Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007
17.7.2007
Hóteldvöl í höfuðborginni
U19 ára stúlknalandsliðið fór inná hótel í dag. Flestar stelpurnar eru héðan af höfuðborgarsvæðinu og eiga ekki nema um 10-15 mínútna akstur heim til sín úr Vatnsmýrinni. Það á reyndar líka við um þá fylgdarsveina sem eru með liðinu, sjálfa mig þar með talda.
Það er óneitanlega dálítið undarlegt að þvælast um í rútubíl frá hóteli á æfingu og að liggja andvaka á hótelherbergi þegar rúmið manns er aðeins í 10 mínútna fjarlægð. En svona er þetta og það er spenningur í hópnum fyrir komandi móti. Úrslitakeppni Evrópumóts stúlknalandsliða yngri en 19 ára.
Í dag hef ég hitt marga gamla kunningja úr boltanum, s.s. fararstjórnir danska, norska og enska liðsins, auk nokkurra kunnuglegra andlita frá Frakklandi og Þýskalandi. Það er alltaf gaman að hitta þetta fólk sem hefur brennandi áhuga á knattspyrnu og vill leggja ótrúlegustu hluti á sig til að efla kvennaknattspyrnuna í sínu heimalandi. Í gegnum tíðina hef ég lært mikið af þessu fólki og vona sannarlega að mér hafi tekist að smita einhverju til þeirra héðan ofan af Íslandi.
Fyrsti leikur íslenska liðsins er á miðvikudag, en þá tökum við á móti Norðmönnum í opnunarleik mótsins á Laugardalsvelli kl. 19:15. Enn og aftur hvet ég alla þá sem vettlingi geta valdið til að mæta á völlinn, það er ókeypis inná alla leiki í boði Orkuveitu Reykjavíkur!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tveir frábærir fótboltaleikir að baki þar sem mitt fólk í Breiðabliki fór á kostum. Strákarnir léku gegn grönnum sínum í Fossvogsdal, HK, í bikarnum á miðvikudag. Ég var stressuð fyrir þann leik, mínir tiltölulega nýbúnir að vinna HK í deildinni 3-0 og líkur á að gestirnir myndu koma brjálaðir í leikinn. Sú varð líka raunin og ákaflega slysalegt mark varð til þess þeir náðu forystunni. Eins og svo oft áður í sumar þá léku þeir grænklæddu sérstaklega vel úti á vellinum, boltinn fékk að ganga vel á milli manna en þegar nær dró markinu var eins og allur vindur hyrfi úr Blikaliðinu. Sem betur fer tókst mínum þó að jafna leikinn á síðustu mínútunni. Í framlengingunni var aðeins eitt lið á vellinum og 3-1 sigur var staðreynd. Frábær úrslit.
Í gærkvöldi tóku síðan stelpurnar mínar á móti Íslands- og bikarmeisturum Vals á Kópavogsvelli. Það er ekki langt síðan liðin léku í Kópavoginum í leik sem ég vil helst gleyma sem fyrst þar sem Valur vann 4-0 og tveir leikmenn Breiðabliks fengu að líta rauða spjaldið. En þær grænu voru ekki á því að verða auðveld bráð fyrir meistarana. Leikmenn liðsins gáfu sig 110% í hvern einasta bolta og greinilegt var að þær hungraði svo sannarlega í sigur í þessum leik. Það var því í takt við gang leiksins að Greta Mjöll skoraði glæsilegt mark með langskoti yfir Guggu* í marki Vals, þar sem boltinn datt niður í hliðarnetið fjær. Frábært mark!! En til að auka enn á gleði mína þá tóku sig upp gamlir taktar hjá Söndru Sif sem sólaði þrjá leikmenn Vals áður en hún renndi boltanum nett framhjá Guggu 10. mínútum mark Gretu Mjallar.
Þessi tvö stórgóðu mörk blésu mínum stúlkum enn meiri baráttuanda í brjóst en þó þau hafi verið frábær, stórkostleg og mögnuð þá var frammistaða varnarlínunnar ekki síðri. Þar fór Petra Lind fremst í flokki. Hún var eins og köttur á milli stanganna og varði á köflum meistaralega og þær nöfnur í hjarta varnarinnar, Guðrún Sóley og Guðrún Erla, stóðu sig sannarlega með prýði. Þær skiptust á að gæta hættulegasta sóknarmanns landsins, Margrétar Láru, og varð einum blaðamanni á orði í hálfleiknum að það væri alveg sama í hvaða átt Margrét sneri sér hún væri alltaf með Guðrúnu í andlitinu!
Ég get ekki látið hjá líða að nefna frammistöðu dómarans í leik stelpnanna, Gylfa Þórs Orrasonar, hann var í einu orði sagt FRÁBÆR!
Frábær leikur hjá mínu fólki og í dag byrjar Símamót Breiðabliks sem ég mun klárlega eyða talsverðum tíma á eins og undanfarin 25 eða fleiri ár.
*Í þættinum 14-2 sem var í gærkvöldi var m.a. fjallað um bikarleikina. Þar var annar gestur þáttarins, Andri Marteinsson, spurður út í mark Gretu og fannst mér hann gera lítið úr því með því að segja eitthvað á þá leið að markmenn í karlaboltanum væri hávaxnari en markvörður Vals. Guðbjörg í marki Vals er klárlega besti markvörður Íslandsmótsins, hún er ekki smávaxin og hún gerði að mínu viti allt rétt til að reyna að verjast skoti Gretu Mjallar. Andri tók það greinilega ekki með í reikninginn að varnarmaður Val skyggði á skotlínuna og Guðbjörg sá boltann seint. Að auki var Greta heppin í skotinu og Andra til fróðleiks þá hef ég séð fjöldan allan af svona mörkum skoruð í efstu deildum karla út um alla Evrópu svo ekki sé talað um stærri mót s.s. HM eða EM. Skot Gretu var gott og varnartilburðir Guggu einnig. Það er engin ástæða til að gera lítið úr markinu með því að segja að markmenn í karlaboltanum hefðu varðið þetta af því að þeir eru í mörgum tilfellum hærri. Svo sýndi Petra það líka í kvöld og sannaði að margur er knár þótt hann sé smár!
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.7.2007
Stærsta (merkilegasta) mót sumarsins
Úrslitakeppni Evrópumósts stúlknaliða yngri en 19 ára hefst í Reykjavík þann 18. júlí nk. Er mótið liður í hátíðahöldum í tilefni af 60 ára afmæli KSÍ. Mótið er metnaðarfyllsta verkefni sem KSÍ hefur tekið að sér til þessa og er það vel við hæfi að helsti vaxtarbroddur íslenskrar knattspyrnu, kvennaknattspyrnan, fái að njóta þess.
Mótið hefst með fjórum leikjum þann 18. júlí nk. Fyrstu þrír leikirnir verða leiknir kl. 16 á Kópavogsvelli, þar sem Spánverjar og Frakkar etja kappi. Á Víkingsvelli þar sem Danir og Þjóðverjar eigast við og á Fylkisvelli þar sem Pólverjar og Englendingar takast á. Opnunarleikurinn sjálfur verður hins vegar á þjóðarleikvanginum, Laugardalsvelli kl. 19:15 en þar mæta íslensku stelpurnar Norðmönnum.
Það er full ástæða til að hvetja alla þá sem vettlingi geta valdið til að mæta á völlinn og sjá framtíðarleikmenn Evrópu á fótboltavellinum. Sérstaklega vil ég hvetja yngri leikmenn, sem margir hverjir sakna þess að eiga sér ekki fyrirmyndir í boltanum. Þarna gefst ungum stúlkum og drengjum tækifæri sem ekki gefst oft hér uppi á Íslandi að samsama sér við leikmenn af hæsta gæðaflokki og nærri þeirra eigin aldri.
Nánar um keppnina á vefsíðu UEFA.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2007
Kársnesið
Kópavogur skartaði sínu fegursta um helgina þegar Risalandsmót UMFÍ fór þar fram. Veðrið var eins og best gerist til íþróttaiðkunar, vætan hélt sig að mestu fjarri og sólin glennti sig öðru hvoru. Andi gleði og vináttu sveif yfir vötnum og þó ekki hafi allir viðburðir staðist tímaáætlun þá tóku menn því svona almennt með stóískri ró.
Það var ekki einfalt að ná að fylgjast með öllum þeim uppákomum sem í boði voru á mótinu. Ég reyndi þó eftir fremsta megni að ná sem mestu og ég kom aðeins heim til mín til að sofa. Frjálsíþróttir hafa alltaf verið í dálitlu uppáhaldi hjá mér. Veðurfar á slíkum keppnum hefur þó oft verið heldur dapurt og stundum hefur mér fundist að bikarkeppni FRÍ fylgi rok og rigning. Á því varð breyting nú um helgina og náði ég að fylgjast með mörgum frábærum viðburðum á frjálsíþróttavellinum, stangarstökki, spjótkasti, þrístökki, langstökki, kringlukasti, hlaupum af öllum gerðum og fleira og fleira. Að mínu mati stóð kringlukastið uppúr, þar var mættur kappi frá Suður Afríku, sem á lengsta kast ársins, og hann gerði heiðarlega tilraun til að slá heimsmetið í kringlukasti. Það tókst ekki en hann kastaði kringlu lengra en nokkur hefur gert á Íslandi til þessa, 70,36 metra, sem er algjörlega frábær árangur.
Ég náði að auki að fylgjast aðeins með keppni í bridge, golfi, knattspyrnu, dráttarvélaakstri, dansi og pönnukökubakstri svo eitthvað sé nefnt.
Vissulega var annað yfirbragð yfir þessu móti en mörgum öðrum sem haldin hafa verið. Skýringin á því er einföld, mótið að þessu sinni var haldið inni í miðri borg og keppnissvæðið dreifðist á talsvert stórt svæði. Stemmingin á höfuðborgarsvæðinu verður alltaf önnur heldur en úti á landi, jafnvel þó ekki sé lengra farið en á til Akraness, Keflavíkur eða Hveragerði. Í Kópavogi var heldur lítil tjaldbúðastemming, fáir gistu í tjöldum enda lang flestir sem eiga vini eða ættingja hér sem þeir nota tækifærið og eyða góðri stund hjá. Það er bara þannig og alveg sjálfsagt að brjóta mynstrið upp.
Sumir af þeim sem vilja ríghalda í hefðirnar voru fullir vanþóknunnar á mótinu í Kópavogi og höfðu jafnvel á orði að mótið snerist ekki nægilega mikið um íþróttirnar sjálfar. Nefndu þeir sem dæmi keppni í vatnsbyssuslag og risatónleika og þótti fullmikil áhersla lögð á það. Kannski hafa þeir eitthvað til síns máls en við skulum ekki gleyma því að seint mun pönnukökubakstur, stafsetning og starfshlaup teljast til hefðbundinna íþrótta. Eru þær greinar þó og hafa verið hluti af landsmóti um fjölda ára.
Með þessum orðum finnst mér eins og verið sé að tala niður til þeirra sem stóðu að og héldu mótið í Kópavogi. Það þykir mér miður. Skipuleggjendur mótsins vissu að það þurfti að gera eitthvað stórt og spennandi til að fá fólk á mótssvæðið í Kópavogsdal. Því var vatnsbyssustríð og stórtónleikar kjörið tækifæri til að draga fólk á svæðið og kynna það fyrir þeirri frábæru skemmtun sem landsmót sannarlega er. Yfir 2.000 manns tóku þátt í vantsbyssustríðinu og ef fjórðungur hefur litið við á frjálsíþróttavellinum þykir mér tilganginum vera náð. Það er ekki auðvelt að keppa við alla þá afþreyingu sem boðið er uppá á höfuðborgarsvæðinu og eitthvað segir mér að margur keppandinn, sem kannski var langt að kominn, hafi kosið að líta í bíó, Smáralind, Kringluna eða IKEA svona í tilefni af því að hann var í bænum yfirleitt. Það er í allra besta lagi og eðlilegt. Ekki heyrði ég skipuleggjendur kvarta undan því að tjaldsvæðið var ekki nýtt að því marki sem ráð var fyrir gert, enda engin ástæða til og gott ef gestir landsmóts gátu nýtt tækifærið til að heilsa uppá vini og ættingja.
Landsmót eru allra góðra gjalda verð og ég er ákaflega hrifin af hugmyndinni. Það breytir því þó ekki að þau eru byggð upp í bændasamfélagi þar sem greinar utan frjálsra íþrótta og fimleika hafa verið að reitast inn í áranna rás. Ef ég man rétt þá var fyrst keppt í knattspyrnu á landsmótinu í Mosfellsbæ 1989 eða 1990. Samt var fyrsta knattspyrnufélagið á Íslandi stofnað undir lok 19. aldar. Það er því engin ástæða til að tala niður til viðburðar eins og þess að setja heimsmet í vatnsbyssuslag eða til risatónleika. Við borgarbúar fordæmum ekki eða tölum niður til þeirra sem búa, lifa og starfa á landsbyggðinni. Þeir sem þaðan koma ættu því líka að gæta sín á því að tala niður til borgarbúanna.
Landsmótið í Kópavogi var vel heppnað og færi ég skipuleggjendum mótsins, starfsmönnum og keppendum kærar þakkir fyrir minnisstæða helgi í bænum mínum, Kópavogi.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2007
Nónhæð
Í Kópavogsbæ er nú unnið að skipulagsmálum sem aldrei fyrr. Skipulagstillögur sem vitað er að muni illa falla í kramið hjá bæjarbúum er nú verið að kynna og treyst á að íbúar séu fjarverandi í sumarfríi eða með hugan við sólina sem skín sem best hún getur.
Á Nónhæð var verið að kynna nýtt skipulag á reit sem áður var í eigu baháía en hefur nú verið seldur til einhvers, sem enginn vill kannast við eða getur upplýst um hver er. Þar á að byggja þétt, tvo turna 12 og 14 hæða og síðan nokkur lágreistari hús sem alls munu telja 202 íbúðir. Miðað við íslensku vísitölufjölskylduna (4 í heimili) þá munu búa þar 808 einstaklingar. En ekki nóg með þetta því örlitlu vestar og norðar í landinu er lítil lóð sem hefur verið nýtt undir bensínstöð/sjoppu. Rekstur þar hefur gengið illa og nú á að breyta skipulagi svæðisins á þann veg að í stað verslunarsvæðis verður þar reistur 8 hæða tvíburaturn með 14 íbúðum, þar með bætast við 56 íbúar og alls má því reikna með tæplega 900 íbúum á fyrirhuguðu byggingarlandi.
Svona til að sýna þéttleikann sem reiknað er með má leika sér með tölur. Á allri Nónhæðinni, frá Arnarsmára niður í Gullsmára búa nú um 1.400 manns. Við götuna Gullsmára, sem er að mörgu leyti áþekkur reitur að stærð og nú er í kynningu, búa í dag um 430 íbúar eða helmingi færri en fyrirhugað er að koma niður á samsvarandi reit efst í hæðinni.
Síðustu daga hef ég verið að kynna mér skipulagið og sannast sagna líst mér ekkert á þetta. Engir grænir reitir aðeins bílastæði og sannkallað skuggahverfi mun rísa á hæðinni verði farið að núverandi tillögum. Er þá ótalin sú staðreynd að umferð um hverfið mun í samræmi við fjölgun íbúa tvöfaldast án þess að nokkrar vegabætur séu fyrirhugaðar á svæðinu.
Lögin mín
Eldri færslur
- Júní 2012
- Febrúar 2012
- Apríl 2011
- Desember 2010
- September 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Apríl 2006
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Tenglar
Myndasíða
Heimasíðan mín
- www.ingibjorg.net
- Völvuspá Dollýar 2011 Spá Dollýar dulrænu fyrir árið 2011
- Lystauki - Veisluþjónusta Besta veisluþjónusta landsins. Fersk og framandi en þó hefðbundin. Mjög gott.
Bloggvinir
- Anna Einarsdóttir
- Birna Steingrímsdóttir
- Bragi Sigurðsson
- Elfur Logadóttir
- Eygló
- Gudrún Hauksdótttir
- Guðrún Jóna Jónsdóttir
- Gísli Tryggvason
- Helga Kristjánsdóttir
- Jenný Stefanía Jensdóttir
- Jón Svavarsson
- Karl Gauti Hjaltason
- Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
- Linda Samsonar Gísladóttir
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Magnús Helgi Björgvinsson
- Margrét Júlía Rafnsdóttir
- Marinó G. Njálsson
- Pjetur Hafstein Lárusson
- Samfylkingin í Kópavogi
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Sigurður Haukur Gíslason
- Sigurður Sigurðsson
- Smári Jökull Jónsson
- Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)
- TARA
- Unnur G Kristjánsdóttir
- Veiðifélagið
- Ólafur Þór Gunnarsson
- Þórarinn M Friðgeirsson
- Sigþrúður Þorfinnsdóttir
- Valdimar H Jóhannesson