Leita í fréttum mbl.is

Afmælisboð hjá ungri og eldri

Því miður komst ég ekki á útifundinn í gær. Var upptekin í 5 ára afmæli Sigrúnar Birtu Gunnarsdóttur, sem söng svo fallega fyrir mig á afmælisdaginn minn í fyrra. Svo fór ég í 60 ára afmæli stórvinar míns Halldórs B. Jónssonar, fv. varaformanns Knattspyrnusambands Íslands. Halldór hætti óvænt í stjórn KSÍ í fyrra vegna veikinda og mér þótti vænt um að hann var gerður að heiðursfélaga knattspyrnusambandsins á 60 ára afmælinu. Hann á það svo sannarlega skilið fyrir ómetanleg og ómælanlegt framlag til knattspyrnu á Íslandi.

En þó ég hafi ekki náð í útifundinn þá náði ég að hlusta á síðustu mínúturnar í ávarpi Gerðar Kristnýjar og var ég einstaklega ánægð með það sem hún sagði. Ég er sko ekkert franskbrauð heldur alvöru íslenskt rúgbrauð.

Þegar ég komst heim úr afmælisboðunum þá tók ég mig til og hrærði í jólalifrarkæfuna sem ég ætla að bera fram á jólafundi kvennanefnda KSÍ nk. föstudag. Ég held og vona að lifrarkæfan hafi heppnast vel en ég ætla ekki að baka hana fyrr en eftir vinnu á föstudag svo það verði enn ylur í henni þegar ég mæti í jólaboðið.

Einhverjum bloggvina minna hefur verið tíðrætt um jólagjafir og jólaskraut. Það upplýsist hér með að jólagjafir eru í húsi og jólaskraut sömuleiðis. Það má samt alltaf bæta um betur og hver veit nema það bætist við ein eða tvær gjafir fyrir aðfangadag og jafnvel eitt eða annað skraut í húsið.


Já, sæll!

Orðin í fyrirsögninni hér að ofan duttu út úr mér þegar ég sá forsíðu Moggans í morgun. Svo bætti ég við „Eigum við að ræða það eitthvað?“ þegar ég sá hvað seðlabankastjóri hafði sagt við fjónska blaðið. „Verði ég hins vegar þvingaður úr starfi horfir málið allt öðruvísi við. Þá mun ég snúa aftur í stjórnmálin.“

Ef þetta er ekki nóg fyrir forsætisráðherra og hans íhaldsflokk til að skilja að maðurinn verði að víkja þá er honum og hans flokki einfaldlega ekki viðbjargandi. Hótunin sem felst í þessum orðum er svo opinská og beinskeytt að það verður ekki skýrara.

Enn og aftur bendi ég á færsluna um þær kröfur sem uppi eru, að stjórn Seðlabankans víki, að stjórn Fjármálaeftirlitsins víki, að a.m.k. tveir ráðherrar ríkisstjórnar víki og að kosið verði til þings í vor. Þetta eru einfaldar kröfur sem ætti að vera auðvelt að bregðast við og það er mín krafa og margra annarra að íslenskir stjórnmála- og embættismenn fari að axla ábyrgð á þeim verkum sem þeim eru falin.


Ljósin kveikt á jólatréinu

Ljósin voru kveikt á jólatrénu á heimili mínu að viðstöddu fámenni. Það hefur verið hefðbundið hjá mér undanfarin ár að skreyta fyrir 3. desember ár hvert. Ástæðan er einfaldlega sú að gestir sem líta til mín að kveldi þess 3. hafa gjarnan óskað þess að jólin séu komin á heimilið.

Það er ekki í mínum anda að valda þeim vonbrigðum.

Á meðan á skreytingu jólatrésins og ákveikju stóð þá var leikinn nýr geisladiskur með Ragnheiði Gröndal sem ég fékk í snemmbúna afmælisgjöf frá Binnu systur minni og hennar fjölskyldu. Það var ánægjulegt að hlusta á Ragnheiði, snilldarsöngkona þar á ferð. Mér finnst samt að henni hafi fyrr tekist betur upp en á þessum geisladiski. Góður engu að síður og verður sjálfsagt nokkuð í spilaranum.

Vegna viðburðarins sem fagnað hefur verið ár hvert frá 3. desember 1963 verður opið hús fyrir þá sem vilja skoða jólaskreytingarnar frá því ég kem heim úr vinnu uppúr kl. 16.00. Þeir sem ekki eiga heimangengt er heimilt að skilja eftir kveðju.


Áhugaverð vefsíða

Það kemur fyrir öðru hvoru að maður hnýtur um eina og eina vefsíðu sem er full af fróðleik, upplýsingum eða einhverju öðru misgáfulegu. Ég datt inná eina slíka síðu í kvöld. Sá þar m.a. eftirfarandi klausu:

Eftirfarandi greinarstúf mátti lesa í Samúel haustið 1983. Þar myndast Jafnréttisráð Kópavogs við að mótmæla birtingu saklausra nektarmynda í tímaritinu. Gaman að rifja bókun ráðsins upp núna aldarfjórðungi síðar með það í huga, að eina súlustað landsins skuli einmitt vera að finna þar í bæ:

  Á fundi Jafnréttisráðs Kópavogs, sem er sjö manna nefnd skipuð af bæjarstjórninni gerðist það á dögunum að Hauður Helga Stefánsdóttir, fulltrúi krata, vakti máls á síðasta tölublaði Samúels „þar sem birtist mynd af hálfnakinni stúlku“. Þótti henni myndbirtingin vægast sagt mjög ósmekkleg og að eitthvað þyrfti að gera til að bjarga heiðri stúlkunnar. Málið var rætt fram og til baka og voru flestir á móti svona myndum yfirhöfuð, auk þess „þótti ýmsum nefndarmannanna þetta óheppileg þróun að íslenskar stúlkur færu að stunda þessa iðju í gróðaskyni“(úr fundargerðinni).

  Samkvæmt venju var fundargerð Jafnréttisráðs send bæjarráði til yfirlesturs og samþykktar. Oftast skrifar bæjarráð undir svona fundargerðir athugasemdalaust, en í  þessari hnaut það um setningu sem því þóttir heimskuleg eða í besta falli byggð á misskilningi og sendi fundargerðina til Jafnréttisráðs og bað um að hún yrði endurskoðuð.  Setningin er svona: „Öðruvísi þykir horfa við að birta slíkar myndir af erlendum stúlkum.
    En nú brá svo við, að ritarinn á umræddum fundi, sem er eini karlmaðurinn í nefndinni, neitaði að breyta einum einasta stafkrók. Undir þessa fundargerð hefðu allir nefndarmenn skrifað, og svona skyldi hún standa. Hins vegar væri hægt að bæta við hana útskýringum að vild.
    Og á öðrum fundi Jafnréttisráðs um málið nokkrum dögum síðar var ákveðið að breyta punktinum aftan við setninguna í kommu og bæta við: „vegna smæðar þjóðfélags okkar er því veitt mun meiri athygli þegar íslenskt fólk kemur fram á þennan hátt.
    Þá vitum við það.
    Í fundargerðinni er einnig lýst yfir „vanþóknun á klámi í hvers konar mynd.“ Og mun sú vanþóknun einkum beinast að Veitingahúsinu Glæsibæ, sem býður upp á nektardansmeyjar sem skemmtiatriði.

Vefsíðan er www.samuel.is - bráðskemmtileg.


Áróðursmaskína íhaldsins farin af stað

Það var broslegt að heyra síðdegisútvarpið á Bylgjunni í dag. Greinilegt er að áróðursmaskína íhaldsins hefur fengið fyrirskipanir og í lofi og lasti dagsins hringdu stuttbuxnadrengir í umvörpum og hrósuðu Geir Hilmari og Davíð fyrir hugdirfsku þeirra, dugnað og ráðdeildarsemi á örlagatímum.

Það var ekki laust við að kjánahrollurinn góði gerði vart við sig, en þó varð það ekki svo heldur fannst mér það óskaplega fyndið þegar uppvöxnu stuttbuxnadrengirnir hringdu hver af öðrum og hrósuðu ráðherranum. Mest fannst mér fyndið að heyra í Tuma vini mínum, sem ég trúi ekki að hringi á degi hverjum, en hann fylgir fyrirmælum flokksins - það veit ég. Mér finnst svo sem ekkert að því að stöku menn hrósi Geir, en þegar það er gert með þessum hætti verður þetta ekki aðeins kjánalegt, heldur beinlínis hallærislegt.

Mætum öll á mótmælafund á Austurvelli kl. 15 á morgun og ítrekum kröfur okkar um endurnýjun í æðstu valdastöðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband