Leita í fréttum mbl.is

Burt með spillingarliðið

Fréttir í fyrradag af afskriftum háttsettra bankamanna gerðu mig reiða. Fréttir morgunsins um kjör Baracks Obama til forseta Bandaríkjanna glöddu mig en auðvitað þurfti að spilla þeirri gleði þegar í ljós kemur að fyrrum bankastjóri Landsbankans, Sigurjón Árnason, situr þar enn og ef fréttir eru réttar hagar sér eins og hann sé ennþá bankastjóri.

Í útvarpinu í dag hefur verið fjallað dálítið um það að í júní í sumar hafi komið fréttir um að Ísland væri meðal þeirra 10 þjóða þar sem ríkti minnst spilling. Seth, bloggvinur minn, setti reyndar inn frétt á bloggið sitt í dag að Ísland væri spilltasta land í heimi. Þó mig langi ekki til að trúa því þá verð ég að viðurkenna að það örlar á þeirri skoðun hjá mér.

Síðustu daga hefur mér oft verið hugsað til danskrar vinkonu minnar, sem spurði mig í fyrra sumar að því hvaðan peningarnir sem íslensku útrásarvíkingarnir versluðu með kæmu. Það varð fátt um svör hjá mér, jú hluti þeirra er upprunninn í Rússlandi, hvaðan aðrir peningar komu hafði ég ekki hugmynd um. Í dag er mér að verða ljóst að þessir peningar eru ekki pappírsins virði, þeir eru hugarburður manna sem mökuðu krókinn undanfarin ár og bendi ég á myndband Jóns Geralds Sullenberger um Sterling flugfélagið máli mínu til stuðnings.

Á þingi í dag kom fram sú skoðun að þingmenn væru eins og „afgreiðslumenn á kassa“ svo valdalitlir væru þeir. Ég get tekið undir þetta, mér finnst þó að þeir eigi að gera betur og standa vaktina en einhverra hluta vegna gerist það ekki. Hér undanskil ég engan því sannast sagna er ég steinhissa á stjórnarandstöðunni hvað hún hefur verið máttlaus og þögul í gegnum þetta allt. Skiljanlegt er það þó með Framsóknarmenn, en vinstrigrænir hafa ekki haft í frammi öfluga málsvörn fyrir almenning á Íslandi sem hefur tapað hundruðum milljóna og milljarða á falli bankanna. Er það vegna tengsla þeirra og vensla inní bankana eða hvað er í vegi þeirra að vaktstöðinni?

Það er því krafa dagsins að losna við spillingarliðið allt, sama hvar í flokki það stendur.


Ef væri ég Kani þá kysi ég mann

Ef væri ég Kani þá kysi ég mann sem heitir Barack Hussein Obama.

Bendi á blogg Georgs P. Sveinbjörnssonar þar sem hann fjallar um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. http://killjoker.blog.is/blog/georg_petur/entry/699152/ 

 


Þetta er náttúrulega óþolandi að ekki sé talað um ólöglegt og siðlaust!

Lára Hanna, bloggvinkona mín, er snilldarbloggari. Hún er óþreytandi að safna saman fréttum af siðspilltum og siðblindum bankamönnum, auðmönnum og stjórnmálamönnum sem aldrei virðist hafa verið kennt að skammast sín eða bera ábyrgð á nokkrum hlut. Í gær skrifaði Lára Hanna um tölvupóst sem gengið hefur eins og eldur í sinu um netheima þar sem sagt er frá ótrúlegum viðskiptum æðstu stjórnenda Kaupþings í aðdraganda falls bankanna. Þá sögu ætla ég ekki að rekja hér, það gerir Lára Hanna best allra og vísa ég á hennar síðu (http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/697952/).

Hitt er annað að Kaupþing er viðskiptabankinn minn. Þetta er bankinn sem ég hef treyst fyrir mínum fjármálum frá því ég hætti með reikningsviðskipti við Útvegsbankann uppúr 1977 og lagði fermingarpeningana mína inní Búnaðarbankann. Allar götur síðan hef ég haldið tryggð við bankann, hvað nafni sem hann hefur nefnst. Ég viðurkenni að ég var stolt af bankanum mínum þegar í ljós kom að hann virtist ætla að standa af sér kreppuna. Ég var sárreið út í æðstu stjórnendur í Bretlandi sem felldu bankann (þó hann hefði kannski fallið hvort eð er) og ég var einhvernvegin örugg um að útgreiðsluhlutfall úr peningamarkaðssjóðum Kaupþings yrði hærra heldur en hjá hinum bönkunum, sem það og varð!

Fréttir dagsins í dag segja mér hins vegar að ekki var allt með felldu í þessum banka frekar en öðrum. Siðspillingin og siðblindan sem þar ræður ríkjum virðist vera algjör og í dag sýður á mér. Hvurslags viðskiptasiðferði er þetta eiginlega? Bankinn hefur af mér pening, sem ég hef nurlað saman í gegnum tíðina og lagt inná peningamarkaðssjóð. Bankinn fékk verðbréfagutta til að telja mér trú um að hætta við að selja í peningamarkaðssjóðnum 18. september sl. og ég beit eins og asni á agnið. Það kostar mig slatta af peningum. Enga milljarða þó!

En þeir sem töldu verðbréfaguttanum trú um að blekkja mig til að halda aurunum mínum inní bankanum, þeir eru klipptir úr snörunni eins og ekkert sé. Þeir geta fært lántökur sínar uppá hundruðir og jafnvel þúsundir milljóna á hlutafélag korteri áður en bankinn er þjóðnýttur og þetta er leyft vegna þess að það er ekki hægt að finna nægilega HÆFA stjórnendur!!! Halló ... halló ... mennirnir tóku milljarða lán út á andlitið á sér!  Halló ... halló, það var einhver sem lánaði þeim MÍNA peninga út á veð í sjálfum sér! Það á að halda áfram að treysta ÞESSUM mönnum til að stjórna bankanum.

Er enginn heima?


Nú fór af mér handleggur

Sem liður í sparnaðaraðgerðum vegna efnahagsástandsins ákvað ég í síðasta mánuði að segja upp nokkrum föstum liðum á dagskránni hjá mér, var þar m.a. happdrætti SÍBS, happdrætti háskólans, áskrift að Stöð 2 Sport og uppsögn á vefsíðunni minni www.ingibjorg.net. Ég leit þangað inn um áðan og við mér blasti eymdin ein. Mér leið eins og það hafi verið sagaður af mér handleggurinn. Þó mörgum kunni að finnast þetta ómark þá var þessi aðgerð, lokun síðunnar minnar www.ingibjorg.net, fjáranum þungbærari! Mér líður eins og það hafi verið tekinn af mér handleggur!

Þessa síðu, bloggið mitt, hef ég notað á annan hátt heldur en heimasíðuna mína. Hér hef ég ritað hugrenningar og skoðanir á öllu og engu en á heimasíðunni minni hef ég meira einbeitt mér að greinaskrifum, frásögn af persónulegum högum, ljóðin mín voru vistuð þar, ættartalan og hvað eina. Ég veit að þetta er ennþá til og ég gæti sótt það aftur ef ég reiddi fram tæpar 6.000 krónur á mánuði, en ... arrrghhhh! Mikið andskoti er þetta vont!


Ekkert gerir mig eins stolta og þið!

Óley, óley, óley óley!

Ísland á EM, Ísland á EM, Ísland á EM og allir koma með!

Ísland á EM

 Svona leit heimasíða Evrópukeppninnar í Finnlandi 2009 út í kvöld. Liðin sem komust áfram úr umspilinu voru: Ítalía, Holland, Úkraína, Rússland og .... ÍSLAND!!!

Þúsund þakkir mín yndislega þjóð fyrir stuðninginn. Milljarða þakkir til stelpnanna fyrir ómetanlegar stundir á vellinum. Ekkert gerir mig eins stolta og þið!

Þann 18. nóvember nk. munu þær 12 þjóðir sem hafa tryggt sér farseðilinn vera skipt upp í 3 riðla. Í potti 1 verða gestgjafar Finna ásamt ríkjandi Evrópumeisturum Þjóðverja og liðinu sem lék til úrslita á síðasta móti, Svíum. Í potti 2 verða Danmörk, England, Frakkland og Noregur og í potti 3 verða Ítalir, Rússar, Ísland, Úkraína og Holland. Ef þetta er ekki nógu skýrt þá lítur þetta svona út.

Úrslitakeppni EM í Finnlandi 2009
Gestgjafar: Finnland (verða í riðli A)
Pottur 1: Þýskaland (holders), Svíþjóð
Pottur 2: Denmörk, England, Frakkland, Noregur
Pottur 3: Ísland, Ítalía, Rússland, Úkraína, Holland

Úrslitakeppnin hefst í Finnlandi 23. ágúst 2009 og riðlakeppninni lýkur viku síðar, þann 31. ágúst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband