Leita í fréttum mbl.is

Lítilsvirðing við frumbyggja Kópavogs

Síðasti (vonandi) kosningapési Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar var borinn út í morgun. Þar er að finna misgóðar eða misvondar greinar eftir frambjóðendur, ýmis nýyrði sett í fyrirsagnir á greinum og sitt lítið af hvoru. Merkilegt nokk þá er lítið um hnippingar til Samfylkingarinnar að finna í blaðinu og svo virðist sem sjálfstæðisfólk hafi ákveðið að leyfa Samfylkingunni að eiga sig að þessu sinni. Það er gott.

Mig langar svo sem ekki að fjalla mikið um þetta blað, en get ekki látið hjá líðast að minnast á eina litla grein sem Bragi Michaelson skrifar undir fyrirsögninni "Áður var það skömm en nú er gott að búa í Kópavogi". Með fyrirsögninni er Bragi sjálfsagt að reyna að slá um sig með slagorði sem fyrrverandi bæjarstjóri sló sjálfan sig til riddara með og það er bara í fínu lagi. Það er innihald greinarinnar sem er bæði særandi og móðgandi fyrir þá fjölmörgu sem telja sig til frumbyggja Kópavogs.

Í greinarstúfnum segir Bragi frá reynslu sinni þegar hann flytur í Kópavog árið 1969 og segir að einhver hafi spurt hann hvort hann væri brjálaður að flytja í þennan skelfilega bæ. Þar væru götur ekki malbikaðar, hitaveita ekki komin og leigubílar forðuðust að keyra á ákveðnum tímum í bæinn af ótta við að festa bílana. Ansi fróðlegir molar hjá Braga sem þó var betur lýst hjá skáldinu Böðvari Guðlaugssyni í Kópavogsbragi.

Í grein Braga liggur það milli orðanna að það hafi ekki þótt merkilegur pappír að flytja í Kópavog á 6. og 7. áratug síðasta aldar. Fyrirsögnin segir það beinum orðum, það var skömm! Þessi grein er Braga Michaelsyni til skammar. Kópavogur er byggður upp, bæði þá og nú, af fjöldanum öllum af harðduglegu fólki sem var og er tilbúið að leggja mikið á sig til að koma sér þaki yfir höfuðið. Á þessum tíma sem Braga er tíðrætt um var hægt að fá hér lóðir fyrir lítið og hingað flutti fólk sem ekki naut náðar í bönkunum og hafði ekkert milli handanna nema sinn eigin dugnað, kraft og vilja. Í dag er þessu öfugt farið, lóðir eru svo dýrar að þær eru ekki á allra færi og vilji, dugnaður og kraftur duga skammt fyrir ungt fólk sem vill koma sér þaki yfir höfuðið. Það fólk flytur í Hafnarfjörð eða í önnur sveitarfélög þar sem fordómar gagnvart eignastöðu eru fjarverandi og fólk er velkomið.

Það er vonandi að fáir hugsi eins og Bragi Michaelsson, ég er í það minnsta stolt af íbúum Kópavogs bæði gömlum og nýjum. Sérstaklega er ég stolt af fólki eins og foreldrum mínum sem byggðu sér stórt og mikið hús á Álfhólsvegi árið 1963 og fluttu þangað með allan barnahópinn sinn. Vissulega voru göturnar ekki malbikaðar, hitaveitan ekki komin og stundum mátti maður vaða drulluna uppí klof. En hér var gott að búa - já jafnvel betra en það er í dag.

Kópavogsbragur

Lít ég hér löngum
lögregluna fína.
Með öllum öngum
umferðinni stýra.
Hún er helst á róli
við Hafnarfjarðarveginn
vitlausu megin!

Út í flest er hún
ótrauð mjög að ganga.
Fílefldust fer hún
á föstudaginn langa.
Ég er satt að segja
svei mér ekki frá því
að hún sé á því.

Ég blessa eins og sjúkur
bæjarstjórn og Drottinn.
Mikið er mjúkur
malbikaði spottinn.
Enda gerist ekki
annarsstaðar betri
kvartkílómetri.

Forystuflokkar
flest er haf'í gjörðu.
Sundhöllin okkar
svo komst uppúr jörðu.
Ósköp var þá ýmsum
orðið mál að baða
búkinn blessaða.

Texti: Böðvar Guðlaugsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Varst það ekki þú Ingibjörg mín, sem varðst svo mikill rótarskotinn frumbyggi Kópavogs að þú sást ekki aðra framtíðarsýn betri þegar þú flaugst yfir bæinn, en að leggja hann niður og sameina Reykjavík og nágrannabæjunum ?

Halldór Jónsson, 26.5.2010 kl. 23:10

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Halldór - gott að vita til þess að þú sýnir bloggi mínu áhuga og þakka þér fyrirspurnina.

Því miður verð ég að hryggja þig með því að það var hvergi í mínum greinum til þess ætlað að leggja Kópavog niður. Ég er hins vegar opin fyrir ýmsum möguleikum í hagræðingu í stjórnsýslu sveitarfélaganna hér á höfuðborgarsvæðinu og hef oftlega nefnt þá hugmynd að Kópavogur taki hluta Reykjavíkur (Seljahverfið eða jafnvel Breiðholtið allt) og Garðabæ innan sinnar lögsögu. Auðvitað koma aðrir möguleikar til greina en þetta er sá sem liggur landfræðilega best við og ég tel að eigi að skoða af alvöru.

Í mínum huga liggur það alveg ljóst fyrir að það á að leggja Seltjarnarnes niður og setja það sveitarfélag undir stjórn Reykjavíkur en það má líka hugsa sér að norðaustur hluti Reykjavíkur falli undir sérstaka stjórn ásamt Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjósarhreppi.

Fyrir sunnan okkur væri síðan stór Hafnarfjörður sem fengi Álftanes á sína könnu og hugsanlega syðsta og nýjasta hluta Garðabæjar. Þar má líka hugsa sér að setja inn Sveitarfélagið Voga.

Þar með yrðu til 4 sveitarfélög hér á stórhöfuðborgarsvæðinu, Reykjavík suður, Reykjavík norður, Kópavogur og Hafnarfjörður.

Hvað segir þú við því?

Ingibjörg Hinriksdóttir, 26.5.2010 kl. 23:17

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson


  1. Kópavogur, Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellsbær.
  2. Hafnafjörður, Garðabær og Álftanes.

Axel Þór Kolbeinsson, 27.5.2010 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband