Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Hárgreiðslustóll bitbein meirihlutans

ml-0708Í bæjarstjórn í gær var eitt heitasta málið umræða um hvort leyfa ætti konu hér í bæ að reka hárgreiðslustofu með einum stól í bílskúr við heimili sitt. Ótal dæmi eru til um að slík starfsemi fari fram í bænum, þó vissulega séu ekki allar hárgreiðslustofur í bílskúrum.

Þegar ég kynnti mér málið fyrir bæjarstjórnarfundinn þá sá ég að málið var búið að velkjast í bæjarapparatinu frá árinu 2003 og að meirihluti bæjarráðs hafði klofnað í málinu sl. fimmtudag. En einhvernvegin taldi ég þó víst að málið yrði afgreitt með einfaldri atkvæðagreiðslu á bæjarstjórnarfundinum og að konan fengi leyfi til að reka hárgreiðslustofu í bílskúrnum sínum.

En nei ... aldeilis ekki. Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs höfðu allt á hornum sér varðandi þessa afgreiðslu. Kom það nokkuð á óvart því fram til þessa hefur bæjarstjóri, a.m.k., verið málsvari einkaframtalsins og öflugrar atvinnustarfsemi í bænum. En ekki í gær.

Eftir að hafa hlustað á örstutta en að mínu viti nokkuð góða ræðu mína um málið sagði bæjarstjóri að ég og við í minnihlutanum hefðum ekki vit á málinu, ég gæti ekki með nokkru móti vitað allar staðreyndir málsins og þess vegna yrði hann að fresta afgreiðslu þess og sjá til þess að við fengjum allar "staðreyndir málsins".  Ég brást vitaskuld ókvæða við og var algjörlega andvíg því að setja málið á ís, enda var ég búin að kynna mér málið vel og reyndar fannst mér það svo sjálfsagt að þetta yrði samþykkt að ég taldi bara að það kæmi ekkert annað til greina.

Gunnar hafði hins vegar sitt fram, málinu var frestað en nú sýnist mér það vera komið öllu lengra en Gunnar gerði ráð fyrir því nú er Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, búinn að taka málið uppá sína arma og núna er algjörlega ómögulegt að sjá hvar það endar.

http://mannlif.is/ordromur/nr/701

 


Skil það núna...

af hverju Gunnar var svona önugur á bæjarstjórnarfundinum í gær.

http://www.mannlif.is/ordromur/nr/699

 


Gunnar fór röngu megin framúr

Var á bæjarstjórnarfundi í gær. Greinilegt var á öllu að Gunnar bæjarstjóri fór röngu megin framúr rúminu í gærmorgun. Var önugur og öfugsnúinn nær allan fundinn. Vildi meðhöndla bæjarstjórnina eins og einhverja byrjendur sem vissu ekki hvar þeir ættu að drepa niður fæti.

Það er svo sem ekki nýtt að bæjarstjórinn sé önugur, hann er það oft, en stundum er það mjög tímabundið ... kannski bara í einu máli og svo jafnar kappinn sig. Það var ekki þannig í gær. Merkilegastir eru þó aðrir bæjarfulltrúar íhaldsins. Þar þorir enginn að segja nokkurn skapaðan hlut fyrr en leiðtoginn hefur talað. Svo þegar kallað er eftir áliti þess fólks þá koma menn upp og skammast yfir því að óskað sé eftir skoðunum þeirra á einstaka málum. Merkilegt. Ekki myndi ég nenna að vera í flokki þar sem ein skoðun er algild, einn má tala og allir þurfa að feta í fótspor leiðtogans.

Þess vegna er ég í Samfylkingunni.


Á ég að hætta að blogga?

Spurningin er hvort ég ætti að hætta að blogga, eða halda úti heimasíðu, www.ingibjorg.net? Veit ekki... fór að velta þessu fyrir mér eftir að hafa lesið færslur Garðars Arnar Hinrikssonar knattspyrnudómara vegna ummæla Valtýs Björns Valtýssonar, bekkjarbróður míns, í útvarpsþættinum "Mín skoðun". Valtýr vill víst að Garðar hætti að blogga, a.m.k. um fótbolta og eftir því sem mér skilst (hlusta mjög sjaldan á X-ið) þá þykri Valtý Birni það ekki sæma knattspyrnudómara að blogga um fótbolta.

Mér er alveg sama þó Garðar Örn bloggi um fótbolta (enda er hann bloggvinur minn). Hann má hafa skoðun á fótbolta eins og hver annar, mér sýnist hann líka hafa skoðun á öllum sköpuðum hlutur og hefur hann til þess stjórnarskrárvarðan rétt. Hann hefur þegar fengið stuðning frá tveimur blaðamönnum, Seth www.seth.blog.is (sem er líka bloggvinur minn) og Henry Birgi www.blogg.visir.is/henry. Þeim finnst hann eigi að halda áfram að blogga.

Ef Valtý Birni finnst að Garðar Örn eigi að hætta að blogga þá spáði ég aðeins í það hvort ég ætti ekki líka að hætta því? Ef Valtý finnst það þá ætti ég ekki að blogga um stjórnmál af því ég er að vinna hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og er í bæjarstjórn Kópavogs, ég ætti ekki að blogga um fótbolta af því ég er í stjórn KSÍ og skrifa stundum um fótbolta í Moggann.

Mér finnst samt að ég eigi að halda áfram að blogga, rétt eins og Garðar Örn, því það er stjórnarskrár varður réttur minn. Ég gæti mín hins vegar vel á því, eins og flestir þeir bloggarar sem ég þekki, að meiða engan með blogginu mínu. Það er er grundvallarskilyrði fyrir þessum ósköpum öllum og ég stefni að því að halda mig við það úm ókomna tíð.

Garðar, Seth, já og Henry Birgir líka ... haldið áfram að blogga.

ps. er að reyna að laga færsluna þannig að vefföngin www.ingibjorg.net, http://seth.blog.is og http://blogg.visir.is/henry birtist á síðunni. Vandræði!


Glæsilegur hópur

Sigurður Ragnar, landsliðsþjálfari, valdi í dag 22 manna leikmannahóp til að standa vaktina í tveimur heimaleikjum. Annars vegar gegn Frökkum, sem eru meðal bestu þjóða heims í knattspyrnu kvenna í dag, og hins vegar gegn Serbum, sem eru mörgum klössum neðar en Frakkar og klassa neðar en Ísland.

Frakkar eru nú um stundir fimmta besta knattspyrnuþjóð Evrópu, þar sem Íslensku stelpurnar eru í 14. sæti. Þær hafa yfir að ráða frábæru liði, teknísku, fljótu og ákaflega reynslumiklu. Það er þó greinilegt á liðinu sem Frakkar stilltu upp gegn Slóvenum á dögunum, þar sem Frakkar sigruðu 6:0, að nokkur kynslóðaskipti hafa átt sér stað í Frakklandi. Það breytir ekki því að leikmenn eins og Hoda Lattaf og Sonia Bompastor munu sjálfsagt verða til nokkurra vandræða á Laugardalsvelli.

Traust mitt til íslensku stelpnanna og Sigga Ragga er hins vegar fullkomið og ég trúi því og treysti að stelpurnar muni koma á óvart á laugardaginn. Þær hafa sett stefnuna á að komast í úrslit Evrópumótsins, sem fram fer í Finnlandi árið 2009. Þangað mæta 12 bestu knattspyrnuþjóðir Evrópu og þurfa því íslensku stelpurnar að hækka sig upp fyrir þjóðir eins og Spán, Tékkland, Holland og Úkraínu.

Það er alls ekki óvinnandi vegur en stelpurnar þurfa stuðning úr öllum áttum og við Íslendinga getum vonandi barið okkur á brjóst sumarið 2009 og sagt... "sjáið, þetta eru OKKAR STELPUR!"

Áfram Ísland

 


Uppáhaldslið Sýnarmanna

Það hefur ekkert farið á milli mála að fjölmiðlamenn á íþróttarásinni Sýn hafa gert uppá milli félaga í Landsbankadeildinni þegar kemur að beinum útsendingum. Á rásinni ráða FH-ingar ríkjum með Hilmar Björnsson, fyrrum leikmann félagsins í fararbroddi. Það er vissulega eðlilegt að sýna mest frá leikjum FH, enda liðið Íslandsmeistari undanfarinna ára en að sýna frá 11 leikjum þeirra af 18 í deildinni árið 2006 meðan þrjú félög eru sýnd fjórum sinnum er kannski ekki alveg sanngjarnt!

Ástæða þess að ég fjalla um þetta nú er að þegar fimm umferðum er lokið í Landsbankadeildinni þá hefur verið sýnt frá fjórum leikjum þriggja liða á meðan mitt lið, Breiðablik, hefur ekki enn hlotið náð fyrir augum Sýnarmanna. Þá má líka telja með ólíkindum að fjórum sinnum hafi Sýnarmenn plantað útsendingarbílnum á leikjum KR-inga sem hafa verið arfaslakir það sem af er sumri og sömuleiðis hafa Skagamenn fengið fjórar sýningar. Þess má geta að þeir leikir sem ÍA og KR hafa leikið og hafa ekki verið sýndir voru báðir gegn Breiðabliki (KR-ingar á heimavelli og Skagamenn í Kópavogi)!

Máli mínu til stuðnings hef ég tekið saman hvernig leikir hafa verið valdir til flokkað eftir liðum í landsbankadeildinni árin 2005, 2006 og það sem af er keppnistímabilinu 2007. Niðurstöðurnar eru þannig (liðum raðað eftir stöðu þeirra í deildinni):

2007:

FH1234
Valur1234
Keflavík1234
Víkingur1234
Fylkir1234
HK1234
ÍA1234
Breiðablik1234
Fram1234
KR1234

2006:

FH1234567891011
KR1234567891011
Valur1234567891011
Keflavík1234567891011
Breiðablik1234567891011
ÍA1234567891011
Víkingur1234567891011
Fylkir1234567891011
Grindavík1234567891011
ÍBV1234567891011

2005:

FH123456789
Valur123456789
ÍA123456789
Keflavík123456789
Fylkir123456789
KR123456789
Grindavík123456789
ÍBV123456789
Fram123456789
Þróttur123456789

 

 


Breiðablik og rasismi

Því miður átti ég ekki heimangengt á Víkingsvöllinn á föstudag og sá því ekki né heyrði þær kveðjur sem stuðblikar sendu Garðari Erni Hinrikssyni, dómara í leik Víkings og Breiðabliks í Landsbankadeild karla. Þar munu Stuðblikar hafa sent dómaranum kaldar kveðjur í kjölfar þess að hann sýndi Prince Reicomar, hörundsdökkum leikmanni Breiðabliks, gula spjaldið. Í framhaldi af því stöðvaði dómarinn leikinn og krafðist þess að lesið yrði upp í hátalarakerfið að dómarar á vegum KSÍ störfuðu í anda þeirrar stefnu KSÍ þar sem tekið er á hverskyns fordómar s.s. rasisma.

Mér fannst þetta gott hjá Garðari Erni og hann fær klárlega broskarl í kladdann hjá mér.

Ég efast ekki um að umfjallanir á vefmiðlum séu réttar og satt best að segja þá er ég ákaflega vonsvikin út í félagana í Stuðblikunum. Þeir hafa verið til fyrirmyndar og hafa sannarlega byrjað vel í sumar. En athugasemdir í garð dómarans eins og þarna voru látnar viðhafast eru óafsakanlegar.

Einnig þykir mér afsökunarbeiðnin sem birtist á vefnum www.blikar.is og víðar hvorki vera fugl né fiskur. Ef Óli og Addi heyrðu ekki það sem fram fór á áhorfendapöllunum þá eiga þeir ekki að láta í veðri vaka að hér sé verið að gera úlfalda úr mýflugu, eins og þeir gera í afsökunarbeiðninni. Í mínum huga breytir það nákvæmlega engu hvort stuðningsmenn okkar hafi verið með "smá blammeringar á dómarann" eða slíkt sé "alvanalegt á öllum völlum landsins". Þá breytir það engu í mínum huga hvort stuðningsmennirnir hafi "söglað í tví- eða þrígang" athugasemdir í garð dómarans.

Breiðablik, og þá á ég við félagi í heild, á stöðva framferði sem þetta strax í fæðingu og það á ekki að hafa neitt hálfkák við það. Ég treysti því að stjórn knattspyrnudeildar fundi með Guðjóni og félögum í Stuðblikum, fari yfir atvikið og tryggi að svo skammarleg hegðun stuðningsmanna okkar eigi sér ekki stað aftur.


Viltu vinna milljón?

Leikur Svíþjóðar og Íslands í gær var að mínu mati ekki eintóm vitleysa. Um miðjan fyrri hálfleik, í stöðunni 1-0 sagði ég við Binnu systur, sem horfði á leikinn með mér, að mér þætti leikurinn vera miklu betri en gegn Liechtenstein. Hún var sammála því.

Svo komu mínúturnar ógurlegu, síðustu 5 í fyrri hálfleik og fyrstu 6 í þeim síðari. Hvað gekk á í huga íslensku leikmannanna á þeim tíma geri ég mér ekki grein fyrir, en þvílík hörmung! Fimmta markið var eins og úr leikritinu "Viltu vinna milljón?" - hreinn og klár farsi þar sem aðeins einn eða tveir áttuðu sig á hvað var um að vera. En ég vorkenni Ívari Ingimarssyni, ótrúleg mistök, skortur á einbeitingu og hrein og klár vitleysa.

Ég vorkenni líka Eyjólfi vini mínum Sverrissyni. Hann á ekki sjö dagana sæla framundan og nú munu flestir þeir sem þykjast hafa vit á knattspyrnu heimta afsögn hans eða uppsögn. Framundan eru nokkrar vikur sem stjórn KSÍ og Eyjólfur geta velt málunum fyrir sér og það er mikilvægt að þær vangaveltur fari fram á þeim grunni að niðurstaðan verði íslenskri knattspyrnu í hag.

Íslensk knattspyrna hefur, eftir síðustu tvo landsleiki, laskaða sál. 100. sætið ógurlega á heimslistanum blasir við og það skiptir öllu að nú verði spyrnt við fótum. Þar verða allir að stíga í takt, KSÍ, landsliðsþjálfarinn, leikmennirnir, stuðningsmennirnir og meira að segja andsk. blaðamennirnir verða að standa með landsliðinu ... einu sinni og til tilbreytingar.

Framundan eru tveir landsleikir, fyrst tekur A-landslið kvenna á móti Frökkum á Laugardalsvelli í undankeppni EM þann 16. júní og tveimur dögum síðar leikur U19 ára stúlknalandsliðið síðasta leik sinn fyrir úrslitakeppni EM. Mótherjarnir verða þeir sömu og strákarnir öttu kappi við í gær, Svíar. Ég veit það fyrir víst að okkar stelpur vilja hefna fyrir niðurlæingu strákanna í gær, það er alveg klárt.

 


« Fyrri síða

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband