Leita í fréttum mbl.is

Hvar er samanburðurinn?

Í fréttum einhvers ljósvakamiðilsins í gær var tíundað hverjar tekjur Samfylkingarinnar hefðu verið af styrkjum frá lögaðilum nokkur ár aftur í tímann og fram til ársins 2006. Gott og vel, þessi umfjöllun á sannarlega rétt á sér en hvar er samanburðurinn við aðra flokka? Hvar er umfjöllunin um styrki lögaðila til Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá t.d. árinu 2003? Reikningar þeirra eru sannarlega ekki á vef flokkanna.

Væri það ekki efni í rannsókn fyrir öflugan blaðamann eins og Agnesi Bragadóttur að grafa upp styrki til B og D og hafa til samanburðar við styrki til Samfylkingarinnar eða duga hálfkveðnar vísur?

styrkir

Smelltu tvisvar til að sjá stærri mynd. Hér er aðeins fjallað um þrjá flokka, B, D og S.


"Á ekki örugglega að vera 2+2 vegur alla leið austur," hvíslaði maðurinn í eyra mér

"Á ekki örugglega að vera 2+2 vegur alla leið austur," hvíslaði maðurinn í eyra mér.

Þegar ég sneri mér við blasti við mér glottið á Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarfulltrúa og fráfarandi alþingismanni. Hann var að rifja upp rimmu sem við tvö áttum á mínum fyrsta bæjarstjórnarfundi þar sem ég bar fram ályktun til samþykktar þess efnis að bæjarstjórn Kópavogs teldi að þjóðvegurinn milli Reykjavíkur og Selfoss, Suðurlandsvegur, ætti að vera 2+2 vegur. Slíkri tillögu fann Ármann allt til foráttu, þetta var bæði of dýrt og auk þess væri umferðaröryggi á Suðurlandsvegi ásættanlegt.

Þetta var um áramótin 2006/2007 en ég sagði reyndar ekki frá þessu hér á blogginu fyrr en í aprílmánuði það sama ár þegar ályktunin hafði sofið í örmum bæjarráðs í 105 daga.

Í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningar lýsti þáverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, því yfir að hann myndi styðja við það að vegurinn austur yrði 2+2 vegur en það var þó ekki fyrr en í lok mars á þessu ári sem núverandi samgönguráðherra, Kristján L. Möller, boðaði til blaðamannafundar þar sem afdrif Suðurlandsvegar voru kynnt. Í fréttatilkynningunni kemur fram að vegurinn frá Lögbergsbrekku að Litlu kaffistofunni verði 2+2 vegur, þaðan og að Kambabrún verði vegurinn 2+1 vegur en að vegurinn frá Kambabrún austur á Selfoss verði 2+2.

Persónulega hefði ég kosið að vegurinn yrði 2+2 vegur alla leið, en að teknu tilliti til þeirra framkvæmda sem þegar hafa átt sér stað á Hellisheiði þar sem umferðaröryggi hefur stórlega verið bætt.

Að þessu gefnu verð ég að segja að ég get sætt mig við niðurstöðu núverandi samgönguráðherra í málinu. Að vísu finnst mér fjármagnið til framkvæmdanna heldur klént, en það er kreppa og allt er betra en ekki neitt í þessu árferði.

Hins vegar finnst mér glottið á fráfarandi þingmanninum ekki við hæfi, honum hefði verið nær að styðja mig og ályktunina þegar hún kom fram um áramótin 2006/2007.


Urðu breytingar á framlögum lögaðila til stjórnmálaflokka milli áranna 2006 og 2007

Eftir að hafa hlustað á fréttir af styrkjum til stjórnmálaflokka um páskana ákvað ég að fara í smá rannsóknarvinnu, ekki ýkja merkilega þó, og skoða hvað Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking gáfu upp mikla styrki frá lögaðilum á árinu 2007 og bera saman við þær fjárhæðir sem flokkarnir hafa gefið upp frá stærstu styrktaraðilum sínum á árinu 2006. Mér finnst niðurstöðurnar dálítið merkilegar.

Framsóknarflokkurinn fékk samtals 23.500.000 krónur frá 11 lögaðilum á árinu 2006. Á árinu 2007 fá þeir samtals um 25.600.000 krónur í styrki frá öllum lögaðilum. Mismunurinn jákvæður uppá 2,1 milljón.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk samtals 81.000.000 króna frá 9 lögaðilum á árinu 2006 en flokkurinn safnaði samtals 56.900.000 krónum frá öllum lögaðilum á árinu 2007. Mismunurinn neikvæður uppá 24,1 milljón.

Samfylkingin fékk samtals 36.000.000 krónur frá 15 lögaðilum á árinu 2006 en flokkurinn aflaði samtals 10.756.000 krónum frá öllum lögaðilum á árinu 2007. Mismunurinn neikvæður uppá 25,2 milljónir.

 


100 daga meirihlutinn rifti samrunaferli REI og GGE

Málefni REI (Reykjavik Energy Invest) og GGE (Geysir Green Energy) hefur verið rifjað upp nú þegar í ljós hefur komið að Sjálfstæðisflokkurinn þáði risagjafir frá FL group og Landsbankanum í lok árs 2006, nokkrum dögum áður en lög um að styrkir lögaðila til stjórnmálaflokka mættu ekki fara yfir 300 þúsund krónur. Einhverra hluta vegna hafa Sjálfstæðismenn komið með þá undarlegu söguskýringu að þeir hafi stöðvað samruna REI og GGE. Af því tilefni er rétt að rifja eftirfarandi samantekt Sigrúnar Elsu Smáradóttur upp. Bendi auk þess á bloggið hennar Láru Hönnu, sbr. færslu mína hér að neðan.

REI málið
Staðreyndir málsins eru Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leiddu stofnun REI og sameiningarviðræður milli REI og GGE en FL-group var meirihlutaeigandi GGE. "Hetjuleg" framganga 6 menninganna í REI málinu birtist sem nafnlausir lekar í fjölmiðlum.

Niðurstaða borgarfulltrúahóps Sjálfstæðisflokks var að selja ætti REI með 20 ára einkaréttasamningnum, en GGE átti forkaupsrétt.

Það var undir forystu 100-daga meirihlutans sem samrunasamningnum var rift.

Tengsl REI málsins við risastyrki Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson tók við stjórnarformennsku í Stjórn OR eftir borgarstjórnarkosningar (en hann hafði stutt Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson dyggilega í prófkjöri). Skömmu eftir að Guðlaugur biður varaformann stjórnar FL-group um að safna styrkjum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, samþykkti  stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ( í mars 2007) að stofna hlutafélagið Reykjavik Energy Invest utan um útrásarstarfsemi OR.

Í júní 2007 tók Haukur Leósson við stjórnarformensku í OR og sat einnig í stjórn REI og fylgdi því samrunaferlinu frá upphafi. Fram hefur komið í fréttum að Haukur Leósson var endurskoðandi Sjálfstæðisflokksins árið 2006 og vissi um risastyrkina og hafði rætt þá við forsvarsmenn flokksins.

Þetta er athyglisvert í því ljósi að í niðurstöðu stýrihóps borgarráðs sem Svandís Svavarsdóttir stýrði og Sigrún Elsa Smáradóttir sat í fyrir hönd Samfylkingar segir meðal annars:

"Við vinnu stýrihópsins kom í ljós að FL-group, sem hafði verulega fjárhagslega hagsmuni af því hvernig þjónustusamningur OR og REI yrði, hafði bein áhrif á samningsgerðina eins og fram kemur í tölvupóstssamskiptum milli FL-group og OR . Þetta verður að teljast óeðlilegt í ljósi þess að samningurinn var á milli tveggja fyrirtækja í meirihlutaeigu borgarinnar og formleg staða FL-group gagnvart þeim fyrirtækjum engin. Þannig telur hópurinn að hagsmunum OR hafi ekki verið gætt nægjanlega vel við samningsgerðina."

Síðar í skýrslu stýrihópsins segir:

"Stýrihópurinn gagnrýnir sérstaklega þau vinnubrögð að aðkoma einkaaðila að verkefninu skuli hafa verið með þeim hætti að einum tilteknum aðila stæði auðlindin til
boða án þess að eðlilegs jafnræðis milli aðila væri gætt.
"

Einnig er rétt að hafa í huga að ef sjálfstæðismenn í borginni hefðu náð fram sínum vilja og REI hefði verið selt, eftir sameininguna við GGE, hefði GGE haft forkaupsrétt að hlutnum. Þannig hefði FL-group getað eignast allan hlutinn í REI með 20 ára einkaréttarsamningi.

Aðdragandi REI málsins, aðkoma minnihluta
REI var stofnað í valdatíð fyrsta meirihluta þessa kjörtímabils en í þeim meirihluta sátu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. Fulltrúar þeirra leiddu samningaviðræður við GGE um sameiningu GGE og REI.

Minnihlutinn átti engan fulltrúa í stjórn REI og kom því hvergi nærri því örlagaferli. Í stjórn REI voru til að mynda kaupréttasamningar samþykktir og þeim síðar breytt eftir harða gagnrýni minnihlutans eftir að minnihlutinn kom upp um samningana og að endingu voru þeir svo felldir niður í stjórn REI.

Enginn fulltrúi minnihlutans greiddi því atkvæði með eða á móti þeim kaupréttarsamningum, því í stjórn REI átti minnihlutinn ekki fulltrúa.

Samruninn var vissulega samþykktur mótatkvæðalaust í stjórn OR 3. október 2007. Enda hafði veigamiklum þáttum verið haldið leyndum fyrir kjörnum fulltrúum og var talað um algjöran trúnaðarbrest í því sambandi. Meðal annars var eðli 20 ára einkaréttarsamnings ekki kynnt.

Fulltrúar minnihlutans í stjórn OR óskuðu eftir frestun á málinu en frestunartillagan var felld af meirihlutanum. Meirihluta sjálfstæðismanna og framsóknarmanna.

Það var svo minnihlutinn sem náði að draga fram í dagsljósið meinbugina sem voru á þessum gjörningi. Það fór ekki fram hjá neinum að mikil ólga var innan borgafulltrúahóps Sjálfstæðisflokksins þegar kvarnast fór upp úr þeirri glansmynd sem dregin hafði verið upp af sameiningu REI og GGE. En sú óeineining birtist helst í nafnlausum lekum innan úr hópnum og því varla um mikla hetjudáðir að ræða.

Sjálfstæðismenn vildu afhenda FL-group REI
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins héldu blaðamannafund í ráðhúsinu þann 8. október 2007 þar sem þeir kynntu niðurstöðu þriggja tíma sáttafundar sem þeir höfðu þá setið á með sjálfum sér. Niðurstaða þess fundar var að selja ætti REI að fullu út úr Orkuveitunni. Reyndar láðist þeim að ræða þessa niðurstöðu við samstarfsflokkinn, sem ekki gat unað henni og sleit samstarfinu þremur dögum síðar. Hefði Sjálfstæðisflokkurinn náð að hrinda vilja sínum í framkvæmd hefði GGE átt forkaupsrétt að fyrirtækinu og þar með 20 ára einkaréttasamningi á öllum erlendum verkefnum OR.

Hvernig nokkur maður getur látið sig dreyma um að hægt sé að falsa söguna þannig að sexmenningarnir svokölluðu hafi bjargað REI er óskiljanlegt.

Það var svo 100-daga meirihlutinn og vinna stýrihóps undir forystu Svandísar Svavarsdóttur sem fór yfir málið í heild sinni og rifti samrunanum.


Hvenær eru gjafir gjafir og hvenær geta þær orðið mútur?

Stundum þykir við hæfi og sjálfsögð kurteisi að gefa gjafir en í öðrum tilvikum er ásetningurinn sá að hafa áhrif á stjórnvalds- eða viðskiptaákvarðanir einhvern tíma í framtíðinni.

Tilvitnunin hér að ofan er komin úr pistli Stefáns Erlendssonar stjórnmálafræðings sem hann skrifaði í Morgunblaðið 13. september í fyrra undir fyrirsögninni Boðsferð, gjafir og mútur. Ástæða skrifanna var umfjöllun um laxveiði ferð sem Guðlaugur Þór Þórðarson þáði í Miðfjarðará á tíma þegar Baugur var með ána í leigu. Í tilefni af umræðum um gjafir FL Group og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins hefur bloggvinkona mín Lára Hanna Einarsdóttir endurbirt grein Stefáns á bloggi sínu í tilefni af.

En Lára Hanna gerir meira, hún dregur fram pistil sem hún skrifaði í ágúst 2008, um feril REI málsins. Það er ekki að ástæðulausu sem hún gerir það og í raun öðlast skrif hennar nýja merkingu nú þegar í ljós hafa komið gríðarháir styrkir frá FL Group og Landsbankanum til Sjálfstæðisflokksins aðeins nokkrum vikum áður en REI málið kom upp á yfirborðið.

Ef þú hefur ekki nennu til að lesa pistilinn hennar Láru Hönnu, sem reyndar er grein sem Pétur Blöndal skrifaði í Morgunblaðið 4. nóvember og er ansi langur, þá vil ég hvetja þig til þess að láta ekki þessi myndbönd fara framhjá þér:

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Ingibjörg Hinriksdóttir
Ingibjörg Hinriksdóttir
Mér kemur allt við!

Lögin mín

- 14 Sil Suffisait d-aimer

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband