn veitingastaður, snyrtilegur, góð þjónusta og maturinn sem við fengum var afbragð. Á leiðinni heim á hótel fundu þær systur mínar skyndilega fyrir gríðarmikilli þörf fyrir Mojito en við höfðum heyrt af því að besti mojito í Kaupmannahöfn væri á áströlskum veitingastað, Reefn'Beef, við Jernbanegade 4. Og þvílíkur staður, mettar og sælar eftir kínamatinn sáum við samstundis eftir því að hafa ekki farið beinustu leið á þennan frábæra veitingastað. Fyrir forvitnis sakir fengum við að líta á matseðilinn og þar er sko ekkert slor - en það er svo sem ekki ókeypis heldur svo við töldum okkur bara sleppa vel á Canton. Mér skilst að mojitoinn hafi ekki klikkað enda voru þær snöggar með þann fyrri og nutu þess síðari í botn! Gott hjá mínum.
Á mánudag var loksins komið að því að búðirnar opnuðu, við hikuðum ekki mikið, strikið var sett á Strikið og þar var fyrsta alvöru stopp vitaskuld í H&M. Þar voru kortin okkar strauuð (strau-uð, skrítið orð) og við puntaðar hátt og lágt. Eftir stoppið þar og víðar á Strikinu þrömmuðum við aftur uppá hótel, sóttum töskurnar okkar, settum innkaupin í þær og héldum í stærstu verslunarmiðstöð Evrópu, Fields. Þegar hér var komið við sögu hafði ég fengið nóg af verslunum og mælti mér mót við kunningja minn hjá danska knattspyrnusambandinu, DBU, og við fengum okkur indælan kaffibolla og spjölluðum um landsins gagn og nauðsynjar, og svo smávegis um fótbolta. Þegar því spjalli lauk var kominn tími til að taka lestina til Kastrup og þar fengum við síðustu máltíðina á veitingastaðnum O'Learys þar sem við fengum afbragðs hamborgara og kvöddum bræðurna Carlsberg og Tuborg, sem fagnaði 133 afmælisdegi sínum þann 13. maí.
Það er við hæfi að ljúka þessum langa pistli á því að slá um sig með slagorðum veitingastaðarins á Kastrup - O'Learys - Better than Live!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2008
Lifi Kópavogur!!!
Þá er það ljóst, Kópavogur lagði Reykjavík að velli í fyrstu Útsvarskeppni Ríkissjónvarpsins. Mér fannst sigurinn bæði sanngjarn og skemmtilegur hjá mínum mönnum þó ég hafi verið pínulítið móðguð yfir því að engum skuli hafa dottið í hug að setja a.m.k. eina konu í liðið!! Strákarnir stóðu sig frábærlega og þó þeir hafi ekki vitað hvað Sæmundur á sparifötunum er í lokaspurningunni þá var ég hæstánægð með niðurstöðuna.
Besta atriði kvöldsins átti þó annar þáttastjórnandinn, Kópavogsbúinn Þóra Arnórsdóttir, þegar hún náði að þagga niður í landsmönnum með vel leiknum hríðarverkjum. Hún náði mér í algjöra þögn, salurinn dró vart andann og Sigmar var ekki alveg viss um hvað hann ætti að gera. Hann var þó ekki alveg jafn steinrunninn og Össur Skarphéðinsson var þegar Ingibjörg Pálmadóttir fékk hjartaáfall í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum árum.
Í síðustu færslu sagði ég frá því að um þessar mundir eru liðin 25 ár frá því ég útskrifaðist sem stúdent frá MK. Af því tilefni og því að Kópavogur vann Útsvar þykir mér við hæfi að flytja ykkur ljóð sem við krakkarnir sungum gjarnan í rútu í skólaferðalögum. Þeir sem þekkja til Kópavogs kannast við Kópavogslækinn í Kópavogsdal. Hann rennur ofan úr Breiðholti og fellur til sjávar í Kópavogi, rétt sunnan við Þinghól. Lækur þessi, sem í dag er tær og fínn var í þá daga sem ég var að alast upp í Kópavogi ekki alveg eins hreinn og lengi vel mátti sjá í honum miður skemmtilega hluti, s.s. salernispappír. Lækurinn var því í daglegu tali okkar krakkana nefndur Skítalækur. Engu að síður leituðum við oft þangað og veiddum hornsíli og óðum í honum. Lækurinn var þó og er ekki hættulaus því í miklum rigningum umbreytist hann í allnokkuð fljót og fyrir mörgum, mörgum árum síðan drukknaði í honum barn.
Þó lagið sé engin Reykjavíkurtjörn þá þykir mér vænt um það, rétt eins og mér þykir vænt um bæinn minn. Lagið er sungið við bandaríska blökkumannasálminn We shall overcome og þú mátt alveg reyna þig! Til hamingju Kópavogsbúar, þetta var góð afmælisgjöf en afmælisdagur bæjarins er á sunnudaginn, 11. maí.
Lifi Kópavogur, lifi Kópavogur
lifi Kópavooooooooooooogur.
Ó þú yndislegi bær, og skítalækur tær.
Lifi Kópavooooogur.
Lögin mín
Eldri færslur
- Júní 2012
- Febrúar 2012
- Apríl 2011
- Desember 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Apríl 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Myndasíða
Heimasíðan mín
- www.ingibjorg.net
- Völvuspá Dollýar 2011 Spá Dollýar dulrænu fyrir árið 2011
- Lystauki - Veisluþjónusta Besta veisluþjónusta landsins. Fersk og framandi en þó hefðbundin. Mjög gott.
Bloggvinir
- Anna Einarsdóttir
- Birna Steingrímsdóttir
- Bragi Sigurðsson
- Elfur Logadóttir
- Eygló
- Gudrún Hauksdótttir
- Guðrún Jóna Jónsdóttir
- Gísli Tryggvason
- Helga Kristjánsdóttir
- Jenný Stefanía Jensdóttir
- Jón Svavarsson
- Karl Gauti Hjaltason
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Linda Samsonar Gísladóttir
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Magnús Helgi Björgvinsson
- Margrét Júlía Rafnsdóttir
- Marinó G. Njálsson
- Pjetur Hafstein Lárusson
- Samfylkingin í Kópavogi
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Sigurður Haukur Gíslason
- Sigurður Sigurðsson
- Smári Jökull Jónsson
- Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)
- TARA
- Unnur G Kristjánsdóttir
- Veiðifélagið
- Ólafur Þór Gunnarsson
- Þórarinn M Friðgeirsson
- Sigþrúður Þorfinnsdóttir
- Valdimar H Jóhannesson