Leita í fréttum mbl.is

Björk á hrós skilið

Hlustaði á viðtal við Guðmund Gunnarsson í Kastljósinu þar sem hann var til varnar fyrir dóttur sína, Björk Guðmundsdóttur. Guðmundi tókst ágætlega upp við að verja hana en hann átti erfitt með að benda á rök fyrir því að íslenska pressan væri orðin ákafari heldur en breska pressan. Benti á forsíðuna á DV í dag ... bíddu við ... ég veit ekki um nokkurn mann sem tekur mark á DV í dag. Það blað dó um það leyti sem það tók mann á Vestfjörðum af lífin án dóms og laga, í bókstaflegri merkingu. Mér varð reyndar hugsað til þess atviks þegar ég horfði á Pressuna á Stöð 2 sl. sunnudag, en það er nú annað mál.

Það voru einhverjar fréttir um það á vefnum í dag að bandarísk poppstjarna hafi gist í Keflavík í nótt ásamt vini sínum. Hún óskaði eftir því að fá að vera í friði og að engar myndatökur yrðu. Þrátt fyrir að fjölmargir hafi vitað af konunni í Keflavík, þá virðast allir hafa virt ósk hennar og engar myndir voru teknar. Þetta er nú ekki í líkingu við það sem Guðmundur heldur fram um íslensku pressuna.

En, svo ég vaði nú úr einu í annað, þá á Björk fulla samúð hjá mér. Miðað við vælið í þessum ljósmyndara þá ætti hann nú bara að hafa einhvern annan starfa heldur en að vera að eltast við konur á fimmtugsaldri, innan við 160 cm háar og um 50 kg. Ef hann þolir ekki að slík kona ýti við honum og ef hann þarf að grenja í marga daga á eftir ... ja, þá á Björk hrós skilið!


Er þetta tilviljun?

Ég get ekki að því gert að mér finnst fyrirsögn fréttar um að drykkjusiðir Íslendinga séu orðnir meinlausari hafi eiginlega ekki getað fengið betri fréttafélaga en einmitt þá sem eru í kringum hana.

Drykkja

Næsta frétt á eftir er um einhvern sem gekk berserksgang í Vesturbænum, sjálfsagt mjög meinlaust athæfi en þó fréttnæmt og svo var einhver sem braust inní 15 bíla á Selfossi, að er örugglega jafn meinlaust og hitt.  Það er svo sem ekkert sem segir manni að berserkurinn og bílþjófurinn hafi verið drukknir en í fyrri fréttinni kemur fram að berserkurinn hafi verið ölvaður og það læðist að mér sá grunur að bílþjófarnir hafi ekki verið algjörlega allsgáðir meðan á verknaðnum stóð!


mbl.is Drykkjusiðir Íslendinga orðnir meinlausari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Metnaðarfullir Héraðsbúar

Í dag var mér sá sómi sýndur að vera boðið austur á Fljótsdalshérað til að taka þátt í vígslu þriggja fótboltavalla. Með mér í för var fræðslustjóri Knattspyrnusambands Íslands, Sigurður Ragnar Eyjólfsson, og fyrir austan tók landshlutafulltrúi KSÍ á Austurlandi, Guðmundur Ingvason á móti okkur.

Fyrsta vígslan fór fram við Hallormsstaðaskóla í dálitlu rökkri á einstaklega fallegu stæði fyrir sparvöll, sem samkvæmt upplýsingum Sigga Ragga, var völlur númer 110 sem vígður er í sparkvallaátaki KSÍ. Nemendur Hallormsstaðaskóla, sem eru ríflega 50 talsins, voru að sjálfsögðu mættir út á völl og voru ákaflega kát og glöð með að hafa fengið þennan glæsilega völl til afnota. Það var gaman að hitta þennan hóp fyrir, krakkarnir eru ófeimin og dugleg að fylgjast með og sérstaka athygli vakti ein lítil hnáta sem spurði að því hvers vegna það ætti að ganga inná völlinn í gegnum markið. „Af hverju er ekki hlið?“ spurði sú stutta. Því miður held ég að hún hafi ekki fengið fullnægjandi svar við spurningu sinni enda liggja svör við svona góðum spurningum bara hjá sparkvallasérfræðingum landsins, og þeir voru ekki staddir á Hallormsstað.

BruarasNæsti sparkvöllur var við Brúarásskóla, þar eru einungis tæplega 40 nemendur í skólanum en sá skóli er sérstaklega beint inná íþróttir og njóta krakkarnir þar þess út í ystu æsar. Það var fín stemming við Brúarás og greinilegt að krakkarnir kunna vel að meta sparkvöllinn, allir tóku þátt í vígslu vallarins og allir léku þar knattspyrnu í skamma stund eftir að vígslunni lauk. Myndin hér til vinstri er frá vígslu vallarins. Það sést vel á myndinni að krakkarnir létu smávegis snjó og örlítið frost ekkert á sig fá og þeir allra hörðustu menn voru bara léttklæddir í stuttermabol og sumir aðrir voru berleggjaðir.

FellavollurEftir vígslu vallarins við Brúarásskóla var komið að glæsilegum gervigrasvelli við Fellaskóla í Fellabæ, skammt utan Egilsstaða. Þar er völlur í fullri stærð með besta mögulega búnaði, upphitaður og með góðri flóðlýsingu. Greinilegt er að Héraðsbúar eru ákaflega stoltir af framkvæmdum við vellina og mega þeir svo sannarlega vera það. Þarna er allt eins og best verður á kosið. Héraðsbúar fjölmenntu við vígslu vallarins, sjónvarpið mætti á staðinn til að festa atburðinn á filmu og eftir að allir flokkar Íþróttafélagsins Hattar höfðu fengið tækifæri til að leika á vellinum var stórfengleg flugeldasýning eins og þær gerast bestar. Myndin hér til hægri sýnir þegar völlurinn var tekinn í notkun.

Ég vil nota tækifærið hér og óska Héraðsbúum innilega til hamingju með vellina þrjá. Þeir sýna að það er stórhugur og metnaður meðal sveitarstjórnarmanna og íþróttafólks á Héraði og eru örugglega margir sem líta börnin fyrir austan öfundaraugum vegna þeirrar frábæru knattspyrnuaðstöðu sem er í sveitarfélaginu þeirra.


Skemmtilegur fundur með þingmönnum Samfylkingar

Í gærkvöldi var haldinn fundur í Hamraborginni þar sem gestir voru fjórir þingmenn Samfylkingarinnar, þau Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, Lúðvík Bergvinsson þingflokksformaður, Gunnar Svavarsson, oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi og Árni Páll Árnason. Eftir að þau fjögur höfðu flutt stutt ávarp til fundarins var fundarmönnum, sem voru fjölmargir, boðið að bera fram spurningar eða segja sitt álit á framgöngu Samfylkingarinnar það sem af er kjörtímabilinu.

Almennt má segja að fundarmenn hafi verið ánægðir með störf þingmanna okkar en hjá langflestum var sterkur undirtónn þar sem þingmennirnir voru brýndir og hvattir til að verða ekki þær undirlægjur Sjálfstæðisflokksins sem framsóknarmenn voru þann tíma sem þessir tveir flokkar voru í ríkisstjórn. Guðmundur Jónsson flutti sannkallaða eldmessu yfir þingmönnunum og minnti þá á að Samfylkingin er fyrst og fremst jafnaðarmannaflokkur, þar er okkar erindi brýnast.

Ég var mjög ánægð með fundinn og verð að segja það flokknum mínum til hróss að það er gaman að sjá hversu öflugt innra starf hans er og hversu duglegir þingmennirnir eru að mæta á fundi flokksfélaganna víða um land. Við, hinir almennu flokksmenn, fundum vel fyrir því í gær að okkar skoðanir skipta máli og að þingmennirnir hlusta á okkar málflutning. Það er gott að vera ekki bara mikilvægur hlekkur í flokksstarfinu þegar kosningar eru í nánd heldur alltaf og allsstaðar.


Pressa

Pressa, nýr íslenskur spennusería sem sýndur er á Stöð 2, er að mínu viti algjör snilld! Fyrsti þátturinn, sem var sýndur milli jóla og nýárs var í boði Byrs sparisjóðs og ég datt beinlínis inní þáttinn. Hraðinn er mikill, efnisþráðurinn þannig að maður fylgir honum alveg þó hann sé mátulega dulúðlegur og svo er þátturinn meinfyndinn. Gestur er t.d. algjörlega óborganlegur karakter.

Það hefur aldrei legið fyrir mér að kaupa mér áskrift að Stöð 2. Ég hef hins vegar haft áskrift að Sýn um nokkurt skeið, enda fæ ég þar ýmsa afþreyingu sem mér líkar vel, s.s. meistaradeildina í fótbolta, golf o.fl. Fyrsti þátturinn af Pressu ýtti nokkuð við mér. Mér finnst þetta spennandi og í kvöld brá ég mér bæjarleið til að sjá þátt númer tvö. Hann var ferðarinnar virði og ég velti því mikið fyrir mér hvort ég eigi að vera í heimsóknum hjá vinum og vandamönnum, sem kaupa Stöð 2, á sunnudagskvöldum eða hvort ég eigi að kaupa sjálf áskrift!

Að kaupa áskrift eða kaupa ekki áskrift að Stöð 2, þar er efinn!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband