Leita í fréttum mbl.is

Ársþing KSÍ

Ársþing KSÍ var haldið í dag. Þingin eru vart svipur hjá sjón frá því sem áður var, í dag hófst þingið kl. 11:00, 30 mínútna hlé var gert um hádegisbil og var þinginu slitið skömmu fyrir kl. 15:00. Ég man eftir þingum sem voru í þrjá daga, hófust á föstudagseftirmiðdegi, voru allan laugardaginn og lauk um miðjan dag á sunnudegi. Þá tókust menn á um málefni og það var þjarkað um alla mögulega og ómögulega hluti. Í dag kom einn upp vegna ársreikninga, einn undir skýrslu stjórnar og einn undir liðnum önnur mál.

Það má þó segja að þingin séu orðin markvissari og málefnalegri en þau voru, þingfulltrúar eru að mörgu leyti betur undirbúnir en áður og ákvarðanir er varða knattspyrnuna á Íslandi eru teknar jafnt og þétt yfir allt árið. Það er gott.

Kosið var til nýrrar stjórnar, ég var í framboði og hlaut náð fyrir augum þingfulltrúa til tveggja ára setu til viðbótar. Fyrir það er ég bæði þakklát og stolt en nú er það ljóst að ég mun sitja í stjórn KSÍ í átta ár í það minnsta en ég var fyrst kosin í stjórn árið 2002.

2008
Stjórn KSÍ kosin á ársþingi í janúar 2008.


9 Smáraturnar til viðbótar - 12 akreina Reykjanesbraut!

Á mánudagsfundi Samfylkingarinnar í Kópavogi 11. febrúar verða aðallega tvö mál á dagskrá. Fyrst verður farið yfir tröllvaxnar hugmyndir um uppbyggingu í Smáranum, Lindunum, Glaðheimasvæðinu og við Dalveg. Þær fela m.a. í sér allt að 9 háhýsi sambærileg við Smáratorgsturninn sem nú er risinn eða hærri, 12 akreina Reykjanesbraut og stórskert lífsgæði þúsunda íbúa í Smáranum, Lindunum og í suðurhlíðum Kópavogs.  Bæjarfulltrúar og fulltrúar flokksins í skipulagsnefnd fara yfir málið.

Einnig verður rætt um stefnumörkun í íþrótta- og tómstundamálum í Kópavogi og munu fulltrúar flokksins í íþrótta- og tómstundaráði hafa framsögu.

Fundurinn er í Hamraborg 11, 3. hæð og hefst kl. 20:30. Hann er opinn félögum og öðrum áhugasömum Kópavogsbúum.


Norðmaður í Kópavogi

Ég var að lesa frétt inná Vísir.is og fannst einhvernvegin að ég yrði að koma henni á framfæri hér.

Norðmaður einn er í vondum málum eftir að eiginkona hans fékk kreditkortareikninginn sinn. Maðurinn hafði farið í ferðalag til Íslands og eytt tveimur kvöldum á nektardansstað. Hann borgaði fyrir herlegheitin með kreditkorti en virðist ekki hafa áttað sig á því að um kreditkort eiginkonunnar var að ræða. Frá þessu er sagt á danska vefmiðlinum avisen.dk.

Þegar konan sá vísa-reikninginn sinn brá henni heldur í brún þegar hún uppgötvaði að um fimmtíuþúsund krónur höfðu verið settar á kortið á nektardansstað á Íslandi. Grunur hennar beindist strax að eiginmanninum sem hafði verið á Íslandi á sama tíma.

Málsvörn mannsins var á þá leið að hefði ekki eytt svona miklum peningum á staðnum, heldur í mesta lagi um þúsund krónum. Hann klagaði málið því til norska bankaeftirlitsins sem fór í málið. Það hefur því sljákkað eitthvað í karli þegar í ljós kom að hann hafði sjálfur kvittað fyrir öllum færslunum sem settar voru á kortið umrædd kvöld.

Í framhaldi af þessu er ekki úr vegi að velta því fyrir sér af hverju ekki hefur verið hægt að taka afstöðu til ferðaþjónustu innan Kópavogsbæjar. Málið hefur nokkrum sinnum verið tekið upp í Atvinnu- og upplýsinganefnd bæjarins en ekki komist áleiðis.

Í eftirtöldum fundargerðum nefndarinnar er rætt um ferðaþjónustu í bænum:

  • Fundur 6. febrúar 2007
  • Fundur 7. maí 2007
  • Fundur 14. maí 2007
  • Fundur 18. júní 2007 (hér er ferðaþjónusta eina mál fundarins)
  • Fundur 19. nóvember 2007

Á fundinum 19. nóvember var samþykkt að gera úttekt á tekjum og umfangi ferðaþjónustu í Kópavogi. Það verður spennandi að fylgjast með því hvort þeir sem vinna það verkefni fái upplýsingar frá öllum þeim sem sinna „ferðaþjónustu“ í bænum!

ps. verð að bæta þessu við:

Þjáður af skemmtunarskorti
skrapaði norsari tott.
En að borga með konunnar korti
var kannski ekki nógu gott.

Höfundur


Heilsugæsla á höfuðborgarsvæði

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, spurði á Alþingi í dag „Hvernig hyggst ráðherra bregðast við aukinni þörf fyrir þjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, bæði á eldri stöðvum og í nýjum hverfum? Liggur fyrir áætlun um uppbyggingu heilsugæslu í þessu umdæmi á næstu árum?“

Til svara var Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og hann byrjaði sitt svar á því að skammast út í fyrirspyrjanda vegna þess formála sem hún hafði að fyrirspurn sinni þar sem hún sagðist hafa upplýsingar um að það vantaði 500 milljónir til heilsugæsluþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu. Að öðru leyti fannst mér svar ráðherrans hvorki vera fugl né fiskur. Jú vissulega hefur verið skipaður starfshópur ... og hvað svo?

Guðlaugur sagði líka frá áformum um stækkun læknastöðvar í Árbæ og miðbæ en sagði frekari áform um uppbyggingu bíða. Það virðist nefnilega þannig að þegar ráðherra heilbrigðismála er spurður út í uppbyggingu heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, þá horfi ráðherran einungis til Reykjavíkur en lokar augunum algjörlega fyrir því að höfuðborgarsvæðið nær langt út fyrir það sveitarfélag!


Allir saddir og sælir eftir kjöt- og súpuátið

Það komu 18 manns í mat til mín í kvöld, tveir boðuðu forföll og einn mætti ekki sökum slappleika. Það var í lagi og ég vona að heilsan batni fljótt. Þó ég segi sjálf frá þá heppnaðist matreiðslan og veislan betur en ég þorði að vona. Fólkið mitt er reyndar orðið sjóað í því að koma hingað í saltkjöt og baunir, og þeir sem eru fyrstir að borða vaska upp eftir sig og skila diskum og hnífapörum í staflann. Ég á nefnilega aðeins 12 diska og 12 hnífapör, það þarf því að sæta lagi þegar 18 mæta í matarboð.

Súpan heppnaðist eins vel og best verður á kosið, var mátulega þykk og kjötið, sem var frá SS var alveg afbragð. Ég sauð það við mjög vægan hita, varla að það bullaði í pottunum og það skilaði sér í einstaklega meyru og góðu kjöti. Súpan var líka alveg mögnuð, ekki of sölt og svo er ég ekki frá því að ég hafi fundið rétta magnið af beikoni til að setja í þetta mikinn skammt af súpu (6,5 lítrar).

Gestum mínum í kvöld þakka ég innlitið og hlakka til að sjá þau öll í baunasúpu að ári (og vonandi fyrr reyndar).  Gestir kvöldsins voru: Ingibjörg Vala, Ellert Sigþór Breiðfjörð og Halla Björg – Guðbjörg, Hinrik Ingi og Þorgrímur Gunnar – Bryndís, Konráð, Unnur Ýr, Haraldur Þór, Ingimar Örn, María og Sigurður Örn – Sigrún, Þórir, Ásdís Rut, Jóhanna Björg og Benni. Að auki fékk Madda í Smáranum sent saltkjöt og baunasúpu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband