Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Vestfirðir í allri sinni dýrð

Strax að U19 ára mótinu loknu fór ég ásamt tveimur systrum mínum, Bryndísi og Sigrúnu, í ferðalag um Vestfirði. Hófum við leik strax síðdegis á mánudag er við ókum norður á Hólmavík þar sem við gistum á bænum Kirkjubóli í Steingrímsfirði, þar sem gistingin kostar 2.300 krónur nóttin. Á þriðjudeginum skoðuðum við okkur vel um á Ströndunum, fórum meðal annars í heimsókn að Asparvík (en þar er Jón Bjarnason þingmaður VG fæddur) og ókum sem leið lág norður á Gjögur og allt norður í Krossneslaug við Trékyllisvík.

Eftir að hafa spókað okkur um Strandir ókum við sem leið liggur til Ísafjarðar þar sem við gistum á Gistiheimili Áslaugar, þar sem gistingin kostar 1.800 krónur nóttin. Á leiðinni þangað hringdi ég í bæjarstjórann á Ísafirði, Halldór Halldórsson, enda hafði ég fyrir löngu sagt honum frá fyrirætlun minni að aka um Vestfirðina á þessum tíma og hann tekið af mér loforð um að hringja í sig. Tilviljunin olli því að þegar við komumst loks í símasamband eftir að hafa ekið um Djúpveg, nr. 61, yfir Steingrímsfjarðarheiði. Vegurinn þessa leið var þokkalegur en þar eru að finna vefmyndavélar sem sýna ágætlega ástand vegarins.

Morguninn eftir skoðuðum við okkur um á Ísafirði en héldum síðan sem leið lá til Bíldudals þar sem við gistum næstu nótt í mjög fínu svefnpokaplássi sem kostaði okkur 2.000 krónur nóttin. Á leið okkar til Bíldudals skoðuðum við m.a. Súðavík, Flateyri, Suðureyri, Bolungarvík, Hnífsdal og fleiri staði. Auk þess stoppuðum við lengi við Dynjanda, sem er mestur fossa á Vestfjörðum. Sannarlega tilkomumikill foss og glæsilegur. Vegurinn frá Ísafirði til Bíldudals er nr. 63. Sannast sagna var hann sá versti á leið okkar (ef undan eru skildir allra nyrstu vegirnir á Ströndum). Makalaust að ekki skuli vera betri samgöngur frá Bíldudals til Ísafjarðar og má eiginlega telja að með því sé verið að reka Barðstrendinga til þess að leita frekar í suðurátt en norður til að fá þjónustu.

Það hitti svo á að þegar við vöknuðum að morgni dags í Bíldudal þá var Sigrún, systir okkar Binnu, orðin árinu eldri og farin að fylla seinni hluta fimmtugsaldurins. Það sá þó ekki stóran mun á henni en þó vorum við ekki frá því að hún hefði vitkast örlítið um nóttina. Það var því verkefni okkar Bryndísar að sjá til þess að dagurinn rynni Sigrúnu ekki úr minni og verður ekki annað sagt en að okkur hafi tekist frábærlega til. Við fórum á sjóstöng frá Bíldudal. Hann Jón, sem virðist vera hinn mesti kraftaverkamaður á staðnum, útvegaði okkur bát, mann, stangir og olíu svo okkur var ekkert að vanbúnaði að róa til fiskjar. Veiðin var mögnuð, við fönguðum um 100 kg. af vænum þorski og fluttum með okkur í land (ég verð að segja frá því að ég hef sennilega halað inn um 70 kg. af þessum 100!).

Nú voru góð ráð dýr, hvað átti að gera við aflann? Ekki treystum við okkur til að taka aflann með okkur suður, enda hefði hann bæði orðið illa lyktandi og skemmdur eftir nokkura daga volk í nýja bílnum mínum. Þær systur mínar vildu þó endilega gera að aflanum, flaka og pakka og varð það úr að þær rifjuðu upp gamla takta úr Barðanum og Búr og flökuðu öll ósköpin. Þessu var síðan pakkað í poka, sett í skottið og ekið sem leið lá til Patreksfjarðar (um Tálknafjörð þar sem við syntum dálítið). Þegar við komum á Patreksfjörð hringdum við í Lögguna á staðnum sem kom og gerði aflann upptækan enda utan kvóta og algjörlega ólöglegt fyrir okkur að ætla að koma þessu í verð. Reyndar var lögregluþjónninn gamall kunningi minn héðan úr Kópavogi, Ingþór vinur Hinna frænda míns.

Frá Patreksfirði ókum við yfir í Kvígindisdal þar sem við áttum frábæra daga í faðmi fjölskyldu og vina. En það er annar pistill sem liggur þar að baki.

Ég færi systrum mínum bestu þakkir fyrir ferðalagið og er þegar farin að leggja drög að næstu reisu okkar systra um landið okkar fagra, Ísland.


« Fyrri síða

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband