Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstæðismenn ...

þið hafið komið ykkar skoðun á framfæri.

Þið eruð á móti stjórnlagaþingi.

Það eru allir búnir að ná því.

Nú þurfið þið að sætta  ykkur við það að þið eruð í minnihluta á þingi. Ég veit að þið kunnið það ekki og það fer ekki framhjá mér að ykkur líður ekki vel í minnihluta. En nú, þegar þið hafið talað og malað í fleiri sólarhringa um stjórnlagaþingið (og þess á milli um fundarstjórn forseta og að þið þurfið endilega að komast heim til barna ykkar og það jafnvel uppá Akranes) þá ráðlegg ég ykkur að hætta þessu málþófi og leyfa öðrum málum að komast að.

Þið segið að stjórnlagaþing geri ekkert fyrir þjóðina, það muni ekki koma þjóðinni til bjargar í því ástandi sem þið hafið komið þjóðinni í. Ástæða þess að önnur mál komast ekki að er sú að þið malið og malið um þetta stjórnlagaþing.

Farið nú að taka ykkur á og horfið á raunveruleikann eins og hann er, þið ráðið ekki ferðinni lengur. Þess utan eruð þið aðeins að verða ykkur til skammar á þinginu!

 


Skyldi manninum ekki leiðast?

Nú skömmu fyrir miðnættið kíkti ég á útsendingu frá Alþingi. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Björk Guðjónsdóttir, dundar sér nú við að lesa uppúr umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um stjórnskipunarlögin. Ég efast ekki um að þar sé margt fróðlegt að finna, enda er mannavalið hjá sambandinu alveg einstakt. Hitt efast ég um að það sé virkilega nauðsynlegt að lesa upp álit sambandsins í þessu máli í ræðustól Alþingis. Hingað til hefur verið nóg að fjalla um umsagnir um lagabreytingar í nefndum og efast ég ekki um að ítarlega hafi verið fjallað um þessa umsögn í nefnd.

Þegar ég hef hlustað á Björk, núna í nokkrar mínútur, þá velti ég því líka fyrir mér hvort henni leiðist svona ógurlega í vinnunni? Vissulega er hægt að eyða föstudagskvöldi betur en að lesa upp umsagnir í ræðustól en fyrst hún er að gera þá hefði mér þótt við hæfi að hún reyndi að glæða þessa umfjöllun einhverju lífi. Enn eru 21 þingmaður Sjálfstæðisflokksins á mælendaskrá, á eftir Björk mun Þorgerður Katrín taka til máls og ég verð að segja að ég er dálítið spennt fyrir því hvaða pól hún tekur í hæðina. Árni Johnsen söng um kvikmyndargerðarlögin, Björk les upp umsagnir og hver veit nema Þorgerður Katrín lesi ljóð. Ef hún gerir það þá mæli ég með því að hún lesi ljóðið hans Steins Steinarrs um Passíusálm nr. 52.

Passíusálmur nr. 51

Á Valhúsahæðinni
er verið að krossfesta mann.

Og fólkið kaupir sér far
með strætisvagninum
til þess að horfa á hann.

Það er sólskin og hiti,
og sjórinn er sléttur og blár.

Þetta er laglegur maður
með mikið enni
og mógult hár.

Og stúlka með sægræn augu segir við mig:
Skyldi manninum ekki leiðast
að láta krossfesta sig?


Viðskiptavinir horfa á í forundran

Undanfarna daga hef ég reynt að fylgjast með störfum Alþingis. Bæði er að ég hef áhuga á stjórnmálum og svo hef ég líka áhuga á að fylgjast með hvernig menn standa sig nú í aðdraganda Alþingiskosninga. Frammistaða þingmanna mun sjálfsagt ekki ráða miklu um það hvað ég kýs í komandi þingkosningum, það er þegar ákveðið af minni hálfu. Hitt er að vera Sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu er ný fyrir mig enda hefur þessi flokkur verið í ríkisstjórn síðustu ... hvað 18 ár? og ég hef fylgst af áhuga með því hvernig þeim líður í því hlutverki.

Ef ég á að draga ályktun af því sem ég hef séð á vef Alþingis síðustu daga þá verð ég að segja að Sjálfstæðismönnum líður MJÖG ILLA í stjórnarandstöðu. Sjálf hef ég nokkra reynslu af því að vera í minnihluta, hef í raun verið það sem kona allt mitt líf, svo held ég með Breiðabliki og þó stelpunum þar í fótboltanum, körfunni og frjálsum, hafi um tíma verið stórkostlegur, þá er það þó þannig að almenningur (þ.e. þeir sem ekki eru Blikar) dæma félagið oftar en ekki út frá frammistöðu karlanna. Ég er Íslendingur og sem slík hef ég gjarnan verið í minnihluta og jafnvel minnimáttar, og kannski aldrei eins og nú. Fyrir hönd Samfylkingarinnar er ég í minnihluta í bæjarstjórn Kópavogs.

Þrátt fyrir alla þessa minnihluta þá er ég engu að síður ákaflega stolt. Ég er stolt kona, stoltur Bliki, stoltur Íslendingur og ég er stolt af því að vera í Samfylkingunni. Ég hef gert mér grein fyrir því að á meðan ég er í minnihluta þá fæ ég ekki öllu mínu framgengt. Ég hef mótmælt og ég hef barist fyrir mínu en iðulega geri ég mér grein fyrir því að minn tími mun koma (eins og Jóhanna Sigurðardóttir orðaði það svo frábærlega hér fyrir nokkru). Miðað við frammistöðu Sjálfstæðismanna á Alþingi þá held ég að þeim líði illa í stjórnarandstöðu og þeir eru síður en svo stoltir af stöðu sinni þar. Þeir eru í stöðugu andsvari við sjálfa sig og ræða fundarstjórn forseta eins og þeir hafi aldrei haft þá stöðu í þinginu.

Þegar þeir komast síðan að því að þeir ráða ekki dagskrá þingsins haga þeir sér eins og óþekkir krakkar fyrir framan sælgætisrekkann í stórversluninni. Við viljum, ég vil, gefðu mér, mig langar, Aaaarrrrrgggghhhh! VIÐ VILJUM EKKI RÆÐA STJÓRNSKIPUNARLÖG!!!!

Sjálfstæðismönnum bendi ég á að aðrir "viðskiptavinir búðarinnar" horfa á í forundran!


Af hverju birtir mbl.is ekki þessi ummæli ...

sem birtust á www.pressan.is

Hann sagði ekkert skrýtið að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði verið eins og álfur út úr hól þegar bankarnir hrundu miðað við allt sem á undan væri gengið.

„Hún lítur reyndar út eins og álfur út úr hól,“ bætti hann svo við.

Er það kannski vegna þess að meira að segja blaðamönnum mbl.is misbauð þessi ómerkilegu ummæli mannsins sem er svo hógvær að hann bar örlög sín saman við örlög Krists á krossinum? Því miður misstu blaðamenn líka af því þegar Davíð sagði að efnahagskreppan yrði ekki leyst með því að "mylja undir þá sem ekkert eiga!"


Stórkostlegt par

Síðdegið, og reyndar morguninn líka, á landsfundi Samfylkingarinnar í dag var stórkostleg upplifun. Ég leyfi mér að nota orð frambjóðenda til varaformanns þegar þeir sögðu báðir að lokinni kosningu að það væru forréttindi að fá að starfa með svo stórkostlegum hópi eins og þeim sem var saman kominn í Smáranum í dag. Stemmingin, einhugurinn og samstaðan í dag ... ræðurnar sem voru fluttar og fólkið maður, fólkið!

Það hefur ekki farið framhjá neinum að ég er einarður stuðningsmaður Árna Páls Árnasonar og hann fékk mitt atkvæði í varaformannskjörinu í dag. Það fór þó svo að 2/3 hluti þeirra sem kusu studdu Dag B. Eggertsson og þó hann hafi ekki fengið atkvæði frá mér þá uni ég niðurstöðunni og óska Degi innilega til hamingju með kjörið. Hann er drengur góður og verðugur varaformaður þessa góða jafnaðarflokks.

Ekki hélstu að ég myndi sleppa Jóhönnu? Ó nei, konan sú er hreinræktuð kraftaverkakona, hún hefur sýnt það og sannað að hún bognar hvorki né brotnar þó á móti blási. Hún hefur sopið fleiri fjörur en okkur annar íslenskur stjórnmálamaður, hún er strangheiðarleg, ötul baráttukona þeirra sem minna mega sín og kemur til dyranna eins og hún er klædd. Það kom því engum á óvart að Jóhanna hlaut rússneska kosningu í embætti formanns Samfylkingarinnar 98% atkvæða komu í hennar hlut og það ætti ekki að fara framhjá neinum að hennar tími er kominn - Hvað annað?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 11
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 129819

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband