10.5.2007
Hversu siðblindir geta menn orðið?
Hæstiréttur dæmdi Jónas Garðarsson í þriggja ára fangelsi í dag fyrir að hafa verið valdur að dauða tveggja einstaklinga og lagt líf tveggja annarra í stórkostlega hættu.
Allt frá því að Harpan sökk, haustið 2005, hef ég fundið til með aðstandendum þeirra sem létust og um leið haft mikla skömm á þeim afsökunum og ávirðingum sem Jónas Garðarsson hefur borið á látið fólk. Þegar hann var dæmdur sekur í héraðsdómi þá las ég dóminn allan yfir, lýsingar þær á aðstæðum farþeganna um borð í bátnum og sérstaklega samtal eiginkonu Jónasar við neyðarlínuna eru svo átakanlegar að mann beinlínis verkjar.
Dómur héraðsdóms og það sem þar kemur fram sýnir svo ekki verður um villst að Jónas Garðarsson er algjörlega siðblindur einstaklingur, já ég fullyrði það, hann er algjörlega siðblindur og þegar maður lítur til þess hvers hann krefst af hæstarétti þá fyrst gerir maður sér grein fyrir að siðblinda hans er komin út fyrir öll mörk. Í áfrýjuninni segir: Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Til vara krefst hann sýknu en að því frágengnu að refsing verði milduð og bundin skilorði. Hann krefst þess að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af þeim en að því frágengnu að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann þess aðallega að kröfu um greiðslu sakarkostnaðar fyrir héraðsdómi samkvæmt yfirliti að fjárhæð 3.187.248 krónur verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni en ella að hún verði lækkuð. Þá krefst hann þess að annar sakarkostnaður fyrir héraðsdómi og sakarkostnaður fyrir Hæstarétti verði felldur á ríkissjóð.
Ætlast maðurinn virkilega til að einhver trúi því að hann sé saklaus? Maður sem siglir fullur, í sudda og myrkri, steytir á skeri, drepur við það mann, bakkar af skerinu og reyndir að sigla út í Viðey (væntanlega til að reyna að losna undan ábyrgð af mannslátinu) og drekkir þar með annarri manneskju. Neitar að hringja á aðstoð eða ræða við neyðarlínuna og leggur líf eiginkonu sinnar og sonar í stórkostlega hættu. Á einhver von á því að þessi maður verði sýknaður? Hvernig getur honum og lögmanni hans dottið í hug að leita eftir sýknu í þessu máli og til að fullkomna ósvífnina og siðblinduna krefst hann þess að ríkissjóður, ég og þú, greiði sakarkostnaðinn!
Mér finnst Jónas Garðarsson sleppa vel, alltof vel, frá þessu máli. En ég er ekki búin að gleyma því að Sjómannafélag Reykjavíkur stóð við bakið á honum og er það þeim sem þar ráða til ævarandi skammar. Sjómannafélag Íslands sýndi þó þann sóma að krefjast afsagnar hans í kjölfar slyssins og fyrir það fá þeir prik í svörtu minnisbókinni minni.
Dómur Hæstaréttar (og héraðsdóms).
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.5.2007 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2007
Þið talið of mikið um gamla fólkið
Þið talið alltof mikið um gamla fólkið, sögðu tvær eldri dömur við mig í kaffiboðinu hjá Samfylkingunni á verkalýðsdaginn, 1. maí. Þarna hitti ég tvær vinkonur mínar, sem eru ögn eldri en ég, en ég starfaði með þeim í Sunnuhlíð þegar ég var um það bil að skríða út úr menntaskóla. Mér var nokkuð brugðið við þessa athugasemd þeirra, ég taldi víst að þær vildu ræða sem mest um málefni eldri borgara, hjúkrunarheimili og vistheimili. En nei, alls ekki, stjórnmálamennirnir tala of mikið um gamla fólkið!
Ég sperrti að sjálfsögðu eyrun. Hvað voru þær að meina. Ég sem ætlaði að skora hjá þeim með athugasemd sem ég heyrði í útvarpinu eitt kvöld um síðustu helgi en þar sagði einn viðmælanda að foreldrar myndu ekki sætta sig við það að barnið þeirra kæmist ekki í 7 ára bekk fyrr en það er 9 ára vegna þess að það er ekki pláss í skólanum! Þetta þótti mér bráðsnjallt um síðustu helgi, en vinkonur mínar tvær töluðu af visku og skynsemi og eftir að hafa melt málið með mér í þrjá daga er ég komin á þeirra skoðun. Stjórnmálamenn tala of mikið um gamla fólkið!
Þær voru svo sem ekki á því að það ætti alls ekki að ræða um úrræði fyrir fólk sem komið er á efri ár, jú þær vildu það endilega en bara á öðrum forsendum. Það á ekki endalaust að ræða um þessi hjúkrunarheimili og elliheimili, það þarf að finna úrræði til að eldra fólk geti verið lengur heima hjá sér, verið stolt og sjálfstætt á sínu eigin heimili og lifað með sama sóma og það hefur gert til þessa dags. Mæli þær manna heilastar! Auðvitað vilja eldri borgarar vera heima hjá sér eins lengi og mögulegt er, ég hafði svo sem ekki hugsað það en okkur systrum hefur ekki dottið í hug að sækja um fyrir foreldra okkar í Sunnuhlíð eða annarsstaðar. Þau vilja vera heima og við munum styðja þau af fremsta megni til að svo megi verða.
Ömmur mínar og annar afi minn dvöldu síðustu æviár sín á elliheimili, á slíkri stofnun dvaldi reyndar líka ömmusystir mín og nafna sem ég var ákaflega náin sem barn. Föðurforeldrar mínir dvöldu síðustu árin á Droplaugastöðum, sem þá var ný bygging og þótti með flottari bústöðum eldra fólks á sínum tíma. Þar nutu þau ágætrar þjónustu, þau voru í lítilli íbúð þar sem amma gat hellt uppá kaffi og bakað pönnukökur á eldavélahellu. Ég á ekki aðrar minningar en þær að þeim hafi liðið vel þarna og þau voru þakklát fyrir að fá að eyða síðustu árum ævi sinnar saman.
Móður amma mín dvaldi á Hrafnistu. Ég held að henni hafi leiðst þar og var oft hjá okkur á Álfhólsveginum. Ég minnist þess að hafa oftsinnis farið að sækja ömmu á Hrafnistu, þá nýkomin með bílpróf. Amma var held ég alltaf pínulítið hrædd í bíl með mér enda deildum við einu ótrúlegu ævintýri saman eitt sinn þegar ég var að aka henni aftur í Hrafnistu.
Inga frænka var undir það síðasta á Grund og satt best að segja þá vorkenndi ég henni að vera þar. Hún bar sig þó vel en mér var hins vegar ekki vel að fara þangað í heimsókn. Grund er sjálfsagt hinn prýðilegasta vistheimili en allt frá því á mínum unglingsárum hef ég haft einhvern illan bifur á þessum stað og þangað langar mig hreinlega ekki aftur. Húsið sem Grund er í við Hringbrautina er þó óvenju glæsileg bygging og ég læt mér duga að dást að því utan frá, inn langar mig ekki.
En aftur að vinkonum mínum í 1. maí kaffinu. Önnur þeirra sagði líka eitt sem við þurfum að ræða við hvern og einn einstakling. Hún sagði: Þegar ég fer á öldrunarstofnun þá vil ég ekki vera ein. Það er örugglega hræðilegt að vera ein í herbergi. Manni líður einfaldlega betur að hafa einhvern hjá sér, tíminn verður fljótari að líða að hafa einhvern til að tala við. Hvað heldur þú að fólk hugsi sem er eitt í herbergi? Ekkert, nema um tímann og það er sennilega það síðasta sem fólk á þessum aldri vill vera að hugsa um. Svo er það starfsfólkið, veistu hvað hver og einn starfsmaður er lengi inni í hverju herbergi? Nei, ekki nógu lengi, a.m.k. ekki ef maður er einn í herbergi, en það eru líkur á að starfsfólkið verði helmingi lengur í hverju herbergi ef þar eru tveir vistmenn.
Ég hafði aldrei hugsað þetta svona, aldrei, en þetta er örugglega rétt hjá vinkonum mínum. Stjórnmálamenn þurfa einfaldlega stundum að hlusta betur á það fólk sem það er að fjalla um, þeir þurfa að forðast alhæfingar, sumt hentar einum og annað öðrum.
En það er bara einn flokkur sem getur ráðist í það að vinna betur að málefnum eldri borgara og það er Samfylkingin. Hugsum okkur vel um og merkjum X við S í alþingiskosningunum þann 12. maí nk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2007
Hvað er ásættanlegt umferðaröryggi?
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Kópavogs og frambjóðandi til Alþingis, Ármann Kr. Ólafsson, sagði þann 9. janúar sl. að hann gæti ekki stutt fólk fyrir austan sérstaklega í baráttunni fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar. Það er ágætt fyrir kjósendur fyrir austan fjall að vita það að í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi er maður sem hefur engan sérstakan áhuga á að styðja íbúa á Suðurlandi. Það er ágætt að það sé bara á hreinu.
Á fyrsta fundi nýs árs í bæjarstjórn Kópavogs, þann 9. janúar sl., báru fulltrúar Samfylkingarinnar upp áskorun til samgönguráðherra þar sem hann var hvattur til að ráðast þegar í tvöföldun Suðurlandsvegar. Margar ástæður lágu að baki þess að fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram þessa áskorun en þar vóg ekki minnst sú staðreynd að að baki var eitt versta slysaár Íslandssögunnar þar sem 31 einstaklingur lét lífið í 28 banaslysum í umferðinni. Þar af létust fjórir einstaklingar á Suðurlandsvegi og af þeim tveir við Sandskeið, sem er í lögsagnarumdæmi Kópavogs.
Á fundinum í janúar varð löng umræða um áskorunina sem við lögðum fram. Þar kom m.a. fram í orðum Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að hann væri ekki viss um að tillöguflytjendum væri raunverulega alvara með áskoruninni og lét hann að því liggja að að baki hennar lægju pólitískar ástæður sem ættu ekkert skylt við umferðaröryggismál. Bæjarfulltrúanum var ítrekað bent á að með áskoruninni vildu flytjendur hennar standa með vegfarendum um Suðurlandsveg, Sunnlendingum, sveitarstjórnum á svæðinu og ýmsum félagasamtökum sem ályktað höfðu um málið og hvöttu til þess að ráðist yrði í tvöföldun vegarins í stað þess að ráðast í 2+1 veg eins og áformað var á þeim tíma.
Af hálfu Samfylkingarinnar voru engar duldar meiningar sem fylgdu áskoruninni. Samfylkingin er ekki þannig flokkur. Við tölum hug okkar og það þarf ekkert að setja upp einhver pólitísk gleraugu til þess að lesa á milli línanna. Það var og er einlægur vilji okkar, flytjenda tillögunnar, að ráðist verði í tvöföldun Suðurlandsvegar. Það var og er einlæg skoðun okkar að tvöföldun Suðurlandsvegar sé hagsmunamál Kópavogsbúa sem og annarra þeirra sem um veginn fara. Það var og er einlæg skoðun okkar að við Íslendingar megum engu til spara að auka öryggi á þjóðvegum landsins og þá ekki síst á hættulegustu köflum hringvegarins, s.s. á Suðurlandsvegi.
Undir þetta sjónarmið okkar treystu fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna sér ekki að taka og vísuðu málinu til bæjarráðs þar sem það hefur sofið, að því er virðist svefninum langa, enda er greinilegt að aðrir bæjarfulltrúar en fulltrúar Samfylkingarinnar hafa ekki mikinn áhuga á málinu. Þeir höfðu enda ekki kjark til þess í janúar að taka afstöðu í málinu og senda samgönguráðherra áskorun í nafni Kópavogsbúa um tvöföldun Suðurlandsvegar.
Í umræðum í bæjarstjórn í janúar sagði Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi Vinstri grænna að vildi ekki að málið yrði pólitískur ásteitingarsteinn og lagði til að málinu yrði vísað til bæjarráðs. Sú tillaga var á endanum samþykkt, þar sem málið svaf í heila 105 daga áður en það komst aftur á dagskrá bæjarstjórnar þann 24. apríl.
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Kópavogs og frambjóðandi til Alþingis, Ármann Kr. Ólafsson, sagði þann 9. janúar sl. að hann gæti ekki stutt fólk fyrir austan sérstaklega í baráttunni fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar. Það er ágætt fyrir kjósendur fyrir austan fjall að vita það að í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi er maður sem hefur engan sérstakan áhuga á að styðja íbúa á Suðurlandi. Það er ágætt að það sé bara á hreinu.
Vilji Ármanns á bættu umferðaröryggi kom glögglega fram í orðum hans á fundinum þegar hann sagði fækkun slysa frá núverandi vegi yfir í 2+1 veg væri nægileg, slíkt væri eðileg niðurstaða. Og að auki væri það einfaldlega ódýrara. Ég get ekki lagt annan skilning í orð hans en þau að hann sé að verðleggja mannslíf. Það er ódýrara fyrir samfélagið að leggja 2+1 veg og fækkun slysa frá núverandi ástandi er ásættanleg. Ásættanleg. Er banaslys einhverntíman ásættanlegt?
Í lok marsmánaðar bárust fréttir af því að hægt væri að tvöfalda Suðurlandsveg fyrir 7,5-8 milljarða króna sem er lítið meira en þriðjungur þess sem umferðarslys kosta þjóðarbúið á ársgrundvelli. Í framhaldi af yfirlýsingu nokkurra aðila um að unnt væri að setja tvöföldun vegarins í einkaframkvæmd lýsti samgönguráðherra, samflokksmaður Ármanns Kr., yfir miklum áhuga á að heimila framkvæmdina. Ármann, sem hefur lýst því yfir í bæjarstjórn Kópavogs að han sé ekki sammála samgönguráðherra um tvöföldun vegarins, getur e.t.v. fengið hann til að skipta um skoðun og bent honum á að 2+1 vegur sé eðlileg niðurstaða, ódýrari enda er fækkun slysa við slíka breytingu er að hans mati ásættanleg.
Það líður senn að kosningum til Alþingis og þá vill það henda suma stjórmálamenn að þeir skipta um skoðun og hefja upp ýmsan fagurgala sem síðan er gjarnan lagður í salt næstu fjögur árin. Nú eru allir flokkar jafnaðarmannaflokkar!
Samgönguráðherra hefur lýst yfir vilja til að ráðast í tvöföldun Suðurlandsvegar, fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, sagði í kosningaþætti í sjónvarpinu á dögunum að kosningarnar 2007 snerust um tvöföldun Suðurlandsvegar, hvorki meira né minna.
En fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna í bæjarstjórn Kópavogs treystu sér ekki til að taka afstöðu til áskorunar um bætt umferðaröryggi. Ferðalangar um Suðurlandsveg ættu að hugsa það fram að kosningunum þann 12. maí hvort hægt sé að treysta fólki til starfa á þingi sem ekki getur einu sinni tekið afstöðu til einfaldrar áskorunnar um bætt umferðaröryggi á Suðurlandsvegi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2007
Lindaskóli flottastur
Það var gaman að fylgjast með Skólahreysti í gær. Krakkarnir allir stóðu sig frábærlega og það er algjörlega óviðjafnanlegt að fá í beinni útsendingu að sjá rjómann af íslenskum ungmennum. Fréttir af ungu fólki eru oftar en ekki á neikvæðum nótum, en þá hefur miklum minnihluta þeirra tekist að komast í fréttir í kjölfar einhverra strákapara eða ótuktarskapar. Í gær kvað við annan tón.
Þetta var í annað sinn sem Skólahreysti er haldin en í fyrra sigraði lið Salaskóla með glæsibrag. Titillinn fór ekki út fyrir lögsögu Kópavogs því að þessu sinni var komið að Lindaskóla að fara með sigur af hólmi. Sigurliðið var enda skipað frábærum íþróttamönnum sem hafa sannarlega verið Kópavogi og Íslendingum til sóma á undanförnum vikum og þá ekki síst í gær. Fremst meðal jafningja var sexfaldur Norðurlandameistari í fimleikum, Fríða Rún, en hinir krakkarnir voru ekki síðri og geta þau öll og leikfimiskennarinn þeirra verið stolt af árangrinum. Ég er það allavega og á þó engan þátt í þessum árangri.
Ég get ekki lokað fyrir þessa færslu án þess að hrósa skipuleggjendum keppninnar, þeim bræðrum Andrési og Pétri Guðmundssonum og Láru konu Andrésar (frekar en Péturs) fyrir þeirra framtak.
Já og til hamingju krakkar í Lindaskóla!
Sigurlið Lindaskóla eftir riðlakeppnina.
Íþróttir | Breytt 30.4.2007 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Meirihlutamenn í bæjarstjórn Kópavogs og þá sérstaklega þeir sem eru í miklum meirihluta í meirihlutanum, eru afar pirraðir þessa dagana. Það hefur birst best í Morgunblaðinu síðustu daga en Umhverfisráðuneytið hefur neitað að staðfesta svæðisskipulag vegna Glaðheimasvæðisins í Kópavogi.
Gunnar á ótrúlega spretti í Mogganum í dag er hann lætur hafa eftir sér: Ef svæðisskipulagsráðið samþykkir ekki þessa tillögu þá er það náttúrulega orðið ónýtt. Þá munum við beita okkur gegn hinum sveitarfélögunum í öllu sem þau gera varðandi breytingu á svæðisskipulagi. Með þessu er komið á stríðsástandi í skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu og gott innlegg í kosningabaráttuna fyrir umhverfisráðherrann.
Ef skipulagið verður ekki samþykkt munum við beita okkur gegn hinum sveitarfélögunum í öllu sem þau gera... er hægt að orða hótun með skýrari hætti?
Gunnar ítrekar stöðugt uppbyggingu á verslunarsvæði IKEA við Kaupþing í Garðabæ og segir að Garðbæingar vilji einoka Reykjanesbrautina. Hann horfir vitaskuld ekki til þess að gríðarlegt magn verslunarhúsnæðis hefur verið að rísa og boðað er að muni rísa við Smáratorg, Smáralind, Glaðheima og Lindir IV. Eru þá ótaldar breytingar á svæðisskipulagi í Hnoðraholti, Smalaholti og Rjúpnahæð. Svæðisstjóri Vegagerðarinnar, Jónas Snæbjörnsson, segir enda að breytingar í Kópavogi hafi verið ansi örar og að erfitt væri fyrir Vegagerðina að reikna út umferðarþunga þegar skipulagsmál breyttust líkt og þau hafa gert í Kópavogi. Nefnir hann sérstaklega Vatnsendahverfið í því sambandi en þar hafi verið þrengt að ofanbyggðavegi sem gert hafi verið ráð fyrir í skipulagi.
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og samflokkskona Ómars Stefánssonar, sem ber uppi meirihlutann í Kópavogi, segir að skipulagsbreytingin á Glaðheimasvæðinu sé veruleg. Rökstyður hún þá niðurstöðu m.a. með sömu rökum og við Samfylkingarfólk í Kópavogi höfum haldið fram, þ.e. að það þurfi að vera heildarsýn yfir skipulagið. Markmiðið væri m.a. að tryggja að fólk kæmist leiðar sinnar en umferðarþunginn á Reykjanesbrautinni og öðrum stofnbrautum væri nú þegar mjög íþyngjandi.
Við rökum sem þessum bregst Gunnar að sjálfsögðu við með hótunum, enda málstaðurinn veikur og illa ígrundaður.
Ómar virðist hins vegar standa með bæjarstjóranum í þessu máli, en hann hefur til þessa tjáð sig lítt eða ekki um mörg umdeild skipulagsmál í Kópavogi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.4.2007 kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lögin mín
Eldri færslur
- Júní 2012
- Febrúar 2012
- Apríl 2011
- Desember 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Apríl 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Myndasíða
Heimasíðan mín
- www.ingibjorg.net
- Völvuspá Dollýar 2011 Spá Dollýar dulrænu fyrir árið 2011
- Lystauki - Veisluþjónusta Besta veisluþjónusta landsins. Fersk og framandi en þó hefðbundin. Mjög gott.
Bloggvinir
- Anna Einarsdóttir
- Birna Steingrímsdóttir
- Bragi Sigurðsson
- Elfur Logadóttir
- Eygló
- Gudrún Hauksdótttir
- Guðrún Jóna Jónsdóttir
- Gísli Tryggvason
- Helga Kristjánsdóttir
- Jenný Stefanía Jensdóttir
- Jón Svavarsson
- Karl Gauti Hjaltason
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Linda Samsonar Gísladóttir
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Magnús Helgi Björgvinsson
- Margrét Júlía Rafnsdóttir
- Marinó G. Njálsson
- Pjetur Hafstein Lárusson
- Samfylkingin í Kópavogi
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Sigurður Haukur Gíslason
- Sigurður Sigurðsson
- Smári Jökull Jónsson
- Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)
- TARA
- Unnur G Kristjánsdóttir
- Veiðifélagið
- Ólafur Þór Gunnarsson
- Þórarinn M Friðgeirsson
- Sigþrúður Þorfinnsdóttir
- Valdimar H Jóhannesson