Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
30.7.2008
Fyrir hvern vinna sveitarstjórnir?
Vandamálið við skipulagsmál er tvennskonar. Í fyrsta lagi þá gagnast þau oftast þeim sem ekki þurfa að búa við þau, bæjaryfirvöldum miklu frekar en bæjarbúum. Sveitarstjórnir hafa spillst og taka orðið meira mark á hagsmunum verktaka og fyrirtækja heldur en íbúa. Skipulagsmál hafa því í framhaldinu orðið að bitbeini þessara tveggja hagsmunaaðila.
Í öðru lagi hafa skipuleggjendur trúað því að þau geti breytt hegðun fjöldans með því að breyta félagslegu umhverfi þeirra. Þetta getur hafa átt við þegar götulýsingu var komið á, garðbekkir voru settir niður eða þegar pípulagnir voru lagðar í hús eða götur. Þessi hugsun byggir á því að breyta samfélaginu þannig að það passi í aðstæðurnar í stað þess að breyta aðstæðum þannig að þær passi samfélaginu."
Ian Bertham, breskur skipulagsfræðingur
Með tillögum meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs um nýtt skipulag á Kársnesi fylgja tvær umhverfisskýrslur, sem unnar eru af fyrirtækinu Mannviti. Bera þær heitin: Kársnes-hafnarsvæði-endurbótasvæði annars vegar og Umhverfisskýrsla, Kársnes-Vesturhluti. Skýrslurnar eru ágætlega unnar og vel læsilegar en við lestur þeirra vakna engu að síður margar spurningar og reyndar fleiri spurningar en þær svara.
Í annarri skýrslunni segir m.a.: Áður en tillagan fer til auglýsingar verður leitað umsagnar Umhverfisstofnunar, Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar og Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis auk annarra viðeigandi umsagnar- og hagsmunaaðila. Auk þess verður sveitarfélögum innan svæðisins kynnt breytingin. Þetta er nokkuð merkilegt, ekki síst í ljósi þess að á fundi bæjarstjórnar upplýsti formaður bæjarráðs að það yrði að auglýsa tillögurnar og samþykkja þær í auglýsingu áður en fundur yrði haldinn í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins í byrjun ágúst!
- Bíddu við átti ekki að kynna tillögurnar áður en þær færu í auglýsingu?
Einnig segir í skýrslunum að það séu meginmarkmið Kópavogsbæjar í umferðarmálum er að öryggi allra vegfarenda verði aukið og dregið úr óþægindum af bílaumferð. Auk þess sé stefnt að því að þjónustustig aðalgatnakerfis lækki ekki.
- Má líta svo á að aukning bílaumferðar á eina götu um 5.000 bíla, þannig að hún geti þjónað 18-20 þúsund bílum á sólarhring muni ekki draga úr þjónustustigi þeirrar götu?
Það má hverjum sjálfstætt hugsandi manni vera ljóst að umferðaraukning uppá 5.000 bíla á sólarhring mun auka hættu á umferðarslysum á því svæði þar sem aukningin er. Á það er bent í skýrslunni en þar segir: Með staðbundum mótvægisaðgerðum má draga úr aukningu á slysahættu eða jafnvel auka umferðaröryggi á tilteknum stöðum. [feitletrun mín].
- Það er nefnilega það. Það má draga úr aukningu eða jafnvel auka umferðaröryggi. Mikil ósköp, má með þessu orðalagi ætla að brunnurinn verði ekki birgður fyrr en barnið er dottið ofan í hann?
Einn punktur í skýrslunni er með slíkum ólíkindum að jafnvel verkfræðistofan sem samdi skýrsluna treystir sér ekki til að standa við heldur vísar til þess að Kópavogsbær telji að umfang fyrirhugaðra skipulagsbreytinga ekki þess eðlis að það kalli á sértæka vöktunaráætlun.
- Með öðrum orðum, skýrsluhöfundar þora ekki að taka undir mat bæjaryfirvalda heldur vísa einungis til þeirrar skoðunar þeirra að ekki þurfi að sértæka vöktunaráætlun. Enda svo sem ekki nema von þegar umferðaraukningin er aðeins 70-100% frá því sem nú er!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.7.2008 kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2008
Virðingarleysi við íbúa Kársness
Ég las í blaði á þriðjudag að mig minnir grein frá formann sjálfstæðisfélags í Kópavogi þar sem hann varði með kjafti og klóm það skipulag á Kársnesi sem nú hefur verið sent til auglýsingar. Um er að ræða skipulag sem íbúasamtök á Kársnesi hafa með formlegum og óformlegum hætti, í ræðu og riti, mótmælt og hafa ekki getað sætt sig við. Er þar fyrst og fremst um að ræða mótmæli vegna gríðarlegrar umferðaraukningar sem óneitanlega fylgja svo mikilli aukningu á íbúðum og íbúum vestast á Kársnesi.
Í réttlætisskrifum formannsins segir m.a.: Það er ekki íbúum Kársness til hagsbóta að ata þeim út í stríð við bæjaryfirvöld á röngum forsendum. Þarna ratast honum rétt orð í munn. Það er engin ástæða til að ata íbúum út í stríð við bæjaryfirvöld á röngum forsendum ... eða réttum. Meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs hefur, með réttu eða röngu, verið í stríði við íbúa Kársness frá því að fyrstu tillögur litu dagsins ljós í desember 2006. Meirihluti bæjarstjórnar segir að haft hafi verið samráð við íbúasamtökin, en við það samráð kannast íbúasamtökin ekki. http://karsnes.is/?p=272
Fjölmenni mætti á fund bæjarstjórnar Kópavogs sem fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn óskuðu eftir. Með viðveru sinni á fundinum vildu íbúar Kársness ítreka þá skoðun sína að þeir væru ekki sáttir við að senda skipulagið í auglýsingu, m.a. vegna þess að auglýsingin fer fram á sumarleyfistíma þar sem ekki allir hafa aðstöðu til þess að hafa í frammi mótmæli við skipulaginu. Á vefsíðu samtakanna er fjallað um fund bæjarstjórnar og segir þar m.a.: Okkur blöskrar virðingarleysið sem íbúum Kársness er sýnt með þessari hraðafgreiðslu málsins á hásumarfrístíma og að ekki skuli hafa verið staðið við loforð um samráð. http://karsnes.is/?p=270
Virðingarleysi bæjarfulltrúa í meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs gagnvart bæjarbúum ríður ekki við einteyming, það hefur sést í mýmörgum málum á þessu kjörtímabili og sjálfsagt er ekki öllu lokið enn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2008
Hverfagæsla einkafyrirtækja
Undanfarnar vikur hefur mikið verið rætt um þá ákvörðun meirihluta bæjarráðs Kópavogs að ráða einkaaðila til að sinna hverfagæslu í Kópavogi. Ekki eru allir á eitt sáttir við þá ákvörðun enda er það verkefni ríkisvaldsins að halda upp lögum og reglu um land allt, slíkt er enn sem komið er ekki á verksviði sveitarfélaga.
Seltjarnarnesbær reið á vaðið fyrir nokkrum árum og bætti hverfagæslu einkaaðila við þjónustu til sinna íbúa. Í sjálfu sér er allt gott um það að segja, íbúar Seltjarnarness eru tæplega 4.500 talsins og þeir búa allir á þeim 2 ferkílómetrum sem Seltjarnarnesbær nær til. Á fjárhagsáætlun Seltjarnarness ætlar bæjarstjórnin að veita 4,5 milljónum króna í verkefnið á árinu 2008.
Í fréttum hefur komið fram að Kópavogsbær áætlar að setja um 6-10 milljónir í verkefnið sem eigi að vera til reynslu til eins árs og að gert sé ráð fyrir að gæsla standi í tvo til sex tíma á dag. Gott og vel, sjálfsagt er þetta allt saman vel meint og í sjálfu sér gott að bæjarráð skuli með þessum hætti vilja stuðla að auknu öryggi íbúa bæjarins og eigna þeirra. Hitt vekur athygli að á meðan Seltjarnarnes, sem gjarnan hefur verið vísað til í þessu sambandi, veitir 4,5 milljónum á ári í verkefnið þá skuli Kópavogsbær aðeins veita í það 6-10 milljónum. Þó eru Kópavogsbúar rúmlega sex sinnum fleiri en Seltirningar og landsvæði Kópavogs fjörtíu sinnum stærra en Seltjarnarness eða 80 ferkílómetrar. Skyldi maður þá ekki ætla að ef meirihluta bæjarráðs væri fullkomin alvara með hverfagæslunni að í hana yrði sett það fjármagn sem dygði til að raunverulegt öryggi byggi þar að baki.
Seltirningar hafa nú verið með þetta verkefni í á þriðja ár. Þeir telja að 4,5 milljónir þurfi í verkefnið, sexföldun á þeirri tölu er nærri því að vera 30 milljónir en ekki 6-10 milljónir. Auk þess er landsvæði Kópavogs margfalt það sem er á Seltjarnarnesi svo eflaust þyrfti talan að vera mikið hærri ef vel ætti að vera.
Í mínum huga er ljóst að sýndarmennska fylgir þessari tillögu meirihluta bæjarráðs Kópavogs. Ef menn eru að tala í alvöru, þá þarf hugur að fylgja máli. Verkefnið eins og það stendur núna, þar sem eftirlitsbílar eiga að vera á ferli um bæinn 2-6 stundir á dag er ekki til þess fallið að auka öryggiskennd bæjarbúa. Það er sýndaröryggi og ekkert annað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.7.2008
Tónleikar Glingurs
Í kvöld fór ég á lokatónleika Tríósins Glingurs í kirkju Óháða söfnuðarins. Flottir tónleikar hjá ungu tónlistarfólki sem munu örugglega gera sig gildandi í íslensku tónlistarlífi í framtíðinni. Í tríóinu eru Sólveig Valdimarsdóttir píanóleikari, Karl Jóhann Bjarnason sellóleikari og systurdóttir mín María Konráðsdóttir, sem spilar á klarinett.
Reyndar er þetta í annað sinn sem ég fer á tónleika með Glingri, í fyrra sinnið voru þau með hádegistónleika í Þjóðmenningarhúsinu, en í sumar hefur hópurinn starfað á vegum Hins hússins í svokölluðu skapandi sumarstarfi. Það voru líka mjög skemmtilegir tónleikar og kannski örlítið meira fyrir mig þar sem þeir voru aðeins 30 mínútur en tónleikarnir í kvöld voru nærri 90 mínútum! Dálítið stór skammtur af klassískri og nútíma tónlist fyrir mitt R&B eyra. Annars var ég mjög hrifin af þeim tveimur verkum sem krakkarnir fluttu í kvöld og voru ný verk eftir nemendur Listaháskólans. Mjög flott, sérstaklega fyrra verkið sem minnti mikið á góða kvikmyndatónlist. Mjög flott!
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2008
Frakkland - Ísland 27. september 2008
Hafir þú áhuga á að koma á landsleikinn
Frakkland - Ísland í knattspyrnu kvenna er tækifærið núna!
Áhugafólk um knattspyrnu kvenna og góðan fótbolta er að mynda hóp til að fara til Frakklands á kvennalandsleik. Meðfylgjandi eru nánari upplýsingar um hvar leikurinn fer fram, ferðaáætlun og kort. Farið verður með áætlunarflugi snemma dags föstudaginn 26. september og komið heim um miðjan dag á sunnudeginum.
Gist verður á:
Hotel Mercure La Roche sur Yon
117, Boulevard Aristide Briand
85000 La Roche sur Yon
Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni: http://www.accorhotels.com/accorhotels/fichehotel/gb/mer/1552/fiche_hotel.shtml
Hafir þú áhuga, þarf þú að senda tölvupóst á brynja@ibr.is og tilgreina nafn, kennitölu, símanúmer og netfang. Heildarverð er 67.000 kr., innifalið er flug, hótel með morgunverði og rúta. Það er verið að vinna í því að útvega aðgangsmiða á leikinn fyrir hópinn og skýrist það á næstu dögum. Fljótlega þarf að senda kortanúmer fyrir flugmiðanum (41.500 kr) en þú færð sendan tölvupóst þegar að því kemur.
Tilkynna þarf þátttöku helst fyrir kl. 14.00 föstudaginn 18. júlí.
FERÐAÁÆTLUN
Föstudagur 26. september
kl. 07.40 Flug frá Keflavík, FI542
kl. 13.05 Lent í París
kl. 14.00 Rúta til La Roche, með einu góðu stoppi
kl. 19.00 Komið á hótelið og kvöldið frjálst
Laugardagaur 27. september
Leikurinn
Þegar tímasetning liggur fyrir á leikinn er hægt að kanna hvort hægt sé að fara eitthvað fyrir hann með hópinn eða þá sem það vilja.
Eftir leik ræður kylfa kasti, en það er ágætur salur á hótelinu sem við getum fengið aðgang að.
Sunnudagur 28. september
kl. 07.00 Morgunverður
kl. 07.30 Brottför rútu til Parísar
kl. 12.00 Komið á flugvöllinn
kl. 14.15 Flug frá París, FI543
kl. 15.45 Lent í Keflavík
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.7.2008
Guðlegt eða blautlegt?
Ég las áhugaverða grein í Viðskiptablaðinu frá 11. júlí sl. Þar er greinaflokkur sem heitir Myndmál, en að þessu sinni var fjallað um háhýsi. Þar segir:
Hvers kyns himnastigar hafa löngum frestað mannsandans, en álitsgjafa greinir á um hvort hvatirnar sem búa að baki því að reisa háar byggingar séu göfgar, og jafnvel guðlegar, eða þvert á móti, blautlegar og til marks um áráttu fyrir tímgunarþörf karlmanna og þeim líkamspörtum sem í hlut eiga. ...
Það er einmitt það!
Það er óhætt að segja að skiptar skoðanir hafi verið á fundi um skipulagsmál á Kársnesi í kvöld. Á fundinum voru kynntar hugmyndir um framtíðarskipulag á Kársnesi en um þær hef ég þegar fjallað og ætla ekki að endurtaka það hér. Í fyrri bloggfærslu minni sagði ég að mér þættu hugmyndirnar um margt spennandi. Sú skoðun mín hefur ekki breyst en ég kalla enn eftir því að skipulagsyfirvöld í Kópavogi komi með skynsamari nálgun á verkefnið.
Miðað við þær tillögur sem kynntar voru á fundinum er gert ráð fyrir því að umferð um Kársnesbraut aukist verulega og verði allt að 14-18 þúsund bílar á sólarhring, sem er gríðarleg aukning frá því sem nú er. Samkvæmt umferðarlíkönum þá annar Kársnesbrautin í mesta lagi 18 þúsund bílum svo þarna er verið að fara ansi nærri því sem ítrast getur orðið. Spurningin er af hverju leggja skipulagsyfirvöld í Kópavogi ekki upp með það að umferð um Kársnesbraut verði þolanleg, eigum við að segja 10-12 þúsund bílar á sólarhring ... hvað má þá fjölga mikið á nesinu? Nei, svona hugsa menn ekki þar á bæ, fyrst er athugað hvað hægt er að troða mörgum íbúðum á uppfyllingar á Kársnesi og svo er farið að spá í það hvernig hægt er að koma þessum íbúum til og frá heimilum sínum. Það er auðvitað hægt að senda bílana í gegnum eldhúsið hjá einhverjum eins og gert er í Lundi ... en hver vill það?
Hugmyndirnar sem kynntar voru í kvöld ganga út frá eftirtöldu:
- Áherslan er á magn umfram gæði.
- Engin lausn liggur fyrir í umferðarmálum.
- Gert er ráð fyrir enn frekari landfyllingum.
- Gert er ráð fyrir aukinni atvinnustarfsemi á nesinu og öll umferð vegna hennar þarf að fara í gegnum þéttbýlt íbúðarhverfi.
Enn og ítrekað gengur meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs gegn vilja íbúa á Kársnesi í skipulagstillögum sínum og hafa laumað inn auknu byggingarmagni frá því sem sæst hafði verið á í apríl á síðasta ári.
Svo er það annað, og aftur spyr ég, af hverju er ekki hægt að skipuleggja ný hverfi eins og þau voru skipulögð hér í eina tíð, með miðbæjarkjarna og íbúðum þar í kring? Landfyllingin á Kársnesi væri hreinlega kjörin til þess að hafa þjónustukjarna næst Kársnesbrautinni og lágreista íbúðabyggð þar í kring. Nei ... það á að halda í stóru skemmurnar, hugsað er fyrir blandaðri byggð íbúða- og atvinnuhúsnæðis. Þjónustuna má sækja út úr hverfinu, ég sá a.m.k. ekki betur!
Heilt yfir þá ítreka ég að mér finnast margt í þessum hugmyndum spennandi, en mér finnst að það þurfi og eigi að leggja ofuráherslu á að leysa umferðarvandann áður en nokkrar aðrar ákvarðanir eru teknar í framhaldinu. Það er eina leiðin til að sjá fram á lífvænlega og spennandi byggð á Kársnesi til framtíðar.
Samtökum um betri byggð á Kársnesi óska ég velfarnaðar í sínum störfum, þau eiga stuðning minn vísan. Á vefsíðu þeirra kemur m.a. fram að þeim blöskri það virðingarleysi sem bæjaryfirvöld í Kópavogi sýni íbúum á Kársnesi með tímasetningu á íbúafundi á hásumarfrístíma 8. júlí.
Í yfirlýsingu frá þeim segir: Svo virðist sem það sem markmið Kópavogsbæjar að sem fæstir íbúar hafi tök á að kynna sér skipulagstillögur fyrir Kársnes. Þetta gera þeir enn og aftur þrátt fyrir mótmæli íbúa. Svona lítur afrekalistinn út:
- KORTERI FYRIR JÓL - á jólaföstunni þann 17. desember 2006 voru fyrstu hugmyndirnar kynntar í Salnum og frestur upphaflega gefinn til áramóta til að skila athugasemdum.
- Á HÁSUMARFRÍSTÍMA - þann 3. júlí 2007 - voru breytingar á aðal- og deiliskipulagi auglýstar og íbúum gefinn frestur fram í ágúst (enn sumarfrístími) til að andmæla.
- Fyrir MESTU FERÐAHELGI ársins 2008 - föstudaginn 4. júlí 2008 - var auglýstur fundur á vegum bæjarins í Morgunblaðinu með FJÖGURRA DAGA FYRIRVARA.
Þetta getur ekki verið tilviljun. Það er bæjarstjórn og bæjarskipulagi til skammar hvernig þau ferðast sem þjófar að nóttu í þeirri von að sem fæstir verði þeirra varir.
ps. Ómar Stefánsson formaður bæjarráðs ber ábyrgð á störfum og gerðum meirihlutans í bæjarstjórn Kópavogs.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.7.2008 kl. 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Eftirfarandi bréf barst mér í tölvupósti:
Kæru félagsmenn og aðrir stuðningsmenn Betri byggðar á Kársnesi!
Eins og þið hafið eflaust frétt, þá boðar okkar ágæti Kópavogsbær til íbúafundar á Kársnesi í kvöld, þriðjudagskvöldið 8. júlí kl. 20, að Vesturvör 32b.
Til fundarins er boðað þvert á óskir stjórnar BBK. Enn og aftur sjá bæjaryfirvöld í Kópavogi ástæðu til að kynna í júlíbyrjun meiriháttar skipulagsbreytingar hér á Kársnesinu eða um það leyti sem sumarleyfi landsmanna standa sem hæst!
Stjórn BBK hefur frá því í apríl, átt í viðræðum við fulltrúa skipulagsyfirvalda í framhaldi af mótmælum okkar sl. haust. Því miður urðu fundirnir færri og árangurinn mun rýrari en vonir okkar stóðu til.
Skemmst er frá því að segja, að þær nýju skipulagshugmyndir sem kynntar voru stjórninni seinni partinn í júní, ganga í grundvallaratriðum þvert á kröfur íbúa og innsendar athugasemdir þeirra:
- Í stað þess að fækka íbúðum, hefur þeim verið fjölgað í yfir 1000.
- Í stað þess að draga úr umferðarþunga á Kársnesi, hefur hann verið aukinn.
- Í stað þess að taka höfnina út af skipulagi, eins og bæjarstjóri lofaði, þá er enn gert ráð fyrir henni.
- Í stað þess að draga úr atvinnustarfsemi yst á nesinu, hefur hún verið aukin.
- Í stað þess að láta staðar numið í landfyllingum, verður bætt enn frekar við þær,
- og svo mætti lengi telja.... og enn og aftur boðar bærinn gríðarlegar skipulagsbreytingar á Kársnesi í upphafi helsta sumarleyfistíma landsmanna.
Af ofansögðu er því miður ljóst, að ráðamenn bæjarins hafa kosið að hunsa mótmæli okkar og þær alvarlegu athugasemdir sem við íbúarnir gerðum.
Okkur er óskiljanlegt hvaða ástæður búa þarna að baki, vegna þess að bæjarstjórinn okkar lét hafa það ítrekað eftir sér í fjölmiðlum að tekið yrði tillit til athugasemda íbúa og að unnið yrði að nýjum skipulagshugmyndum á "lýðræðislegum" grunni.
Mætum öll og sýnum í verki andstöðu okkar við þessi vinnubrögð.
Við sættum okkur ekki við þessa framkomu.
Við mótmælum vanefndum bæjarins.
Við krefjumst lýðræðis.
f.h. Betri byggðar á Kársnesi
Arna Harðardóttir
formaður
6.7.2008
Komin heim í heiðardalinn
Mikið er gott að vera komin aftur heim eftir viku í heilsubælinu í Hveragerði. Var reyndar ekki í neinni sérstakri spa meðferð þar, engin leirböð eða nudd á hverjum degi heldur púl og puð við að halda utanum Norðurlandamót U16 kvenna. Mótið fór einstaklega vel fram og var okkur öllum til sóma, að ég tel. Vindur lék þó leiðinlega stórt hlutverk í leikjum þriðjudags og var sárt að geta ekki boðið gestum okkar uppá betra veðurfar en raun varð. En það blés jafnt á réttláta sem rangláta svo allir voru við sama borð.
Sunnlendingar tóku sannarlega vel á móti íslenska liðinu og gestaþjóðunum frá Danmörku, Noregi og Þýskalandi. Þrjár síðastnefndu þjóðirnar gistu á Hótel Selfossi og voru sérlega ánægð með þá þjónustu sem þau fengu þar. Íslenska liðið var á Hótel Örk í Hveragerði og naut þess að vera þar í hinu besta yfirlæti og rólegheitum. Sérstaklega átti það við á föstudag þegar stelpurnar áttu frídag, en þurftu þó að leysa þrautir sem lagðar voru fyrir þær. Meðal annars áttu þær að spæla egg - sem kostaði það að banka uppá í næsta húsi í bænum og fá lánaða pönnu og svo áttu þær að koma fararstjórninni á óvart. Þar kom Kjörís sterkt inn en sumar stelpurnar bönkuðu uppá í verksmiðjunni og voru leystar út með gjöfum handa öllum hópnum. Aðrar bönkuðu uppá hjá blómabóndum og fór fararstjórnin heim með dýrindis blóm er mótinu lauk. Kannski ísinn, blómin og eggin hafi hjálpað til því á laugardag léku stelpurnar síðasta leik sinn á mótinu og unnu þar sinn fyrsta og eina sigur, gegn Svíum.
Stelpurnar stóðu sig þó vel. Þær léku fantavel í sínum fyrsta leik, sem var gegn Dönum, þó hann tapaðist 0-1. Leikurinn gegn Þjóðverjum var einnig frábær, hann tapaðist þó 0-2 en Þjóðverjar unnu síðar mótið mjög svo sannfærandi. Þýska liðið lék eins og þýsk knattpsyrnulið gera gjarnan, var vel skipulagt frá öftustu línu til hinnar fremstu enda máttu Danir, Norðmenn og Frakkar (sem léku til úrslita) þola töp 8-0, 7-0 og 5-0 gegn þessu sterka liði. Því miður var leikur okkar stelpna gegn Norðmönnum ekki góður og tapaðist hann 6-2. Það var því sætt að ná að vinna Svía í leik um sæti 2-0!
En fyrst ég er farin að tala um fótbolta þá verð ég líka að monta mig af Spánverjum, Evrópumeisturunum, sem ég spáði sigri í upphafi júnímánuðar, þó það hafi ekki verið hér á blogginu. Ég mæti því í vinnuna hress og kát í fyrramálið og innleysi sigurlaunin mín í veðbankanum þar! ;-)
Ps. verð líka að benda á góða færslu á Samfó-Kóp þar sem sýnt er hvernig menn fara að því að einkavinavæða heilbrigðiskerfið! http://samfo-kop.blog.is/blog/samfo-kop/entry/581031/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Lögin mín
Eldri færslur
- Júní 2012
- Febrúar 2012
- Apríl 2011
- Desember 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Apríl 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Myndasíða
Heimasíðan mín
- www.ingibjorg.net
- Völvuspá Dollýar 2011 Spá Dollýar dulrænu fyrir árið 2011
- Lystauki - Veisluþjónusta Besta veisluþjónusta landsins. Fersk og framandi en þó hefðbundin. Mjög gott.
Bloggvinir
- Anna Einarsdóttir
- Birna Steingrímsdóttir
- Bragi Sigurðsson
- Elfur Logadóttir
- Eygló
- Gudrún Hauksdótttir
- Guðrún Jóna Jónsdóttir
- Gísli Tryggvason
- Helga Kristjánsdóttir
- Jenný Stefanía Jensdóttir
- Jón Svavarsson
- Karl Gauti Hjaltason
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Linda Samsonar Gísladóttir
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Magnús Helgi Björgvinsson
- Margrét Júlía Rafnsdóttir
- Marinó G. Njálsson
- Pjetur Hafstein Lárusson
- Samfylkingin í Kópavogi
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Sigurður Haukur Gíslason
- Sigurður Sigurðsson
- Smári Jökull Jónsson
- Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)
- TARA
- Unnur G Kristjánsdóttir
- Veiðifélagið
- Ólafur Þór Gunnarsson
- Þórarinn M Friðgeirsson
- Sigþrúður Þorfinnsdóttir
- Valdimar H Jóhannesson