Leita í fréttum mbl.is

Landsmót í Kópavogi - takk fyrir mig.

Kópavogur skartaði sínu fegursta um helgina þegar Risalandsmót UMFÍ fór þar fram. Veðrið var eins og best gerist til íþróttaiðkunar, vætan hélt sig að mestu fjarri og sólin glennti sig öðru hvoru. Andi gleði og vináttu sveif yfir vötnum og þó ekki hafi allir viðburðir staðist tímaáætlun þá tóku menn því svona almennt með stóískri ró.

Það var ekki einfalt að ná að fylgjast með öllum þeim uppákomum sem í boði voru á mótinu. Ég reyndi þó eftir fremsta megni að ná sem mestu og ég kom aðeins heim til mín til að sofa. Frjálsíþróttir hafa alltaf verið í dálitlu uppáhaldi hjá mér. Veðurfar á slíkum keppnum hefur þó oft verið heldur dapurt og stundum hefur mér fundist að bikarkeppni FRÍ fylgi rok og rigning. Á því varð breyting nú um helgina og náði ég að fylgjast með mörgum frábærum viðburðum á frjálsíþróttavellinum, stangarstökki, spjótkasti, þrístökki, langstökki, kringlukasti, hlaupum af öllum gerðum og fleira og fleira. Að mínu mati stóð kringlukastið uppúr, þar var mættur kappi frá Suður Afríku, sem á lengsta kast ársins, og hann gerði heiðarlega tilraun til að slá heimsmetið í kringlukasti. Það tókst ekki en hann kastaði kringlu lengra en nokkur hefur gert á Íslandi til þessa, 70,36 metra, sem er algjörlega frábær árangur.

Ég náði að auki að fylgjast aðeins með keppni í bridge, golfi, knattspyrnu, dráttarvélaakstri, dansi og pönnukökubakstri svo eitthvað sé nefnt.

Vissulega var annað yfirbragð yfir þessu móti en mörgum öðrum sem haldin hafa verið. Skýringin á því er einföld, mótið að þessu sinni var haldið inni í miðri borg og keppnissvæðið dreifðist á talsvert stórt svæði. Stemmingin á höfuðborgarsvæðinu verður alltaf önnur heldur en úti á landi, jafnvel þó ekki sé lengra farið en á til Akraness, Keflavíkur eða Hveragerði. Í Kópavogi var heldur lítil tjaldbúðastemming, fáir gistu í tjöldum enda lang flestir sem eiga vini eða ættingja hér sem þeir nota tækifærið og eyða góðri stund hjá. Það er bara þannig og alveg sjálfsagt að brjóta mynstrið upp.

Sumir af þeim sem vilja ríghalda í hefðirnar voru fullir vanþóknunnar á mótinu í Kópavogi og höfðu jafnvel á orði að mótið snerist ekki nægilega mikið um íþróttirnar sjálfar. Nefndu þeir sem dæmi keppni í vatnsbyssuslag og risatónleika og þótti fullmikil áhersla lögð á það. Kannski hafa þeir eitthvað til síns máls en við skulum ekki gleyma því að seint mun pönnukökubakstur, stafsetning og starfshlaup teljast til hefðbundinna íþrótta. Eru þær greinar þó og hafa verið hluti af landsmóti um fjölda ára.

Með þessum orðum finnst mér eins og verið sé að tala niður til þeirra sem stóðu að og héldu mótið í Kópavogi. Það þykir mér miður. Skipuleggjendur mótsins vissu að það þurfti að gera eitthvað stórt og spennandi til að fá fólk á mótssvæðið í Kópavogsdal. Því var vatnsbyssustríð og stórtónleikar kjörið tækifæri til að draga fólk á svæðið og kynna það fyrir þeirri frábæru skemmtun sem landsmót sannarlega er. Yfir 2.000 manns tóku þátt í vantsbyssustríðinu og ef fjórðungur hefur litið við á frjálsíþróttavellinum þykir mér tilganginum vera náð. Það er ekki auðvelt að keppa við alla þá afþreyingu sem boðið er uppá á höfuðborgarsvæðinu og eitthvað segir mér að margur keppandinn, sem kannski var langt að kominn, hafi kosið að líta í bíó, Smáralind, Kringluna eða IKEA svona í tilefni af því að hann var í bænum yfirleitt. Það er í allra besta lagi og eðlilegt. Ekki heyrði ég skipuleggjendur kvarta undan því að tjaldsvæðið var ekki nýtt að því marki sem ráð var fyrir gert, enda engin ástæða til og gott ef gestir landsmóts gátu nýtt tækifærið til að heilsa uppá vini og ættingja.

Landsmót eru allra góðra gjalda verð og ég er ákaflega hrifin af hugmyndinni. Það breytir því þó ekki að þau eru byggð upp í bændasamfélagi þar sem greinar utan frjálsra íþrótta og fimleika hafa verið að reitast inn í áranna rás. Ef ég man rétt þá var fyrst keppt í knattspyrnu á landsmótinu í Mosfellsbæ 1989 eða 1990. Samt var fyrsta knattspyrnufélagið á Íslandi stofnað undir lok 19. aldar. Það er því engin ástæða til að tala niður til viðburðar eins og þess að setja heimsmet í vatnsbyssuslag eða til risatónleika.  Við borgarbúar fordæmum ekki eða tölum niður til þeirra sem búa, lifa og starfa á landsbyggðinni. Þeir sem þaðan koma ættu því líka að gæta sín á því að tala niður til borgarbúanna.

Landsmótið í Kópavogi var vel heppnað og færi ég skipuleggjendum mótsins, starfsmönnum og keppendum kærar þakkir fyrir minnisstæða helgi í bænum mínum, Kópavogi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband