Leita í fréttum mbl.is

Ljós í myrki

KertiBloggvinur minn sendi mér eftirfarandi kveðju sem mér er bæði ljúft og skylt að birta og bera áfram um bloggheima. Ég vil þó, vegna sérstakrar brunahræðslu, benda bloggvinum mínum og lesendum á að fara varlega með kertaljós í glugga. Einnig vil ég tileinka ljósið í kvöld og næstu kvöld vinkonu minni að austan og sendi henni og fjölskyldunni mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Ljós í myrkri
Á þessum skammdegisdögum er nauðsyn að birta og ylur kærleiks og vinskapar streymi um nágrenni okkar. Við þyrftum nú strax að hvetja alla til að byrja á því sem kallað er -Ljós í myrkri-. Í fyrstu væri einungis lifandi kertaljós í einum glugga, falleg kveðja til nágrannanns.

Þetta er í raun byrjun á ljósaskreytingu aðventunnar en væntanlega meir með hvítum ljósum sem síður eru tengd sjálfum jólunum. Stígandi væri í þessu sem byrjaði á kertaljósi í glugga og endar í fallegum vel upplýstum gluggum í byrjun aðventu.

Kertaljós er staðalbúnaður á mínu heimilli en ekki veitir af að hvetja menn og reyndar öll börn Guðs til kærleiks og væntumþykju þó ekki sé til annars en að líða vel í eigin hjarta.

Látið þetta ganga!


Mæliglasið að fyllast

Það er auðheyrt úti í samfélaginu að mæliglas almennings, skrílsins og verkalýðsins er að fyllast. Mæliglas flokksbundinna sem óflokksbundinna er að fyllast og sumir þingmenn hafa jafnvel tjáð sig opinberlega um að þeirra mæliglas sé við það að verða fullt.

Síðustu 40 daga höfum við Íslendingar beðið eftir því að fá upplýsingar um það sem raunverulega er í gangi. Í byrjun októbermánaðar bað forsætisráðherra Guð að blessa íslensku þjóðina. Það má vera sjálfsagt að forsætisráðherra biðji um blessun Guðs hvenær sem er á árinu, en þessi bón ráðherrans hefur orðið mér æ meira umhugsunarefni. Hvað er það sem Geir veit en vill ekki deila með sinni þjóð? Hann vill ekki heldur deila því með flokksmönnum sínum eða Alþingi. Og það er þessi óvissa sem er að fylla mæliglas mitt og þjóðarinnar allrar bæði hratt og örugglega.

Á meðan Geir heldur þjóðinni í óvissu og myrkri grassera kjaftasögur, úlfaldagerðir eru gróskumestu fyrirtæki landsins þar sem hver mýflugan af annarri sprettur fram sem fullgildur úlfaldi. Af hverju má þjóðin ekki heyra sannleikann? Af hverju heldur Geir ennþá hlífiskildi yfir stjórn Seðlabanka Íslands? Af hverju hefur enginn ráðherra gengið fram fyrir skjöldu og segir að hann hafi ekki verið starfi sínu vaxinn? Af hverju kom bankakreppan ráðamönnum þjóðarinnar svona gríðarlega mikið á óvart? Af hverju er ekki löngu komin yfirlýsing um að Íslendingar ætli að taka upp Evru eða aðra erlenda mynt? Af hverju er ekki löngu komin yfirlýsing um að Íslendingar ætli að vera þjóð meðal þjóða og ganga í Evrópusambandið, eða a.m.k. hefja aðildarviðræður þar um? Af hverju hafa fjölmiðlamenn ekki gengið fastar fram en þeir hafa gert og krafið ráðherra svara? Af hverju hefur Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn ekki gengið frá láni til Íslendinga? Eftir hverju er verið að bíða?

Á meðan íslensk þjóð bíður, þá fyllist mæliglasið. Það skvettist ögn uppúr því á Austurvelli sl. laugardag. Það þarf enginn að efast um að gusugangurinn verður mun meiri næstkomandi laugardag ef ráðherrar ríkisstjórnarinnar ætla að halda áfram að hafa öll ljós slökkt og halda þjóðinni óupplýstri um stöðu mála. Stundum er betra að segja hinn óþægilega sannleika hreint út. Það er í það minnsta stórmannlegra og heiðarlegra.

Að endingu óska ég þess að mótmælendur á Austurvelli nk. laugardag verði ekki með skrílslæti.

Skrílslæti


Austurvöllur 8. nóvember 2008

Allt frá barnæsku hef ég haft skoðanir á flestum hlutum. Snemma tók ég afstöðu til stjórnmála og skoðun á fótbolta hefur fylgt mér alla tíð. Ég hef hins vegar ekki verið mikill mótmælandi. Mig minnir að ég hafi þrammað einu sinni niður Laugaveg 1. maí og einhverju sinni mætti ég á Arnarhól til að mótmæla einhverju sem ég man ekki lengur hvað var.

En það eru breyttir tímar. Ísland stendur á tímamótum og í fyrsta sinn í sögunni lítur út fyrir að okkar framsækna og harðduglega þjóð þurfi að bakka mörg skref aftur í tímann til þess að komast út úr þeim þrengingum sem nú steðja að. Þessi staðreynd dró mig á fund í Iðnó í dag og síðar á mótmælafund á Austurvöll. Fundurinn í Iðnó var málefnalegur og góður þó ekki tækist stjórnmálamönnunum að klóra sig út úr þeim spurningum sem til þeirra var beint og sannast sagna var ég ekki ánægð með neinn þeirra sem sátu fyrir svörum. Frummælendur voru hins vegar hver öðrum betri og margt til í því sem þeir sögðu, þó ég sé ekki sammála öllu því sem þar kom fram.

Á Austurvelli var fjöldi fólks, að minnsta kosti 500 manns (svo maður haldi sig við áður uppgefnar tölur fjölmiðlanna). Þar voru fluttar ræður og mannfjöldinn ýmist klappaði eða púaði ... allt eftir þeirri stemmingu sem ræðumenn buðu uppá. Þeir sem voru samankomnir á Austurvelli áttu það eitt sameiginlegt að vera reiðir. Íslendingar eru orðnir reiðir, það er skiljanlegt og sjálfsagt. Íslendingar eiga að vera duglegir að koma saman og mótmæla, við eigum að láta stjórnmálamennina, bankamennina og útrásarvíkingana vita að okkur standi ekki á sama. Við munum ekki sitja lengur prúð, hlusta og samþykkja þegar þjóðin er skuldsett með tölum sem enginn kann að nefna. Fundir eins og sá á Austurvelli í dag og undanfarna laugardaga eru kjörin leið til þess að láta í okkur heyrast.

Hitt er svo annað mál að ég get ekki með nokkru móti samþykkt ofbeldi í mótmælum, hvaða nafni sem það nefnist. Eggjakast í Alþingishúsið flokkast að mínu mati undir ofbeldi. Slíkt mun ég aldrei samþykkja. Til hvers að láta reiði sína bitna á dauðum hlutum? Hver græðir á því? Menn verða að finna reiði sinni útrás og ef þátttaka í mótmælum á Austurvelli og í umræðum í Iðnó er ekki nóg þá verða menn að finna aðra leið til að losna við reiðina. Spaugstofan kom þó með ansi fína hugmynd í kvöld. Ekki láta reiðina bitna á húsum, bílum, reiðhjólum eða barnavögnum.

Það er í lagi að vera reið, en sýnum stillingu.


Mótmælum öll - burt með spillingarliðið!

Ágætu netheimar, ég minni á mótmælafundi í miðbæ Reykjavíkur á morgun. Þeir fundir sem ég veit um eru kl. 13:00 í Iðnó og kl. 15:00 á Austurvelli.

Af hverju ættum við að mótmæla?

  • Til að hinn almenni borgari geti komið hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri á óvissutímum.
  • Á síðustu vikum hefur almennum borgurum hvergi gefist kostur á að tjá sig eða spyrja ráðamenn beinna spurninga.
  • Öllum stjórnmálamönnum, seðlabankastjórum og bankastjórum verður boðið að mæta til að svara spurningum Íslendinga, milliliðalaust.
  • Til að almenningur fái skýr skilaboð og sé ekki hafður útundan í umræðunni.
  • Til að leita spurninga og svara um hvað framtíðin ber í skauti sér.

http://www.borgarafundur.org/

 


Ég biðst afsökunar

Einhverja aura átti ég í peningamarkaðssjóði í Kaupþingi. Um daginn fékk ég bréf frá nýja bankanum þar sem ég var beðin um að tilgreina hvert ætti að leggja inn þá peninga sem bankinn ætlaði að greiða mér úr peningamarkaðssjóði. Það stóð ekki á svari hjá mér og í gegnum tölvuna tilgreindi ég hvert ætti að setja peningana.

Næsta dag kíkti ég á netbankann minn og sá að það var búið að leggja inn á reikninginn minn, en það kom mér á óvart að það var búið að leggja næstum því sömu upphæð á annan reikning sem ég á í bankanum og peningamarkaðsreikningurinn var kominn rækilega í mínus! Ég þorði ekki öðru en að hringja í þjónustufulltrúa minn í bankanum og segja frá þessum mistökum og hún lofaði að leiðrétta þau.

Þar með hélt ég að málið væri úr sögunni, en í gærkvöldi er hringt í mig frá bankanum og stúlkan í símanum segir að bankinn hafi gert mistök. Jú ég kannaðist við það ... búið var að greiða mér peningamarkaðsfjárhæðina tvisvar sinnum og ég sagði henni eins og er að ég treysti ekki starfsmönnum bankanna betur en svo að ég vildi leiðrétta þetta strax og hafði þegar haft samband við þjónustufulltrúann minn. Þessu fylgdu nokkrar háðsglósur frá mér um það litla traust sem ég bæri til bankamanna um þessar stundir. Spurði svo stúlkuna í símanum hvort henni þætti það nokkuð skrýtið! Fátt var um svör og lauk símtalinu nokkru síðar.

Þegar ég kveikti á útvarpsfréttum örskömmu síðar er þar lesin frétt um að bankafólk hafi þurft að leita sér aðstoðar vegna stanslausra háðsglósa frá viðskiptavinum og jafnvel skömmum og reiðilestri. Þá þegar sá ég eftir glósum mínum til stúlkunnar í símanum og vil ég koma á framfæri afsökunarbeiðni vegna þessa. Ég veit vel að hún ber ekki ábyrgð á hruni bankanna og vil ég taka fram að þetta var ekki illa meint.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband