Leita í fréttum mbl.is

Enn af siðferði bankamanna

Í dag hafa borist fréttir af því að banki nokkur hafi, á árinu 2007, lánað börnum milljónir króna til að kaupa hlutabréf í öðrum banka. Í fyrstu var ég hissa á bankanum, svo varð ég hissa á foreldrunum, síðan varð ég reið út í foreldrana og loks varð ég bálill útí þá sem stjórnuðu þessum aðgerðum inní bönkunum. Af hverju? Jú vegna þess að gjörningur þessi mun hafa verið ólöglegur og því þarf að fella niður skuldir barnanna vegna glötuðu hlutafjárbréfanna.

Er þetta ekki allt einhvernvegin öfugsnúið?

Af hverju á bankinn að bera tjón af því að foreldrar nokkurra barna hafi verið svo gráðug að taka lán út á nafn barna sinna til þess að kaupa bréf í öðrum banka? Af hverju samþykkti bankinn að lána börnum milljónir króna, var enginn þar sem sá neitt athugavert við það að lána ólögráða og ófjárráða einstaklingum milljónir króna? Af hverju eiga núverandi eigendur bankanna að bera tjón vegna þess að starfsmenn bankans voru slíkir einfeldningar að þeir lánuðu fé út úr bankanum til ófjárráða einstaklinga með veði í engu nema hlutabréfum í öðrum banka?

Hver er ábyrgð starfsmanna bankanna? Ég er ekki að áfellast konurnar „á gólfinu“ því ég hef fulla trú á því að allar aðvörunarbjöllur hefðu hringt í kollinum á þeim. Ég áfellist stjórnendur bankans, eða millistjórnendur eða framkvæmdastjóra deilda eða hvað þeir nú kallast, jakkafataklæddu strákarnir á þrítugs og fertugsaldrinum sem maður sá tíðum á kaffihúsum bæjarins í miðjum vinnutímanum (sjálfsagt á áríðandi „buisness“ fundi með jafnöldrum sínum úr öðrum banka eða annarri deild). Hver er ábyrgð foreldranna, sem sannarlega stofnuðu til þessara lána og hafa væntanlega ritað undir skjalið þar sem þeir lofuðu að greiða til baka ALLA fjárhæðina ásamt vöxtum og vaxtavöxtum (bankarnir eru bæði með belti og axlabönd á þeim lánum sem ég hef tekið hjá þeim).

Stóð kannski í smáa letrinu „ef í ljós kemur að þessi gjörningur er ólöglegur, þá þarftu ekki að borga lánið til baka, við blæðum þessum milljónum bara á þig.“ ... eða stóð kannski „kæri vinur þegar þú ert búinn að hirða arðinn af bréfunum sem þú fékk lánað til að kaupa eða verði þau verðlaus og þú situr uppi með skuldina, þá skaltu ekki hafa áhyggjur. Við reddum þessu!“

Finnst engum þetta óeðlilegt? Svo kemur bara í ljós að bankarnir máttu alls ekki lána börnum alla þessa peninga!

Nú?

En hver á þá að borga peningana til baka? Það er ómögulegt að ganga á börnin (ég er sammála því), en hvað með foreldrana, þessa sem stofnuðu til skuldarinnar? Er kannski foreldraábyrgðin gengin úr gildi líka? Og aftur spyr ég um ábyrgð stjórnenda bankanna, þið munið að þeir höfðu milljónatugi og jafnvel hundruði í laun á mánuði, hver er þeirra ábyrgð? Engin?

Afsakið, meðan ég æli!

ps. þú þarna, starfsmaður í ráðuneytinu, sem skrifaðir grein í Moggann í dag og trúir því að Baldur hafi bara haft upplýsingar um stöðu bankanna í fjölmiðlum - ertu ekki að grínast?

pps. ... viðbót: Helgarblað DV greinir frá nöfnum einhverra þeirra sem tóku lán, en það var eins og mig grunaði að þarna voru stofnfjáreigendur sem ekki réðu við græðgi sína og skrifuðu börnin fyrir hluta stofnfjár (sem var takmarkað á hverja kennitölu).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Bankinn harmar þetta.  Enginn ber ábyrgð á að lána ófjárráða börnum.  Þetta eru bara venjuleg mistök sem alltaf geta gerst, alveg eins og Icesave, kúlulánin og allt annað.  Ekki okkur að kenna.  Nú á ekki að persónugera vandann, þetta er bara kerfið á Íslandi, við erum svo sérstök, útlendingar misskilja okkur alltaf.

Andri Geir Arinbjarnarson, 29.10.2009 kl. 21:19

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Já, bankinn er voðalega sorrý! Og auðvitað ber enginn ábyrgð, það ætluðu allir að græða, þetta var náttúrulega pottþétt! En varðandi kúlulánin, það er annar kapituli sem ég á eftir að fjalla um. Ég spjallaði við bankamann um daginn og hann sagði að kúlulán væru ekki verri en önnur lán. Það mætti því ekki tala illa um þau ... hmmmm, af hverju ekki?

Ingibjörg Hinriksdóttir, 29.10.2009 kl. 22:23

3 Smámynd: Eygló

Foreldri "heimtar" lán fyrir ófjárráða barn, með gróðavon að leiðarljósi.

Engin lifandi vera né hugbúnaður tekur eftir því að kennitala lántakanda stenst ekki gagnvart fjárræði.

Foreldri fær hland fyrir hjartað eftir tapið sem átti að verða gróði á kennitölu Ófermds. Andskotast út í bankann (að réttu, en hefði þá átt að andskotast líka þegar lánið fékkst)

Foreldri skal borga skuldina.

Svona horfir þetta fyrir mér, fyrir utan það að ég hef aldrei skilið hvernig venjulegu fólki dettur í hug að slá lán fyrir sparnaði (ósnertanlegum)

Eygló, 30.10.2009 kl. 02:29

4 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Það er einfaldlega skömm að þessu og mér finnst að það eigi að birta nöfn þessarra foreldra.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 30.10.2009 kl. 11:33

5 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Íslensku bankarnir "stórust & grófustu bankaræningjar Evrópu" - siðblint lið - já maður ælir vissulega yfir þeirra vinnubrögðum.  Margt af þessu fólki leikur ennþá lausum halla í bankakerfinu, nægir að nefna Birnu kúludrottningu, Finnur Kóngurinn í Kaupþing - ég sem hélt að það ætti að auglýsa lausar stöður þeirra...lol....enn þetta er nú einu sinni Ísland - "Nígería Norðursins..!"

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson, 30.10.2009 kl. 13:35

6 identicon

Mér finnst hreint frábært að þessi frétt skuli vekja athygli.

Fréttin ofbýður greinilega hugmyndum margra okkar um persónulegt og viðskiptalegt siðferði og þá er hendi næsti að grípa til hneykslunar, vandlætingar eða lítt rökstuddra ásakanna á hendur ákveðinna þjóðfélagshópa til að fá smá tilfinningalega útrás.

Það gagnar hins vegar lítið  að krefjast þess,  í krafti eigin skoðana, að "skíturinn á milli axlablaðanna verði skafinn", að "allt verði upp á borði" eða draga fána Nigeríu að hún á  fánastöng Alþingishússins. 

Við ættum kannski að athuga  oftar en við gerum hvort  einstakir "gjörningar" sem ofbjóða okkar siðferðis eða réttlætiskennd brjóti landslög eða ekki og íhuga þá hvort lagabreytinga sé þörf á ákveðnum sviðum 

Agla (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 16:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband