Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Árið verður erfitt en það þarf enga dulræna hæfileika til að sjá það

Það var með hálfum huga sem ég lagði af stað til Dollýar vinkonu minnar, nú í lok desember, enda hafði viðskilnaður okkar síðast ekki verið eins og ég hefði kosið. Allt árið hef ég ætlað að hringja í hana og athuga hvort henni hafi orðið meint af svefninum á gólfinu en það eru sjálfsagt margir sem kannast við að árið er liðið áður en maður nær að snúa sér í hring. Áramót eru framundan og enn legg ég í hann til vinkonu minnar, til að fá hana til að spá fyrir um framtíðina.

Kreppan er Dollý, rétt eins og öðrum, hugleikin en ég sé á henni að staða mála fær mjög á hana. Hún verður heldur kreppt í andlitinu og augun skjóta hreinlega gneistum.

Áramótaspá Dollýar er á www.ingibjorg.net

Að lokum óska ég ykkur gleðilegs árs og þakka fyrir ángæjuleg samskipti í bloggheimi á liðnu ári.


Dollý er búin að spá

Um helgina kíkti ég í heimsókn til Dollýar vinkonu minnar. Hún var búin að lofa að spá fyrir um árið 2009 og ekki stóð á spádómum hjá henni síðla á laugardagskvöldið. Nú rétt áðan hafði hún hins vegar samband við mig, algjörlega brjáluð og spurði hvort ég væri búin að birta spánna (en það má alls ekki gera fyrr en síðla annað kvöld eða á gamlársdag).  Ég neitaði því vitaskuld, enda hefur spáin hvergi birst ennþá og mun ekki koma fyrir almenningssjónir fyrr en síðla annað kvöld (eða á gamlársdag).

Þegar ég fór að ganga á vinkonuna kom í ljós að hún hafði hlustað á Bylgjuna skömmu fyrir klukkan sex og þá heyrði hún viðtal við Gunnlaug stjörnuspeking. Ég hlustaði reyndar líka á þáttinn og hugsaði með mér að Dollý hafi heldur betur verið spekingsleg á laugardag, því allt sem Gunnlaugur sagði var það sama og Dollý sagði mér. Það tók mig langan tíma og loforð um koníaksflösku að róa Dollý og vona ég að  hún trúi mér þegar ég segi að spáin hennar hefur hvergi birst ennþá. Reyndar sagði ég Sigrúnu systur frá spánni í gær, en ég hef enga trú á því að hún sé í neinu sambandi við stjörnuspekinginn. Ég vona a.m.k. ekki.

Hvað um það, spáin birtist annað kvöld eða á gamlársdag. Verið bara dugleg að kíkja inn svo spá Dollýar dulrænu fyrir árið 2009 fari örugglega ekki framhjá ykkur.


Sækjast sér um líkir

Seint hefði ég trúað því á mig að vitna í orð Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra en ætla að gera það engu að síður. Á bloggi sínu í dag skammast hann út í Pál Magnússon, bæjarritara og formannsefni Framsóknarflokksins og segir:

Nú fimm árum síðar virðast forystumenn í Samfylkingu og Framsóknarflokki enn vera komnir í hár saman vegna Evrópumála og enn bíða þeir eftir því, hvað Sjálfstæðisflokkurinn segir. Páll Magnússon segir, að hafi Framsóknarflokkurinn verið „hækja“ Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn sé Samfylkingin „skækja“ Sjálfstæðisflokksins í núverandi ríkisstjórn.

Þetta orðbragð Páls er líklega til marks um nýja tíma í stjórnmálum. Ég tel það ekki til neinna bóta og ekki auðvelda neinum að gera upp hug sinn.

Það er helst næst síðasta setning Björns sem vekur mig til umhugsunar. Manni sem starfar í skjóli bæjarstjórans í Kópavogi er vorkunn, bregði hann fyrir sig orðbragði sem þessu. Slíkt er alkunna í bæjarstjórn Kópavogs og fer þar bæjarstjórinn jafnan fremstur meðal jafningja. Oft hefur verið sagt að menn smitist af því umhverfi sem þeir starfa í og þeim háttum sem þar eru hafðir í hávegum. Orðbragð Páls Magnússonar í garð Samfylkingarinnar kemur mér því engan veginn á óvart. Björn Bjarnason ætti kannski frekar að beina umvöndunum sínum til yfirboðara Páls í Kópavogi og biðja hann um að gæta orða sinna. Það er þaðan sem Páll fær munnsöfnuðinn og sjálfsagt kannast hann vel við það að vera skækja eða hækja Sjálfstæðisflokksins, þann starfa hafa Páll og félagar hans í Framsóknarflokknum í Kópavogi haft frá árinu 1990.


Hangikjötið tilbúið fyrir jóladag

Eftir að hafa pirrað mig ögn með Sigrúnu systur minni yfir formanni eða framkvæmdastjóra Húseigendafélagsins og skötuönugheitum hans, og eftir að hafa etið mig á hliðina með rétti dagsins þá kom ég heim og setti hangikjötið í pott. Ég, rétt eins og Sævar Karl, hef einfaldan smekk og vil væna flís af feitum sauð að bíta í á jólunum ... kertaljós (ok þið þekkið framhaldið) það er því mitt val að fá mér frekar frampart en læri þegar kemur að hangikjöti. Í ár fékk ég mér Fjallahangikjöt að norðan og ég fann það þegar suðan kom upp í pottinum að það er verkað á gamla góða mátann! Meiri reyklykt en salt og lyktin auk þess þéttari. Þetta er því pottþétt kjöt til að yfirgnæfa skötulyktina sem fer svona óskaplega mikið í taugarnar á húseigendafélagsformanninum (framkvæmdastjóranum).

Ef eigendum íbúða í fjölbýli verður bannað að sjóða skötu á þeirra eigin heimili þá krefst ég þess að þeim verði einnig meinað að reykja innandyra eða utan eða í næsta nágrenni við hýbýli sín ... sígarettufnykur er viðbjóður og það er læknisfræðilega sannað að hann er heilsuspillandi, ekki aðeins fyrir þá sem reykja, heldur einnig hina sem verða fyrir honum. Annars er ég komið í slíkt jólaskap að ég nenni alls ekki að pirra mig lengur á þessu og óska formanninum/framkvæmdastjóranum og öllum þeim sem eta skötu eða ekki gleðilegra jóla. Verið góð við hvert annað og umburðarlynd ... Knús!


Skata er góð

Á Þorláksmessu get ég ekki látið hjá líða að skýra frá dálæti mínu á skötu. Þessi dýrindis matur var á æskuárum mínum á boðstólum í hádeginu á laugardögum ásamt saltfiski, þótti þá herramannsmatur og þykir enn. Í hádeginu í dag fór ég í Höfðakaffi og fékk mér smakk af skötunni en í kvöld liggur leiðin í foreldrahús þar sem önnur veisla bíður. Ummmmm ... yndislegt! Jólin koma, jólin koma!


Gleðileg jól

Kæru vinir nær og fjær,

ég sendi ykkur mínar bestu óskir um gleðiríka jólahátíð og farsæld á komanda ári. Það verður lítið bloggað fram að áramótum enda hefur Dollý dulræna sótt fast að mér undanfarna daga. Áramótaspá hennar verður hér á blogginu að kvöldi 30. desember eða síðdegis þann 31.

Spánna fyrir árið 2008 má lesa í skjalinu sem fylgir neðst í þessari færslu.

Jólakort_IH


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Pappírsverksmiðja

Það er ekki í huga mér að mótmæla því ef einhver kemur með hugmyndir að nýjum atvinnumöguleikum á Íslandi. Sjálfsagt er þessi pappírsverksmiðja hið besta mál en ég komst ekki hjá því að hugsa um ferð sem ég fór til Oulu í Finnlandi fyrir átta árum. Hefur einhver fundið lyktina sem kemur frá pappírsverksmiðju? Pinch
mbl.is Pappírsverksmiðjan þarf ekki í umhverfismat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10 bestu íslensku lagatextarnir

Ægir bloggvinur minn fékk Gylfa Ægisson í heimsókn til sín í vikunni. Ægir var svo uppnuminn af heimsókninni að hann hlustar nú á Gústa Guðsmann dags og morgna. Af því tilefni datt mér í hug að setja niður 10 bestu íslensku lagatextana. Enn sem komið er treysti ég mér ekki til að gefa upp í hvaða röð ég myndi setja þá, ætla að geyma það í nokkra daga enn.

  • Söknuður (Vilhjálmur Vilhjálmsson)
  • Syndir feðranna (Bubbi Morthens)
  • Tvær stjörnur (Megas)
  • Gústi Guðsmaður (Gylfi Ægisson)
  • Líf (Stefán Hilmarsson)
  • Pípan (Ragnar Ingi Aðalsteinsson)
  • Róninn (Magnús Eiríksson)
  • Skýið (Vilhjálmur Vilhjálmsson)
  • Vetrarsól (Ólafur Haukur Símonarson)
  • Jesú Kristur og ég (Vilhjálmur frá Skálholti)

Eignin mín í Exista

Er í dag 800 krónur. Vill einhver kaupa?

Mótmæli á Alþingi og við Ráðherrabústaðinn

Hér á blogginu mínu er til færsla þar sem ég lýsi þeirri skoðun minni að mér finnist ekki rétt af mótmælendum að láta reiði sína bitna á dauðum hlutum, s.s. með því að grýta eggjum í Alþingishúsið. Þeirri skoðun held ég enn á lofti, mótmæli eiga að vera friðsamleg, líkt og þau hafa verið á Austurvelli. Nú er ég ekki að halda því fram að mótmælin í Alþingishúsinu í gær eða við Ráðherrabústaðinn í morgun hafi verið ofbeldisfull eða ófriðsamleg. Þvert á móti voru þau með friðsamasta móti og þó þeim hafi verið mætt af fullu afli frá laganna vörðum þá fékk ég ekki séð að þar hafi brotist út neitt offors eða skrílslæti.

Í dag hafa verið viðtöl við ráðherra og fleiri alþingismenn sem flestallir hafa lýst þeirri skoðun sinni að borgarar landsins eigi fullan rétt á því að mótmæla. Því er ég sammála. Mótmælendur mega líka mæta á palla Alþingis og fylgjast með því sem þar fer fram. Þó einhverjir þeirra hafi hrætt líftóruna úr söku þingmönnum með frammíköllum þá voru mótmælin friðsamleg, en þeim var mætt af fullu afli. Ég er ekki viss um að allir þeir sem ætluðu að mæta á þingpalla hafi ætlað sér að vera með með háreisti, sem sannarlega gefur tilefni til brottvísunar úr húsinu. Það stendur í laganna bókstaf að Alþingi sé friðhelgur staður og þar má ekki hafa í frammi háreisti. Þeir sem brjóta lögin þurfa að svara fyrir það. En ég veit ekki betur en að þingfundir skuli fara fram í heyranda hljóði og því var ekki rétt að varna unga fólkinu - upp til hópa - aðgangi að þingfundi.

Í morgun mættu mótmælendur við Ráðherrabústaðinn. Þar mættu þeim laganna verðir sem vörnuðu þeim að koma í veg fyrir að ráðherrar gætu mætt á ríkisstjórnarfund. Ég ætla ekki að mæla því bót að mótmælendur komi í veg fyrir að menn geti mætt í vinnuna. Mótmælendur mega að mínu viti hins vegar gjarnan láta ráðherra og aðra ráðamenn vita hvað þeim finnst um stöðu mála. Í stöðu eins og þeirri sem nú er uppi í þjóðfélaginu er eðlilegt að ungt fólk sé reitt og sárt og að það láti í sér heyra á þessum vettvangi. Ráðamenn eiga að hlusta á þetta unga reiða fólk og það á að samsama sig með því. Því þeirra er framtíðin, þau munu landið erfa.


Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband