Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
29.8.2007
Makalausar árásir bæjarstjórans
Það getur verið skemmtilegt á bæjarstjórnarfundum, stundum. Það er reyndar skemmtilegast að vera á bæjarstjórnarfundum þegar bæjarstjórinn mætir ekki. Þá er jafnvel hægt að eiga málefnalegar rökræður við aðra bæjarfulltrúa. Slíkt er ómögulegt þegar bæjarstjórinn er mættur. Hann svarar flestu með skætingi, útúrsnúningi og önugheitum. Í gær brá hann sér hins vegar í annan gír.
Fundurinn í gær snerist eingöngu um fundargerð skipulagsnefndar þar sem m.a. var samþykkt að hefja skipulagningu á nýju byggingarlandi í Vatnsendahlíð. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fagna því að framboð byggingarlóða sé aukið en höfum engu að síður varann á því skipulagsmál í Kópavogi hafa undanfarin misseri ekki beint farið vel í íbúana. Við lögðum því fram bókun þar sem við m.a. vörum við aukinni mengun í Elliðavatni og þrengslum við fyrirhuguð hesthús á svæðinu. Einnig hefðum við kosið að taka meira land en gert er ráð fyrir undir útivistarsvæði.
Undir lok fundarins var rætt um nýbyggingu sem fyrirhugað er að reisa á lóð við Breiðahvarf. Þar brá svo við að bæjarstjórinn fór í fluggírinn og aldrei hef ég orðið vitni að eins miklum dónaskap og fyrirlitningu í garð eins bæjarbúa og Gunnar sýndi á fundinum í gær. Er það með ólíkindum að forseti bæjarstjórnar, sem á fundinum í gær var Ármann Kr. Ólafsson, skuli ekki setja ofaní við ræðumenn þegar þeir ráðast að nafngreindum íbúum bæjarins með þeim hætti sem bæjarstjórinn gerði í gær.
27.8.2007
Hvar var Mogginn ...
Festi öngul í fingrinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.8.2007 kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2007
Samstaða íbúa ber árangur
Stundum er sagt að það þýði ekki að agnúast út í stjórnvöld, þegar stjórnmálamennirnir eru komnir að kjötkötlunum er ekkert sem nær að draga þá þaðan. Íbúar Smárahverfis hafa sýnt fram á hið gagnstæða. Með mikilli og skipulagðri vinnu hafa þeir náð að vinna eina orrystu og það er gott. En stríðið er langt því frá búið.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Kópavogs hefur farið fram í þessu máli, eins og fleirum, með offorsi þar sem reynt hefur verið að pína fram skipulagsbreytingar í eldri hverfum sem eru í engri sátt við þá íbúa sem þar eru fyrir. Sú ofuráhersla sem meirihlutinn hefur lagt í að knýja fram þessar breytingar er sérstaklega undarleg í ljósi þess að í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segir m.a. að endurbætur og endurskipulagning á eldri hverfum eigi að vera í sátt við íbúa.
Kópavogsbúar eru orðnir langþreyttir á yfirgangi meirihlutans sem hefur stundað það að skella fram ótrúlegum tillögum í skipulagningu innan eldri hverfa og draga síðan niður byggingarmagnið og kalla það að koma til móts við íbúa. Dæmi um það má sjá í Lundarhverfinu og í þeim hugmyndum sem nú liggja fyrir á Kársnesi. Ég tel það liggja ljóst fyrir að annað slíkt dæmi mun koma fram í skipulagningu á Nónhæð. Það er því mikilvægt að íbúasamtökin á Nónhæð missi ekki slagkraftinn sem er í starfi þeirra heldur haldi áfram að berjast fyrir sínum málum af sama krafti og þau hafa gert hingað til.
Við skulum heldur ekki gleyma því að það eru íbúarnir sem móta bæinn og það er þeirra vegna sem það er gott að búa í Kópavogi!
Skipulagsnefnd hafnaði tillögum um Nónhæð og Arnarsmára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.8.2007
Ótrúlegar ásakanir bæjarstjórans
Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, er hinn víðfrægi Fúll á Móti í Mogganum á laugardag. Þar segir orðrétt: Gunnar I Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir að talsmenn samtakanna Betri byggð á Kársnesi, sem séu reyndar samtök sem hafi aldrei verið formlega stofnuð, fari mjög frjálslega með tölur og sannleika í sambandi við málefni Kársnessins og er mjög óhress með ásakanir og fullyrðingar Örnu Harðardóttur í þessu efni.
Því er til að svara að samkvæmt upplýsingum á heimasíðu samtakanna, www.karnses.is, þá ákvað hópur áhugafólks í júní 2007 að stofna samtök um bætt skipulag á Kársnesi. Stofnfundur samtakanna Betri byggð á Kársnesi var haldinn þann 20. júní 2007 í Kaffibúðinni, Hamraborg. Til fundarins voru boðaðir þeir sem gert höfðu athugasemdir við rammaskipulagið. Lög félagsins voru samþykkt og sjö manna stjórn kjörin. Hana skipa: Arna Harðardóttir, Auður Arna Eiríksdóttir, Bjarni Bergsson, Hanna Styrmisdóttir, Indriði Björnsson, Rebekka Rán Samper og Þórarinn Ævarsson.
Ótrúlegar ásakanir bæjarstjórans
Reyndar er greinin, sem er á síðu 6 í Mogganum, með hreinum ólíkindum og bæjarstjórinn ætt að líta í eigin barm áður en hann fer með ótrúleg ósannindi og bull í blöðin eins og hann gerir í þessari grein. Fullyrðingar bæjarstjórans eru hver annarri verri en hann bítur nálina úr skömminni er hann segir að Málið væri kynnt þannig að bæjarstjórinn væri handbendi braskara, gróðrapunga og verktaka, honum líkt við mestu morðingja síðustu aldar fyrir það að vilja byggja og bæta og ekki væri gaman að sitja undir þessu.
Að ásaka menn um að vera morðingi er það versta sem hægt er að saka menn um. Ég tel mig hafa fylgst vel með málinu fram til þessa og mætt á flesta þá fundi sem boðaðir hafa verið. Aldrei hef ég heyrt nokkurn vera borinn þeim sökum að vera líkt við mestu morðingja síðustu aldar, nema þegar Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, ber það sjálfur á borð í greininni í dag. Bæjarstjórinn vill kannski með þessu draga menn niður á ótrúlega lágt plan en ég er hrædd um að honum verði ekki að ósk sinni. Hann verður einn að leik í svona drullumalli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2007
Hjartanlega sammála
Undanfarin ár höfum við Víðir Sigurðsson ekki deilt skoðunum um það hvort fækka beri liðum í efstu deild í knattspyrnu. Víðir hefur skrifað margar lærðar greinar um málið undanfarin ár, bæði í blöð og ekki síður í bók sína Íslensk knattspyrna. Minn málflutningur hefur aftur á móti farið meira fram á meðal manna sem hafa áhuga á framgangi íslenskrar kvennaknattspyrnu, auk þess sem ég hef nokkrum sinnum lýst þeirri skoðun minni á ársþingi KSÍ að það beri ekki að fækka liðum í efstu deild.
Vissulega hef ég efast og á stundum hallast að því að réttast væri að fækka í deildinni en þegar ég hef lagst yfir málið hef ég ávallt komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki rétt. Hef ég haldið í vonina um að félögin í efstu deild styrki sig hóflega með erlendum leikmönnum, vandi til verka í yngri flokkum og setji meiri metnað í það starf sem unnið er meðal kvennaflokkanna. Þannig muni liðin styrkjast og eflast og þá mun koma að því einn góðan veðurdag að lið eins og Valur, KR og Breiðablik munu mæta jafnokum sínum á vellinum.
Undanfarin ár hafa lið eins og Keflavík, Fjölnir og Fylkir lagt mikla áherslu á yngriflokka starf sitt í kvennaflokkunum. Það er að skila þeim núna. Ég held að það sé ekki á neinn hallað þó ég nefni Fjölni sérstaklega, líkt og Víðir gerði í grein sinni í Morgunblaðinu í dag. Þar hefur verið unnið af miklum metnaði í yngri flokkunum og stelpunum hefur verið sinnt af mikilli samviskusemi og dugnaði. Fjölnir er að uppskera eins og til var sáð. Liðið er í 5. sæti Landsbankadeildarinnar og hefur fyrir löngu tryggt sæti sitt í deildinni á næsta ári. Af þeim 16 leikmönnum sem tekið hafa þátt í leikjum liðsins í Landsbankadeildinni í sumar eru 12 leikmenn uppaldir hjá félaginu, tveir leikmenn koma erlendis frá og tveir leikmenn eru uppaldir í öðru félagi hér heima. Þetta er frábær árangur og sýnir svo ekki verður um villst að öflugt uppeldisstarf heima fyrir er vænlegt til árangurs.
Vissulega má líka fara aðrar leiðir og sanka að sér öflugum og efnilegum leikmönnum frá öðrum félögum, slíkt tel ég ekki vænlegt til langtíma árangurs. En framfarir í kvennaboltanum hér heima hafa verið miklar á undanförnum árum. Miklu fleiri hafa fengist til starfa innan kvennaflokkanna en áður og stuðningur við stelpurnar hefur aukist jafnt og þétt, á það ekki síst við um stuðning ýmissa fyrirtækja sem hafa í auknum mæli séð þann ávinning sem af því hlýst að tengja nafn fyrirtækisins við öfluga uppbyggingu kvennaknattspyrnunnar.
Fyrir nokkrum árum, sennilega einum 7-8 árum, spáði ég því að Ísland myndi taka þátt í úrslitakeppni Evrópumóts kvennalandsliða. Fáir tóku undir þá spádóma mína á þeim tíma en nú er lag fyrir íslenska kvennalandsliðið að trygja sér farmiðann til Finnlands 2009. Eins og Víðir bendir á í grein sinni þá hefur árangur Íslands í Evrópukeppni félagsliða undanfarin ár verið hreint magnaður. Breiðablik og Valur hafa bæði komist í 8 liða úrslit keppninnar og ég hef fulla trú á því að Valsstúlkur muni endurtaka leikinn nú í haust. Til þess hafa þær leikmannahóp sem býr yfir þeim styrk og vilja sem þarf til að ná árangri.
Sumir myndu nú ekki trúa því að ég segði þetta en ég læt mig hafa það að segja; Áfram Valur, Áfram Ísland og áfram stelpur! Já og að sjálfsögðu Áfram Breiðablik!
Ísland á að vera með eina sterkustu deild í Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.8.2007
Málefnasamningur marklaust plagg?
Í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem skipa meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs, segir m.a. Endurbætur og endurskipulagning á eldri hverfum verði í sátt við íbúa.
Eftir að hafa setið fundinn í Salnum í gærkvöldi þá læðist að manni sá grunur að það sé enginn vilji innan meirihlutans til að standa við sinn eigin málefnasamning. Á fundinum í gærkvöldi var ekki að sjá neina sátt milli íbúa og meirihluta bæjarstjórnar, heldur þvert á móti, og er ekki annað að sjá en að sá trúnaðarbrestur sem Arna Harðardóttir sagði að væri orðinn milli aðila sé sannarlega til staðar.
Það var engan sáttatón að finna í orðum skipulagsyfirvalda sem höfðu framsögu á fundinum og var greinilegt að þeir höfðu ekki lagt mikið í undirbúning fyrir fundinn. Var þess enda ekki lengi að bíða að bæjarstjórinn ásakaði íbúana um að hagræða sannleikanum og hafa í frammi rangfærslur þegar það eina sem þeir gerðu var að vitna til þeirra skýrslna sem bærinn hefur sjálfur lagt fram í málinu.
Það er algjörlega ljóst að í þessu máli er ekki verið að vinna í sátt við íbúa Kársness, ekki frekar en við íbúa Smárahverfis, sem nú eiga von á því að fá 14 hæða turn í bakgarðinn hjá sér á Nónhæðinni.
Kópavogshöfn verður ekki stækkuð gegn vilja íbúanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2007
Magnaður fundur í Salnum
Í gærkvöldi efndu samtökin Betri byggð á Kársnesi til opins fundar um skipulagsmál á Kársnesi. Á fundinum voru flutt nokkur erindi, m.a. frá Örnu Harðardóttur, formanni BBK, og Gunnari Birgissyni bæjarstjóra. Salurinn var þéttsetinn og var hljóði og mynd frá fundinum varpað fram í anddyri á meðan á honum stóð.
Skemmst er frá því að segja að stemmingin á fundinum var mögnuð. Gríðarlegur einhugur var meðal fundarmanna og í fyrirspurnum í lok fundarins kom glögglega í ljós að íbúum Vesturbæjar Kópavogs er ákaflega mikið niðri fyrir vegna þeirra skipulagshugmynda sem nú liggja frammi.
Fundurinn var að mestu málefnalegur og var framsaga forsvarsmanna BBK í upphafi fundarins ákaflega vel undirbúin en það sama verður þó ekki sagt um þá sem voru til svara fyrir hönd bæjarins, bæjarstjórann og skipulagsstjórann. Það má undrun sæta að þeir skuli ekki hafa komið betur undirbúnir til fundarins, efni hans lá fyrir og það getur hreinlega ekki velkst fyrir þeim hvaða málflutningur kæmi fram á fundinum af hálfu BBK.
Undir lok fundarins var borin upp áskorun á bæjaryfirvöld þess efnis að þau falli frá áformum sínum um skipulagsbreytingar á Kársnesi. Einnig er þess krafist að nýjar hugmyndir um landnýtingu á Kársnesi verði ekki lagðar fram nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Í áskoruninni er mestur þungi lagður á að fallið verði frá hafnsækinni starfsemi á nesinu og að horfið verði frá áformum um stórskipahöfn. Þetta er í fullkomnum takti við málflutning Samfylkingarinnar í bæjarstjórn sem hefur ítrekað og sífellt bent á að ekki sé ásættanlegt að ráðast í frekari framkvæmdir við uppskipunarhöfn, slíkt sé tímaskekkja og slíkri starfsemi væri betur borgið í höfnum sem þegar eru til og eiga greiðari leið með varning til og frá höfninni.
Auk þess sem fulltrúar Samfylkingarinnar hafa fjallað ítarlega um málið á bæjarstjórnarfundum hef ég ítrekað fjallað um höfnina hér á heimasíðunni og bendi á að neðst í grein um aukabæjarstjórnarfund sem haldinn var á dögunum hef ég tekið saman nokkrar greinar sem ég hef ritað hér á vefinn. Að auki má benda á bókanir sem fulltrúar Samfylkingarinnar hafa lagt fram hvenær sem málið hefur komið á borð skipulagsnefndar, bæjarráðs og bæjarstjórnar þar sem áformum þeim um breytt skipulag á Kársnesi sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur boðað er mótmælt.
Það er því ekki rétt sem fram kom undir lok fundarins að minnihlutinn stæði aðgerðarlaus hjá meðan meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kæmu óvinsælum skipulagshugmyndum í framkvæmd. Fulltrúar Samfylkingar í bæjarstjórn hafa staðið í fæturnar í þessu máli og beitt öllum þeim ráðum sem tiltæk eru til að mótmæla þeim gerræðislegu vinnubrögðum sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks beitir í þessu máli og það munum við gera áfram, það liggur algjörlega ljóst fyrir.
Ég óska samtökunum um betri byggð á Kársnesi farsældar í störfum sínum og ég er þess fullviss að sú órofa samstaða sem er um málið meðal íbúa mun færa þeim farsæla lausn á málinu.
Bókanir Samfylkingar vegna breytts skipulags á Kársnesi (aðeins lítið brot þeirra er komið inná síðuna, ég er að safna þeim saman)
Áskorunin í heild sinni.
Fundurinn skorar á bæjaryfirvöld í Kópavogi að falla frá áformum um:
- stækkun Kópavogshafnar og nýtingu hennar í atvinnuskyni
- gerð landfyllingar
- aukningu atvinnuhúsnæðis og hafnsækna starfsemi á hafnarsvæði
- frekari íbúafjölgun á Kársnesi
Nýjar hugmyndir varðandi landnýtingu á vestanverðu Kársnesi verði ekki lagðar fram nema:
- að fyrir liggi nákvæm útfærsla á lausnum í umferðarmálum
- að tryggt sé að hljóðvist og svifryksmengun sé í samræmi við ítrustu kröfur um heilsuvernd
- að gerðar verði mælingar á núverandi ástandi og vandað mat á umhverfisáhrifum
- að kannaður verði vilji íbúa varðandi framtíðarskipulag á Kársnesi
- að sett verði fram heildrænt skipulag með hagsmuni íbúa að leiðarljósi
13.8.2007
Hvorki fyrr né síðar...
Fyrir 20 árum þegar Kringlan opnaði var ég að vinna sem flokksstjóri í Vinnuskóla Kópavogs og ákvað að skoða þetta ferlíki á fyrsta degi. Þar sem ég var komin langleiðina norður Kringlumýrarbrautina þá fór ég að hugsa að klæðaburður minn, sem voru í stíl við atvinnuna; stígvél, lopapeysa og gallabuxur, væru ekki tækur klæðnaður í svona glæsiverslunarmiðstöð eins og Kringlan er. Ég sneri því heim aftur, skipti um föt og mætti svo í Kringluna ásamt tugþúsundum annarra Íslendinga.
Eftir á að hyggja þá skammast ég mín næstum fyrir að hafa gert þetta því hvorki fyrr né síðar hef ég látið það hafa áhrif á mig hvaða föt prýða mig þegar ég fer í búðir.
Ég óska Kringlunni til hamingju með afmælið!
98 milljónir gesta á tuttugu árum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.8.2007
Ekkert hlustað á íbúana
Í gær var haldinn aukafundur í bæjarstjórn Kópavogs þar sem eina mál fundarins var tillaga að deiliskipulagi fyrir einn reit af 10 á vestanverðu Kársnesi. Undanfarna mánuði hafa íbúasamtök í Vesturbæ mótmælt fyrirhuguðu skipulagi kröftuglega og ítrekað farið með umkvartanir sínar í fjölmiðla. Auk þess hafa íbúar á svæðinu borið fram mótmæli vegna skipulagsins á formlegan hátt í gegnum skipulagssvið bæjarins.
Það skal tekið fram strax að persónulega hef ég nákvæmlega ekkert á móti endurskipulagningu svæðisins og uppbyggingar þess. Ég fagna því að hugmyndir um slíkt séu komnar fram enda eru margar þeirra bygginga sem nú eru á svæðinu barn síns tíma en eru nú lýti á svæðinu og það er eðilegt að menn hugi að því að nýta þá miklu landkosti sem þarna eru.
En offorsið í gjörðum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur farið langt úr hófi fram. Upphaflegar hugmyndir voru slíkar að á kynningarfundi sem haldinn var í Salnum féllust mönnum hendur. Enda var það svo að þó svo að enginn fulltrúi meirihlutans hafi tjáð sig á þeim fundi þá fullyrtu þeir þegar í óformlegum samtölum í fundarhléi að þær skipulagsbreytingar sem þar voru kynntar yrðu aldrei að veruleika.
Nú slá þessir sömu menn sér á brjóst og segja að verulega hafi verið dregið úr byggingarmagni á svæðinu þegar í raun hefur lítið sem ekkert verið hlustað á mótmæli íbúana sem vilja miklu minni og lágreistari byggð og er það með ólíkindum að meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks skuli hafa geð í sér til að hundsa svo kröftug mótmæli. Þeirra skoðun er að keyra málið í gegn með góðu eða illu og er ekki laust við að sá grunur læðist að manni að hagsmunir annarra en íbúa á svæðinu séu hafðir að leiðarljósi í málinu.
Mótmæli íbúanna hafa að mestu leytið snúið að fjórum þáttum þar sem þess er krafist að:
- svæðið verði skipulagt sem heild
- sannfærandi lausn af umferðarmálum fyrir allan Vesturbæinn liggi fyrir
- stórskipahöfn verði lögð af
- samráð og samvinna verði höfð við íbúana við skipulag svæðisins
Kröfur íbúanna eru bæði eðlilegar og réttmætar. Þarna eru engar ofurkröfur á ferðinni og krafan um samráð er einfaldlega krafa um nútímalega stjórnsýsluhætti sem byggja að miklu leyti á samráði og samstarfi við íbúa. Þá getur það ekki verið skipulagsyfirvöldum í Kópavogi ofviða að sýna íbúum hvernig þeir hyggjast skipuleggja svæðið í heildina.
Hvað varðar kröfurnar um að sýna fram á að sú fjölgun sem fyrirhuguð er verði ekki umferðinni í Vesturbænum ofviða og að leggja beri hugmyndir um stórskipahöfn af eru mjög samofnar. Aðkoma að því svæði sem hér um ræðir frá Reykjavík er að mestu í gegnum eina götu, Kársnesbraut. Þeir íbúar sem munu búa í nýju hverfunum, ekki aðeins vestast á nesinu heldur einnig á uppfyllingu norðanvert á sama nesi munu nota Kársnesbrautina til að komast til og frá vinnu. Flutningar um stórskipahöfn munu einnig fara fram í gegnum Kársnesbraut, sem og öll sú umferð sem þegar fylgir núverandi og komandi starfsemi á svæðinu.
Bæjarstjórinn, Gunnar I. Birgisson, hélt því fram í bæjarstjórn í gær að umferð sem tengdist stórskipahöfn myndi fara fram á þeim tíma þar sem flestir íbúar yrðu í vinnu. Það má svo sem vel vera, en flutningarnir munu fara fram á þeim tíma sem börn þessara sömu íbúa eru í skóla og eru einmitt á ferli um og við Kársnesbraut til þess m.a. að komast að nýjum heimilum sínum vestast og norðan á nesinu. Skólar í Vesturbænum eru miðsvæðis á nesinu og þangað munu börnin fara til að sækja sitt nám.
Fleiri færslur um sama mál á vefsíðunni www.ingibjorg.net:
- Enga höfn á Kársnesi (21.06.07)
- Átök á bæjarstjórnarfundi (27.03.07)
- Framkvæmum í sátt við íbúana (03.02.07)
- Hafnarsvæði úr takti við tímann (29.01.07)
- Stórskipahöfn skal það vera (13.12.06)
- Bútasaumur meirihlutans (12.12.06)
- Bæjarstjórnarfundur (17.08.07)
Samþykkt að fjölga íbúðum á Kársnesi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.8.2007
Mikið af berjum
Já það er sannarlega mikið af berjum á Vestfjörðum. Var þar í síðustu viku og tíndi ber bæði á Ströndum og á Barðaströndinni. Krækiberin voru frábær á Ströndunum, stór, safarík og góð en á Barðaströnd báru aðalbláberin af en nóg var af þeim og voru þau orðin vel stór þó sum þeirra mættu alveg bæta á sig einni til tveimur vikum til viðbótar.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af krækiberjalyngi og bláberjalyngi á Ströndum, nánar tiltekið í landi Asparvíkur.
ps. ég tók myndina sem birtist á vef mbl.is, en þar er ég rangfeðruð og sögð Haraldsdóttir, sem er ekki rétt enda hef ég verið talin Hinriksdóttir til þessa dags.
Berjaspretta góð á Vestfjörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt 29.10.2007 kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lögin mín
Eldri færslur
- Júní 2012
- Febrúar 2012
- Apríl 2011
- Desember 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Apríl 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Myndasíða
Heimasíðan mín
- www.ingibjorg.net
- Völvuspá Dollýar 2011 Spá Dollýar dulrænu fyrir árið 2011
- Lystauki - Veisluþjónusta Besta veisluþjónusta landsins. Fersk og framandi en þó hefðbundin. Mjög gott.
Bloggvinir
- Anna Einarsdóttir
- Birna Steingrímsdóttir
- Bragi Sigurðsson
- Elfur Logadóttir
- Eygló
- Gudrún Hauksdótttir
- Guðrún Jóna Jónsdóttir
- Gísli Tryggvason
- Helga Kristjánsdóttir
- Jenný Stefanía Jensdóttir
- Jón Svavarsson
- Karl Gauti Hjaltason
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Linda Samsonar Gísladóttir
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Magnús Helgi Björgvinsson
- Margrét Júlía Rafnsdóttir
- Marinó G. Njálsson
- Pjetur Hafstein Lárusson
- Samfylkingin í Kópavogi
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Sigurður Haukur Gíslason
- Sigurður Sigurðsson
- Smári Jökull Jónsson
- Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)
- TARA
- Unnur G Kristjánsdóttir
- Veiðifélagið
- Ólafur Þór Gunnarsson
- Þórarinn M Friðgeirsson
- Sigþrúður Þorfinnsdóttir
- Valdimar H Jóhannesson