Leita í fréttum mbl.is

Umbylting í skipulagsmálum Kópavogsbæjar

Í kvöld sat ég fund í Samfylkingarsalnum í Hamraborg og hlýddi á Birgi H. Sigurðsson sviðsstjóra Skipulags- og umhverfissviðs Kópavogsbæjar. [Ég ætlaði að vera fúl yfir því að missa af leik Breiðabliks og Grindavíkur í Landsbankadeild karla ... en var bara sátt við fundinn í Hamraborginni, svona eftirá] Birgir var mættur á fundinn til að segja frá þeim hugmyndum sem eru í farvatninu varðandi framtíðarskipulag Kársness. Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum þeim sem fylgst hefur með skipulagsmálum í Kópavogi að alls engin sátt hefur verið um þær hugmyndir sem kynntar voru á fundi í Salnum rétt fyrir jól árið 2006. Síðasta sumar var Vesturbær Kópavogs þakinn rauðum mótmælaborðum frá Samtökum um betri byggð í Kópavogi. Þau mótmæli hafa greinilega haft einhver áhrif því í orðum Birgis á fundinum í kvöld kom fram að hann hefur setið nokkra fundi með fulltrúum Betri byggðar og kynnt fyrir þeim þær hugmyndir sem nú eru á borði skipulagssviðs.

Það verður ekki sagt að þær hugmyndir sem Birgir kynnti á fundinum séu hógværar, þær eru nær því að vera útópískar og alveg klárlega eru þær framsýnar svo ekki sé meira sagt. Það efni sem Birgir kynnti var í raun í þrennu lagi. Í fyrsta lagi þar sem frá var horfið árið 2007, byggt verði á uppfyllingu á norðanverðu nesinu, og verulega verði bætt við byggðina á vestanverðu nesinu. Ef ég hef hlustað rétt þá gerir sú tillaga ráð fyrir allt að 1.400 íbúðum á þessu svæði. Í öðru lagi er tillaga þar sem enn er aukið við uppfyllingu vestast á nesinu, þar verði fyllt upp í ríflega 10 hektara svæði og öðrum 700 íbúðum bætt við. Þriðja útgáfan gerir síðan ráð fyrir enn einni 10 hektara uppfyllingu með enn einum 700 íbúðum. Þetta þýðir að íbúðafjölgunin gæti mest orðið 2.800 íbúðir sem þýðir fjölgun um 5-8.000 íbúa á Kársnesi.

Í máli Birgis kom fram að með þessum hugmyndum væri verið að kallast á við þær hugmyndir sem þegar eru komnar fram um skipulag í Vatnsmýrinni í Reykjavík, með eða án flugvallar. Í hugmyndum 2 og 3 er gert ráð fyrir tengingu við Hlíðarfót (heitir ekki landsvæðið við ylströndina það?) annars vegar með göngu/hjólabrú (tillaga 2) og hins vegar með ökubrú (3). Einnig er gert ráð fyrir Öskjuhlíðargöngum í öllum tillögunum, þau eru í raun forsenda fyrir þeim hugmyndum sem hann kynnti á fundinum. Hér er ekki verið að tala um skipulag til næstu fimm ára heldur skipulag til framtíðar, hér er horft 20, 30 jafnvel 40 ár fram í tímann.

Persónulega finnst mér þetta spennandi hugmyndir sem vert er að skoða. Mér finnst að það eigi að horfa á þá þróun sem er að verða í Vatnsmýrinni og það hvernig Kópavogsbúar geta nýtt sér þær framkvæmdir sem þar eru fyrirhugaðar. Samgöngumiðstöð er að rísa við Hótel Loftleiðir, göngubrú yfir Fossvog (sem að líkindum yrði ekki nema 100-200 metra löng) gæti þannig tengt íbúa Kópavogs við það svæði, þar sem verður miðstöð mennta og heilsugæslu hér á höfuðborgarsvæðinu. Kópavogur gæti kallast á við það svæði t.d. með því að byggja óperuhúsið á umræddri uppfyllingu og laðað þannig farþega úr samgöngumiðstöðinni yfir brúna, gangandi eða hjólandi. Í Kópavogi væri þá að finna iðandi mannlíf og menningu. Þarna er hægt að sjá fyrir sér verslanir, veitingastaði og kaffihús. Birgir benti réttilega á að þessa framtíðarsýn sjáum við ekki nema að koma fólki fyrir á svæðinu, verslanir, veitingastaðir og kaffihús þrífast ekki nema að þar sé fólk.

Mér fannst ég hafa skrifað áður um þátt sem sýndur var í sjónvarpinu ekki fyrir löngu og fjallaði um olíukreppuna. Þar var því spáð að olíubirgðir Jarðar færu þverrandi og að orka yrði mikið dýrari en hún er í dag og myndi á endanum hverfa alveg. Mér dettur ekki í hug að vera hér með einhverja dómsdagsspá en mig rennir í grun að þessi spá eigi rétt á sér. Orkubirgðir Jarðar fara þverrandi, olíuverð hefur hækkað og mun halda áfram að gera það. Ferðamáti Íslendinga mun breytast í náinni framtíð og við þurfum að fara að huga að hagkvæmari ferðamátum en þeim að vera stöðugt eitt í hverjum bíl. Það er því mikilvægt að stytta ferðaleiðir, þar kemur brú yfir Fossvog sterk inn.

Af hverju er ekki lengur hægt að skipuleggja íbúðahverfi eins og þau voru skipulögð fyrir 100-200 árum, með miðbæ? Um daginn velti ég því fyrir mér hvernig það væri ef Kópavogur skipulegði næsta hverfi í "gömlum" anda, 3-4 hæða hús, þétt saman með einum kjarna þaðan sem lægju götur sem nefndar væru t.d. eftir nýjum starfsstéttum sem ekki voru til þegar Bakarastígur, Smiðjustígur og Laugavegur voru nefnd. Þarna yrði Tölvunargata, Geimfaragata, Viðskiptagata (þar sem allar búðirnar yrðu), Lagagata, Fluggata, Ferðagata (hótelin yrðu þar) o.s.frv. Bílar væru allt að því bannaðir á þessu svæði, aðeins eitt bílastæði væri fyrir hverja íbúð (öll neðanjarðar) og gestastæði yst í byggðinni. Lögð yrði áhersla á vistvænar samgöngur, reiðhjólastíga og gönguleiðir. Í hjarta svæðisins yrði vinalegt torg þar sem fólk kæmi saman á hátíðar- og tyllidögum. Hjartað yrði ekki endilega inní miðju hverfi heldur alveg eins við smábátahöfnina þaðan sem þú getur tekið ferju yfir Fossvoginn að Ylströndinni, háskólanum og sjúkrahúsinu.

Væri þetta ekki spennandi framtíðarsýn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband